Leita í fréttum mbl.is

Hægri menn kunna ekki að fara með peninga

Ég las eitt sinn ágæta úttekt í Economist sem fjallaði um það, í grundvallaratriðum, að hægri menn kynnu ekki að fara með peninga. Greinin fjallaði aðallega um Bandaríkin. Í greininni voru færð ágætis rök fyrir því að repúblikanar væru jú ágætir í því að lækka skatta en hins vegar sýndi ferill þeirra að þeir væru afleitir í því að fara skynsamlega með féð. 

Þetta þarf kannski ekkert að koma á óvart. Segir ekki ein helsta trúarsetning hægri manna að menn fari betur með sitt eigið fé en annarra. Þegar hægri menn eru við stjórnvölinn haga þeir sér einmitt gjarnan samkvæmt þessu, og fara illa með fé annarra.

Við sjáum þetta núna í Bandaríkjunum. Útgjöld, einkum til varnarmála, hafa bólgnað út. Hægri menn spandera fé í það sem er þeim mest hugleikið: vopn.

Hér á Íslandi er komin upp merkileg staða. Það er ekki oft sem sá veruleiki blasir við að ríkisstjórnin yfirbjóði stjórnarandstöðuna hvað eftir annað á kosningavetri með fáheyrðu fjáraustri í allar áttir, langt fram í tímann.

Í gær leit dagsljósið 380 milljarða króna kosningaloforð í vegamálum. Áður höfum við séð 20 milljarða renna til sauðfjárbænda, með samningi sem á að ná yfir tvö næstu kjörtímabil. Og hér erum við bara að tala um sauði og vegi. Bara þar eru kosningaloforðin þegar komin upp í 400 milljarða.

Það er Íslandsmet í kosningavíxlum.   

Margt af þessu eru fínir vegir, það vantar ekki.  Og það þarf að ráðast í samgönguátak, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu (sem virðist að mestu undanskilið eins og vanalega fyrir utan Sundabraut). En það þarf líka að efla menntakerfið, framhaldsskólana, heilbrigðiskerfið, öldrunarþjónustu og svo framvegis.

Í ríkissbúskapnum gengur auðvitað ekki að hver ráðherra rjúki um landið með ávísanaheftið. Þetta hefur meira að segja tekið á sig súrrealískar myndir undanfarið. Á dögunum gerðu menntamálaráðherra og utanríkisráðherra samning um að styðja verkefni hjá hvor annarri um nokkrar milljónir. Ráðherrarnir eru semsagt farnir að gera samninga um fjárframlög við hvor annan.

Ég endurtek: Margt af þessu eru góð mál. En á 16 árum hefði líklega verið hægt að setja einhver þeirra á koppinn með yfirvegaðri hætti. Seint er í rassinn gripið, enda asinn svo mikill á lokaspretti í embætti að fjáraustrið gengur á víxl. En það er auðvitað ansi hentugt: Fréttatilkynningarnar geta þá farið inn á bæði ráðuneytin. Lúkkar vel.  

Sú var tíð að vinstri menn voru sakaðir um fara óvarlega með fé úr ríkissjóði, hreint ekki alltaf með réttu að mínu mati. Sú fullyrðing hefur í öllu falli rækilega verið afsönnuð upp á síðkastið og telst innantóm klisja og er reyndar orðin það fyrir löngu.

Það eru hægri menn sem kunna ekki að fara með peninga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðeins vegna þessara fjármálamanna (og kvenna) Ég veit ekki betur en að á framboðslista  Samfylkingarinnar í suð vestur sé viðkenndur fjármálamaður á heimsvísu og virtur mjög.

Þetta er Jón Sigurðsson, fv ráðherra,Seðlabanksstjóri og bankastj Norræna fjárfestingarbanksns svo það helsta sé nefnt

Hægt er að nefna mörg fleiri nöfn sem mjög virt eru í fjármálaheiminum.

Auðvitað er það svo að við ráðherraskipan er ekki endilega nauðsynlegt að þar sé kjörinn þingmaður

Þetta er svona innlegg í málið 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 20:17

2 identicon

Það er nú dálítið átakanlegt að fylgjast með yfirklóri hægrimanna í ýmsum málum núna. Þeysandi um með tékkheftið og allt í einu er ekkert mál að gera það sem ekki hefur verið hægt að gera í 16 ár!

Til að uppfræða Gísla þá er heilbrigðiskerfið á forræði ríkisins, rétt eins og megnið af uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða sem Geir H Haarde sveik aldraða um allt síðasta kjörtímabil um leið og hann í heimildarleysi seildist í Framkvæmdasjóð til að dekka rekstur.

Framhaldsskólastigið var líka á forræði landsstjórnarinnar síðast þegar ég vissi og auðvitað er menntakerfið í heild á ábyrgð ríkisstjórnarinnar líka.

Reyndar held ég að Gísli hefði gott af að tala við einhvern af þeim kennurum sem stóðu á Austurvelli í dag og spyrja hvort þeir séu oflaunaðir. Það eru þeir auðvitað ekki en hins vegar er rekstur grunnskólanna flestum sveitarfélögum gríðarlega dýr af því að þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarstjórna fylgdu því verkefni alls ekki nægir tekjustofnar.

Talandi um þetta verð ég nú samt að hæla Sjálfstæðismönnum, ekki fyrir góða meðferð á almannafé, heldur fyrir það sem pent sagt heitir að láta góða sögu ekki gjalda sannleikans.

Um daginn skrifaði helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðismanna pistil í blöðin um vinstri villuna og einstaka visku hægri manna eins og hans er von og vísa. Hann tiltók sérstaklega hvernig Sjálfstæðismenn hefðu lækkað skatta en sveitarfélögin hækkað þá (einkum Rvk að sjálfsögðu) en sleppti því alveg að minnast á að þarna var verið að færa til tekjustofna vegna þess að sveitarfélögin voru að taka yfir verkefni frá ríkinu. Bráðsnjallt.

Ég held að það væri snjallt af þjóðinni að taka tékkheftið af dýralækninum og hinum prókúruhöfunum sem nú hlaupa með gúmmítékkana út um allar sveitir og setja fjármálin í hendur ábyrgra aðila - í Samfylkingunni.

HDH (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 20:45

3 identicon

Haltu áfram á þessari braut Guðmundur. Til að slá á fylgi Sjálfstæðismanna þarf umræðan að snúast um meðferð peninga. Það eru jú peningar sem skipta hinn meðal sjálfstæðismann mestu máli. Blágræna bandalagið er með allt niðrum sig í hagstjórninni.

Verst að Egill Helga virðist aldrei geta skotið á formann sjallanna fyrir hagstjórnarmistökin. Afhverju skildi það nú vera???

Ágúst Þór (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 21:22

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Sniðugt að þú skulir líkja hægri mönnum í USA saman við hægri menn á Íslandi. Þú veist eins vel og ég að ef flokkur í USA væri með sömu hugsun og sjálfstæðisflokkurinn þá væri hann álitinn hinn argasti kommonista flokkur , svo miðað við þessa fyrirsögn hjá þér, þá erum við í góðum málum.

Þú veist líka eins vel og ég að á kosningaári er allt reynt af öllum flokkum til að ná í atkvæði. Stjórnarflokkarnir ausa peningum hægri vinstri og stjórnarandstaðan reynir að blekkja kjósandann með ódýrum upphrópunum. Mér persónulega finnst alveg fáránlegt hvað báðar leiðirnar virðast gera gagn. Ótrúlegt að meirihluti kjósenda skuli ekki fyrir LÖNGU vera farinn að sjá í gegnum þetta.

Eins og ég bloggaði um fyrir nokkru, þá er fjáraustur stjórnarflokkana ekki endilega tilkominn af einhverjum innihaldslausum loforðum.

Fólkið í landinu vill alltaf hafa það betra en það gerir, skiptir engu máli hversu gott það hefur það (sem er gott mál, þá reynum við alltaf að bæta heiminn). Ef þú kæmist í stjórn í vor og breyttir öllu sem þú vildir breyta í hvelli og teldir þig hafa gert vel, þá yrðu öll þau góðu verk gleymd um næstu kosningar, best því að láta verkin tala á réttum tíma .

Gaman væri samt að ALLIR stjórnarflokkarnir færu að sýna kjósendum sínum virðingu og hættu svona ódýrum kosningabrellum. Skora á þig Guðmundur að vera fyrstur til þess

Ágúst Dalkvist, 13.2.2007 kl. 23:04

5 identicon

Komdu sæll og blessaður, Guðmundur og til hamingju með 14. febrúar, þann merkisdag.  Já, það er nú meira svínaríið að stjórnmálaflokkar skuli segja hvað þeir ætla að gera við skattfé.  Ég meina, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa nú SAGT hvað þeir ÆTLA að gera á næstu árum, HVERNIG, og HVERSU MIKIÐ það mun kosta.  Þvílík fásinna.  Miklu betra að fara ykkar leið og tala frekar óljóst um "ná sátt" um þetta og "leita jafnvægis" í hinu.... um að gera að segja ekki neitt sem ekki er hægt að bakka út úr þegar næsta Capacent könnun kemur út.  Segðu mér, hvað, nákvæmlega, hefurðu á móti því að tvöfalda hringveginn frá Selfossi til Akureyrar?  Finnst þér það óskynsamlegt ráðstöfun almannafjár?  Að draga úr slysahættu og efla samgöngur um land allt?  Ég veit vel að það að segjast ætla að svo gott sem útrýma slysagildrum á hringveginum, stórbæta öryggi og stytta ferðatíma kemst nú ekki með tærnar þar sem ykkar tillögur um "5000 ný störf í hátæknigeira" hafa hælana, en gefðu mér brot, bitte.

Segðu mér endilega hvað þú hefur á móti þessum áætlunum (og ef þú nefnir göng fyrir vestan, norðan, og austan, þá erum við loksins sammála, göng á milli krummaskuða er bruðl á almannafé), og hvers vegna þú vilt ekki að vegurinn milli Reykjavíkur og Selfoss verði tvöfaldaður og heldur ekki vegurinn á milli Akureyrar og Reykjavíkur.  Endilega.  Reyndar grunar mig að þú komir með einhver rök eins og "ná þverpólitískri sátt"..... "skoða málið frá öllum hliðum"..... og eitthvað viðlíka sem kemur þér sem allra, allra lengst frá því að taka afstöðu sem einhver gæti mótmælt.

Varðandi loforð til samgöngumála árið 2003, þá skulum við nú athuga að þá stóð ennþá til að hefja framkvæmdir við Sundabraut á yfirstandandi kjörtímabili, allar götur fram það þeim tíma að þið í Samfylkingunni runnuð á rassinn og gátuð ekki tekið afstöðu til hvað þið vilduð gera.  Crunch time..... Alveg er það merkilegt, eins og þið talið nú alltaf digurbarkalega, að þegar á reynir, þá flýið þið alltaf af hólmi.  Nóg er nú blaðrað um að stöðva álversframkvæmdir..... en ekki gerið þið nú mikið í að stöðva þær í Hafnarfirði, neibb.... þið flýðuð af hólmi .  Sundabrautin.... nei, ekki gátuð þið ákveðið hvað þið vilduð gera þar.... og hlupuð í burtu.  Það kannski útskýrir hvers vegna ríkið var tilbúið að eyða í Sundabrautina þegar þið hefðuð getað ákveðið ykkur, en svo fór sem fór.

Mér, persónulega, finnst nú bara fínt að ætla að laga hringveginn, miklu betra en að eyða í einhverjar súlur í Viðey, eða setja upp ógeðslegar virkjanir á Hellisheiði sem eru mesta lýti á náttúrunni sem sést hefur í manna minnum.  Og svo finnst mér líka frábært að ríkið skuli vera svo gott sem skuldlaust :), það er góð notkun á skattfé að borga niður skuldir fyrri ríkisstjórna.

Segðu mér annars, ég sá í morgun að 80% Íslendinga ætlar hið minnsta í 1 utanlandsferð (frí) í ár.  Það gera 240.000 Íslendingar.  Hver einasta ferð, með uppihaldi, kostar líklegast í kringum 100.000 kr.  Það gerir útgjöld upp á 24 milljarða sem íslenskir neytendur ætla að stofna til í ár, til að fara í frí.  Segðu mér, hvernig harmónerar það við þá staðreynd að hér séu allir við fátæktarmörk.  Annað hvort á hver einasti Íslendingur 100.000 inni á bankabók, uppsafnaðan sparnað (og þá eru menn nú ekki á meiri vonarvöl en svo að þeir geta sparað í neyslubrjálæðinu), eða þá að 80% Íslendinga ætlar að taka auka-yfirdrátt til að fara í frí, meðalfjölskyldan ætlar að taka 300.000 í yfirdrátt til að sóla sig.  Finnst þér þú bera siðferðislega skyldu sem stjórnmálamaður til að a) búa svo um hnútana að fólk eyði ekki umfram tekjur og auki þannig ekki á þensluna eða b) yppta öxlum og gefa fólki afslátt af vöxtum svo það geti haldið áfram neyslufylleríinu, sett verðbólguna í yfirgír, og sett hagkerfið á hliðina?  Eða getur verið að sú staðreynd að Íslendingar ætla að eyða 24 milljörðum í sólarlandaferðir í ár sé bein orsök virkjanastefnu stjórnvalda og aukins misréttis í skattbyrði landsmanna?  Your thoughts?

Þinn einlægur sem ávallt 

haukur (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 09:00

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Enn og aftur er fólk fast því því að það hefði mátt gere eitthvað annað við peningana sem fer í álver og virkjun fyrir austan! Þessir peningar koma EKKI úr ríkiskassanum né hafa nein áhrif á fjálög. Það stendur Ekki til boða að nota þá í annað. Til að "veita" fé í annarskonar atvinnuuppbyggingu þá þurfið þið að kafa djúpt í vasa fjármálaráðherra. Ekki reyna það, það eru rottugildrur í vösunum uppspenntar tlbúnar að slá á fingur sem eiga þangað ekkert eringi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.2.2007 kl. 10:07

7 identicon

Jón Sigurðsson, fornmaður Framsóknar, hefur aldrei verið bankastj. Norræna fjárfestingabankans og hefur heldur ekki verið talinn "virtur á heimsvísu" í fjármálaheiminum. Þetta er bara miðlungs blýantanagari, annað ekki.

Með kveðju,

S.  

SKF (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 10:37

8 identicon

Hægri menn á Íslandi hafa náttúrulega tryggt það að skatttekjur séu til fyrir þessum framkvæmdum. Í tíð vinstri manna átti sér einungis stað skuldasöfnun. Þá hafa vinstri menn nánast undantekningalaust verið á móti þeim aðgerðum sem tryggðu auknar skatttekjur. Auknar skatttekjur hafa þá einnig verið nýttar til gríðarlegra framlaga til mennta og heilbrigðismála, eitthvað sem hefði aldrei verið hægt hefðu vinstri menn haldið völdum.

AG (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 13:33

9 identicon

Hvað er að því að verja fé til varnarmála?

Grundvöllur okkar stjórnkerfis, hin germanska hefð, byggir á því að ríkisvaldið sjái um að tryggja landvarnir.

Ef þú lítur síðan á fjárútlát til varnarmála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu geturðu þá séð að mun meira af henni er notað til varnarmála í ,,jafnaðarmannaríkjum'' eins og Norður Kóreu, Kúbu og Venúsúela. Þannig að þessi hefð er ekki bara einnig við lýði meðal þeirra sem eru þér sammála í stjórnmálum heldur tryggð með hlutfallslega meiri fjárútlátum.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 13:50

10 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Laukrétt, Steingrímur.  Hvaða ástæða er eftir til að kjósa íhaldið ef þeir geta ekki lengur gumað sig af hæfni í fjármálum?

Auðvitað er yfirskrift færslu minnar og efnisinnihald að mörgu leyti alhæfing, eins og þú bendir á Vala. En því stílbrigði er hér teflt fram til þess að mæta annarri slíkri.

Hversu oft hefur maður ekki heyrt þá fullyrðingu, setta fram út í loftið oft án rökstuðnings að vinstri menn kunni ekki að fara með fé?

Mér finnst oft árangursríkt, þó ekki nema bara til þess að reyna að sjá hlutina öðruvísi- en ekki verða andlausum og gömlum klisjum endanlega að bráð -- að athuga hvort hið þveröfuga eigi ekki einmitt við að rök að styðjast. Mér sýnist það vera svo í þessu tilviki.

Það hafa verið nefnd sem höfuðrök fyrir því að kjósa íhaldið, að það fari vel með fé. Vitnisburðirnir um að það sé ekki rétt blasa við hvarvetna í þjóðfélaginu um þessar mundir. Það eru tíðindi.

Vitnisburðir um að vinstri menn (með öllum fyrirvörum um dálítið flóknar forsendur fyrir þessari skiptingu yfir höfuð, hægri/vinstri) kunni ósköp vel að fara með fé, blasa hins vegar við að sama skapi. Ég nefni þrennt:

- Þjóðarsáttasamningarnir.

- Inngangan í EES og viðskiptafrelsi sem því fylgdi.

- Rekstur Reykjavíkurborgar í tíð R-listans. Nú rekur einhverja í rogastans, en lítum á: Ráðist var í lántökur til arðbærra verkefna. (Maður sem kaupir hús verður vissulega skuldsettur, en hann á þá líka hús). Borgarsjóður var rekinn með innan við 1% frávikum frá áætlunum. Frávik í ríkisrekstri eru á sama tíma um 15%. Ráðist var í uppbyggingu skólanna í Reykjavík, leikskólanna, holræsa etc með ákaflega skynsamlegum hætti. Meira að segja Lína.net fór að skila hagnaði... (án þess að ég telji reyndar að yfirvöld eigi að standa í svoleiðis rekstri, en hann reyndist ekki óskynsamlegur út frá fjárhagslegum sjónarmiðum). Margt fleira má nefnda úr þessum ranni.

Fjármálamenn og hagfræðingar eru fjölmargir innan raða Samfylkingarinnar. Jón Sigurðsson (ekki Jón framsóknarmaður!) var hér nefndur. Það er fullt af öðrum slíkum, innan verkalýðshreyfingarinnar, bankannna og annars staðar, sem fylgja okkur að málum.

Eitt viljum við til dæmis leggja áherslu á í ríkisrekstri, og það er áætlanagerð. Skipulag. Að ríkið í samvinnu við atvinnulífið og verkalýðsforystuna setji sér markmið í efnahagsstjórn. Til dæmis til fimm ára í senn.

Þetta gera Írar með góðum árangri. Þetta eigum við að gera líka.

Eitt einkenni fjármálastjórnunar íhaldsins er einmitt skortur á samráði, áætlanagerð og þar með jafnvægi.

Þar af leiðandi, og af öðrum ástæðum sem hér hafa verið raktar, hafa undanfarið litið dagsins ljós þónokkur rök fyrir því að alhæfingin "hægri menn kunna ekki að far með peninga" sem vissulega hljómar dulítið frökk, sé að mörgu leyti sönn.

Og það eru tíðindi.

Guðmundur Steingrímsson, 14.2.2007 kl. 13:58

11 identicon

Guðmundur.... 5 ára áætlanir?  Í alvöru?  Sönnuðu ekki Sovétmenn að slíkur áætlanabúskapur virkar, tja.... illa.  R-listinn réðist í arðbærar fjárfestingar, segirðu.  Snjallkortakerfi Strætó, sem var blásið af eftir 250 milljóna króna brennslu.  Arðbært?  Tilbúni umferðarhnúturinn í Vatnsmýrinni.  Arðbær?  Sala (afsakaðu, okur...) lóða í Úlfarsfelli, þar sem enginn vill búa.  Arðbær?  Orkuveituhúsið, sem fór einhverja handfylli milljarða fram úr áætlunum.  Arðbær?  Skipulegur brottrekstur fyrirtækja og fjölskylda burt úr Reykjavík (með engu framboði á húsnæði eða byggingarlandi) yfir í næstu sveitarfélög.  Arðbært?  Hellisheiðavirkjun.  Arðbær?  Jú, reyndar er hún það, ef við gefum okkur að allar forsendur sem þið gáfuð ykkur haldi, og maður líti sem svo á að hin stjarnfræðilega sjónmengun sem við blasir í Svínahrauninu núna, og næstu 50 árin, sé í raun bara ókeypis og án endurgjalds, svona hagfræðilega séð.  Látum okkur nú sjá..... Gengdarlaus mönnunarvandi leikskóla og frístundaheimla.  Arðbær?  Strætó batteríið í heild sinni.  Arðbær?  Já, Samfylkingin má vera stolt af mörgu í stjórnartíð sinni í Reykjavík.  Vissulega.  En að fara vel með peninga er ekki þar á lista.  

Það er soldið skondið að sjá þig mæra það að Samfylkingin hafi sankað að sér gríðarlegum skuldum í tíð sinni, gert borgarbúa skuldsettustu íbúa sveitarfélags á Íslandi, á sama tíma og þjónustan var skert (strætó t.d.) og skattar hækkaðir.  Þú segir holræsi.  Já, þið lögðuð á holræsagjald sem átti að afnema þegar búið væri að leggja holræsin, og þið stóðuð við það loforð, ekki satt?  Æ nei, þið reyndar ákváðuð að vera ekkert að afnema holræsaskattinn eins og þið lofuðuð.  Skondið, segi ég, því þú vilt líka að fólk og fyrirtæki hafi greiðari aðgang að ódýrara lánsfé, og botnar hreint ekkert í því að þeir sem fá stanslaust lánað meira og meira, eins og Samfylkingin gerði í nafni borgarbúa, færast sífellt nær gjaldþroti, og verða þannig áhættusamari kúnni fyrir bankana, og þar af leiðandi þurfa þeir að borga hærri vexti.  Nei, mér sýnist á öllu að þú horfir eingöngu á hvað hægt er að eyða miklum peningum, og ef þið getið ekki kreist þá úr vösum skattborgaranna, þá fáið þið þá bara að láni (og verðið fúlir ef ykkar kreditt er álitið lélegt), sem er allt í góðu, því þið fjárfestið í svo arðbærum verkefnum.

Annars er þetta "samráð" ykkar um alla hluti farið að vera hálfgerður brandari.  Þið þorið ekki að taka afstöðu í neinu máli, heldur á allt að snúast um að "fá alla að borðinu og vera sammála".  Hvað varð um þá tíma þegar stjórnmálamenn stóðu upp og sögðu "mér finnst þetta, þetta er mín skoðun, og ef þið eruð sammála mér kjósið þið mig."  Þið eruð meira svona "okkar skoðun er að fólk eigi að tala saman, vera svo sammála, og enginn ósáttur, ef þið eruð sammála því, kjósið okkur."  Guðmundur, þetta er ekki Hálsaskógur.  Það er ótrúlegt að þið skulið ekki hafa dug og þor að segja hvað ykkur finnst, jafnvel þó einhverjir verði ósammála ykkur.  "Samráð, áætlanagerð"..... veistu, þetta er akkúrat það sem þið eigið við með "umræðustjórnmál".  Gera ekki neitt, en tala og tala þangað til allir eru sammála (ykkur), sem gerist aldrei, og því gerist aldrei neitt.  Það sáum við í borginni þegar þið voruð hér við völd.  Það eina sem gerðist var að skuldir borgarinnar uxu expónensíalt, sem þið haldið að sé allt í lagi því þið haldið að allar fjárfestingarnar hafi verið arðbærar.  Staðreyndir segja annað, og því var skuldasöfnun ykkar ekkert annað en bruðl, og sönnun þess að, jú, vinstrimenn kunna ekkert með peninga að fara. 

haukur (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 14:28

12 identicon

 

  Haukur !!!  Ekki ertu aðeins liggjandi á síðunni hans Guðmundar allan daginn til að vera tilbúinn að commenta heldur ertu líka farinn að senda honum valentínusarkveðju.... úfff... er hætt að lítast á þetta. 

Helga Björk (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 14:35

13 identicon

Guðmundur  þú gagnrýnir xD fyrir að skuldbinda fé skattborgara til lengri tíma!  Hvað veit ekki betur en Samfylkingin hafi skuldbundið fé ófæddra barna minna fram á eftirlaunaaldur vegna byggingar á einhverju tónlistarhúsi í miðbæ Reykjavíkur!  Hvernig er það betra en að styrka einhverjar rollur í sveitinni?

SkúliS (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 15:05

14 identicon

Athygliverð umræða.  Sennilega fer fjármálastjórn viðkomandi stjórna eftir þeim aðilum sem stjórna hverju hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri.  Stjórnmálaskoðanir eru sjálfsagt einhver breyta þarna en hversu stór hún er væri forvitnilegt að skoða.  Hitt er annað með allar upphrópanir stjórnarandstöðu á efnahagsástandið eins og það er í dag.  Þar eru ráðandi skammtímasjónarmið á ástandi sem hefur hagrænar skýringar sem allir þekkja.   Eðlilegast væri að skoða þetta til lengri tíma og bera saman td. mun á fjármagnstekjum ríkissjóðs fyrir 10 árum og nú.  Skattprósentu fyrir 10 árum og nú og í tengslum við það skatttekjur fyrir 10 árum og nú.

Ég held að Samfylkingarfólk og aðrir í stjórnarandstöðu verði að koma með trúverðuga gagnrýni á efnahagsmálin ef þeir eiga að ná til fólksins í landinu.  Fólk er ekki fífl eins og margir stjórnmálamenn virðast halda.  

Og ein spurning til þín Guðmundur.  Í stefnuskrá þinni segistu vilja minnka tekjumun í landinu.  Flott sjónarmið en hvaða meðul hefur þú í huga.   

Helgi Kristjánsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 16:44

15 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Ágætu samlandar nær og fjær.    Látið nú vera með að hreyta í sjálfstæðis-haukinn.     Það er nefnilega þannig að öll ofurmenni þurfa ofurskúrka til að uppfylla þörfina fyrir ofurvernd.  

Ekki það að haukurinn sé skúrkur.   Guðmundur væri ekki nema hálfur maður án hans og haukurinn virðsit þrífast á skrifum Guðmundar.     Blogg er vettvangur skoðanaskipta og væri lítið spennandi ef aðeins væru vemmilegar stuðningsyfirlýsingar og flokksmenn klappandi hverjir öðrum.     

Er einhver svo viss um að haukur sé ein persóna.    Kannski er hann hver sá sem stendur vaktina á hotline sjálfstæðisflokksins?   Þá á Gummi karlinn við ramman reip að draga.    Sú úlfahjörð sem fylkir liði undir fölumbláum fána hræfugls.    Hefði kannski átt að taka dýpra í árinni og segja helbláum en það er kannski ósmekklegt. 

Gamall nöldurseggur, 14.2.2007 kl. 18:35

16 identicon

Talandi um að hægri menn kunni ekki að fara vel með peninga!. Veit ekki betur en að árið 1994, þegar R-listinn undir forystu núverandi formanns Samfylkingarinnar tóku við völdum í borginni voru hreinar skuldir Reykjavíkurborgar  um 5 milljarðar,  en hvað voru þessar blessaðar skuldir Reykjavíkurborgar þegar núverandi  borgarstjóri tók við völdum?? jahá einmitt það.....RÚMIR 64 MILLJARÐAR!!! jebbs hreinar skuldir skuldir borgarinnar jukust úr 5 milljarða í 64 milljarða, sem þýðir það að Ingibjörg Sólrún fyrrverandi borgarstjóri náði þeim merkum áfanga að þrettánfalda skuldir borgarinnar á 12 árum. Og á þessum 12 árum hækkuðu flestöll gjöld fyrir borgarbúa og ég tala nú ekki um skattana. Allt þetta gerðist á einu mesta uppgangstímabili Íslandssögunnar þegar fasteignaverð bókstaflega rauk upp úr öllu sínu veldi sem skilaði sér þar af leiðandi í miklum tekjum frá fasteignagjöldum til borgarinnar. Segja svo að hægri menn kunna ekki að fara með peninga....!

villi (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 18:47

17 Smámynd: Ágúst Dalkvist

 Gaman hvernig pólitísk umræða hjá fullorðnu fólki getur farið út í svona "pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn" umræðu

Hægir menn kunna ekki að fara með peninga segja vinstri menn og þá er ekki aðalatriðið hjá hægri mönnum að afsanna það heldur þarf miklu heldur að benda á að vinstri menn séu enn verri.

Held að það sé alveg sama hvernig á það er litið og allir geta viðurkennt sem ekki eru að reyna að gabba kjósendur til að snapa atkvæði að efnahagsstjórnin er í góðum höndum. Rífandi uppsveifla hefur verið mest alla stjórnartíð þessarar stjórnar og það telst nú bara töluvert á þetta löngu tíma.

En hvort vinstri menn geti gert jafnvel eða betur ætla ég ekkert að segja til um. Er ekki tilbúinn að nota þrettánfalda skuldasöfnun Reykjavíkurborgar sem rök fyrir getuleysi þeirra, fyrst vil ég fá alla söguna. Hvað jukust eignir á sama tíma t.d.

Vona þó að við þurfum ekkert að komast að því í bráð hvernig þeir fara með peninga

Ágúst Dalkvist, 14.2.2007 kl. 22:35

18 identicon

1. Að eyða peningum í varnarmál er nauðsynlegt, þót stríðsrekstur sé ekki nauðsynlegur.

2. Ríkisstjórnin í Bandaríkjunum eru ekki það sem við í Evrópu köllum "Hægrimenn". Þesi Neo-Conservative er einhverskonar radikalismi sem getur ekki tengst íhaldsemi.

Ég vil gjarnan fá að benda á grein í American Conservative  við nafn: "Ideology has Consequences" eftir Jeffrey Hart.

Ég vil líka fá að benda á aðsíðustu ár Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt að lægri skattar gefa meir í kassan, og að íslenska hagkerfið aldrei hefur verið svo öflugt, er það vegna þess að hægrimenn kunna ekki að fara með peninga? 

Gunnlaugur Snær Ólafsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 23:37

19 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Skattalækkanir á fyrirtæki voru alls ekkert vitlausar, ég er sammála því.  En þótt innkoma ríkissjóðs hafi aukist, td í kjölfar þeirra, að þá breytir það ekki því að verulega skortir upp á aðhaldið og skynsemi í hagstjórn. Um það fjallar færslan hér að ofan.

Þetta sýna kosningavíxlarnir undanfarið. Þetta sýna frávikin frá fjárlögum. Og þetta sýndu líka gerræðislegar ákvarðanir um það hvernig ráðstafa ætti söluandvirði Símans, svo ég taki annað dæmi, um furðulega ákvarðantöku í ríkisfjármálum. "Hátæknisjúkrahús" sagði DO. Útrætt mál. Alfredo kominn í málið.

 Ekkert rætt um þetta, þótt margir séu fullir efasemda og benda á aðrar og mikilvægari leiðir til að bæta heilbrigðisþjónustuna. 

Hjúkrunarheimili fyrir aldraða myndu spara stórfé til lengri tíma, fyrir utan það að vera brýnt réttlætismál. Samt er framkvæmdasjóður aldraðra, lögbundinn nefskattar sem á renna til slíkra framkvæmda, ekki notaður í þau verkefni.

Innkoma aukist, já. En biðlistarnir í velferðarkerfinu enn til staðar og kennarar að undirbúa verkföll, út af bágum launum. Skorið niður til framhaldsskóla. Fagmenntaðir leikskólakennarar allt of fáir. 

Peningarnir skila sér ekki í grunnþjónustuna. Að mínu mati er það út af metnaðarlausum ríkisrekstri og tilviljanakenndum. 

Skattar af bílaumferð, og stóraukin innkoma út af aukinni umferð, hefur ekki skilað sér í bættum vegum. 

Út af öllu þessu er skiljanlegt að mörgum finnist það spaugilegt, svo ekki sé talað um ótrúverðugt, að ráðherrar skuli núna á  lokaspretti í embætti dúkka upp með ávísanaheftið... 

Gamalt trikk auðvitað. Og alltaf jafn tortryggilegt. Sérstaklega eftir 12 - 16 ár (eftir atvikum) aðgerðarleysi, mismikið þó. 

3 milljarðar til Háskólans. Jú, jú. Gott mál að það skuli loksins hafa verið samið um það. Kemur í hlut næstu ríkisstjórnar að efna samninginn.

Þetta var baráttumál okkar í stúdentaráði þegar ég var formaður 1995-96.  Spurningin er augljós, í þessu sem öðru: Af hverju var ekki hægt að gera þetta fyrr, sérstaklega í ljósi þess  að innkoma ríkisins jókst svona mikið?

Ég hef semsagt varpað fram tilgátu: Menn hafa einfaldlega farið illa með peningana. Ekki staðið sig.

Guðmundur Steingrímsson, 15.2.2007 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband