Leita í fréttum mbl.is

Fólkið á sléttunni (ferð til Kazakstan)

 Birtist í Fréttablaðinu 22.september 2007 í kjölfar þess að ég fór sem kosningaeftirlitsmaður til Kazakstan. 

“Aa! Guðjohnsen! Ég þekki hann!”
Svo hrópaði mjósleginn Kazakstanskur kjörstjórnarmaður á miðjum aldri með gulltennur og yfirvaraskegg í litlu þorpi í Norður-Kazakstan eftir örstutt kynni í gegnum túlk við greinarhöfund. Hann reyndist vera fótboltaáhugamaður.
Þingkosningar fóru fram í Kazakstan í ágúst síðastliðnum, nánar tiltekið þegar menningarnótt var á Íslandi. Greinarhöfundur var á meðal ríflega 400 kosningaeftirlitsmanna á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Þar af komu þrír frá Íslandi, þeir Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður og Högni Kristjánsson sendifulltrúi auk höfundar. Starfið fólst í því að keyra á milli kjörstaða í sveitahéruðum við annan mann, ásamt túlki og bílstjóra, og athuga hvort kosningar færu fram samkvæmt kúnstarinnar reglum.
Nursultan NasarbayevÍ stuttu máli var margt athugavert við kosningarnar, einkum talninguna – eins og ÖSE hefur greint frá. Stjórnmálaflokkurinn Nur Otan, flokkur forseta Kazakstan, Nursultans Nazarbayevs (sjá mynd), hlaut 88% atkvæða og öll þingsætin hvorki meira né minna. Sjö aðrir flokkar buðu fram, en enginn hafði árangur sem erfiði. ÖSE fann einnig að því, að nokkuð skorti á að aðrir flokkar en flokkur forsetans fengju viðhlýtandi fjölmiðlaumfjöllun og auglýsingapláss, sem telst kurteislega orðað.

Jafnstórt og Vestur-Evrópa


Kazakstan er níunda stærsta land í heimi að flatarmáli. Það er á stærð við alla Vestur-Evrópu. Þar búa hins vegar einungis um 15 milljón manns. Landið er því ákaflega strjálbýlt, öfugt við nágrannalandið Kína. Kazakstan liggur á steppunum, þannig að landslagið er mestmegnis endalaus slétta með örfáum litlum fjöllum á stöku stað – og er því ekki hentugt ferðaland fyrir fólk með víðáttufælni – en þó eru fjallgarðar í austri. Í vestri liggur landið að Kaspíahafinu.  Það er til marks um landflæmið, að það tekur um fjóra tíma að fljúga frá austri til vesturs yfir Kazakstan.
Særsta borgin heitir Almaty, en hún var áður höfuðborg landsins, liggur í suðausturhluta þess, að landamærum Kína. Sú borg þykir svo til eina heimsborgin í landinu, er umkringd fjöllum og státar m.a. af mikilli eplarækt, en nafn hennar þýðir bókstaflega Eplaborgin. Epli skipa raunar ríkan sess í þjóðarvitund Kazakstana. Ef það er einhver einn fróðleiksmoli sem er sérstaklega notaður til landkynningar í daglegu tali, þá er það líklega sá, að eplin hafi upphaflega komið frá Kazakstan
Að öðru leyti hefur saga Kazakstan alltaf verið sveipuð mikilli dulúð. Í fornöld sögðu grískir sagnfræðingar frá því að einhvers staðar í austri, þar sem Kazakstan er núna, væri land dreka og ófreskja. Einnig var því haldið fram að Amazónurnar, hinar stríðsglöðu fegurðargyðjur, kæmu frá Kazakstan. Genghis Khan fór líka þeysireið um landið á sínum tíma ásamt fólki sínu, en á tímum Sovétríkjanna og raunar einnig á tímum rússnesku keisaranna var landið alltaf hálffalið. Það var m.a. brúkað til fangabúða og einnig var geimferðaráætlunum Sovétmanna skotið á loft í miðju landinu á sínum tíma, við talsverða leynd.

Forsetinn allsráðandi

AstanaHöfuðborg landsins heitir hins vegar Astana. Þar til fyrir 10 árum eða svo var Astana lítið þorp á miðri steppunni í norðurhluta landsins. Nursultan Nasarbayev tók þá ákvörðun svo að segja einn daginn að gera þetta þorp að höfuðborg. Siðan þá hefur uppbyggingin þar verið gríðarleg og þar rísa gullturnar (sjá mynd), sem eru í þónokkurri andstöðu við hrörlega kofa sveitaþorpanna. Líklega var það snjallt hjá Nasarbayev að færa höfuðborgina. Í gömlu höfuðborginni, Almaty, er nefnilega andstaðan við hann mest og þar var einungis 22% þátttaka í þingkosningunum. Með því að færa höfuðborgina skyldi hann andstæðinga sína eftir og stjórnar öllu flæminu úr sínu eigin hreiðri. Auk þess virðist forsetinn hafa verið nokkuð lunkinn, svo vægt sé til orða tekið, að koma í veg fyrir árangur og uppgang annarra stjórnmálaleiðtoga í landinu almennt með ýmsum ráðum.
Kazakstan er ákaflega auðugt land af auðlindum. Olía, gas, málmar og gull eru þar í jörðu, svo áhugi vestrænna fjárfesta hefur aukist svo um munar og hagvöxtur verið mikill. Nasarbayev er gamall kommúnistaleiðtogi sem náði að lifa af fall Sovétríkjanna og endurskilgreina sig sem mann frjálsræðis og vestrænna viðskiptahátta, að eigin sögn. Þetta hefur bæði aflað honum nánast blindra vinsælda sem og ákafalega mikilla áhrifa í vaxandi viðskiptalífi landsins, en ítök hans í fyrirtækjum eru mikil og auður hans megn.
Forsetinn telst í raun allsráðandi í landinu. Í einu skrefinu í átt til lýðræðis, sem forsetinn hefur flaggað mjög, er til dæmis kveðið á um það að forseti megi einungis sitja í ákveðið mörg kjörtímabil. Hann sjálfur er hins vegar undanþeginn þessu.

Foss, hross og Borat

 “Ég ætla að sýna ykkur foss,” sagði bílstjórinn Vladimir. Hann er Rússi eins og 25% þjóðarinnar. “Við skulum aðeins stoppa og taka myndir.”
fossinn í kazakstanFossinn reyndist ná mér upp að mitti og var ekki breiðari en lærið á mér. Ég hló dálítið að þessu í huganum. Þarna í Norður-Kazakstan, og raunar víðar skyldist mér af afspurn, er satt að segja ekki sérstaklega mikil náttúrufegurð á klassískan mælikvarða, þótt vissulega sé óviðjafnlegt að upplifa alla víðáttuna. Þeim mun fallegra var að heyra hvað innfæddir reyndust stoltir af því litla sem þeir þó geta flaggað. Ef fjöll eru í fjarska – tvö lítil fjöll – kallast þau “fjöllin bláu” og Genghis Khan á að hafa sofið við rætur þeirra. Stór steinn þykir undur og ef þorp liggur að vatni, svo ekki sé talað um skóg, telst það mögulegur ferðamannastaður.
Mikið er borðað af hrossi. Einhvers konar kæst hrossamjólk telst vera mikið lostæti. Matur er kryddaður með salti og pipar og jafnan mikið soðinn. Fólkið er vinalegt og afslappað. Í sveitaþorpunum eru oft illfærir malarvegir og húsin eru hrörleg, utan einstaka bygginga sem jafnan eru blámáluð í anda þjóðfánans. Einu sinni sagði ég stundarhátt við túlkinn, stúlku um tvítugt sem hafði nýlokið enskukennaranámi, að margt í þorpunum minnti mig dálítíð á kvikmyndina hans Borat, þrátt fyrir að vissulega væru í því meistarastykki margar yfirþyrmandi rangfærslur um landið.
BoratÉg fann að þarna hafði ég snert á örlítið viðkvæmu umræðuefni. Henni fannst Borat fyndinn. Það sem mér fannst fyndnast, var að sjá að í Kazakstan – alveg sama hvað Kazakstanar segja – gæti Borat þrátt fyrir allt vel búið, þegar öllu er á botninn hvolft, svona af útliti þorpanna að dæma. Ef Sacha Baron Cohen ætlaði sér að stríða aðeins hinum mikla Nursultan Nasarbayev og gera lítið úr gullturnunum hans í Astana, með því að láta Borat koma frá Kazakstan, að þá er ekki hægt að segja annað en að honum hafi tekist ætlunarverkið.

Ein lítil pólitísk vakning

“Ég ætla ekki að vera lengi í námi,” sagði kazakstönsk stúlka á spjalli. “Í mesta lagi í eitt ár í viðbót, en þá verð ég orðin 22 ára gömul. Þá vil ég stofna fjölskyldu.”
Stúlkan sagði að draumur sinn væri að flytja til hinnar nýju höfuðborgar og fá starf hjá alþjóðlegu fyrirtæki. Alla Kazakstana, sagði hún, dreymdi um að búa í Astana.
Þegar talið barst að stjórnmálunum benti stúlkan á að í raun væri enginn annar á sviðinu en Nasarbayev. Eftir smá tal um þetta, féllst hún á að vissulega væri það bagalegt að enginn annar flokkur veitti honum aðhald. Í þágu markmiðsins um virka og öfluga stjórnarandstöðu ákváð hún eftir smá óformlegt spjall um gildi öflugs fjölflokkakerfis, að ljá sósíal-demókrötum atkvæði sitt. “Jafnvel þótt leiðtogi þeirra sé fífl,” sagði hún. Hann hafði víst dvalið í fangelsi um hríð. Ég velti fyrir mér af hverju. “En auðvitað er það rétt að það verða að vera einhverjir valkostir.”
Hestvagn í KazKazakstan mun vonandi verða öflugra lýðræðisríki í framtíðinni og forsetinn segir stefnuna óhikað liggja þangað, þótt eitthvað skorti á að hann telji fýsilegt að hann sjálfur sleppi stjórnartaumunum. Næstum 70% kosningaþáttaka var í landinu öllu, og mun meiri í sveitahéruðunum. Nánast allir sem kusu, eins og áður sagði, kusu flokk forsetans. Nema viðmælandinn, þrátt fyrir dálæti sitt á leiðtoganum. Í þágu virkrar stjórnarandstöðu.

Nursultan í lax?

Það var eitthvað súrrealískt við það að tala um Eið Smára þarna einhvers staðar úti í sveit á miðri víðáttunni. Þegar greinarhöfundur tjáði hinum uppveðraði fótboltaáhugamanni að Eiður væri frændi sinn – en báðir eru afkomendur Böðvars Magnússonar og Ingunnar Eyjólfsdóttur á Laugarvatni, sem fylgdi reyndar ekki sögunni í þessu tilviki – sór hinn gulltennti kjörstjórnarmeðlimur þess skælbrosandi að hann skyldi ekki þvo sér hægri höndina í viku eftir handaband.
Hann ætlaði að setja höndina í plastpoka, sagði hann. Til varðveislu. Svo hló hann hátt. Það er einmitt það, hugsaði ég og hló líka. Kazakstanar hafa greinilega alveg ágætan húmor.
Annað sagði þessi maður sem greinarhöfundi þótti merkilegt: “Bróðir minn er túlkur forsetans, og hann fór með forsetanum fyrir nokkrum árum til Íslands að hitta íslenskan bisnessmann sem er vinur forsetans.”
Nú, nú, hugsaði ég. Hver ætli hafi boðið Nursultan Nasarbayev til Íslands? Kannski í lax?
Hinn brosmildi kjörstjórnarmaður vissi ekkert um það. “Forsetinn fer út um allt!” sagði hann bara og lét í ljós innilega ánægju með forseta sinn, bróður sinn, Kazakstan, kosningarnar, hrossakjöt, Eið Smára og Ísland.
En ekki Borat, þótt hann líktist honum óneitanlega dálítið.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband