Leita í fréttum mbl.is

Bakþankar 6.janúar

Lán og ólán

Ég man eftir því að fyrir rúmum tveimur árum – árið 2004 – voru fjármál heimilanna á hvers manns vörum, einkum síðari hluta ársins. Mikið var talað um það að landsmenn allir ættu að ráðast í það þarfa verkefni í sínu heimilishaldi að skuldbreyta og endurfjármagna og hvað það var allt saman kallað, á nýjum og betri lánum. Boðið var upp á 4,15% vexti og 90% veðsetningarhlutfall. Fólk átti að útrýma yfirdráttarskuldunum og hvaðeina, enda ekkert vit í öðru.

ÍSLENDINGAR urðu á einni nóttu sérfræðingar í lánaviðskiptum, eftir að hafa verið nokkrum árum áður um stutt skeið sérfræðingar í hlutabréfaviðskipum. Boðið var upp á allar mögulegar tegundir lána í auglýsingum sem dundu á okkur frá lánastofnunum allt haustið 2004. Svo mikil var eftirspurn lánastofnana eftir lánaviðskiptum að ég man ekki betur en gert hafi verið grín að því ástandi í skaupinu það árið. Bankastjóri var þar látinn tæla skúringarkonu bankans, að mig minnir, inn á kontor til sín til þess að bjóða henni lán.

ÉG tala um árið 2004 eins og það sé óralangt í burtu. En svo mikill er hraðinn á Íslandi að í raun og veru er árið 2004 orðið stjarnfræðilega langt í burtu, ef maður spáir í það. Vextirnir sem okkur buðust þá eru minning ein –  lesa má um þá í þjóðsögum – og 90% lánshlutfallið er varla til lengur, horfið og farið eins og dularfullt fyrirbrigði á himni. Hvar er það? Hvert fór það?

EFTIR allt lánauppboðið, hvatt áfram og dásamað af hinu opinbera, gína við okkur a.m.k. tvær æði vandasamar flækjur: Annars vegar himinhátt húsnæðisverð og hins vegar skuldsettur almenningur með hærri yfirdrátt á herðunum en nokkru sinni og á hærri vöxtum en nokkru sinni. Heimilin greiða nú í yfirdráttarvexti sömu upphæð og rennur til vegamála á ári hverju, samkvæmt nýjustu tíðinum. Varla var það þetta ástand sem stefnt var að, en svona getur atburðarásin leikið okkur grátt ef menn gæta ekki að sér. Ekki margir rifja nú upp kosningaloforð sem gefin voru um 90% lán, enda voru þau fyrirheit mestmegnis til þess gerð –sýnir reynslan—að pissa með skammgóðum vermi í buxurnar.

OG hitt er jafnvel enn verra: Ég sé ekki betur en að ungt fólk hafi hér verið leitt í stórbrotna gildru. Húsnæðisverðið var keyrt upp með auknum lánamöguleikum og betri lánskjörum til þess eins að draga svo úr kjörunum aftur, en skilja verðið eftir í skýjunum.  Nú standa þeir sem þurfa að kaupa fasteign í fyrsta skipti frammi fyrir nærri ókleifum múr: Himinháu fasteignaverði og aðeins 70% lánum, með fáum undantekningum þó.

LÆRDÓMURINN sem við verðum að draga af þessu er auðvitað sá að það verður að sýna ábyrgð og festu í efnahagsmálum. Það má ekki bara sparka af stað á einum hausteftirmiðdegi árið 2004 einhverjum ógurlegum lánskjörum í skamman tíma með húrrahrópum og taka þau svo til baka. Menn verða að vita hvert þeir eru að fara.

(Birtist sem Bakþanki í Fréttablaðinu 6.janúar 2007)


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband