Leita í fréttum mbl.is

Björn

bjorn.jpg
Um helgina kemur í ljós hver staða Björns Bjarnasonar er í íslenskum stjórnmálum. Líklega hefur aldrei verið sótt jafnhart að honum innan síns eigin flokks og núna. Ungir gallharðir menn eru að reyna að olnboga sig framhjá honum til frekari metorða. Ég man þegar fregnir bárust af því fyrst að Björn Bjarnason væri á leiðinni í pólitík fyrir ríflega tíu árum. Ég hafði góða tilfinningu fyrir því. Ég taldi, algerlega að óreyndu, að þar færi víðsýnn maður sem kæmi með nýja strauma inn í íslenska pólitík. Víðlesinn blaðamaður með bloggsíðu. Einn fyrsti bloggarinn á Íslandi. Eftir því sem á leið, hins vegar, komst ég smám saman að raun um það hversu afskaplega pólitískur Björn Bjarnason er. Sem formaður Stúdentaráðs á sínum tíma átti ég einn fund með honum. Hann fjallaði m.a. um fyrirkomulag félagsgjalda að Stúdentaráði. Maður hefði haldið að slíkt mál væri ekki eitthvað sem háttvirtur menntamálaráðherra liti á sem stórmál eða eitthvað til að æsa sig út af. Fundurinn endaði í hálfgerðu karpi. Mér leið eins og ég væri að rífast við stúdentaráðsfulltrúa Vöku niðri í Félagsstofnun. Þetta varð síðasti og eini fundurinn á milli okkar og ég hef oft hugsað um það síðar hversu fáránlegt það var að menntamálaráðherra skyldi ekki getað talað af yfirvegun og án pólitísks skotgrafahernaðar við gutta úr Háskólanum. Eftirmaður minn í embætti, Villi Vill, lenti í svipuðum vanda með ráðherrann. Ráðherrann var í raun fulltrúi Vöku í embætti. Og við vorum í Röskvu. Þessi kynni okkar vinstri stúdentanna við ráðherrann opnuðu augu mín fyrir því að Björn Bjarnason virðist sjá veröldina svart hvíta, svo það sé orðað kurteislega. Í henni eru hann og stuðningsmenn hans, og svo hinir. Mörgum árum síðar hafði ég umsjón með helgarefninu á Fréttablaðinu og Kolla Bergþórs fór og tók við Björn viðtal. Það var ágætt viðtal. Ein yfirlýsing Björns vakti undrun margra, án þess að hún kæmi beinlínis á óvart. Björn sagði að hann hefði aldrei efast um skoðanir sínar. Aldrei. Við settum þetta í fyrirsögn. Ég man að ég hugsaði: Hvernig manneskja þarf maður að vera til þess að efast aldrei um skoðanir sínar? Ég held ég efist á hverjum degi. Þannig hefur Björn alltaf verið ákveðin ráðgáta í mínum huga. Um daginn sá ég svo heimildarmyndina Power of Nightmares eftir Adam Curtis. Þar var m.a. farið yfir feril neo-conservatistanna í Bandaríkjunum, Donalds Rumsfelds og Paul Wolfowitz og þessara gaura. Sýnt var fram á hvernig veröld þeirra er líka svarthvít. Þeir og hinir. Allt gengur út á að eiga óvin. Óvinurinn -- Sovétríkin, Írak etc. -- hefur alltaf þjónað þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirrar eigin íhaldssömu hugmyndafræði heima fyrir. Heimspekilegi grunnurinn að þessu liggur í Heidegger og Leo Strauss. En hvað um það: Ég hugsaði, Björn er nákvæmlega svona stjórnmálamaður. Hann er ný-íhaldsmaður. Þrífst á óvinum. En ef út í það er farið: Ég held reyndar líka að mínar stjórnmálahugsjónir þrífist dálítið á því að hafa menn eins og hann í pólitík-- þó svo ég byggi ekki á því heila hugmyndafræði -- því fáum er ég meira ósammála.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Ég er skíthræddur við menn sem efast aldrei um sitt eigið ágæti og skoðanir sínar. Þeir hljóta að vera hættulegir sjálfum sér og öðrum, þegar þeir ná í áhrifastöður.

En Björn verður búinn að vera 16 ár á þingi í vor, ráðherra í 12 ár. Einnig er hann fæddur 1944. Er ekki kominn tími á kallinn og hann verður sleginn eitthvað aftarlega.

kv

Sveinn Arnarsson, 25.10.2006 kl. 16:15

2 Smámynd: Bragi Einarsson

Þegar Davíð hætti, mátti hann alveg taka með sér frjálshyggjuíhaldið með sér! Mér sýnist á umræðunni að menn líta vonaraugum á Geirsblokkina og voni að harðir íhaldsmenn fari nú fækkandi í Sjálfstæðisflokknum. Hann losaði sig við Kjartan úr Valhöll og Hannes Hólmsteinn er eins og draugurinn af sjálfum sér þessi misseri! Björn er illa haldin af Rumsfíld-syndrómi!

Bragi Einarsson, 26.10.2006 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband