Leita í fréttum mbl.is

Bakþankar 16.des

Skelfirinn

Um þessi jól skilst mér að öll börn verði að eignast hinn margumtalaða Skelfi, sem er fjarstýrt vélmenni með klær. Skelfirinn getur rifið sig í gegnum gras og tætt sig í gegnum snjó. Hann fer um á ofsahraða og getur jafnvel hjúpað sig skel svo ekkert fái á honum bjátað.

SVONA dálítið eins og góðir stjórnmálamenn eiga að geta gert.  

EKKI fylgir sögunni við hvað börnin eiga að berjast með þessu fyrirbæri, en látum það liggja milli hluta. Hugsanlega væri sniðugara að senda gám fullan af Skelfum suður til Palestínu. Í vikunni var greint frá því að börn á Vesturbakkanum hefðu gert uppreisn gegn fullorðna fólkinu og krafist þess að það hætti þessum vitleysisgangi og einbeitti sér frekar að því að búa þeim örugga og friðsæla framtíð. Þetta fannst mér áhrifamikil frétt og hver veit nema börnin hefðu getað notað svona vélmenni með klær í aðgerðum sínum.

HÉR á landi er svona dóti yfirleitt fjarstýrt ofan í dótaskúffuna í kringum þrettándann og látið dúsa þar þangað til það fer niður í geymslu, án batterís, nokkrum árum síðar. Það eru hin óumflýjanlegu örlög allra fjarstýrðra leikfanga, með klær eða ekki klær, í vestrænum samfélögum frá því neyslubyltingin hófst.  Sum tæki fá jafnvel aldrei að rífa sig í gegnum gras áður en batteríið er tekið.

EN blessuð börnin vilja þetta, enda get ég vel séð hvernig ég sjálfur hefði farið úr límingunum átta ára yfir svona hlut. Ég er samt ekki viss um að ég hefði fengið hann.  Þá var nefnilega viðkvæðið alltaf það að dót af þessu tagi væri svo miklu, miklu ódýrara í útlöndum og því glapræði að kaupa það hérna heima. Svo var treyst á það að barnið, hafandi gleypt við þessum málflutningi foreldranna um lægra verð annars staðar, myndi gleyma áhuga sínum á vélmennum með klær jafnskjótt og jólin væru liðin hjá. Þar með væri vandamálið úr sögunni.

NÚ á dögum sýnast mér foreldrarnir vera hættir að beita þessum árangursríku verðlagsrökum á börnin. Það er áhyggjuefni. Skelfirinn rýkur bara út eins og heitar lummur, samkvæmt fréttum, og er þá alveg sama þótt greint hafi verið frá því að hann kosti einungis 3500 krónur í útlöndum, en allt upp undir 15 þúsund krónur hér.

ÞETTA segir mér eitt. Verðlagið á Íslandi er út úr korti. Vissulega eru 10% tollar á dót og 24,5% virðisaukaskattur og 15% lagt ofan á fyrir flutninginn. En ég á erfitt með að sjá að þessar tölur þýði stökk frá einhverjum þúsundkalli eða tveimur í heildsöluverði erlendis upp í fimmtán þúsund kall hér.  Til þess að ná verðlagi niður þarf augljóslega miklu meira til en að breyta bara álögunum. Það þarf líka að búa til stemmninguna, hugarfarið. Taka aftur upp verðlagsrökin á börnin. Efla aðhald, kostnaðarvitund, samkeppni.

OG það er vissulega eitthvað sem góðir stjórnmálamenn eiga að geta gert, ef þeir fá batterí.




Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband