Leita í fréttum mbl.is

3G og Jesús

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega þessa viðkvæmni kirkjunnar manna gagnvart nýjum auglýsingum Símans. Þessar auglýsingar eru fantasía, ósköp smekklega gerðar, um það hverju það hefði breytt fyrir gang veraldarsögunnar ef hinir og þessir, eins og Jesús og Júdas, hefðu haft myndsíma.

Þetta er alþekkt form. Svona "hvað ef?" spurningar. Og þetta getur oft verið fyndið og skemmtilegt og leitt til hugleiðinga um veraldarsöguna og hvernig hún hefði getað farið öðruvísi og þar fram eftir götunum. Ég geri ráð fyrir að Síminn ætli sér að koma með fleiri auglýsingar af svipuðum meiði. Armstrong að ganga á tunglinu með myndsíma. "Það er ekki nokkur skapaður hlutur hérna!" Saddam Hussein ofan í holunni. 

Líklega mun Kaninn finna Osama bin Laden á þenna hátt. Hann hringir óvart úr myndsíma.

Annars segi ég nú bara: Mikið var að þetta 3G dót er loksins komið á markað.  Það er búið að vera að tala um þetta síðan um aldamótin. Í öllu þessu fári kringum auglýsinguna, hefur Símanum hins vegar ekki alveg gefist nægilega mikill kostur á því að útskýra fyrir fólki hvað þetta dót er. 

Ég heyrði að fulltrúi frá samkeppnisaðila notaði tækifærið og fór í viðtal til þess að útskýra einmitt það. Þetta er jú gott fyrir svona myndsímtöl, þannig að maður geti sýnt fólki hvar maður er og svona, og svo er þetta fínt til þess að tengja tölvuna við og fara á netið, og svo mun þessi aðili hafa greint frá því líka, heyrði ég, að það væri meira að segja hægt að hringja í ísskápinn sinn úr svona síma.

Ég veit ekki alveg hvernig það fer fram, en það er þá væntanlega til þess að tékka á því hvað er í honum. "Er jógúrt?" "hversu mörg?" "Jarðarberja eða karamellu?" "o.k. bæ"

Hér geri ég ráð fyrir að ísskápurinn hafi ekki rödd -- því það finnst mér hálf óhuggulegt -- heldur svari á einhvern óræðan hátt, en hvað um það.

Mér finnst þetta æðislegt. Mig hefur alltaf langað til þess að hringja í ísskápinn minn. 

Af hverju? Jú, mig hefur alltaf langað til þess að vita hvort það er ennþá ljós í honum eftir að maður lokar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú tæpast hægt að segja að auglýsingin sé það eina sem Síminn hefur gert til að kynna 3G - á mánudag og þriðjudag var fjallað um opnun 3G (ekki auglýsinguna) í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Þú getur t.d. séð yfirlit yfir kynninguna og fjölmiðlaumfjöllunina hér. Málið er sennilega þó bara að fólk tekur bara eftir neikvæðum eða "kontróversíal" punktum, eins sorglegt og það nú er...

Kristinn (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 16:26

2 Smámynd: Óli Ingi

Æi, svona miklir trúarmenn og konur þurfa nú bara að læra að hafa smá húmor líka fyrir þessu öllu saman. Sjáið nú bara allt vesenið sem varð hérna þegar spaugstofan gerði snilldina sína...

 Bara prikið úr ra****** og læra að hlægja...

Óli Ingi, 5.9.2007 kl. 21:21

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Guðmundur.

Mér finnst þetta nútímatrúboð i formi auglýsinga sem kitlar einnig hláturtaugarnar agnar ögn en sleppir því að særa mína trúarvitund.

Eigi að síður geri ég mér grein fyrir því að hér er um allt að því snilldar auglýsingaframtak að ræða á alla lund, á sviði markaðsmennskunnar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.9.2007 kl. 02:03

4 identicon

Er ekki kirkjan bara að reyna að fá smá athygli út á þetta ?   Það er ekki eins og þeir séu inni á hverju heimili á hverjum degi, allt árið.

Fransman (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 08:06

5 identicon

Hvað fanns Steingrími Joð um myndbirtingarnar af sér, rauða stoppkallinum?

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband