Leita í fréttum mbl.is

Skrall, glundroðakenningar og lélegar eftirlíkingar

Landsfundurinn endaði með heljarinnar skralli á laugardaginn á Grand Hótel. Kvöldverður og brjálað partí með eðalplötusnúðunum Gullfossi og Geysi. Ég held ég hafi hlegið nokkurn veginn samfleytt í tvo til þrjá tíma undir borðhaldinu. Sr. Kalli Matt var veislustjóri og fór á kostum. Fyndinn prestur hann Kalli. Ef ég fer að ráðum Séð og heyrts einhvern tímann og gifti mig, þá hugsa ég að hann verði presturinn. 

Hallgrímur Helga flutti hátíðarræðuna og jós yfir landsfundargesti sprenghlægilegum pólitískum háðsglósum í allar áttir eins og honum er einum lagið. Maður lá í fjárans krampakasti sem er ekki gott eftir át á kjöti. Í kjölfarið komu svo þeir Hannes og Smári, einnig þekktir sem Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðs og gáfu Ingibjörgu Sólrúnu nokkrar þrælfyndnar ráðleggingar um það hvernig ætti að haga sér í svona kosningabaráttu sko. 

Við Róbert Marshall, vopnabræður, stigum líka á stokk, greindum stöðuna og sungum lag. Við lítum svo á að við þurfum sérstaklega að leggja mikið á okkur í þessari kosningabaráttu. Aukinn þungi er á okkur Marshall að við stöndum okkur. 

Þegar við gengum í flokkinn í október féll nefnilega fylgið um einhver 10%.  

Drifnir áfram af samviskubiti settumst við því niður tveir og settum saman pólitískan baráttusöng með skýrum, ákaflega skýrum skilaboðum, svo ekkert fari á milli mála: Það er aðeins einn flokkur á Íslandi sem talar af einhverri skynsemi um mál. Lag: Mrs Robinson.

Þetta virðist virka. Eftir að við byrjum að syngja þetta er fylgið farið að skríða aftur upp. Og hvílíkar viðtökur í kvöldverðinum. Fólk söng hástöfum, stóð upp og læti.  Og svo var sungin Maístjarnan og Vertu til, og undirtektirnar þvílíkar að það var eins og jafnaðarmennskan hefði leysts úr læðingi sem virkjanlegur frumkraftur á við einn og hálfan Kárahnjúk. 

Við erum ekki baun að fara að tapa þessum kosningum.

Eftir allt þetta rífandi stuð var síðan óborganlega fyndið að vakna morguninn eftir og lesa Reykjavíkurbréf Moggans, það flaggskip geðvonskunnar. Þar var Samfylkingin bara svo gott sem að splundrast. "Hatrammar deilur" innan flokksins.

Einmitt það já.

Það er nefnilega dálítið merkilegt með þessa mýtu um "hatrammar deilur" innan Samfylkingarinnar. Fyrir utan það að vera bráðfyndið rugl, býr hér annað skemmtilegt sannleikskorn á bak við -- óþægilegt fyrir hægri menn -- sem án efa er kveikjan að þessum öfugsnúna áróðri:

Eins og Hallgrímur Helga benti á í hátíðarræðu sinni: Öll klofningsframboð á Íslandi í dag, Frjálslyndi flokkurinn, Íslandshreyfingin, Nýtt afl og hugsanlegt framboð Aldraðra og öryrkja eru framboð sem skilgreina sig til hægri. Þetta eru framboð óánægðra Sjálfstæðismanna.  

Við frábiðjum okkur, Samfylkingarfólk, að Mogginn og aðrir reyni að troða sínum glundroða á hægri væng yfir á okkur.  Bara gengur ekki upp. Sorrí. 

Það varð svo til þess að toppa þessa frábæru helgi þegar Ingibjörg Sólrún birtist afslöppuð og brosandi í Silfri Egils og svaraði hverri spurningunni á fætur annarri með skýrum líkingum og afdráttarlausum málflutningi.  Ég held að fólk sé farið að kveikja á þessu: Norðurlöndin hafa látið jafnaðarmenn koma að stjórn sinna samfélaga í mjög ríkum mæli um áratuga skeið. Niðurstaðan er eitt farsælasta módel að ríkisrekstri og þjóðfélagsgerð sem hugsast getur. Það er einfaldlega stórskrítið ef Íslendingar ætla ekki að kveikja á þessu og kjósa Samfylkinguna sem er systurflokkur hinna norrænu jafnaðarflokka til áhrifa á Íslandi.

Þetta var líka megininntakið í virkilega góðu og innihaldsríku viðtali Egils við þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Schmidt, heiðursgesta á landsfundi Samfylkingarinnar, sem fylgdi í kjölfar spjallsins við Ingibjörgu. Hægri menn, sögðu þær Helle og Mona, tala alltaf um jafnaðaráherslur fyrir kosningar. Það er segin saga. En þegar á hólminn er komið, aftur á móti, klúðra þeir síðan framkvæmdinni. Hjarta þeirra slær ekki með þessum hugsjónum. Svo einfalt er það.

Það er náttúrlega átakanlegt ef Sjálfstæðisflokknum tekst að selja kjósendum það eftir 16 ára stanslausan flumbrugang, and-, metnaðar og dugleysi í velferðarmálum að hann sé einhver sérstakur velferðarflokkur allt í einu. En þetta reynir hann.

Sigur okkar hugsjóna -- sem höfundur Reykjavíkurbréfs heldur virkilega að sé krísa -- er einmitt sú að enginn flokkur telur sig geta unnið kosningar nema með því að blekkja kjósendur með málflutningi um að okkar áherslur séu þeirra áherslur líka.

Ég frétti af Hannesi Hólmsteini með fyrirlestur um daginn. Hann mun hafa eytt tveimur klukkutímum í að rökstyðja að hann væri jafnaðarmaður.

Auðitað er þetta bara bull. Kjósum upprunalega vöru. Forðumst eftirlíkingar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Þú og Róbert Marshall voruð frábærir. Annars var þessi fundur algjör snilld, hef ekki fundið annan eins kraft.

Tómas Þóroddsson, 16.4.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hvernig gat Silfur Egils með Sollu orðið annað en leikinn áróður, þið eigið Egil.

Ef Solla getur ekki slappað af hjá Agli (sem er sérstakur verndari hennar) hvar ætti hún að gera það annars staðar?

Annars er augljóst að þessi landsfundur ykkar hefur verið eins og íhaldsins til að þjappa saman fólki og mynda stemmingu. Það er bara jákvætt.  

Haukur Nikulásson, 16.4.2007 kl. 13:31

3 Smámynd: Bragi Einarsson

jamm, Sjallar orðnir Blá-Grænir með fölrauðri áferð svona rétt fyrir kosningar. Frekar ótrúverðugt þykir mér. En ég er viss um að þið standið ykkur vel í vor. Svo þetta að Egill sé einhver sérstakur verndari Sollu, hehehe, er þá Hannes Hólmsteinn, málpípan sú arna, verndari Íhaldsins, eða Mogginn? Bara spyr. Lítið ykkur nær, íhaldsmenn, lítið ykkur nær!

Bragi Einarsson, 16.4.2007 kl. 14:52

4 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Áhugavert hvernig annar hver fjölmiðlamaður sem er ekki harður hægrimaður er einhvernveginn í "eigu" baugs eða samfylkingarinnar.

Bara af því að sjálfstæðisflokkurinn "á" Morgunblaðið, þá þýðir það ekki að allir aðrir miðlar séu í eigu stjórnarandstöðunnar. 

Steinn E. Sigurðarson, 16.4.2007 kl. 15:15

5 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Gummi, ég get kvittað undir hvert einasta orð! Þriðja erindið í Maístjörnunni gerði það að verkum að veggirnir bunguðust út og þakið fór að losna! Ég get þó vart beðið eftir þvi að lagið ykkar Marskálks verði sett á netið... fáránlega hresst og grípandi lag sem hver Íslendingur á eftir að vera með á heilanum fram yfir kosningar - sem er vel.

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 16.4.2007 kl. 15:30

6 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Mér fannst nú Egill vera með óttaleg drottningarviðtöl í gær. Ekki spurði hann Geir neitt sérstaklega út úr neinu og þrátt fyrir að hafa spurt Ingibjörgu út í kostnað við kosningaloforð þá slapp hún með að útskýra það á loðinn hátt. Þetta var meira svona rabbþáttur í stíl við Jón Ólafs. Hinsvegar þá skil ég ekki það bull að kjósa um formann og varaformann bæði hjá ykkur og Sjöllunum. Hvaða tilgangi á það að þjóna? Nákvæmlega engum. Hvorugur flokkurinn er við það að ganga af vitinu að því er ég best veit svo ekki eru menn að skipta um hest á miðju vaði. Þetta styrkti mann í þeirri skoðun að báðir landsfundirnir væru hálfgerðar sýningar fremur en fundir og líktust frekar því sem maður hefur séð frá Ameríku. Leikstýrt frá A til Ö og það eina sem vantaði var að fá blöðrur í fánalitunum úr loftinu. Annars var Albert Speer mikill snillingur í svona sýningum, kanski menn ættu að leita í hans smiðju til að ná árangri.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 16.4.2007 kl. 16:19

7 identicon

Ég veit að þú ert sjálfstæðismaður Gummi hættu þessum feluleik. Þú ert flottur eins og við.

Þorsteinn Joðarn (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 16:38

8 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Gott mál að landsfundurinn hafi þjappað ykkur saman. Það er rétt hjá þér að hægri flokkar leita alltaf inná miðjuna og nota síðan hræðsluáróður um að mið og vinstri flokkar geti ekki stjórnað. Sem sagt allt fari í kaldakol ef þeir komast að.

Verst er að þetta virkar ansi oft. Mér finnst leiðinlegat að sjá að fylgið virðist oftast vera að fara frá Samfó til VG og öfugt þegar það ætti að vera færast frá Sjálfstæðismönnum og Framsókn.

Frjálslyndir virðast sækja fylgið sitt til hægri öfgamanna og þjóðernis sinna s.b.r. afstöðu til hvalveiða og innflytjendamál, ásamt óánægu með kvótakerfið sem er eina málið þar sem ég er sammála þeim. En áróður þeirra hefur verið svo hrikalega neikvæður og hrokafullur. Ég get ekki flokkað þá til vinstri.

Það er yfirlýst stefna Framsóknar að þeir vilja áframhaldandi samstarf við sjálfstæðisflokkinn. Þannig að það er VG og Samfó sem er raunhæfur kostur fyrir félagshyggjumenn og mér þætti gott ef þeir flokkar hættu að kýta í hvern annann og færu að einbeita sér að fella ríkisstjórnina sem er virkilega þörf á. 

 Íslandsfokkurinn virðist ekki ná flugi en ég óska þeim alls hins besta. Ómar er alþýðuhetja.

Góða veiði. Þetta verða spennandi vikur fram að kosningum

Kristján Kristjánsson, 16.4.2007 kl. 16:43

9 identicon

Bíddu..., hvað heitir aftur upprunalega varan þessa dagana? Samfylkingin, Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Bandalag jafnaðarmanna, Samtök frjálslyndra og vinstirmanna, Jafnaðarmannaflokkur íslands, Sameiningarflokkur alþýðu Sósíalistaflokkur Íslands - eða hvað var það nú aftur?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 20:23

10 Smámynd: Óðinn Þórisson

Íslandshreyfingin skilar auðu og mun ekki ná inn manni. 
Lang líklegast er að flokkurinn verði lagður niður strax eftir kosningar og Ómar fari í það að eyða 8.milljónunum sem Landsvirkjun lét hann fá.

Frjálslyndir eru óstjórntækir og hafa vg&sf hafnað þeim ef þeir mæta með sitt aðalstefnumál til  stjórnarmyndurviðræðana.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með Ingibjörgu næstu daga, hennar er að fá fólk til að fá aftur trú þingflokknum og að sf hafi eitthvað fram að færa - það verður erfitt verkefni.

Ég vona að enginn flokkur leyði afturhaldsstoppflokkin inn í ríkisstjórn.

Það verður erfitt að mynda ríkisstjórn án þáttöku Sjálfstæðisflokksins sem burðarflokk og með Geir sem verkstjóra.



Óðinn Þórisson, 16.4.2007 kl. 20:41

11 Smámynd: Björn Viðarsson

Ef Dharma vill að D njóti sannmælis frá andstæðingum sínum þá verður hún að gera slíkt hið sama.

Þessi greinargerð er algjörlega fráleit frá A-Ö. T.d. "Sf vill ganga í eina sæng með VG hvers yfirlýst markmið er stopp á öllum sviðum"

Þetta er alrangt og það vita allir. Af hverju talar fólk gegn betri vitund? VG gilja stoppa stóriðju, rétt. En þeir vilja byggja annað upp.

Ég hef litla trú á þessu "annað" en dettur ekki í hug að fullyrða svona þvælu. Það er enginn flokkur að boða algjört stopp. Menn eru að boða aðra atvinnusköpun en stóriðju.

Svo er bara hvort maður kaupir þær lausnir eða ekki.

Björn Viðarsson, 17.4.2007 kl. 11:24

12 identicon

Láttu ekki svona Dharma! Þetta væri miklu, miklu, miklu meira en 450 milljarðar! Þetta væru þúsund trilljón milljarðar. Örugglega. Ábyggilega, alveg satt. Ég get sko slegið fram miklu hærri órökstuddum tölum en þú! Og hana nú!

Garma (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:25

13 identicon

Nú hefur hún Darma farið aðeins of langt fram úr sjálfri sér. Í hinum svarthvíta heimi sínum er hún ekki bara búin að gera Ögmund að fjármálaráðherra heldur líka búin að stilla öllu hagkerfinu upp eftir eigin höfði, klippt og skorið, svart og hvítt og spyr svo: "Hvað vill VG?  Af hverju vill það það?  Hvernig er það hagkvæmara en það sem fyrir er í dag?  Hvernig ætlar VG að viðhalda hagvexti?" Þetta er því miður svo barnaleg framsetning að það er ekki hægt að segja annað en bara svona, svona væna, þetta lagast.

Ósköp virðist þessi langloka Darma skrifuð í einhverju verulegu geðvonskukasti, eins og hefur reyndar verið nokkuð áberandi upp á síðkastið. Það var aðeins meira vit í skrifum hennar hér áður fyrr (en ekki mikið þó). Kannski að loftið sé að fara úr henni nú þegar hún áttar sig á hversu góðar og vandaðar hugmyndir Samfylkingarinnar eru?

Góðar stundir

Garma 

Garma (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 15:12

14 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Félagi minn úr Vestmannaeyjum segir að Dharma sé Árni Johnsen.

Tómas Þóroddsson, 17.4.2007 kl. 18:46

15 identicon

Nei, Árni Johnsen myndi aldrei skrifa "... enn ein hjáróma röddin í kakófónískum 
klið kommúnistanna." Þessi er af allt annarri hlaupvídd en hann. Helst til
skapvond en var á stundum þokkaleg hér áður.

garma (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband