Leita í fréttum mbl.is

Stöngin út (03.02.07)

Leikurinn við Dani á þriðjudaginn var líklega sá mest spennandi íþróttaviðburður sem ég hef upplifað. Landsliðið á hrós skilið fyrir að bjóða upp á slíka skemmtun sem fékk dagfarsprúða og ákaflega yfirvegaða menn eins og mig – ég segi það satt -- til þess að hoppa um öskrandi og æpandi fyrir framan sjónvarpið með öðru fólki á fertugsaldri. Ég skalf eftir venjulegan leiktíma, sem er fáheyrt. Ég skelf aldrei. Eða þannig.

EN svo kom skotið í stöngina undir lok framlengingarinnar og skyndilega varð allt svart. Vonin úti. Tómið eitt. Ekki var við skyttuna að sakast, enda færið upplagt, en það breytti ekki því að boltinn fór í stöngina og út. Danir unnu. Það vantaði bara að danskar kaupmannaafturgöngur létu rigna yfir landsmenn möðkuðu méli úr himinhvolfunum.

MEÐ nokkrum spörkum í hjólbarða bílsins míns áður en ég keyrði heim á leið, blótsyrðum fyrir framan stýrið, bloggfærslu í hástöfum og klukkustundar djöfulgangi á hlaupabretti, náði ég smám saman að jafna mig. Geðshræringin lak úr líkamanum og allt í einu birtist mér eins og kristaltært fyrir hugskotssjónum nýtt hugtak, nýr frasi, sem gæti haft ótvrírætt notagildi í almennri umræðu, í daglegu amstri og jafnvel pólitískum rökræðum. Þetta var hugtakið “stöngin út”.

UM allnokkurt skeið hefur orðasambandinu “stöngin inn” verið beitt af fólki á öllum aldri, og þá í samhengi við eitthvað sem þykir heppnast mjög vel. Um sérlega góðar hugmyndir er til dæmis algengt að nota þetta orðasamband eða þegar eitthvað mjög gott hefur átt sér stað. “Það var frábært hjá Lalla þegar hann svaraði Dóru,” gæti einhver sagt í kaffihléi á annars leiðinlegum aðalfundi. “Já, stöngin inn,” myndi viðmælandi hans þá svara.

STÖNGIN út, hins vegar, má nota um ákaflega margt líka. Mér finnst nýja fréttastefið fyrir RÚV – þótt það sé ágætlega samið -- til dæmis vera stöngin út. Gamla fréttastefið hans Atla Heimis var orðið hluti af sjálfsmyndinni, því að vera Íslendingur. Þegar ég heyri ekki lengur það ómþýða stef í upphafi frétta verð ég áttavilltur. Ég fyllist depurð. Tómi. Tengslin við söguna hverfa, svo ég keyri upp dramatíkina. Að halda ekki í svona fyrirbrigði sem eiga djúpar rætur í þjóðarsálinni og iljar flestum um hjartarætur er stöngin út.

MÉR finnst líka lagning 10 þúsund bíla akbrautar í gegnum Álafosskvos vera stöngin út. Því má halda fram að þarna sé vagga iðnbyltingarinnar á Íslandi, þarna er landssvæði á náttúruminjaskrá, vinsæll viðkomustaður ferðamanna, stúdíó Sigurrósar og vinnustofur listamanna. Þetta er hjarta Mosfellsbæjar. Þessa einstaka andrúmslofti og náttúru ætlar bæjarstjórnin í Mosfellsbæ að fórna. Breytir þá engu að fulltrúar grænna sitji í meirihlutanum. Hér gagnast hugtökin mjög vel: Mótmæli bæjarbúa eru stöngin inn.  Skurðgröfur bæjarstjórnarinnar á þessum kyrrláta og sögufræga stað eru stöngin út.

Birt sem Bakþankar í Fréttablaðinu 3.febrúar 2007. 

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband