Leita í fréttum mbl.is

Vín í búðir (20.10.07)

Nú hefur háttvirtur þingheimur setið á rökstólum í upp undir viku um það hvort að léttvín og bjór eigi að vera selt í matvöruverslunum. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að sitja inni í þingsal og hlýða á röksemdir hinna stríðandi fylkinga og jafnvel taka lítillega þátt í þeim undanfarna daga. Vitnað er í Biblíutexta, markaðsrök, kannanir og rannsóknir. Spurt er: Fer allt til fjandans ef léttvín og bjór fer í matvöruverslanir?

ÉG tel svosem ekki að framtíð þjóðarinnar velti á þessu máli, en er þó fremur fylgjandi tillögunni Aðeins tvítugum yrði leyft að afgreiða vínið og það yrði bannað að selja það eftir átta. Þetta þýðir í praxís að inni í búðunum yrði áfengissalan alltaf afmörkuð, sem er ósköp svipað og það er núna.

ÞAÐ er margt í þessu máli. Ég held að Íslendingar hafi mjög gaman af því að tala um áfengi. Ég held líka að Íslendingar þrífist dálítið á því að viðhalda ýmsum klisjum um sig og áfengisneyslu. Til dæmis grunar mig, að þjóðarsálin vilji mjög sterklega upplifa sig sem drykkfellda – og því verði að passa sérstaklega upp á okkur þegar áfengi er annars vegar – jafnvel þótt ýmislegt sé ekki alveg á hreinu hvað varðar þannig fullyrðingar.

ÞVÍ er til dæmis haldið fram að vínsala og þar með víndrykkja hafi aukist undanfarin ár. En þá velti ég fyrir mér, sem ég sé ekki að nokkur hafi svarað, hvort að inni í þeirri tölu sé tekið tillit til þeirrar æpandi staðreyndar að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega og eru orðnir um 400 þúsund á ári. Kaupa þeir ekki vín? Getur verið að drykkja þeirra sé skrifuð á okkur?

SVO er sagt að aukið aðgengi, eins og það er kallað, muni auka neyslu. En þá spyr ég á móti: Kaupa ekki Íslendingar þegar nokkurn veginn allt það vín sem þá langar í? Er ekki aðgengið þegar það gott? Það getur auðvitað vel verið að breytt neyslumynstur hafi í för með sér aukna neyslu, en það eru líka tvær hliðar á því: Ef allir drykkju tvö glös af rauðvíni á dag, sem er hollt, myndi það líklega hafa í för með sér meiri neyslu í vínandatali. Neyslan yrði hins vegar betri. Málið er ekki endilega hvað við drekkum mikið, heldur hvernig við drekkum það.

Birtist sem bakþankar í Fréttablaðinu 20.október 2007.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband