Leita í fréttum mbl.is

Tæknileg mistök Árna

250px-_rni_johnsen.jpg

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var birt enn eitt tímamótaviðtalið við Árna Johnsen. Þar var Árni spurður að því hvort hann iðraðist gjörða sinna hér um árið. Hann svaraði því til að auðvitað gerði hann það, því annars væri hjarta hans gert úr steini. Nú hef ég alls ekki hugsað mér að hrauna yfir Árna. Óska honum bara til hamingju. Mér finnst ágætt að Sjálfstæðisflokkurinn leiti sem víðast fanga í uppstillingu á lista sína. En eitt má Árni alls ekki komast upp með, eins og hann gerði í viðtalinu í gær. Hann sagði að hann hefði gert tæknileg mistök. Út af tæknilegum mistökum sem hann gerði fór hann í fangelsi. Í ofanálag bætti Árni því við, sér til málsbóta, að enginn annar hefði verið saksóttur út af þessu og hann, með sitt breiða bak, hefði axlað þessa sök einn. Hér fer Árni beinlínis með rangt mál, og ekki traustvekjandi að hann hefji sitt pólitíska framhaldslíf með slíku. Lítum á: Árni var ákærður á sínum tíma í 27 töluliðum fyrir fjárdrátt, rangar skýrslur til yfirvalda, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi. Þá voru tveir menn að auki sakaðir um mútur og þrír um hlutdeild í umboðssvikum Árna. Árni var sakfelldur í bæði héraðsdómi og Hæstarétti í 22 liðum, en sýknaður í fimm. Hann játaði sjálfur í upphafi brot sín í 12 liðum. Fyrir þetta var hann dæmur í tveggja ára fangelsi og annar maður var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að greiða honum mútur. Niðurstaða Hæstaréttar hljómaði svona: "Ákærði Árni brást trausti sem honum var sýnt er hann var skipaður til að sinna þeim opinberu störfum sem lýst er í ákærunni. Brotin framdi hann í opinberu starfi, sbr.  138. gr. almennra hegningarlaga, og er það virt til refsiþyngingar eins og lýst er í því lagaákvæði.  Brot ákærða eru mörg og alvarleg." (http://www.haestirettur.is/domar?nr=1221&leit=t) Nú þarf góður blaða- eða fréttamaður að vinda sér að Árna og spyrja hann hvað hann eigi við með "tæknilegum mistökum" í þessu samhengi og jafnframt hvað hann meinar þegar hann segist hafa borið sökina einn. Ég get ekki séð annað en að hér hverfi sakamaður aftur til fyrra lífernis og hagræði sannleikanum í beinni. Að auki -- svo ég bæti því við í hálfkæringi-- finnst mér það efni í stórbrotna rannsóknarblaðamennsku hvað þetta er með Árna og steina. Ég er heillaður. Hann segist iðrast sinna "tæknilegu mistaka" vegna þess að annars væri hjarta hans gert úr steini. Þetta er athyglisvert orðalag. Hann fór einmitt í steininn fyrir að stela steinum, kom svo út með fullt af steinum, sagði í viðtali við Fréttablaðið af því tilefni að hann elskaði steina, og nú segist hann EKKI hafa hjarta úr steini. Ég efast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru tæknilegu mistökin ekki bara þau að þetta hafi komist upp?

Sigurður (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 15:18

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Er það þá ekki "tæknileg mistök" að hann varð í öðru sæti?

Bragi Einarsson, 15.11.2006 kl. 15:23

3 identicon

Já þau geta verið afdrifarík þessi "tæknilegu mistök", um daginn dóu 18 palestínuarabar vegna sömu mistaka.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 15:57

4 identicon

HAHAHAHA!

SunnaDís (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 17:23

5 Smámynd: FreedomFries

Árni er auðvitað í framboði fyrir repúblíkanaflokkinn.

FreedomFries, 15.11.2006 kl. 19:55

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sumir kasta steinum úr glerhúsi, aðrir grænum baunum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 15.11.2006 kl. 20:07

7 identicon

Þú verður lang flottastur í leikskólanum við Austurvöll. Hlakka til að heyra frá þér í ræðustóli.

Stefán Sturla (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 08:09

8 identicon

Já ég get tekið undir með manninum fyrir ofan mig. Ég hlakka til að heyra frá þér í ræðustól.

Vona að þú látir ljós þitt skína á Alþingi og komir hugmyndum þínum í framkvæmd. Ég er sannfærð um að þú hefur margt til brunns að bera.

Kv. Ragnhildur

Ragnhildur (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 13:45

9 identicon

Fréttablaðið reyndi að fá það út úr honum hvað hann hafi meint en hann sagðist ekki vilja tjá sig. Klúðraði sem sagt tækifæri til að redda klúðrinu úr sjónvarpsfréttunum. Fréttamaðurinn sem fékk þetta út úr honum með tæknilegu mistökin átti náttúrulega að grípa þetta á lofti og biðja hann að útskýra hvað hann meinti. Kannski ætti maður að fara að kalla Árna  Steina héðan af?

Málið er sem sé þetta: Að öllum líkindum snýr Árni aftur á þing, maður sem hefur gefið amk tveimur tónlistarmönnum á kjaftinn á Þjóðhátíð (Páll Óskar og Hreimur, ekki satt), gekk nánast yfir myndatökumann Sjónvarps í réttarsal þannig að minnstu munaði að milljóna króna tökuvél færi í gólfið og, auðvitað síðast en ekki síst, stal steinum og þáði mútur og allt það en lítur nú á það sem tæknileg mistök. Stærsti glæpurinn er kannski að gera þessa skúlptúra, en það er reyndar fagurfræðilegur glæpur og engin lög til yfir slíka glæpi. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að tapa á þessu, ég bara trúi ekki öðru. Árni reynir þó að þóknast fagurfræðinni með því að koma sér í form í Frægir í formi, þar geta allir horft á hann stæla ,,breitt bakið".

Helgi (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband