Leita í fréttum mbl.is

Ingibjörg á eldhúsdegi

Samflokksfólk mitt í eldhúsdagsumræðum lagði höfuðáherslu á velferðarmál - málefni fjölskyldunnar, aldraðra, barna og heimilanna - í sínum ræðum. Þessi áhersla er engin tilviljun og lætur einkar vel í mínum eyrum.

Í þessum málaflokkum slær hjarta sérhvers jafnaðarflokks, sama hvar í veröldinni hann starfar. Velferðarmál eru hjartans mál Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.

Velferðarkerfið á einmitt rætur að rekja til vinstri stjórnar, sem gekk undir því fróma heiti Stjórn hinna vinnandi stétta.  Boðskapur Ingibjargar Sólrúnar í ræðustól í kvöld var einfaldur: Nú þarf jafnaðarstefnan aftur að komast að á Íslandi, til þess að endurreisa velferðarkerfið.

Það er hið brýna verkefni jafnaðar- og félagshyggjufólks. Mér finnst þetta kristaltært: Upphaflega hugsunin með velferðarkerfinu var sú að þar væri um almannatryggingakerfi að ræða. Semsagt: fólk borgaði skatt og þar með átti það rétt á ákveðinni þjónustu.

Þegar aldrað fólk fær ekki hjúkrunarrými þegar það þarf á því að halda, eða foreldrar fá ekki úrræði fyrir veik börn sín, þá er brotinn réttur á því fólki sem skattgreiðendum. Svo einfalt er það. Tökum samanburð við tryggingafélag: Ég borga iðgjald. Ef húsið mitt brennur þá fæ ég það bætt. Ég fer ekki á biðlista.

Þetta kann einhverjum (les: hauki) að finnast róttæk hugsun, en svona er jafnaðarstefnan: Hún byggir á hugsuninni um skyldur annars vegar, og rétt hins vegar.

Norrænir jafnaðarflokkar hafa staðið vörð um þessa hugsun eins og urrandi hundar alla tíð. Þeir hafa líka farið með stjórnartaumana í sínum löndum. Þess vegna innleiða þeir hugtök og úrræði eins og þjónustutryggingar, til þess að mæta þessari réttlætiskröfu í nútímasamfélagi. Slík trygging gengur út á einfaldan hlut: Ef ríkið sjálft getur ekki séð þér fyrir því úrræði sem þú átt rétt á sem þegn, þá tryggir ríkið þér þau úrræði eftir öðrum leiðum.  Þetta er samningur við fólkið. 

Íslendingar, með borgaraleg íhaldssöfl við völd undanfarin áratug, hafa gefið afslátt af þessari réttlætishugsjón. Tökum nærtækt dæmi: Fé sem á að renna samkvæmt lögum til uppbyggingar hjúkrunarheimila – samkvæmt þessari upphaflegu réttlætishugsun – er látið renna í eitthvað allt annað. Þar á ég að sjálfsögðu við framkvæmdasjóð aldraða. Og menn láta sér slík lögbrot í léttu rúmi liggja, sem lýsir andrúmsloftinu.

Af þessum sökum – og hversu brýnt mér þykir að til valda komist á Íslandi jafnaðarflokkur sem tekur velferðarkerfið og hugsunina á bak við það alvarlega – fundust mér lokaorð Ingibjargar Sólrúnar í elduhúsdagsumræðunum í kvöld, eins og reyndar ræðan öll, svona líka ansi hreint glimrandi:

“Samfylkingin er reiðubúin að taka við stjórnartaumunum og endurreisa velferðarkerfið á Íslandi.”

Þetta er hið fullkomna grundvallaratriði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Heyrði ekki alla ræðuna, en það sem þú lýsir hér er hreint alveg glimrandi, eins og þú réttilega segir, það sem mig vantar klárlega að vita hinsvegar, er hver eru áformin varðandi leikreglur sem setja þarf að nýju í sjávarútvegsmálum í landinu?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 14.3.2007 kl. 23:23

2 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Hjartanlega sammála þessu Guðmundur.  Missti reyndar af ræðunni hennar Ingibjargar, en lýst glimrandi vel á það sem hér kemur fram.  Hvað sjávaútvegsmálin varðar er ég sammála Hafsteini, samfylkingin þarf að koma því vel til skila hvað hún vill gera í stærsta óréttlæti íslandssögunar, kvótakefinu, með framsali veiðiheimilda, leigu og sölu.  Ég tel fullvíst að Samfylkingin muni aldrei sætta sig við þetta kerfi og gera allt sem í hennar valdi stendur til að breyta því í átt til meira réttlætis.  En vissulega er eitt aðalmál næstu ríkisstjórnar að endurreisa velferðarkerfið, það er t.a.m til skammar hvernig komið er fram við aldraða í okkar ríka landi.

Egill Rúnar Sigurðsson, 14.3.2007 kl. 23:52

3 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Ingibjörg var mjög góð í kvöld, flott ræða.

Tómas Þóroddsson, 15.3.2007 kl. 00:15

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Mjallhvít og dvergarnir sjö eru ekki að gera það nógu gott.  Breytum nafni flokksins úr Samfylkingunni í Vinstri kvennahreyfingin grænt framboð. 

Getur ekki klikkað. 

Björn Heiðdal, 15.3.2007 kl. 00:18

5 identicon

Þetta er gott og blessað og málaflokkur sem virðist hafa gleymst svolítið í umræðunni.

Ástæðan fyrir því virðist í fljótu bragði vera sú að langflestum er skítsama og vitna ég í könnun hér til hægri á þessari fínu síðu þar sem spurt er: Hvert verður aðalkosningamálið?

Aðeins 7% þátttakenda á síðunni telja að velferðarmál séu aðalkosningamálið. 

Annars horfði ég ekki á þessar umræður. Alþingi hefur misst traust almennings (ef það hafði það einhverntímann) skv nýlegri könnun og það er umhugsunarefni fyrir alþingismenn. Það er mjög skrítið að meirihluti almennings skuli ekki einu sinni treysta því fólki sem það kýs sjálfviljugt á þing.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 00:41

6 identicon

Lenín var afbragðsræðumaður og bæði Steini og Bíbí hafa tekið hann sér til fyrirmyndar í ræðustól Alþingis. Ég gef hins vegar Hvell-Geira, Framsóknar-Jóni, Hveragerði og hinum Frjálsblinda Magnúsi Þór hálfa stjörnu fyrir viðleitni í þessu eldhúsi í kveld. Ríkisstjórnin er greinilega fyrir löngu komin í Fallin spíta en Imba var fögur sem forðum er hún með öllum sínum kvenlega yndisþokka brosti til mín á brúnni yfir Tjörnina. Ekki komast karlanir með tærnar þar sem hún hefur háu hælana í þeim efnum, nema Steini. Þau munu því að öllu forfallalausu ganga í heilagt hjónaband í vor og biðja nú um tilfinningalegt svigrúm eftir að hafa opinberað trúlofun sína í kveld.

Boðskortin hafa nú þegar verið send út og Addi Kitta Gau mun verða svaramaður Steina. Einnig einkaþjónn í sjávarútvegi ef á þarf að halda á heimilinu, þó enginn verði hann slordóni. Og Imba leyfir Steina að vera húsbóndi á sínu heimili. En að sjálfsögðu mun hún stjórna öllu í reynd, sjá um innkaup og annað á heimilinu, og eyða þar mestu fé, eins og aðrar konur gera. Á meðan dundar Steini sér í garðinum. En Addi mun, ef á þarf að halda, sjá um húsverk, afþurrkun alla og ryksog, enda vel til þess fallinn. Og ekki vill hann ráða til þess erlendar vinnukonur, þannig að hann verður að sjá um allt slíkt sjálfur.

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 01:24

7 identicon

Ég missti að stærstum hluta af þessum eldhúsdagsumræðum - fínt að einhver annar tekur að sér að draga saman fyrir mann það sem þar kom markvert fram. Takk fyrir að taka það að þér. Það kemur ekkert á óvart að Ingibjörg flytji skörulega ræðu þar sem hún kemur beint að efninu, það er hennar stíll og ég hef alltaf verið hrifin af honum. Ég get alveg viðurkennt að ég er veik fyrir mörgu í málstað ykkar Samfylkingarfólks og sé mikið af frambærilegum mönnum en ekki síður konum í nokkuð öruggum sætum fyrir Samfylkinguna þarna sunnan megin Hvalfjarðarganganna en gengi kvenna í kjördæmunum þar fyrir norðan í prófkjörum voru mér mikil vonbrigði og er nokkuð sem ég held að muni hafa veruleg áhrif á fylgi Samfylkingar á landsvísu. Hér fyrir norðan þar sem ég bý eru í efstu sætum fyrir Samfylkinguna einlægir stóriðjusinnar eins og Einar Már og svo Kristján Möller sem ég hef aldrei heyrt gefa sig upp í þeim málum. Ég get alveg eins ímyndað mér að þessir herramenn muni kalla yfir okkur Norðlendinga enn eitt álverið ef þeir komast í stóla. Ég treysti konunum betur í þessu efni en þeim er ekki til að dreifa, í það minnsta ekki í örugg þingsæti hérna norðan heiða, hvorki í vestur né austur. Hið versta mál að mínu mati.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 01:45

8 identicon

Já hérna Dharma þú ert yndislega óforskammaður, mér er farið að þykja svolítið vænt um þig. Þú hikar ekki við að gera fólki upp skoðanir. Ef þú getur vitnað í eitthvað haldbært sem bakkar upp það sem þú skrifar varðandi leikskólann þá bara... takk. 

 Ágætt að hafa eitt á hreinu: Í stjórnmálastefnu endurspeglast sýn á heiminn. En hvernig hún er framkvæmd er svo annað mál. Í auðlindamálinu má halda skv. umræðunni að allir flokkar hafi sömu stefnu. Það er, allir eru tilbúnir að kvitta undir að sjávarauðlindin sé þjóðareign. Það er aftur á móti framkvæmdin sem skilur hafrana frá sauðunum. Vinna stjórnarflokkana virðist aðallega ganga útá að skilgreina órjúfanlegan rétt þeirra sem nýta hana en ekki yfirráð fulltrúa almannavaldsins yfir henni né að skilyrða að hún se´nýtt með sjálfbærum hætti. Allir geta sagst vera festa auðlindina sem þjóðareign meðan í raun verknaðurinn gengur útá allt annað.

Ríkið sækir á hendur einstaklinga í þjóðlendumálinu og þar hefur ekki vafist fyrir neinum hvernig eigi að skilgreina eign ríkisins (almennings). Það jafn einfalt í þessu máli sem nú er fjallað um.

Þetta er einmitt það sem hefur ítrekað og aftur verið boðið uppá í íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina: "atvinnufrelsi" og "samkeppni". Menn sögðust vera framkvæma hvoru tveggja en voru í raun að gera hið gagnstæða en þjóðin hefur sætt sig við þetta og er það stúdía útaf fyrir sig.  Persónulega kýs ég mér samferðamenn sem meina það sem þeir segja og athafnir fylgja orðum. 

Ég einmitt las þetta í stjörnuspánni minni að skattar myndu hækka í ca. 60% ef x-d yrði ekki í ríkisstjórn. Þetta er alvarlegt og gott að fleiri tóku eftir þessu. 

Jafnaðarmenn eru í ákveðnum vanda þegar kemur að því að jafna lífskjör í gegnum skattkerfið í þeim heimi sem við búum í dag. Fjármagn er hreyfanlegt og á meðan það er samþykkt á alþjóðavettvangi að til séu skattasmugur (cayman osfr.) þá eru skattar ekki eitthvað sem menn handstjórna heima úr stofu. En grunngildin er hægt að framkvæma í gegnum almanntryggingar en kostnaðurinn er, og verður, þó skorðaður við tekjur hverju sinni. En einmitt þeir sem geta hugsað hálfa hugsun skilja að í takmörkuðuðum náttúruaðlindum felast tekjur framtíðar sem vaxa að virði á hverju ári og þess vegna er það er það lélegur bissnes að selja þær að eða leiga án endurkoðunarákvæða um gjaldtöku.

bkv

Aron Þorf. (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:31

9 identicon

Munurinn á sjálfstæðisflokknum og Samfylkingu, er sá að sjálfstæðisflokkurinn vill frelsi og jöfnuð fyrir einn ákveðinn hóp íslendinga.

Meðan samfylkingin vill frelsi og jöfnuð fyrir alla íslendinga, ekki bara þá sem eru í frímúrarareglunni.

Hlynur (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:49

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, munurinn á Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni er að Sjálfstæðisflokkurinn vill að ALLIR hafi jöfn tækifæri og búa þannig um hnútana í atvinnu og efnahagsumhverfinu að nægilegt fjármagn sé til reyðu í velferðarmál.

Samfylkingin vill hins vegar skapa jöfnuð fyrst, allt hitt fer eftir því hvernig vindurin blæs.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.3.2007 kl. 13:39

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Tek undir með þér Guðmundur, ISG var flott í gærkvöldi, sem hún reyndar er alltaf.  Takk

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.3.2007 kl. 14:52

12 identicon

Þetta Dharma er álíka skýrt og rökfast og þátturinn Lífsháski, sem nafnið kemur líklegast úr. Líka jafn fyrirsjáanlegt. Farið í hringi og út um allt, án niðurstöðu eða nokkurs vits. Bíðum bara eftir næsta þætti. Þá skýrast málin.

Gunnsteinn M. N. (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 15:25

13 Smámynd: Kristján Pétursson

Samfylkingin hefur ávallt verið mótfallin sölu og leigu á fiskveiðiheimildum af því þær eru sameign þjóðarinnar samk.lögum um fiskveiðistjórnun frá l984.Samfylkingin hefur ávallt viljað styrkja sjávarbyggðir með byggðakvótum.Eins og kunnugt er og ég fjalla um á blogginu mínu í dag,þá voru öllum nytjafiskum innan lögsögunnar "LÖGFORMLEGA STOLIÐ FRÁ ÞJÓÐINNI 1991,ÞEGAR HEIMIÐUÐ VAR SALA OG LEIGA Á FISKVEIÐIHEIMILDUM.

Kristján Pétursson, 15.3.2007 kl. 16:59

14 identicon

Skrítið með VG hve þeir eru mikið á móti "Renewable energy sources" í anda "Sustainable Development" og þar ber hæst andstaða við vatnsorku okkar íslendinga.  Jú, þeir vilja leyfa svokallaðr rennslisvirkjanir þar sem aðeins er notast við rennsli í ám og þá minnsta rennsli því annars fæst ekki stöðugt afl heldur mismikið eftir árstíðum í jökulfljótum. Það þarf að nýta þessa virkjunarkosti og það kallar á mannvirki eins og stíflur. Reyndar virðast VG vera voða hræddir við stíflur - þær eru svo illa gerðar og áhættumatið ekki pappírsins virði, sagði Álfheiður Inga síðasta sumar.  Jahá, gott að fá það sérfræðiálit og var það alveg sérstaklega málefnanlegt innlegg í umræðu sem í kjarnann snýst um sjálfbæra þróun!  Vatnsorka "Hydropower" er talið upp undir merkjum sjálfbærrar þróunar sem endurnýtanlegir orkugjafar og þá er rétt að snúa sér nú almennilega að því að nýta þá - um það ættu nú allir að geta verið sammála. Enda er lofthjúpurinn yfirfullur af CO2 - koltvísýrling.  Hvers konar froðasnakk er þetta hjá VG að tala jöfnum höndum um sjálfbæra þróun sem "Divine" hugtak en mein samt eitthvað allt annað. Óábyrg stefna  VG í umhverfismálum verður örugglega ekki endurnýtt enda alls ekki í anda sjálfbærrar þróunnar.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 19:48

15 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég er maðurinn á bakvið tjöldin í Valhöll.  Eitt er alveg á hreinu að sjálfstæðisflokkurinn vill að sumir hafi það betra en aðrir. 

Tilhvers að mennta sig ef maður fær sömu laun og svört skúringarkona?  Tilhvers að ganga í flokkinn og leggja mikið á sig við fjáröflun og fá ekkert í staðin.  Það er skítugt hérna  bakvið tjöldin, besta að koma sér eitthvert annað.

Björn Heiðdal, 15.3.2007 kl. 20:34

16 identicon

Sæll Dharma.  Ég sé að þú hefur tileinkað mér sjálfum heila færslu og nýjar skoðanir, takk. Það hlýjaði mér svo sannarlega um hjartaræturnar að vita að sumu getur maður gengið að vísu. En ef átt við að nýta auðlindir þjóðar henni til heilla get kvittað uppá það.

Nei Dharma þú mátt trúa því að ég geri ekki kröfu um að fá kvóta úthlutað til þess að fara róa. En ég geri aftur á móti kröfu um að það kerfi sem við veljum til að hafa stjórn á ásókn í auðlindina virki og sé sanngjarnt. Nú er ég dálítið hræddur að þras um hvað sé sanngjarnt geti orðið full miklir loftfimleikar svo við skulum halda okkur aðeins neðar og skoða virknina á kvótakerfinu.

a. Kvótakerfið hefur skilað rekstrahagkvæmni í greinina.

b. Kvótakerfið hefur  valdið búsifjum um allt land með tilheyrandi byggðaflótta.

c. Kvótakerfið hefur brugðist við uppbyggingu fiskistofnanna.

Ég myndi segja að a og c séu óhrekjanleg atriði en b megi deila um. Allar mælingar og rannsóknir sýna minnkandi stofna og meðalþyngd. Að útgerð beri sig er mikilvægt en síðasta Geirfuglinum þurtfti bara að slátra einu sinni.  

bkv 

e.s takk fyrir fiskinn, kem honum í frysti.

Aron Þorf. (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 22:50

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aron:

A er rétt

B er vitleysa. Það á ekki að handstýra iðnaði á svæði sem er óhagkvæmt. Þannig verður A rangt og tekjur í rískissjóð minnka en útgjöld aukast.

C er vafamál. Umhverfisáhrif óljós o.fl. þættir. Í a.m.k. 20 ár var þorskveiði hér á fyrrihluta síðustu aldar 6-900 þús tonn. Sl. 20 ár hefur hún verið 2-300 þús tonn. Annálar fyrri alda sýndu gríðarlegar sveiflur í fiskveiðum. Stundum hvarf allur fiskur árum saman en gekk nánast á land þess á milli.

Margar þjóðir líta til Íslands vegna þess kerfis sem við notum hér. Norðmenn eru að íhuga að taka upp þetta kerfi, að vísu ekki án andstöðu. Ég vil frekar að þjóðin fái hagnað út úr greinin en að hún sé baggi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2007 kl. 13:53

18 identicon

isg kom illa út úr umræðunum, virkaði þreytt og buguð enda pólitísk endalok hennar handan við hornið. vilji hennar og trú á þetta virðist fara dvínandi dag frá degi, vonleysi hefur gripið um sig í flokknum, skoðanakannanir sanna að flokknum hefur mistekist hrapalega að ávinna sér trú og traust fólksins í landinu og er lítið annað sem bíður þessa bugða flokks en áframhaldandi eyðumerkurganga.

Óðinn (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 18:05

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í flestum öðrum löndum væri formaðurinn þegar búinn að segja af sér eftir svona útreið eins og flokkurinn hefur fengið í skoðanakönnunum trekk í trekk,til að leyfa félögum sínum að ná vopnum fyrir kosningar. En Ingibjörg, nei, hún hangir á formanstitlinum eins og hundur á roði. Hún lofaði ykkur 40% fylgi  

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.3.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband