Leita í fréttum mbl.is

Orkumálastjóri gefur í

Fyrrverandi orkumálastjóri, Jakob Björnsson, er ekki af baki dottinn. Í gær skrifaði þessi harðduglegi málsvari virkjunarstefnu og álvæðingar grein í Mogga. Þeir sem lesið hafa Draumaland Andra Snæs Magnasonar hafa væntanlega hóstað upp múslíinu sínu þegar þeir lásu þessa málsgrein í grein Jakobs: "Við skulum hugsa okkur að álframleiðsla á Íslandi verði komin í 2,5 milljónir tonn á ári eftir svo sem aldarfjórðung. Til þess þyrfti um 40 TWh/a (terawattstundir á ári), reiknað í orkuveri, t.d. 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita." Í bók sinni sýndi Andri fram á að 30 terawattstundir þýddu virkjun svo til allra vatnsfalla á Íslandi. Hér bætir Jakob 10 stundum við í jarðhita án þess að hika. Reyndar eru til opinberar tölur sem segja að Ísland geti skaffað 50 terawattstundir, 30 í vatnsorku og 20 í jarðhita. Nú þurfa allir góðir menn að leggjast á eitt til að stöðva þetta brjálæði, því annars er framtíðin skýr: Pípur upp úr hverju háhitasvæði á Íslandi, stífla á hvert einasta vatnsfall og raflínuflækjur út um öll fjöll og firnindi. Landsvirkjun er að drepast úr háspenningi. Blauti draumurinn er að verða að veruleika as we speak.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ef vel gengur með djúpborunarverkefnið þarf að endurskoða þessar tölur sem þú nefnir. Sjá til dæmis http://isor.is/swmyndir/djupbor05.pdf 

Sjá einnig vef Landverndar http://www.landvernd.is/frettirpage.asp?ID=2015

Ágúst H Bjarnason, 17.11.2006 kl. 17:01

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Jú, djúpboranir eru áhugaverðar, ekki síst vegna þess að þær miða að betri nýtingu svæða þar sem þegar hefur verið borað. En þetta breytir ekki þrennu: 30 terawattstundir í vatnsorku er ævintýralega mikið, 20 terawött í jarðvarma er grunsamlega mikið, og í þriðja lagi: að ætla sér að nýta þessa orku nánast alla í álbræðslu finnst mér vægast sagt umdeilanlegt úr frá mörgum sjónarhólum. En ég þakka kærlega fyrir ábendingu.

Guðmundur Steingrímsson, 17.11.2006 kl. 17:53

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Mikið verður nú gaman þegar búið er að virkja allar sprænur og landið lítur út eins og sjúklingur á gjörgæslu með slöngur út um allt. Kannski að við getum gefið ferðamönnunum sem þó koma hval að éta.

Kostirnir eru augljósir. Það er hægt að spara milljarða með því að loka öllum skólum landsins. Ef allir eru að vinna í virkjunum, álverum og við hvalveiðar er engin þörf fyrir langa og erfiða menntun. Þessi störf er hægt að læra á stuttum námskeiðum. Ef við erum öll að vinna við orku, ál og hvali höfum við heldur enga þörf fyrir ferðamenn.

Ég efast svo ekki um að amerískir eigendur álfyrirtækjanna séu fullfærir um að sjá um stjórn landsins. Þeim hefur tekist að byggja upp stórfyrirtæki sem velta margfalt meira en íslenska ríkið.

Þetta er allt hið besta mál.

Villi Asgeirsson, 18.11.2006 kl. 16:50

4 identicon

Stórefnilegur stjórnmálamaður ertu Guðmundur.  Vitnar í Jakob Björnsson, en sleppir algerlega að minnast á aðalinntak greinarinnar sem þú vitnar í.  Þar færir Jakob rök fyrir því hve skynsamlegt það er í raun að nýta vistvæna orku hérlendis til álvinnslu.  Er svona málflutningur það sem koma skal?  Tilgangurinn helgi meðalið?

 með kveðju Tryggvi L. Skjaldarson

Tryggvi L.Skjaldarson (IP-tala skráð) 19.11.2006 kl. 21:13

5 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sæll Tryggvi. Bloggfærsla mín fjallaði um terawattstundatöluna sem Jakob nefnir. Hún felur í sér virkjanaframkvæmdir af gígantískri og algerlega óásættanlega stærðargráðu að mínu mati. Ég fjallaði ekki um af hverju hann vill ráðast í svo gígantískar virkjanir, það er rétt hjá þér. Um það fjallaði ekki bloggið. En svo við höldum því til haga: Sá málflutningur Jakobs að náttúru Íslands, efnahagslífi, fjölbreyttri atvinnustefnu og, með góðum rökum, sjálfstæði eigi að fórna í þágu álframleiðslu upp á 2,6 milljón tonn byggir á þeirri ranghugmynd -- sem hefur verið afsönnuð -- að skortur sé á vistvænum virkjunarkostum annars staðar í heiminum og því beri okkur að fórna okkur. Það hefur einfaldlega þegar verið sýnt fram á á hversu miklum misskilningi slíkur málflutningur byggir. Ég taldi því ekki þörf á því að skrifa sérstaklega um það að þessu sinni. Og stórefnilegur ert þú sjálfur, takk fyrir.

Guðmundur Steingrímsson, 20.11.2006 kl. 02:27

6 identicon

Ég held að við séum ekki að tala um að fórna allri náttúrunni. Flest erum við sammála um að gæta hófs í nýtingu fallvatna og einbeita okkur að jarðhita, reyna að gera það með sem minnstu raski (lagnir má grafa í jörð Gummi!).

Menn geta deilt um hve stóran hluta jarðvarmans er æskilegt að nýta - ég er frekar á því að nýta eigi hann heldur en fallvötnin.

En það er alveg jafn slæmt þegar þeir sem eru með virkjunum eru sakaðir um að vilja "fórna náttúru Íslands og fjölbreyttri atvinnustefni" á einhverju ál-altari, eins og þegar þeir sem berjast gegn einstaka virkjunum og raski eru sakaðir um að vera lopapeysuklætt kaffihúsapakk sem ekki má sjá steini velt við án þess að missa legvatnið.

 Það eru flestir sammála um að nýta megi vistvæna orku Íslands, sérstaklega jarðvarmann, en að við þurfum að gæta hófs í því og helst með sem minnstri sjónmengun.
Það þarf ekki að uppnefna mann  virkjunarsinna fyrir að vera ekki alfarið á móti virkjun orku landsins í hófi, eða  kaffidrykkjuhippa fyrir að setja sig á móti því að einstök svæði verði nýtt.

 *******

Svo finnst mér líka athugunarefni að þú viljir ekki að störf í álverksmiðjum verði hluti fjölbreytts atvinnulífs. Er þá betra að vera starfsmaður í stórmarkaði eða að vinna á bifvélaverkstæði?

Það er núna skortur á vélstjórum til sjós vegna ásóknar álveranna í þá, svo ekki sé minnst á alla verkfræðingana, millistjórnendurnar, og hvað þetta heitir allt sem venjulegt álver þarfnast. 

Mörg störfin í álverinu eru þess eðlis að ekki er krafist mikillar framhaldsmenntunar, en þau eru mun betur borguð en önnur slík störf - sjálfur tæki ég almennt verkamannastarf í álveri framyfir flest önnur ófaglærð störf.


Guðni Steinn (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 11:03

7 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sæll Guðni. Það kann að vera rétt að við viljum flest gæta hófs í vatnsaflsvirkjunum. Áætlanir um 30 terawattstundir í slíkri orku eru hins ekki lagðar fram af þeim sem vilja gæta hófs, heldur þvert á móti. Slík orkuöflun þýðir gítantískan ágang á margar helstu náttúruperlur þjóðarinnar. Um það held ég að sé ekki deilt. Því nota ég orðalagið "fórna náttúrunni" í því samhengi. Jarðvarmavirkjanir í þessu magni sem um er rætt myndu líka þýða gríðarlegar fórnir, alveg burtséð frá því hvort línur verði lagðar í jörð. Ég er sammála því að forðast ber uppnefni og upphrópanir, en ég held að hljóti samt að vera skiljanlegt að kalla þá virkjunarsinna sem vilja virkilega virkja svo mikið.

En satt segirðu samt. Upphrópanir á báða bóga eru almennt til baga. Ég er til dæmis ekki á móti öllum virkjunum. Langt í frá. En ég vil fara miklu hægar í sakirnar. Ég vil láta náttúruna njóta vafans. Ég vil setja miklu strangari umhverfisverndarskilyrði. Ég vil skilgreina rammann áður en lengra er haldið.

Varðandi álvæðingu og meinta einhæfni: Góðir menn ströggluðu við það á sínum tíma (þar á meðal karl faðir) að koma álverinu upp í Straumsvík með góðum árangri. Markmiðið var að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, eins og það var orðað á sínum tíma. Það var vel heppnað. Sú áhersla sem menn vilja nú leggja á álframleiðslu snýst ekki um þá sömu hugsjón. Þvert á móti er útlit fyrir að þensla vegna stóriðjuframkvæmda boli öðrum atvinnugreinum burt, auk þess sem álframleiðsla af þessari stærðargráðu sem villtustu draumarnir gera ráð fyrir myndi einfaldlega gera okkur allt of háð álframleiðslu um ókomna framtíð að mínu mati og þar með vinna gegn hinum upphaflegu markmiðum um fjölbreytileika. Allt eru þetta spurning um mörk og hvenær við förum yfir þau. Ég er þeirrar skoðunar að við séum þegar komin að þeim og skynsamlegt að líta í aðrar áttir.

Guðmundur Steingrímsson, 20.11.2006 kl. 16:29

8 identicon

Sæll aftur Guðmundur.

Aðeins meir um bloggið þitt og Jakob Björnsson.  Jakob skrifar:"Við skulum hugsa okkur að álframleiðsla á Íslandi verði komin í 2,5 milljónir tonn á ári eftir svo sem aldarfjórðung."   Jakob segir hvað mikið þyrfti af raforku eða 40 terawattstundir á ári til að það gæti orðið að veruleika. Hann notar síðan þessar tölur til að sýna fram á að sú álvinnsla sparaði andrúmsloftinu 10.5 tonna af CO2 á ári eða 3,3 falda núverandi losun íslendinga af CO2.  Jakob bendir einnig á, í samanburði, að ef álið væri framleitt með rafmagni úr eldsneyti, þá væri sparnaðurinn 32 milljónir tonna eða tíföld núverandi losun CO2 hérlendis. Þetta eru ansi sláandi tölur.   Svo er hægt að leika sér með þessar tölur. T.d. hvað með 1,4 milljón tonna framleiðslu.  Er til orka í það sem er o.k.?  Kveðja 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 22:41

9 identicon

Leiðrétting: sparaði andrúmsloftinu 10,5 milljon tonn að CO2

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 22:51

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Af hverju er aldrei talað um að ál er ekki endurunnið í mörgum löndum vegna þrýstings frá fyrirtækjum eins og Alcan og Alcoa? Annað, ef ég man rétt myndi sparast 400 terawattsstundir á ári ef allir ameríkanar slökktu á sjónvarpinu þegar þeir eru ekki að horfa. Þetta er munurinn á að slökkva með fjarstýringunni eða alveg.

Það er alveg ljóst að við erum ekki að gerum neinum greiða með því að sökkva Íslandi, nema þeim sem framleiða ál.

Svo skulum við ekki einu sinni tala um löndin það sem hráefnið er grafið upp. 

Villi Asgeirsson, 21.11.2006 kl. 17:43

11 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Góður punktur. Gleymist oft. Kjarni málsins er sá að það eru margar leiðir til þess að búa til ál vistvænt heldur en að virkja allt í botn á Íslandi. Endurvinnsla á áli er augljósasta dæmið. Það væri fróðlegt að vita hvernig það kæmi út ef Íslendingar tækju að sér að endurvinna ál og yrðu frumkvöðlar í því, fyrst enginn annar ætlar að gera það...

Guðmundur Steingrímsson, 22.11.2006 kl. 01:09

12 identicon

Af hverju er allt í ökla eða eyru þegar umræðan er um álvinnslu ber á góma?  Það er engar áætlanir til um að sökkva Íslandi.  Tilfinningar virðast bera mætasta fólk ofurliði.  

Í endurvinnslu á áli þarf aðeins hluta af þeirri orku sem notuð er í álverum.  Svo það flytur enginn ál til endurvinnslu til Íslands.  Alcan, Alcoa eða eitthvað annað fyrirtæki hafa ekkert með það að gera hvort ál er endurunnið.  Villi Ásgeirsson og ég gætum þessvegna stofnað endurvinnslu fyrirtæki fyrir ál bæði í U.S.A. og Evrópu.  Vandamálið er ekki síst að fá fólk til að safna dollum og dóti.  Einnig fylgja vandamál merkingum og lit sem mikið er notað á varning og er fjarri því að vera umhverfisvænn þegar brennur. 

Skoðaði verksmiðju í suður Þýskalandi fyrir nokkrum árum sem var að endurvinna ál og var með samning m.a. við Perrier vatns framleiðandann.  Safnaði áltöppum og allskyns dóti úr áli um suður Þýskaland og endurvann.  Mjög fróðlegt.  Endurvinnsla getur dregið úr vaxandi orkuþörf áliðnaðar, en kemur ekki í staðinn.

Það er gott að halda til haga í umræðum um áliðnað að það er ekki álbræðsla sem á sér stað.  heldur rafgreining en hún gengur út á að kljúfa í sundur ál og súrefni með því að nota m.a. mikla raforku.

Kveðja

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 22.11.2006 kl. 13:02

13 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er ekki til patentlausn á álframleiðslu, frekar en flestum öðrum málum. Endurvinnsla áls er sennilega skítugur og mengandi iðnaður, en þð segir sig sjálft að ef við hendum áli, milljónum tonna af dósum árlega, erum við ekki að hugsa dæmið til enda.

Ég get stofnað endurvinnslu, en án skilagjalds gerist lítið. Stóru álfyrirtækin hafa komið í veg fyrir að það sé sett á dósir í Bandaríkjunum. Hér í Evrópu er skilagjald á plastflöskum. Fótboltaliðið í þorpinu safnar saman pappír og fá borgað fyrir hjá endurvinnslustöðvum. Gler er endurunnið, þó að sé ekkert skilagjald á því. Það er skilagjald á bjórflöskum.

Ef ég fæ mér kók í dós verð ég að henda dósinni eftir á. Það er ekkert skilagjald, engir söfnunargámar, endurvinnslan vill hana ekki því hún gerir ekkert við ál. Ég vil endurvinna áldósir, en ef mér er ekki hjálpað við það gerist ekkert. 

Villi Asgeirsson, 22.11.2006 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband