Leita í fréttum mbl.is

Kvótakerfið kórónað

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því að ef stjórnarskrárbreyting ríkisstjórnarinnar, um auðlindir sem sameign þjóðarinnar, nær fram að ganga er að öllum líkindum verið að geirnegla það óréttlæti sem felst í kvótakerfinu, alla þá eignatilfærslu sem þjóðin er búin að vera brjáluð yfir síðan 1983, inn í sjálfa stjórnarskrána. 

Frumvarpið hljómar voðalega vel, svona í fyrirsögn: Auðlindirnar eiga að vera sameign þjóðarinnar. Við fyrstu sýn er eins og gamalt baráttumál Samfylkingarinnar sé að verða hér að veruleika, en það er aldeilis ekki. 

Í skýringum með frumvarpinu segir nefnilega: "Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda."

Semsagt: Það á ekki að hagga við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.

Semsagt: Ef frumvarpið nær í gegn munu þeir sem sýsla nú með kvótann geta vísað í sjálfa stjórnarskrána ef ríkisstjórnir framtíðarinnar vilja á einhvern hátt draga í efa að þeir eigi þar með fiskinn í sjónum. 

Ekki verður annað séð, en hér sé verið að lögfesta í stjórnarskrá rétthærri heimild til nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar en nú er, án nokkurra takmarkana.  Líklega er þar með verið að lögfesta varanlegan nýtingarrétt einkaaðila á sameign þjóðarinnar.

Að því gefnu að ákvæðið sé ekki einfaldlega marklaust eins og það er sett fram -- og niðurstaðan verði því stórbrotin réttaróvissa -- að þá verður ekki betur séð en hér sé verið að kóróna óréttlæti kvótakerfisins.  Hér er mögulega verið að binda umdeildustu eignatilfærslu íslenskrar nútímasögu í stjórnarskrá.

Stundum er sagt að það sé enginn munur á flokkunum og þeir séu allir að bulla það sama. Slíkar bábyljur eru varasamar, einkum og sér í lagi þegar þær byrgja kjósendum sýn á grundvallaratriði eins og blasa við í þessu máli.

Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur. Samfylkingin hefur alltaf boðað að auðlindir þjóðarinnar , fyrir utan þær sem eru beinlínis háðar einkaeignarétti, eigi að vera í þjóðareign. Þetta á m.a. að gilda um fiskimiðin. Síðan hefur Samfylkingin boðað að jafnræðisregla eigi að gilda þegar ákveðið er hverjir fái heimildir til að nýta þessar auðlindir.  Slíkar heimildir séu, með öðrum orðum, veittar á réttlátan og sanngjarnan hátt gegn gjaldi sem rennur til þjóðarinnar. Nýtingarétturinn leiði síðan aldrei til einkaeignar, þó svo hann njóti vissulega ákveðinnar verndar og honum megi ekki breyta nema með góðum fyrirvara. 

Bara svo fólk átti sig á þessu: Í þessu máli takast á tvær grundvallarhugsjónir í stjórnmálum liðinna alda, hvorki meira né minna: jafnaðarmannastefnan og einstaklingshyggjan.

Auðlindir í almannaeigu vs. auðlindir í einkaeigu.  

Sagði ekki einhver að allar kosningar á Íslandi snérust um fisk?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Þú Guðmundur er sem sagt að boða það að ef samfylkingin kemst til valda þá muni hún skattleggja sjávarútveginn sérstaklega?

Heldur þú að það leiði til þess að hann verði samkeppnisfærari á markaði?

Heldur þú að það skili meiri tekjum í ríkiskassann?

Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 13:45

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands.  Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.

Hvoru tveggja er fjarri sanni.

Meira um þetta á http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/145356/

Hallur Magnússon, 13.3.2007 kl. 14:20

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég hef nú lesið það sem frram hefur komið í þessu frumvarpi.  Hvergi sé ég lögfestingu þess, að kvótamenn geti til frambúðar ,,átt" neinn sértækan rétt.

Hitt hefur slegið mig nokkuð en það er, að lögspekingarnir sem áður fóru mjög í að skýra VILJA LÖGGJAFANS í synjunarmálinu vegna Fjölmiðlamálsins, láta nú ekkert með sama vilja löggjafans.  Þó er mun hægara um vik, að spyrja beint þá sem nú sitja á löggjafasamkundunni álits, heldur en þegar vasast var í lögskýringum á synjunarrétti forseta.  Þetta eru SÖMU LÖGSPEKINGARNIR.

semsagt ef vilji löggjafans var mikilvægur í lögskýringunum þá, af hverju er sami vilji nú léttvægur?

Hafa menn ekkert spurt sig að þessu?

kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 13.3.2007 kl. 14:23

4 identicon

Ágúst, þetta komment að "ef samfylkingin kemst til valda þá muni hún skattleggja sjávarútveginn sérstaklega?" er meiriháttar útúrsnúningur og týpískt fyrir sjálfumglaða íhaldsmenn

Ef útgerðarmenn geta borgað hvorum öðrum milljónir fyrir eitthvað sem þeir eiga ekkert frekar en við hinn. Þá eiga þeir að geta borgað þjóðinni fyrir afnotin. Því ef úgerðarmenn telja sig eiga kvótan, hvar er kvittunin? (eins og einn ágætur bloggari benti á), við höfum kvittun fyrir bönkunum, símanum en ekki miðunum!!! Það er furðulegt til þess að hugsa að íslandsmið og húsatökufólk eigi eitthvað sameignilegt.

Það er plaga sannra íhaldsmanna að verja núverandi ástand og neita öllum betrum bótum, reyndar verja með öllum tiltækum ráðum. Síðan þegar breytingar hafa verið gerðar þá skal verja þær aftur af sama krafti. Þín afstaða virðist vera slík, ekkert er betra en núið. 

Magnús Bjarnason

Maggi Bjarna (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 14:31

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er það ekki tilkomið vegna þess að einungis er vísað í 72 grein.  En þyrfti að vera 65 gr. 72g. og 75.  Til að tekið yrði betur á málum.  þ. er um jafnræði þegnanna og slíkt. Er ekki alveg með þetta á hreinu.

Þetta hljómar svona:

Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sér réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. grein.  Ber að nýa þær til hagsbóta þjóðinni, eftir þlví sem nánar er ákveðið í lögum.  Ekki skal þetta vera því til fyrirstðu að einkaaðilum séu veitar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum sakvæmt lögum.

Mér finnst þetta hljóma betur svona:

Nátúruauðlindir íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 65., 72., og 75. gr. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.  Þó má veita einstakilngum eða lögaðilum tímabndna heimild til afnota eða hagnýtingar þessum auðlindum gegn gjaldi. Náttúruauðlindir Íslands ber að nýta þjóðinni til hagsbóta og á grundvelli sjálfbærrar þróunar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.3.2007 kl. 15:12

6 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Það hefði verið flottara hjá ykkur í Samfylkingunni að fagna sigri í þessu máli, frekar en að telja ykkur hafa tapað í málinu. Þið sóttuð fast að festa eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum í stjórnarskrá og fenguð ósk ykkar uppfyllta...með hraði.

Be careful what you wish for...

Eyþór Laxdal Arnalds, 13.3.2007 kl. 16:18

7 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Magnús Bjarnason er að misskilja athugasemd mína rosalega hér að ofan.

Ef hann hefur ekki tekið eftir því þá vil ég taka fram að á eftir hverri setningu þar er spurningamerki (?). Það var sett til að ég fengi frekari fræðslu um stefnu samfylkingarinnar í þessum efnum svo ég væri EKKI að snúa út úr því sem ég hefði ekki vit á.

Magnúsi Bjarnasyni virðist samt vera lífsins ómögulegt að svara þeirri spurningu nema með útúrsnúningum .

Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 16:41

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyrði einmitt í Össuri áðan hann var einmitt að nefna þetta sem ég taldi upp hér fyrir ofan.  Þetta var fyrst inn í samþykktinni, en var tekið út, og um það stendur styrinn.  Það á nefnilega ekki bara að samþykkja hvað sem er bara til að samþykkja.  Það þarf að fara með gát.  Sérstaklega í ljósi samskipta LÍÚ og Sjálfstæðisflokksins. 

Nátúruauðlindir íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 65., 72., og 75. gr. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.  Þó má veita einstakilngum eða lögaðilum tímabndna heimild til afnota eða hagnýtingar þessum auðlindum gegn gjaldi. Náttúruauðlindir Íslands ber að nýta þjóðinni til hagsbóta og á grundvelli sjálfbærrar þróunar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.3.2007 kl. 16:46

9 identicon

þegar kvótakerfið var sett á var það gert til að koma í veg fyrir ofveiði á fiskistofnum.  Svo hafa árin liðið; fiskistofnarnir orðið veikari, sjávarbyggðirnar orðið veikari og það sem meira er að greinin er orðin skuldsett sem aldrei fyrr.  Halldór Ásgrímsson sem er guðfaðir kerfisins viðurkenndi í blaðaviðtali fyrir fáeinum árum að framtíðarsýnin þegar kerfið var sett á, væri ekki eins og hún er í dag, i.e. að menn geti keypt og selt kvótann. 

 Ég bý í sjávarbæ úti á landi og þar hefur maður horft upp á það að fjölskylda sem átti kvótasterka útgerð, um 1000 tonn að hún splundraðist og allt var selt.  Ástæðan? jú einn af eigendunum var að skilja við eiginkonuna og þeir urðu að selja allt til að geta greitt henni út sinn hlut.  Eftir sitja þeir sem unnu hjá fyrirtækinu atvinnulausir og með lækkað verð á eignum sínum.  Þetta eru staðreyndir sem fólk í sjávarbyggðum býr við, útgerðarmenn eru með lífsviðurværi fólksins í höndunum 

Sveinn (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 18:31

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já, eins og ég skil þetta er grein 72 ákvæðið um útgerðamennina...sem ekki má snerta!

Endilega leiðréttið mig ef ég er að misskilja! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.3.2007 kl. 19:40

11 identicon

Ágúst - þú afsakar en, yfirlýsingar með spurningarmerki eru samt sem áður yfirlýsingar, og ansi leiðinlegt stílbragð að mínu mati.

Ég heyrði góða sögu um daginn að einn forsetaframbjóðandi ásakaði andstæðing sinn um að liggja með rollum, þegar hann var spurður af hverju hann gerði þetta, jú það væri fyndið að heyra hann neita því.

Það er engin útúrsnúningur í kommenti mínu heldur það sem ég tel um núverandi fyrirkomulag sjávarútvegsins, sem ég tel óeðlilegt og þjóðinni ekki til farsældar.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:07

12 identicon

Skrýtið að stjórnarandstaðan skuli hafa viljað þetta inn í stjórnarskrá ef það yrði til þess að ríkisstjórnin springi, en vill ekki fá þetta inn í stjórnarskrá ef það verður ekki til þess að ríkisstjórnin springur. Þetta er undarleg forsenda fyrir stjórnarskrárbreytingu.

http://blog.central.is/gummiste

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 16:17

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Auðlindir í almannaeigu vs. auðlindir í einkaeigu".

Hvort er meira virði fyrir þig Guðmundur Steingrímson og allra hinna 99% sem ekki stunda útgerð í þjóðfélaginu að þessi geiri í matvælaiðnaði sem fiskveiðar eru, skili tekjum í ríkissjóð, eins og hann gerir í dag, eða að þessi iðnaður sé rekinn með sama sniði og fyrir kvótakerfið, þegar hann skilaði litlu sem engu í ríkissjóð. Hvort tímabilið gæti frekar flokkast undir sameiginlega eign? Í hverju er munurinn fólginn?

Ég skal bara svara því fyrir þig. Jú munurinn er fólginn í því að til þess að kvóti geti flokkast sem eign þá þarf hann eða vera einhvers virði. Okkur gagnast ekki að hafa huglægt mat á því. Arðsemi er það sem þetta snýst um. Mér er einskis virði að kvóta sé skipt réttlátlega ef það skilar okkur ekki arði. Vissulega hefur þetta kerfi haft sína galla, en önnur kerfi sem þekkjast eru einfaldlega ekki betri. Enda margar þjóðir sem horfa til okkar í dag, m.a. Norðmenn, og vilja gera okkar kerfi að sinni fyrirmynd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2007 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband