Leita í fréttum mbl.is

Hagnaður bankanna

Mér er spurn:  Hvernig geta bankar sem bjóða upp á 11 til 12 prósent raunvexti á húsnæðislánum og yfir 20 prósent vexti á yfirdráttarlánum, í stórskuldugu þjóðfélagi, annað en stórgrætt á tá og fingri?

Bankarnir eru áskrifendur að peningum. Efnahagsstefnan sem bitnar harðast á almenningi, með verðtryggingu, óðaverðbólgu, háum stýrivöxtum og þenslu, er að stórum hluta lykillinn að gróða þeirra.

Í fyrsta lagi þarf að kæla hagkerfið. Í öðru lagi þarf að afnema verðtryggingu. Það er ótækt að bankarnir séu stikkfrí þegar kemur að verðbólgu.

Tuttugu og eitt þúsund krónur á mánuði sem meðalfjölskylda greiðir í umframgreiðslubyrði vegna hagstjórnarmistaka ríkisstjórnarinnar, þenslu og verðbólgu, rennur beint í vasann á teinóttu jakkafötunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Björn Arnarsson

Sæll Meistari !

Þú rúllaðir aldeilis yfir hana Erlu Ósk í Bítinu í morgun - greinilega kominn í kosningaham og í góðum gír. En hvaða bankar eru með 11-12 % RAUNVEXTI á húsnæðislánum ? Held að þú hljótir að vera tala um NAFNVEXTI enda rétt sem þú bentir á í Bítinu. Vextir bankana eru afleiðing af okurstýrivöxtum Seðlabankans, sem koma til vegna óstjórnar í efnahagsmálum. Við Samfylkingarfólk getum því óhikað glaðst yfir góum árangri bankanna - ekki spurning !

Hrannar Björn Arnarsson, 31.1.2007 kl. 10:00

2 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Sæll og blessaður!

Afnám verðtryggingarinnar væri mikið óheillaspor fyrir heimilin í landinu. Í þessum efnum þarf vitanlega að velta orsök og afleiðingu fyrir sér og í grunninn er þetta óábyrgri stjórn ríkisfjármála að kenna fyrst og fremst. Ef verðtryggingin væri afnumin og sömu stefnu væri haldið í fjármálaráðuneytinu þá myndu BREYTILEGIR vextir bankanna ganga endanlega frá fjölmörgum heimilum og við myndum horfa upp á margfalda gjaldþrotahrinu í kjölfarið. Mæli annars klárlega með greinaröð minni um verðtrygginguna á Vefritinu, í þriðju greininni er sjónum sérstaklega beint að hagsmunum heimilanna:

Fyrsti hluti

Annar hluti

Þriðji hluti 

Samfylkingarkveðjur,  

Agnar Freyr Helgason, 31.1.2007 kl. 10:24

3 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Einfalt rúst !

Vil hrósa þér fyrir málefnalega atrenu að formanni Heimdallar (http://www.sus.is/frettir/nr/1468) og vil einnig þakka þér fyrir að spyrja hana og krefja um stefnu XD í stóriðjumálum. Ég bíð enn eftir henni og enn virðast þeir ætla að sleppa algerlega frá því að kynna fyrir þjóðinni stefnu sína. 

Það var nú dálítið fyndið að hofra upp á ykkur þarna í þættinum í morgun. Ég fór næstum því að hlæja að hlusta á gelluna. Hún barðist í bökkum við að segja þér og hlustendum hversu ótrúverðug SF væri vegna ólíkra skoðana í flokknum og stefnuleysi, en sagði í næsta orði hversu frábært það væri í XD þar sem ólíkar skoðanir rúmuðust innan flokksins. Hún tuggði á því að stefna XD væri svo skýr og flott en gat svo ekki svarað hver stefnan væri í stóriðju og umhverfismálum. Hún krafsaði í bakkann, en það bara var ekki að virka því hún gat ekki svarað.  Þú stóðst þig hins vegar vel. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 31.1.2007 kl. 10:35

4 identicon

glæsileg frammistaða í viðtalinu í morgun,

Fred 

Fred (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:16

5 identicon

Það er ekkert sem réttlætir það neyslulán séu verðtryggð.  Við skulum ekki gleyma því að verðtryggingin var sett á í óðaverðbólgu um 1975 og Ísland er sennilega eina ríkið í veröldinni sem neyðir fólk til þessa.  Það er amk algjört lágmark að leyfa markaðnum að hafa val.  Við þurfum erlendan banka hingað til Íslands sem tekur ekki þátt í bankasamráðinu

Svavar Friðriksson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:34

6 Smámynd: Finnur Torfi Gunnarsson

Sammála. Baráttukveðjur!

Finnur Torfi Gunnarsson, 31.1.2007 kl. 11:51

7 identicon

Er þessi ofsagróði bankanna ekki bara birtingarmynd af því neysluæði sem Íslendingra eru helsjúkir af nú um stundir. Taka botnlaus lán fyrir allri óráðsíunni.

Heimili skuldsett sem aldrei fyrr.  Yfirdráttarlán einstaklinga í hæstu hæðum.

Sparnaður ?  nánast óþekkt fyrirbrigði utan þeirra sem eru að nurla saman til að eiga einhverja tryggingu á efri árum.

Það sýnist alveg ljóst að sá sem lánar fjármuni, sem hann með ráðdeild varðveitir í banka , á alveg skýlausan rétt á að fá þá fjármuni aftur sem fullgild verðmæti…þ.e að verðgildið sé tryggt. Síðan má deila um sjálft vaxtastigið.

Lífeyrissjóðirnir beita verðtryggingu…hugsið ykkur eftirlaunafólkið , ef allur þeirra lífeyrissparnaður brynni upp fyrir starfslok…. Það gerðist fyrir tíma verðtrygginga.

Við eyðum langt um efni fram..tökum lán á háum vöxtum til að fjármagna ofneysluna.

Ofur skuldsettur einstaklingur (heimili) er orðinn þræll eigin neysluæðis.

Og” óðalsbóndarnir” sem sópa að sér arðinum af þessum neysluþrælum, heita í dag ,Bankar.

Því miður við höfum sjálf valið þetta ástand.

Sævar Helgason,Hafnarfirði (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 12:24

8 identicon

Tek undir með öðrum. Þú varst dúndursprækur í Bítinu. Senda strákinn sem víðast, segi ég, ef Samfylkingin vill auka fylgið. -- Gauti

Gauti (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 12:37

9 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Vextir of hái, algerlega sammála því, og nauðsynlegt að taka á því. Verðtrygging líka barn síns tíma og þarf að henda út á hafsauga.

En samt að einu varðandi hagnað bankanna að þá heyrði ég í fréttum viðtal við Hreiðar má þar sem kom í ljós að 70% af hagnaði Kaupthing Bank kæmi erlendis frá. ekki er það tilkomið vegna hárra vaxta er það? Bara smá ábending.

Guðmundur H. Bragason, 31.1.2007 kl. 12:44

10 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Takk fyrir þarfa ábendingu Guðmundur, þú ert maðurinn...

Er ekki ágætt að skoða nútímann í ljósi undanfarandi stefnumörkunar stjórnvalda. Það er alveg deginum ljósara að enginn ætlaði að byggja upp það happadrættis-hagkerfi sem nú er raunin á Íslandi. Menn vildu marka sér stefnu í ríkisfjármálum og draga úr opinberum rekstri. Það hefur gefið vel í vasa margra. Raunar flestra sem hafa kunnáttu og burði til að nýta sér tækifærin. Þar af leiðandi eru ekki margir öflugir eftir til að reyna að koma lagi á hlutina.

Veruleikinn er á gráu svæði milli þess sem má og ekki má. Löggjafinn kann ekki að stýra leiknum, enda verða reglurnar til með daglegum fordæmum og enginn ræður neitt við neitt. Svo að ekki sé nú minnst á valið inn í löggjafarsamkunduna en það nenni ég ekki að ræða.

Seðlabankinn ætlar að stýra öllu með helblárri ískrumlu sem einhvern tíma í fyrndinni hafði tilætlaðan árangur. Nú er bara öldin önnur. Nú er velta fyrirtækja á Íslandi orðin töluvert meiri en velta íslenska ríkisins og þar af leiðandi leikur einn fyrir sæmilega fjársterkan aðila að hafa umtalsverð áhrif á gengissveiflur krónunnar.

Það kann að vera til yfirborðslæg skýring á því að mestur hagnaður bankanna var einmitt á þeim tíma þegar krónan stóð í frjálsu falli á fyrsta ársfjórungi síðasta árs. Er það tilviljun?

Varla þegar um er að ræða fjármála-snillinga. Hvernig væri að fá einhvern fjármálasnilling inn á ríkisskútuna og seðlabankann í stað orðspekinga og fráfarandi forsvarsmanna félagasamtaka (félagsmálaforkólfa).

Það er til gömul bók eftir látinn hagfræðing Henry Hazlitt, sem heitir hagfræði í hnotskurn þar sem hann varar við öllum þeim árangurslausu tilraunum ríkisstjórnarinnar til efnahagsstýringar, undanfarin 15 ár.

Er nokkuð nýtt undir sólinni?

Gamall nöldurseggur, 31.1.2007 kl. 13:22

11 identicon

Guðmundur, Guðmundur, Guðmundur..... ert þú líka þetta einfaldur að þú hoppar á þennan rangfærsluvagn?  Ok, skoðum aðeins dæmið.  Hagnaður viðskiptabankanna, eftir skatta, samanlagður, var rétt um 210 milljarðar króna á síðasta ári.  Hagnaður, eftir skatta, hjá viðskiptabankasviðum bankanna (þar sem fara allar færslur okkar einstaklinga sem erum ekki stóreignafólk) nam rétt um 15 milljörðum eftir skatta, samtals.  Þannig að bankarnir allir 4 eru að græða 15 milljarða á því að lána Íslendingum peninga, ekki 210 milljarða.  Veistu hvaðan hinir 195 milljarðarnir koma?  Frá þóknanatekjum sem bankarnir fá fyrir að veita ráðgjöf erlendum sem innlendum fyrirtækjum.  Frá því að sýsla með erlend og innlend hlutabréf fyrir viðskiptavini sína sem og sig sjálfa.  Frá því að lána íslenskum og erlendum fyrirtækjum peninga, nota bene, stórum fyrirtækjum.  Og ef þú hefur geð í þér til að sjá að 195 milljarða hagnaður eftir skatta hefur nákvæmlega ekkert með íslenska neytendur að gera, skulum við einblína á þá 15 milljarða, eða þar um bil, sem eftir standa, enda er það hagnaðurinn sem bankarnir taka til sín gegn því að lána Íslendingum (og innfæddum sem aðfluttum) peninga.  

Ef þú ferð út í banka og tekur 500þ yfirdráttarlán, þá borgarðu auðvitað vexti af því, ekki satt?  Af hverju borgarðu 21% en ekki 14.25% sem eru stýrivextir Seðlbankans?  Jú, vegna þess að yfirdráttarlán er óverðtryggt (fastir vextir) og án allra veða eða ábyrgða upp að vissri upphæð.  Bankinn lánar þér 500þ og það eina sem hann hefur á móti er þitt loforð um að borga.  Þú skrifar ekki upp á neitt, enginn gengst í ábyrgð fyrir þig, húsið þitt er ekki að veði.  Og slíkt felur í sér áhættu, því er þú ekki borgar er bankinn búinn að tapa láninu.  Og fyrir slíkt lán þarftu eðlilega að borga áhættuálag, sem nemur mismuni á því sem þú borgar í vexti og því sem bankinn borgar í vexti fyrir að fá að láni peninginn sem hann svo aftur lánar sér (því ekki sleppir bankinn því að borga sitt lán til baka bara þó svo að þú borgir það ekki).  Finnst þér þetta óeðlilegt?  Ef þú t.d. settir húsið þitt að veði, og fengir pabba þinn til að skrifa upp á lánið og ábyrgjast drenginn, fengirðu auðvitað mun lægri vexti, því bankinn væri öruggari með að fá peninginn til baka.

Finnst þér það ekki liggja í hlutarins eðli að þegar fólk tekur yfirdrátt og bankinn tekur á sig áhættu, að bankinn fái umbun fyrir þá áhættu?  Og eftir því sem fleiri taka lán, því fleiri borga þetta áhættuálag, og því meiri eru tekjur bankans?  Yfirdráttarlán bankanna eru reiknuð sem áhættusamasti útlánaþáttur, almennt, í bankastarfsemi skv. Basel II samþykkt, svo eitthvað sé nefnt.

En ef við getum hent þeirri ályktun þinni út um gluggann að það sé eitthvað óeðlilegt við að bankar taki áhættuþóknun fyrir yfirdrátt, þá skulum við skoða vaxtagrunninn, sem eru stýrivextir Seðlabankans.  Af hverju eru stýrivextir 14.25%?  Jú, af því að íslenskir neytendur hafa mikla eftirspurn eftir lánum, og þegar fólk eyðir þetta miklu umfram tekjur kallast það þensla, og þenslu fylgir verðbólga, og verðbólga er slæm, eins og þú vonandi veist.  En hverjar eru orsakir verðbólgunnar?  Jú, neysla hins almenna Íslendings að langmestu leyti.  Gengdarlaus skuldasöfnun heimilanna hefur ekkert með ríkisfjármálin að gera.  Hver neyddi Jón Jóns til að kaupa sér plasmasjónvarp og nýja fartölvu í desember? Var það Geir Haarde?  Þú ættir að gera þér grein fyrir að háir vextir í bankakerfinu kalla líka á háa innlánsvexti.  Ef þú ættir 5 milljónir inni á bankabók, gætir þú fengið hér um bil 600þ á ári í áhættulausa vexti, 50þ á mánuði í tekjur af innistæðunni, áhættulaust.  Því innlánsvextir eru svo háir.  Ef þú værir með þessar 5 milljónir inni á bók í Englandi, fengirðu í kringum 300 á ári, eða um 25þ.  Léleg bítti það.  En nei, þú vilt bara að fólk fái áfram að skuldsetja sig á lágum vöxtum.  

Vextir eru hækkaðir til að slá á verðbólgu, þeir eru STÝRITÆKI, ekki eitthvað ofan á brauð.  Hærri verðbólga orsakast af of mikilli þenslu drifinni áfram af lántökum heimilanna, og til að minnka lántökur heimilanna eru vextir hækkaðir þannig að fólk fari að hugsa: "Hey, kannski ætti ég að hætta að taka yfirdrátt til að kaupa mér Stöð 2, Sýn, og Fjölvarpið í hverjum mánuði, og fara kannski að spara, það eru jú svo fínir innlánsvextir í bankanum."  Þannig EIGA hlutirnir að virka, og þanni gera þeir það þegar sársaukamörkum er náð.  Íslendingar hafa hins vegar há sársaukamörk, því miður.  Og ekki bætir úr skák þegar fram á sjónarsviðið koma kverúlantar eins og þú sem tala um að partýið eigi að halda áfram, og muni gera það ef þið komist til valda, því þið ætlið að lækka vexti.

Það væri hægt að lækka vexti um helming......75% á morgun.  Ekkert mál.  Án þess að ganga í ESB eða EMU.  Bara ein ákvörðun hjá Seðlabankanum (sem bæ ðö vei er sjálfstæð stofnun, ólíkt því sem þið í Samfylkingunni viljið, þið viljið að vextir séu ákveðnir í stjórnarráðinu, en eitt af skilyrðum fyrir inngöngu í EMU er sjálfstæður Seðlabanki, hvernig fáið þið það til að ganga upp?).  En hvað myndi gerast?  Verðbólgan færi á flug, og þá fyrst færu hlutirnir til fjandans.  Verðhækkanir á matvælum og fötum leiddu til víxlhækkana launa og framfærslu, verkföll og svo atvinnuleysi því fyrirtækin gætu ekki greitt svona há laun.  Spurðu pabba þinn hvernig þetta var þegar hann stjórnaði, þá var þetta nákvæmlega svona, ég er viss um að hann man það vel.

Ef þú heldur eitt andartak að íslenskir bankar hafi grætt 210 milljarða á íslenskum neytendum, þá ertu, afsakaðu frönskuna mína, hálfviti.  Sorrý, þannig er það bara.  Straumur Burðarás græddi 45 milljarða eftir skatta.  Nefndu mér einn heimilisföður í landinu, eða einstæða móður, sem er yfirdrátt hjá Straumi.  Eða húsnæðislán.  Skora á þig.

Skoðaðu líka hvaðan hagnaðurinn kemur.  Hann kemur að lang, lang, langmestu leyti frá erlendri umsýslu.  Við erum að græða á Dönum, og eiga þeir það bara ekki skilið?   

Ein spurning til þín að lokum.  Heldurðu að virkjunin fyrir austan sé eini orsakavaldur þenslunnar?  Hvað með húsnæðislánin sem fólk gat endurfjármagnað á miklu betri kjörum en fyrr?  Fólk endurfjármagnaði lánin sín og lækkaði greiðslubyrðina um heilan helvítis helling.  Og svo greiddi fólk niður bílalánin og yfirdráttinn í leiðinni og var bara í góðum málum.  Og svo kom Íslendingurinn upp í fólki, og það fékk sér dýrari bíl, því hey, það var ekki með bílalánið lengur, og gat því tekið nýtt bílalán.  Og fór í gott frí, skipti út eldhúsinnréttingunni, fékk sér nýtt baðherbergi, keypti sér plasma í stofuna og LCD í herbergið.  Og nýja Nokia símann! Ekki má gleyma honum.  Hey, það var hægt því fólk var ekki með neinn yfirdrátt og lítið mál að skrúfa hann aftur upp.  Og allt í einu situr fólk uppi með meiri greiðslubyrði en fyrir breytinguna, skuldar miklu meira, og hvað þá?  Jú, það er fjármálaráðherra að kenna.  Hver neyddi þig til að kaupa plasma sjónvarp eða jeppa?  Fólk verður fjárráða 18 ára og ef menn kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum er það engum öðrum að kenna en þeim sjálfum.

En fyrir alla muni lofaðu fólki sem kann ekkert með peninga að fara, því að gefa því enn meiri yfirdrátt til að fjármagna neysluna, og það á lægri vöxtum.  Og þá sjáum við áhættuálagið hækka í línulegu samhengi við fjölda gjaldþrota sem yrðu bein afleiðing vitleysisgangs ykkar í Samfylkingunni.  Gerðu mér svo greiða, ekki skrifa um hluti sem þú ekki hefur vit á. 

haukur (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 13:51

12 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Enn á ný rýkurðu fram á ritvöllinn hér haukur, með langloku að vopni til þess eins að leggja sjálfan þig að velli með eigin yfirlýsingum.

Ef bankarnir græða einungis 15 milljarða á því að bjóða Íslendinum upp á okurvexti, en 195 milljarða á öðru, þá ætti það nú ekki að muna svo miklu fyrir þá að hundskast til að bjóða landsmönnum upp á betri kjör.

Fyrst við erum bara skiptimynt hvort sem er. Sem gerir málið hreint út sagt enn svívirðilegra í mínum huga, ef satt er.

Þótt ekki sé einungis við bankana að sakast í sjálfu sér. 11 til 12% NAFNVEXTIR (afsakaðu Hrannar) og yfir 20% yfirdráttarvextir koma til fyrst og fremst vegna þensluáhrifa.

Ríkisstjórnin er svo hugulsöm að grípa til þensluhvetjandi aðgerða æ ofan í æ á meðan þjóðin skuldar 1300 milljónir. Hvað er það annað en glapræði??

Guðmundur Steingrímsson, 31.1.2007 kl. 14:21

13 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Milljarða, átti ég við. 1300 milljarða. Óheyrileg tala.

Guðmundur Steingrímsson, 31.1.2007 kl. 15:30

14 identicon

Þú afsakar langlokurnar, en stundum þarf að útskýra hluti í meiru en einu sándbæti, og ég hef fulla trú á að þér endist þróttur til að lesa svörin mín.  Stutta svarið mitt hérna er að þú hefur svo mikið rangt fyrir þér að ef þú hefðir öllu meira rangt fyrir þér værir þú Norðurlandameistari í að hafa rangt fyrir sér, bæði innan og utanhúss.  Langa svarið mitt er hérna, ef þú nennir að lesa það.  En ég á ekkert frekar von á því. 

Þú ert sum sé að segja það, ef ég skil þig rétt, að af því að bankarnir græða svo mikið erlendis, þá eigi þeir að láta okkur Íslendinga fá hluta af kökunni.  Bara af því bara.  Vegna þess að þeir eiga svo mikla peninga og við svo litla.  Það er lausnin þín.  Fyrst bankarnir voga sér að ganga vel á erlendri grundu, þá geta þeir hunskast til að henda nokkrum milljörðum í okkur hin, þá munar hvort eð ekkert um það!  Er það það sem þú ert að segja?  Og hvað segirðu þegar þú hittir Björgólf Thor? "Heyrðu, Bjöggi.... mig langar svo ógeðslega mikið í þetta raðhús þarna, en mér finnst fáránlegt að taka 15 milljón króna lán til að brúa bilið, hérna.... ertu ekki til í að gefa mér 15 milljónir, þú átt hvort eð er svo ógeðslega margar milljónir, milljarða jafnvel?"  Hvað heldurðu að hann myndi segja?  Alveg rétt......, þegar þú svo næðir Lloyds skónum hans úr kokinu á þér gætirðu verið alveg brjálaður yfir því að hann skuli ekki vilja gefa þér peningana.  Hann á hvort eð er svo ógeðslega mikla peninga!  Og hann er bara ósanngjarn og svívirðilega vondur við þig.  Þessi ummæli þín dæma sig sjálf.

Jú, háir vextir koma til vegna þensluáhrifa.  Skoðaðu bílastæðin í Kringlunni.  Flettu Hús og híbýli.  Skoðaðu Séð og Heyrt.  Þar fer fólk á nýjum bílum, á ný föt.  Ekki ofur ríkt fólk, nei.  Bara fólk eins og við hin, sem kannski hefur efni á lífstíl sínum, en kannski ekki.  Metásókn í utanlandsferðir, heldur þú að allir sem fara í frí næsta sumar eigi bara hálfa milljón inni á bankabók, sumarfríssjóðinn góða, til að borga ferðina?  Eða heldurðu að fólk setji ferðina á Visa rað eða taki yfirdrátt?  En þú heldur að það sé ekki þensla.  Ef hvert heimili á landinu eyðir 400þ á ári umfram tekjur (tekur 400þ á ári í yfirdrátt eða er með 400þ skuld á Visa) þá gerir það eyðslu umfram tekjur, þenslu upp á 60 milljarða á ári.  En nei, það er ekki þensla, það er ríkisstjórnin að ýta fólki, nauðugu viljugu, að kaupa sér ferð til Spánar á Visa rað, og nýtt borðstofuborð á yfirdrætti.  Allt Sjálfstæðisflokknum að kenna.  

Guðmundur, íslenskir neytendur eru ekki skiptimynt í bankakerfinu, þvert á móti, og það ber vott um vitleysu í þér, eða pöpulisma, að halda slíku fram.  Fyndist þér betra ef yfirdráttarvextir væru 12% og stýrivextir 5%?  Bönkunum væri slétt sama, því þeir væru ennþá að fá 7% áhættuálag til sín.  Þá liði þér betur, líklegast, en þá þarf líka umhverfið að vera annað.  Verðbólgan miklu minni, og hvernig verða stýrivextir lægri?  Með því að fólk hætti að eyða umfram tekjur, og ég velti fyrir mér hvort hagstjórn Samfylkingarinnar í borginni sé að taka völdin hjá þér í þínum málflutningi, en þar var einmitt eytt umfram tekjur í áraraðir.  Segðu mér svo, bara svo ég fái nú svar við því, hvernig getur það verið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að fólk skuli kaupa plasmasjónvörp á uppsprengdu verði í ELKO og MAX líkt og um væri að ræða insúlín á ráðstefnu sykursjúkra?  Hvernig í ósköpunum nærðu að hoppa í röksemdarfærslunni frá því að fólk kaupi jeppa á 100% lánum og springi yfir í að Sjálfstæðisflokknum sé um að kenna?

 Þinn einlægur aðdáandi og vinur

haukur (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 15:42

15 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Lykilatriðið er, og ég veit ekki betur en ég hafi lagt á það áherslu, að efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar með öllum sínum þensluhvetjandi aðgerðum er gríðarlegt glapræði gagnvart svo skuldsettri þjóð. Eða þjóð sem er brjáluð í neysluæði, Ingvar.

Við niðurgreiðum ekki þessi lán í svona árferði. Hvað þá spörum.

Og svona efnahagsstjórnun færir bönkunum peninga í áskrift. Það var það sem ég sagði. Ég bakka ekki eitt helvítis hætishót með það!

Guðmundur Steingrímsson, 31.1.2007 kl. 16:30

16 identicon

Já það er óhætt að segja að þú hafir staðið þig VEL í sjónvarpinu.  Þú tókst þessa stúlku og sýndir svo um munaði hvar Ingibjörg, Össur, Ögmundur, Addi Kidda Gauj, og hinir fjölmörgu sem unnu stórsigra í prófkjöri Samfylkingarinnar keyptu ölið.  Þú tókst Sjálfstæðisflokkinn, stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokkinn (sem fyrir nokkru var mest gagnrýndur fyrir að hafa, en núna allt í einu, samkv. því sem þú sagðir í sjónvarpsþættinum Samfylkingin í bítið, gagnrýndur fyrir að hafa ekki!), efnahagsstjórnun Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki hvað, og gjörsamlega knésettir.  Sjalfstæðisflokkurinn og allir sem í honum eru eiga sér enga pólítíska framtíð vegna þess eins að þú, alvanur sjónvarpsmaðurinn, náðir að tala meira og gaspra meira en nýgræðingur úr ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins í sjónvarpsþætti, sem BTW er verið að leggja af vegna lélegs áhorfs, sem gárungarnir hafa nefnt Samfykingin í bítið.

Stórsigur, Stórsigur segi ég....lifi jafnaðarmannabyltingin!! 

Davíð Þoddsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 16:33

17 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ertu ekkert að grínast með þetta allt í alvöru Haukur?

Vissulega er það að hluta til stóriðjustefnan sem setur efnahagskerfið svona úr jafnvægi. Vissulega eru það líka fleiri þættir.

Af hverju segjast bankarnir hafa minnstan hagnað hér á landi? Mér þætti gaman að sjá útreikningana af því. Er það kannski vegna þess að allur reksturinn á bönkunum og starfseminni fer fram hér á landi og þeir nota það til að draga frá fyrst og segja því að hagnaðurinn sé minnstur hér á landi? Það er svo mikill kostnaður á móti auðvitað. Reksturinn á fjárfestingum erlendis fer líka fram að mestu leyti hér, en þó eitthvað erlendis líka. En umsýslan eða kostnaðurinn sem hlýst af því er líka reiknaður á móti hér. Er þetta kannski bara orðaleikur bankanna til að blekkja okkur? Ég velti því fyrir mér.

Hversu mikið greiðir borgarinn með 500þús króna yfirdrátt í vexti á mánuði í krónum talið? Hversu lengi er bankinn þannig að ná peningunum sínum til baka? Og svo kannski fær hann þetta bara margfalt til baka er það ekki? Því margir spenna sig endalaust á yfirdrætti og komast aldrei í það að greiða neitt niður af höfuðstólnum?  

Andrea J. Ólafsdóttir, 31.1.2007 kl. 20:36

18 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Fyrirgefðu Guðmundur, ég get ekki orða bundist.

Langloku-haukur er greinilega einn af þeim sem notið hefur góðs af góðærinu. Það má vel vera að margt sé satt í skrifum hans því ekki nenni ég að tína upp rangfærslurnar til að gera pistilinn ólæsilegan. Hitt vil ég benda á að Íslenskt hagkerfi er lítið og þolmörkin þar af leiðandi þröng.

Það eru margar leiðir til að ávaxta peninga. Það er einmitt það sem bankarnir gera. Peningar verða ekki til úr engu. Og haukur telur vonandi ekki að þeir komi bara utan úr buskanum... Bara frá útlöndum, af því að allir séu svo hrifnir af Íslandi og íslenskir bankamenn séu svo klókir fjárfestar og viðskiptamenn.

Það er vaxtamunurinn sem haukur bendir réttilega á að er óeðlilegur. Seðlabankinn er leiðbeinandi. Samt er hann eini bankinn sem engum hagnaði skilar. Nú veit ég ekkert um seðlabanka en ég veit að hann hefur átt fullt í fangi með að halda genginu upp með handafli meðan allt féll í frjálsu falli. Allir aðrir veðjuðu á fallið og tryggðu sér gjaldeyrisforða. Samkennd hefði verið að halda að sér höndum og sýna umheiminum fram á annað. En þá hefði enginn grætt svona mikið. Allir hefðu beðið jafnan skell ef einhver hefði verið.

Bankarnir bera enga samfélagslega ábyrgð. Ef gengið fellur, græða bankarnir. Ef einstaklingurinn verður gjaldþrota, hirðir bankinn sitt og afskrifar restina. Bankinn græðir alltaf og áhættan er engin. Ríkið ábyrgist starfsemina.

Hins vegar er auðvelt að hafa áhrif á eftirspurnina eftir krónunni.

Erlendir fjárfestar vilja gjarnan ávaxta sína peninga á hávaxtaumhverfi. Áhættan er gengisáhætta. Milliliðirnir eru íslensku bankarnir. Hvað gerist svo þegar fjárfestar innlendir jafnt sem erlendir hafa ávaxtað milljarðana sína um 10-16% (hóflega áætlað)? Þeir innleysa hagnaðinn og sækja á önnur mið til að þurfa ekki að borga fjármagnstekjuskatt. Krónan veikist í takt við markaðslögmálið um framboð og eftirspurn. Ef taugaveiklun grípur um sig fylgir í kjölfarið hrina smákaupmanna sem allir í örvæntingu reyna að losa sig við krónur. Krónan fellur enn. Þeir sem voru nógu forsjálir að eiga erlendan gjaldeyrisforða eru í góðum málum. Vitandi það að nú er hægt að kaupa krónur á kosta kjörum og fá fleiri krónur fyrir erlendu myntina en fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan. Nú er ráð að fjárfesta og styrkja á ný tiltrú kaupenda á markaðinum. Eftirspurn eykst og krónan styrkist á ný. Ávöxtun. Er þetta ekki snjallt. Bjargi sér hver sem betur getur, skipið sekkur. Seðlabankinn einn við árar. Tær snilld.

íslenskt hagkerfi minnir um margt á rannsóknarstofulíkan sem unnt er að leika sér með í smækkaðri mynd og þar geta fjármálasnillingarnir sýnt snilli sína.

Nú eru menn með milljarða í vasanum og til að komast hjá fjármagnstekjuskattinum þarf að fjárfesta og kaupa meira. Fara með fullar hendur fjár og kaupa í næstu nágrannalöndum og staðgreiða.

Ríkið fær sína 10% fjármagnstekjuskatta af hagnaði eftir að veisluhöld og aðrar velgjörðarsamkundur, launakostnaður og allur mögulegur og ómögulegur risnukostnaður við rekstur banka og fjármálastofnana hefur verið gerður upp með bókhaldsbrellum.

Þetta er einungis ein leið af mörgum. Enda er ég augljóslega enginn fjármálaspekúlant.

Ég er stoltur af Íslendingum og gleðst yfir velgengninni en ég hef af því áhyggjur að það er ekki holt fyrir samfélagið þegar hópurinn verður of sundurleitur. Við erum jú öll sama sortin og 70% vatn þegar upp er staðið.

Gamall nöldurseggur, 31.1.2007 kl. 22:06

19 identicon

Það mætti benda á í samhengi við það sem Agnar Freyr fjallaði um í sinni athugasemd og pistlum, að raunvextir óverðtryggðra lána hér á landi frá 1990 hafa verið um 2% hærri að jafnaði en raunvextir verðtryggðra lána, skv. gögnum af Hagstofu Íslands. Eitt af því sem lagt hefur verið til grundvallar hærra atvinnuleysi í Evrópu (fyrir utan óskynsamlega stofnanaumgjörð) er einmitt hækkun raunvaxta innan álfunnar. Áhættuþóknunin sem rukkuð yrði við afnám verðtryggingar myndi hækka raunvexti og að líkindum einnig það atvinnuleysisstig sem búast mætti við, ef jafnvægi ríkti í þjóðarbúskapnum.

Hörður G. (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband