Leita í fréttum mbl.is

Hugtak helgarinnar

Tæknileg mistök Árna Johnsen voru umræðuefni helgarinnar, hvar sem borið var niður. Á Sykurmolatónleikum í Höllinni notaði Einar Örn hvert tækifæri til þess að skjóta hugtakinu að, við mikla kátínu. Sagði Sykurmolana vera tæknileg mistök. Bubbi Morthens talaði um sín tæknilegu mistök í ræðustól á Eddunni. Fólk hló. Í samtölum helgarinnar leið aldrei á löngu þar til talinu var einhvern veginn beint að einhvers konar tæknilegum mistökum og hlegið hrossahlátri í kjölfarið. Þetta var aðalumræðuefnið í laufabrauðsbakstrinum hjá mömmu á laugardaginn. Sumar kökurnar voru sagðar tæknileg mistök og voru borðaðar á staðnum. Ég spái því að þetta hugtak, tæknileg mistök, verði mikið tekið í vetur. Einna bagalegast verður það auðvitað fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þurfa að búa við það núna í marga mánuði að háðsglósum um tæknileg mistök verður klínt á flokkinn við hvert einasta tilefni. Þar er Árni karlinn búinn að gera flokknum enn eina skráveifuna. Mesta skaðann gerði hann þó sjálfum sér. Ég hef kenningu: Ég held að stór þáttur í því að Árni landaði öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi hafi verið sá, að stór hluti kjósenda var búinn að gleyma í hverju glæpir hans fólust nákvæmlega. Flestir mundu óljóst eftir atburðarásinni. Enginn hafði lagt sig fram við að rifja hana sérstaklega upp. Það sem Árni gerði hins vegar með hinni mjög svo umdeilanlegu notkun sinni á hugtakinu tæknileg mistök (í kjölfar notkunar Ísraelsmanna á sama hugtaki, sem er athyglisvert) var einkum fólgið í því að hann beindi sjónum almennings skilmerkilega og af alkunnum krafti að glæpum sínum enn á ný. Ekkert bindi, sama hversu flott, mun bæta fyrir þá katastrófu sem hér hefur orðið út frá sjónarmiðum almannatengsla. Allt hefur verið rifjað upp, lið fyrir lið. Og það sem meira er: Ýmislegt annað, í umræðum helgarinnar, rifjaðist upp líka af þessu tilefni. Þegar ég stóð úti í sal á Sykurmolatónleikunum og skemmti mér konunglega rifjaðist til dæmis upp fyrir mér og viðmælanda mínum-- undir tali Einars Arnar um Árna -- að Árni hefur hvorki meira né minna en gengið í skrokk á þremur tónlistarmönnum af litlu tilefni á undanförnum árum: XXXRotweilerhundum, Hreimi og Páli Óskari. Svona er maður fljótur að gleyma. Þann síðasttalda sló Árni vegna þess að hann var kyssa kærasta sinn (líklega út af tæknilegum mistökum að mati ÁJ). Auðvitað eru allir menn breyskir og allt það. Leiðindahlutir gerast. En nýjasta hugtakanotkun hins skapbráða trúbadors hjálpaði sem sagt mjög mörgum að muna að Árni er vissulega með þeim breyskari. Engan annan stjórnmálamann þekki ég sem fengi að komast upp með það að hafa slegið til yfirlýsts homma vegna samkynhneigðar hans. Ekki beint talandi dæmi um víðsýni. Það gamla almannatengslafíaskó getur Árni þó hugsanlega bætt fyrir: Hann gæti farið um kjördæmið með gítar og sungið hið alkunna baráttulag samkynhneigðra: I will survive. Oft er þörf, nú er nauðsyn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru ekki of margir hljómar í "I will survive" fyrir hann Árna okkar ?

H

Hrannar Ingimarsson (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 18:00

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Ekki gleyma heldur "ákeyrslunni" sem Árni lenti í dómsal við tökumann sjónvarpstöðvar. Þar voru líka stór "tæknileg mistök" í gangi .

Og varðandi hljómagang, Atti Katti Nóa er meira að segja "tæknilega" of flókið fyrir Árna  

Bragi Einarsson, 20.11.2006 kl. 18:24

3 identicon

Réðist ekki Árni líka á Össur Skarphéðinsson á þingi um árið?

G (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 19:31

4 identicon

Manninum er greinilega laus höndin (no pun intended). Held að fyrstu fréttir af ofbeldishneigð Árna hafi verið um árið þegar hann kíldi einhvern kaldan og sagðist hafa heilsað að sjómannasið. Þurfti víst að biðja sjómenn landsins afsökunar í kjölfarið. Held að það sé fjallað um þetta í Öldinni okkar. Og er I will survive ekki um fórnarlamb barsmíða (líkamlegra eða andlegra)?
Reynir Þór Eggertsson

Reynir (IP-tala skráð) 21.11.2006 kl. 21:07

5 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Það hlaðast upp dæmin um alls konar misheppilega atburði í lífi Árna. Spurning um að setja þetta upp í tímalínu. Jú, I will survive er náttúrlega meira um fórnarlömb en gerendur, rétt hjá þér Reynir, en Árni hefur jú stundum farið í fórnarlambsbúninginn og Geir Haarde sagði til dæmis á sínum tíma að hann hefði "lent í þessu". Klárlega fórnarlamb.

Guðmundur Steingrímsson, 22.11.2006 kl. 01:03

6 identicon

Jú, margur heldur nefnilega mig sig, þannig að það færi sérlega vel á því að fórnarlambið Árni Johnsen tæki I will survive. Veit samt ekki hversu velkominn hann yrði á Gay Pride hátíðina ;)
Og Gummi, mér líst afskaplega vel á að atburðir í lífi Árna, smáir og stórir, verði settir á tímalínu. Þá sæi fólk líka hve langt væri á milli þeirra fáu þingsályktunartilagna og frumvarpa sem hann tók þátt í að leggja fram á Alþingi. Og nú man ég ekki nákvæmlega hvernig það var.
Var það hann sem kaus fyrir aðra eða lét hann stundum félaga sína kjósa fyrir sig?

Reynir Þór Eggertsson (IP-tala skráð) 22.11.2006 kl. 14:24

7 identicon

 Árni á langann og skrautlegan feril.  Mig langar að rifja upp sögu úr eldri kantinum eða frá miðjum áttunda áratugnum
Þegar ég var í Stýrimannaskólanum, héldum við kynningar- og fræðslufund um björgunarbúnað í hátíðarsal skólans. Fundurinn var fjölsóttur og meðal þeirra sem fluttu fróðleg erini voru söluaðilar björgunarbúnaðar. Skyndilega fór allt úr böndum  þegar Árni kýldi annan Ólsen bræðarana úr Keflavík en þeir höfðu unnið sér það til óhelgis að framleiða sleppibúnað fyrir björgunarbáta og voru þar með í samkeppni við fyrirtæki úr Vestmannaeyjum.  Maðurinn vankaðist illilega enda var þetta bylmingshögg.  Árni kallaði þetta ekki "tæknileg mistök" heldur sagðist hann hafa verið að "heilsa að sjómannasið" og skapaði sér mikla andúð sjómanna fyrir vikið.  Meðal þeirra sem mótmæltu þessu orðalagi voru stéttafélög sjómanna og nemendafélag í sjómannaskólanum, sem töldu þessa hugtakanotkun villandi og beinlínis meiðandi fyrir stéttina. Á endanum var þetta fyrirgefið  eins og hvert annað  kjördæmapot.  

Sigurður Þórðarson 

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 24.11.2006 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband