Leita í fréttum mbl.is

Guðlaugur og upplýsingar

Nýkrýndur leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna, Guðlaugur Þór Þórðarson, er nú sakaður um að hafa nýtt sér upplýsingar úr flokksskrá Sjálfstæðisflokksins, sem aðrir frambjóðendur höfðu ekki, til að afla sér fylgis. Ég giska á að Guðlaugur eigi eftir að vísa þessum ásökunum á bug. Raunar tel ég að hér sé um úrslitaatriði að ræða fyrir stjórnmálaferil Guðlaugs. Svör hans, og hversu sannfærandi þau eru, munu ákvarða hversu hátt hann skorar á heiðarleikaskalanum hér eftir. Ef Guðlaugur reynist sekur um að nýta sér upplýsingar sem aðrir höfðu ekki, en hann aflaði sér með óprúttnum og hugsanlega ógeðfelldum (orð tekin að láni frá Geir H. Haarde) aðferðum, munu þau kaldhæðnislegu umskipti óneitanlega verða í hugum margra, að Guðlaugur ekki bara sigrar Björn Bjarnason í prófkjöri heldur tekur einnig við stöðu hans í kjölfarið sem ákveðinn leynimakkari íslenskrar pólitíkur, og þá hugsanlega sínu verri en fyrirrennari sinn. Því þótt Björn hafi -- og nú hafa þau tíðindi sem sagt gerst að tilhlýðilegt er að tala um hann í þátíð í samhengi stjórnmálanna -- sýnt því mikinn áhuga að stofna leyniþjónustu, sem aflaði ýmissra upplýsinga um Íslendinga, hefði Birni ekki verið trúandi -- skrattakornið -- til þess að nýta sér til dæmis slíkar upplýsingar, sem hann gæti aflað sér, sjálfum sér til framdráttar. En nú vaknar vissulega spurningin: Hvað með Guðlaug?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Frekar þykja mér aðdróttanir þínar í garð Guðlaugs Þórs ógeðfelldar. Ég hélt að menn sem væru í framboði reyndu fyrst og fremst að tíunda eigin mannkosti og bera á borð fyrir hugsanlega kjósendur.

Er það ekki full bratt að ráðast á GÞÞ með þessum hætti?

Þetta er ef til vill þín aðferð við að kynna þína "kosti".

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.11.2006 kl. 10:43

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sælir. Þetta aðdróttunartal í allar áttir er farið að verða ansi fyndið. Þetta er ekki aðdróttun í garð Guðlaugs. Ég segi skilmerkilega að hann muni vafalaust vísa þessu á bug. Pistill minn fjallar um mikilvægi þess fyrir hann, sem pólitíkus, að það takist vel og skilmerkilega. Það er ekki aðdróttun. Það er mat á stöðu. Varðandi hitt: Ég reyni vissulega að tíunda mína eigin kosti í framboði mínu, en ég stend nú samt í þeirri trú að bloggsíða sem einungis snérist um það að tíunda kosti höfundar yrði ansi leiðinleg.

Guðmundur Steingrímsson, 1.11.2006 kl. 11:59

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sæll Guðmundur og bestu þakkir fyrir mjög góða og vandaða pistla í Fréttablaðinu og víðar.

Já þetta er allt saman mjög einkennilegt. Í Blaðinu í dag (1.11.bls.4) er haft eftir Guðlaugi: „Línan var að dreifa styrkjunum þannig að það sé ekki einn aðili sem beri þetta uppi“. Hvað á þessi Guðlaugur við með þessu?

Nú er hann orðinn stjórnarformaður Orkuveitunnar en áður var hann með kollinn stútfullan af vangaveltum um Línu-net. Það skyldi þó ekki vera að Lína-net sé orðinn einn styrktaraðilinn í kosningabrallinu? Alla vega átti það fyrirbæri að mala gull dag og nótt eftir að tekjumöguleikar þess urðu mjög miklir. En skyndilega hvarf það einhverra hluta vegna sjónum venjulegra manna.

Nú er bráðnauðsynlegt að allir stjórnmálamenn ljái máls á því að opna bókhaldið, geri þjóðinni grein fyrir uppruna og notkun þess fjár sem þeir fá til starfssemi sinnar. Ef ekki þá leyfir Mosi sér að líta svo á, að sá stjórnmálamaður sé kominn ansi nærri spillingarfeninu sem hann kann kannski að sogast skyndilega í.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 1.11.2006 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband