Leita í fréttum mbl.is

Bakþankar 9.des

Útvarp Reykjavík

Ég er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem vilja standa vörð um Ríkisútvarpið og hafa það sem öflugast. Ég er líka einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem vilja reyna með öllum ráðum að efla samkeppni og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Ný löggjöf um Ríkisútvarpið, ef hún heppnast á endanum, er lykillinn að þessu tvennu.

ÖFLUGT Ríkisútvarp á að setja viðmiðið í faglegri dagskrárgerð. Hins vegar má hið öfluga Ríkisútvarp ekki soga til sín of mikið af auglýsingatekjum á frjálsum markaði þannig að samkeppnisaðilar fái ekki þrifist. Ég bjó í Bretlandi. Þar er BBC. Öflugur ríkismiðill sem er ekki á auglýsingamarkaði. Miðill sem setur mælikvarðann, býður upp á frábæra fréttaskýringaþætti, innlenda dagskrárgerð og fræðsluefni, en tekur ekki frá öðrum.  Hinir sjá um Desperate Housewives, 24 og Hollywoodmyndirnar, auk þess að bjóða líka upp á innlenda dagskrárgerð, fréttir og fræðsluefni, ef þeim sýnist svo. Stundum betri jafnvel en hjá BBC.

ÞANNIG vil ég hafa það. Rúv á að vera hið íslenska BBC.  Það er vel raunhæft. Rúv nýtur velvildar. Íslendingar vilja hafa Rúv og eiga það saman. Næsta skref er einfaldlega að efla það, losa það undan flokkapólitískum áhrifum og halda áfram.

ÖNNUR mikilvæg ástæða, burtséð frá hugsjóninni um heilbrigðan fjölmiðlamarkað, til þess að efla Rúv og vera ekki að hringla með það of mikið er sálfræðileg. Við skulum segja að hún sé þjóðarsálfræðileg.

Á tímum þegar Eimskip hét einu sinni Eimskip en hét svo Avion Group og nú aftur Eimskip, þegar Icelandair hét einu sinni FL Group og svo aftur Icelandair, þegar Íslandsbanki heitir allt í einu Glitnir, Skyr verður Skyr.is, enginn veit lengur hvað Hvannadalshnjúkur er hár né heldur Hekla, þegar enginn veit lengur nöfn á byggðalögum á Íslandi vegna þess að það er búið að breyta þeim öllum – Fjarðarbyggð, Árborg, Vesturbyggð, Ægisborg (nei, það er leikskóli, afsakið) – þegar húsnæðislán eru einn daginn 90% og annan daginn 70%, þegar krónan sveiflast eins og jójó, þegar sjónvarpsstöðvar, dagblöð og tímarit koma og fara (sem er gott og blessað, en það tók mig samt smá tíma að útskýra fyrir ömmu að NFS er hætt) og þegar jafnvel sjálfir jöklarnir eru að yfirgefa okkur –og sumir segja Golfstraumurinn--, á tímum þegar fjölskyldumynstrið er svo brotið að sumir eiga tvo pabba, tvær mömmur, fjórar ömmur og fjóra afa og kannski tvær fyrrverandi mömmur, plús sjö hálfsystkini, að þá er bara svo ofsalega mikilvægt – svo gríðarlega, ólýsanlega mikilvægt – að hafa einhvern fastan punkt í veröldinni, eitthvað sem er alltaf til staðar, fylgir manni í gegnum lífið og er ekki að fara neitt.

ÞANNIG fyrirbæri er Ríkisútvarpið.  Bara þessi rödd, þessi kynning, þessi orð: “Útvarp Reykjavík, klukkan er tuttugu mínútur gengin í eitt. Fréttir.”




Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband