Leita í fréttum mbl.is

Frjálslyndir og innflytjendur

Það skýtur skökku við að það skuli vera afl í íslenskri pólitík sem kennir sig við frjálslyndisstefnu sem nú hefur upp raust sína og vill aðgerðir til þess að sporna við straumi erlends vinnuafls til landsins. Ég hef reyndar aldrei skilið í hvaða skilningi Frjálslyndi flokkurinn er frjálslyndur (ensk. liberal) og lengi haft á tilfinningunni að flokkurinn hafi bara stokkið, við stofnun flokksins, umhugsunarlaust á þá pólitísku kategóriu. Hún var sú fyrsta sem þeim datt í hug. Margir vilja kenna sig við frjálslyndi og hugtakið verður fyrir vikið fullinnihaldslaust á köflum. Ég dreg í öllu falli mörkin við það að menn vilji ganga á hólm við frelsi -- sem við samþykktum við inngöngu í EES -- á flutningi vinnaafls innan Evrópulanda. Þá geta menn einfaldlega ekki lengur kallað sig frjálslynda. Verst að hugtakið þjóðleg félagshyggja (ensk. national socialism) er frátekið. Formaður Framsóknarflokksins eignaði sér og sínum flokki það hugtak með tilþrifum -- og væntanlega umhugsunarlítið -- í sumar, og hefur reyndar reynt að fínisera -- ef svo kurteislega má að orði komast -- ummæli sín síðar. Sá merkingarþrungni pólitíski kyndill hafði lengi legið rykfallinn og ónotaður í skúmaskotum Evrópulandanna. Líklega myndi hann í ljósi nýjustu ummæla Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um innflytjendamál henta frjálslyndum betur. Meira innan skamms.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Komdu sæll Guðmundur.

Til hamingju með árangurinn i prófkjörinu, ég persónulega fagna innkomu þinni í stjórnmál. Ég hvet þig til þess að stuðla að því að umræða í þínum flokki um þessi mál verði viðhöfð undir öðrum formerkjum en verið hefur til þessa. Það er nefnilega ekki nóg að álykta sem svo að orðið Frjálslyndi eitt og sér þýði það að menn hafi ekki til að bera skýra afstöðu gagnvart þjóðfélagsmálum því einmitt er það afstaðan sem inniheldur frelsið og mörk þess.

kv.

gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.11.2006 kl. 01:06

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sæl og takk fyrir hamingjuóskir. Jú frjálslyndi inniheldur frelsi og mörk þess, ég held ég geti verið sammála því ef ég skil þig rétt. Engin stefna, nema kannski anarkismi, held ég að haldi fram algerlega óheftu frelsi. Frjálslyndishugsjónin er þó farin að teygja sig fulllangt frá uppruna sínum ef þeir sem telja sig fylgismenn hennar eru orðnir talsmenn hafta á frjálsu flæði vinnuafls samkvæmt milliríkjasáttmálum (EES). Að mínu mati -- og það er í anda þeirra frjálslyndisstefnu sem ég lærði um í skóla -- eigum við að einbeita okkur að því að taka vel á móti því fólki sem kemur hingað -- samkvæmt sáttmálum sem við höfum samþykkt --, en ekki eyða kröftum í að fresta komu þeirra á ákaflega óljósum forsendum (eins og Magnús Þór vill). Með óljósum forsendum á ég við fullyrðingar eins og þær að koma þeirra skapi "glundroða" og annað í þeim dúr. Það er hræðsluáróður sem svo sannarlega er ekki í anda frjálslyndisstefnu á nokkurn hátt.

Guðmundur Steingrímsson, 7.11.2006 kl. 02:02

3 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Bara svo því sé haldið til haga að þá hef ég ekki notað, né vil nota, orðið rasismi í tengslum við málflutning Frjálslyndra undanfarið. Ég tel hann hins vegar lýðskrum. Frjálslyndir eru einmitt ekki að tala um lausn á vanda heldur vilja þeir bara fresta honum. Við erum aðilar að EES -- frjálst flæði vinnuafls er staðreynd -- og því ekki seinna vænna fyrir okkur að taka okkur á í innflytjendamálum, með því að fara t.d. að bjóða upp á almennilega íslenskukennslu og svfrv. Það þarf auðvitað að taka á öllu þessu af festu. Það er einmitt ágætt að gera það núna þegar það er næg atvinna. En um þetta snýst málflutningur Frjálslyndra ekki. Þeir gæla við óljósar takmarkanir og frestanir -- til hvers? -- til þess auðvitað að reyna að hreyfa við fylgi flokksins. Skoðanakannanir hafa því miður sýnt að stór hluti þjóðarinnar aðhyllist kynþáttafordóma. Þetta skref Frjálslyndra -- án þess að flokkurinn byggi endilega málflutning sinn á rasisma -- gæti vissulega safnað því fylgi saman undir þeirra hatt. Það finnst mér uggvænleg tilhugsun.

Guðmundur Steingrímsson, 7.11.2006 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband