Leita í fréttum mbl.is

Ferð á Ölkelduháls

img_2684_1.jpg
Íslenskir fjallaleiðsögumenn buðu stjórnmálamönnum í ferð á Ölkelduháls á sunnudaginn. Samfylkingarfólk fjölmennti. Þetta var hressandi göngutúr. Áformað er að virkja á svæðinu, sem er í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar. Ferlið er farið af stað og íslenskir fjallaleiðsögumenn reyna að spyrna við fótum. Þarna gefur að líta mikil náttúruundur, bullandi hveri af öllum stærðum og gerðum. Fjallaleiðsögumenn benda á að svæðið er á miðri vinsælli gönguleið og nýtur sívaxandi áhuga ferðamanna. Það er hins vegar dæmigert fyrir æðibunuganginn í virkjanamálum að eina könnunin á áhuga ferðamanna, sem liggur til grundvallar virkjunaráformum á Ölkelduhálsi nú, var gerð fyrir fimm árum og þá í tengslum við Hellisheiðarvirkjun. Fjallaleiðsögumenn telja réttilega óviðunandi að hún verði látin næga. Í henni var jafnframt bannað að spyrja útlenska ferðamenn, sem verður að teljast nokkuð merkilegt. Þegar er búið að lauma tveimur borholum á svæðið á forsendum tilrauna, og virkjunin komin á teikniborðið, á leið í umhverfismat. Það er einmitt þetta sem fer í taugarnar á mönnum eins og mér: Það er alltaf verið að laumast í virkjanaframkvæmdir í skugga nætur, bakdyramegin, og áður en maður veit af er allt búið og gert. Mega því Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa þökk fyrir ferðina á sunnudaginn. Hún opnaði augu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðmundur, fyrir það fyrsta vil ég hrósa þér fyrir bloggsíðuna þína, skemmtileg og áhugaverð lesning.  Ég fékk sjokk í síðasta mánuði er við hjónin vorum að keyra austur fyrir fjall, (hafði ekki farið þá leið lengi), er við nálgumst Hveradali fékk litla borgarhjartað í mér sjokk, við mér blasti þvílíkur viðbjóður á vinstri hönd, hitaveiturör um allt,skelfilegar byggingar og framkvæmdahörmung beint við þjóðveg 1 fyrir allra augum. Hvar var Ómar þegar þetta var sett á laggirnar, hvar voru náttúruverndasinnar, hvert fór siðferðiskenndin! mér er spurn!.  Eitt er að vera með framkvæmdir uppá örævum sem enginn sér, en að trana þessu beint við þjóðveginn er bara skömm, þvílíkt lýti í íslenskri náttúru og það án þess að þurfa að fara í heljarinnar fjallgöngur til að leyta af þvi! Svo eru stollt skilti Orkuveitu Reykjavíkur um allar tryssur eins og ekkért sé.  Ég tuðaði um þetta við manninn minn alla leið til Eyja,svo mikið fékk þetta á mig.

p.s ágætt væri ef einhver gæti upplýst mig um hvað málið snýst og einnig..........var ekki hægt að setja þetta neðanjarðar eða skreyta með blómum og ljósaseríum þannig að skárra væri að horfa á þetta.

Varð bara að koma þessu frá mér og fannst þín bloggsíða tilvalinn vettvangur til þessa. 

Sandra (IP-tala skráð) 21.11.2006 kl. 10:23

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála Söndru. Ég var á landinu í sumar og fékk hálgert taugaáfall við að keyra austur fyrir fjall. Það virðist vera að algert tillitsleysi við náttúru landsins sé ríkjandi. Verst er a það virðist enginn flokkur vera tilbúinn til að taka á þessu, nema kannski VG.

Villi Asgeirsson, 21.11.2006 kl. 17:37

3 identicon

Mér skilst nú að töluverð vinna hafi verið lögð í að hanna einhvers konar felugalla á pípurnar. (Aulahúmorsviðvörun:) Það er semsagt í pípunum að gera eitthvað í þessu.

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 21.11.2006 kl. 22:54

4 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Jamm. Það er búið að grafa þarna allt sundur og samar. Við eigum að gera eins og Norðmenn og grafa allt saman í jörð og skilja við ysta lagið nákvæmlega eins og við komum að því. Árni Finnsson skrifaði um þetta ágæta grein í Mogga fyrir ári síðan eða svo. (Grínviðvörun:) Að öðru leyti, eins og því að fara að sofa kl. átta og borða kvöldmat kl. fjögur, eigum við ekki að gera eins og Norðmenn.

Guðmundur Steingrímsson, 22.11.2006 kl. 00:57

5 identicon

Mikið er ég fegin að einhverjir eru mér sammála í þessu,en hneykslanlegt er að enginn segir neitt og lætur þetta bara sem vind um eyru þjóta, við bara tautum og tuðum um þetta í bloggneðanjarðarheiminum í stað þess að fjölmenna á staðinn,hlekkja nokkra valinkunna ráðamenn/konur við rörin með áföst rauð kúlunef og grílukerti í nös og sjá hver útkoman verður!

Ætli árekstrum hafi fjölgast á þessu svæði. þ.e þegar ráðamenn aka þarna um og loka augunum þar til á kambana er komið! Mér er spurn!

Sandra (IP-tala skráð) 22.11.2006 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband