Leita í fréttum mbl.is

Breiðavík, Byrgið og heyrnarlausir

Uppljóstranir undanfarinna vikna um misnotkun á börnum og fullorðnum á ýmsum stofnunum á Íslandi í gegnum tíðina eru sláandi. Nú síðast gaf að líta átakanleg viðtöl í Kastljósi í kvöld við fólk sem dvaldist í Breiðuvík á árum áður og var misnotað þar. Þetta fólk var að lýsa helvíti á jörð. 

Breiðavík bætist ofan á aðra vitnisburði um misnotkun. Það er engu líkara en einhvers konar sálfræðilegur leyndarhjúpur, ofinn af kerfisbundinni stofnanaþögn, hafi legið yfir þessum hörmungum um langt árabil. 

Fyrir ári opnaði Thelma Ásdísardóttir augu okkar með átakanlegri bók um kynferðislega misnotkun sem gekk lengi án þess að nokkur fengi það stöðvað. Núna ári síðar höfum við heyrt um misnotkun á heyrnarlausum börnum sem viðhöfðust á skólastofnunum þeirra um árabil. Því næst heyrðum við um Byrgið og núna Breiðuvík.

Hvað skal segja? Hvað er hér á ferðinni? Írar hafa til dæmis þurft að gera upp hryllilega sögu ýmissra stofnanna og skóla fyrir börn, þar sem misnotkun átti sér stað lengi. Þetta má sjá í mynd eins og Magdalene systurnar. 

Mér sýnist að við Íslendingar eigum okkur svona myrka sögu líka, um hryllilegar og stofnanabundnar hörmungar og níðingsverk á saklausi fólki sem mátti sín lítils og hefur borið ör þess ætíð síðan. Eins og við sáum í Kastljósi kvöldsins.

Verkefni okkar er að horfast í augu við þessa sorgarsögu, og draga ekkert undan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er svo innilega sammála þér.  Við verðum að horfast í augu við þessa sorgarsögu og þá meina ég við öll.  Ég velti líka fyrir mér hvort þessir menn eigi ekki rétt á skaðabótum + afsökunarbeiðni eftir að hafa verið nauðgað og misþyrmt af stjórnvöldum. Hvers eiga Lalli Johns o.fl. að gjalda.  Setja á stefnuskrá Samfylkingarinnar að kryfja soran í þessu blessaða samfélagi og greiða fórnarlömbum ríkisins skaðabætur. Kv. Elfa

Elfa B. Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 20:49

2 identicon

Já, svo má líka velta fyrir sér hvort við þurfum ekki að skoða samtímasöguna með sömu gagnrýnu augunum. Það er óþolandi að ofbeldisverk samtímans skuli vera læst oní skúffu til þess eins að rykfalla á meðan við býsnumst yfir fólkinu í gamla daga.

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 21:56

3 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Það sem mér þykir hinsvegar alvarlegast að líklega er einhversstaðar víðar svona fyrirbæri til í íslensku samfélagi. Níðingar leynast víða. Tek undir að það er óþolandi að bíða í mörg ár og halda svo bara að þetta gerist "í gamla daga".

Lára Stefánsdóttir, 6.2.2007 kl. 00:17

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Þegar engri lögboðinni eftirlitsskyldu er framfylgt á svona stofnunum og engin stjórnvöld telja sig bera ábyrgð ,verður til svona kerfisbundin  stofnana yfirhylming.Ég þekki líka mál  innan löggæslunnar,sem breytt var yfir,eftir því hver átti hlut að máli.Sorinn er alls staðar,leyndarhjúpar grimmdar og hvers konar afbrota þróast líka oft í skjóli pólutískarar spillingar.

Kristján Pétursson, 6.2.2007 kl. 00:43

5 Smámynd: SM

stofnanabundin illska er bæði til í því sem er gert og ekki er gert. Hvað með alla þá starfsmenn sem vissu um þetta, hvað sagði samviska þeirra þeim? Fólk ber ábyrgð á því hjá hverjum það vinnur og er ekki siðferðislega stætt á því að hylma yfir níðingsskap.

"All that is necessary for evil to triumph is for good people to do nothing"

SM, 6.2.2007 kl. 09:32

6 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Þetta er alltaf sami söngurinn...

Það er ekki hægt að herða viðurlög og reglugerðir. Hins vegar þarf að rjúfa vítahringinn. Það þarf að opna umræðuna þannig að allir viti að þetta er ekki í boði og þeir sem verða uppvísir að slíku fái viðeigandi aðtoð og um leið eftirlit þannig að möguleikar þeirra á frekara ódæði verða verulega takmarkaðir. Það er þannig að þeir sem að misnota börn eru ekki allir eins. Þeir spanna breitt felti, frá því að vera fyrrverandi fórnarlömb upp í psychopata. Þar af leiðandi er meðferðin ekki sú sama og horfur þeirra einnig ólíkar. Það hafa allir kynferðislega girnd og kannski er það eitt af því mikilvægasta að gera sér grein fyrir því að allir geta framið glæp, meira að segja kynferðisglæp, sjáið stríðsglæpi td. Þannig dugar ekki aðeins að herða refsingar. Það þarf að vera eitthvert markmið.

Markmiðið getur verið fjölþætt en ég tel veigamikið að þegar ljóst er að einhver hefur framið kynferðisafbrot sé viðkomandi umsvifalaust handsamaður, greindur og meðhöndlaður, þannig að mögleikar hans á frekari afbrotum séu engir. Fórnarlambið þarf einnig að fá tafarlausa aðhlynningu en það er stór hluti þeirra sem síðar verða gerendur. Sbr heyrnleysingjaskólann. Þessir aðilar verða alltaf að vera undir stöðugu eftirliti og meiga aldrei vera einir við kringumstæður þar sem þeir geta mögulega brotið af sér á ný. Það er dapurlegt en það sem ég er meðal annars að leggja til er að kortleggja alla, fórnarlöm og gerendur þannig að hægt sé að henda reiður á þeim.

Svo er spurningin er þetta vonlaust?

Ein af hverjum þremur stúlkum og einn af hverjum sjö drengjum. Þýðir bara það að gerendur eru margir og fórnarlömb þeirra fleiri en eitt. Ein rannsókn sýndi fram á að þeir sem voru dæmdir fyrir afbrot gegn 1-2 börnum höfðu að meðaltali brotið með eihverjum hætti gegn 110 börnum. Sem er ekki ólíklegt þegar yfir 80% tilvika eru aldrei tilkynnt og þar af endar lítill hluti í kæru með viðeigandi úrræðaleysi yfirvalda.

Það vill enginn lenda á lysta yfir mögulega kynferðisglæpamenn eða fórnarlömb og því er þetta einfaldlega ekki hægt. Hins vegar vil ég ekki senda mín börn til að gista hjá einhverjum sem hefur setið af sér dóm fyrir káf og mér finnst að ég eigi rétt að að vita að hann hafi átt þetta til. Því ég veit líka sem er að það gerist ekkert í fangelsinu sem bætir hann því að hann veit að það sem hann gerði er rangt. Hann bara ræður ekki við löngunina þegar hún færist yfir hann.

Það sem er ekki að nást almennilega í gegn er getuleysi löggjafans til að skilja og skilgreina málefnin. (Og það er ekki bara hér á landi.) En án þess er ógerningur að setja nokkrar reglur. Það er óreynt fólk á þingi og þeir sem hafa verið þar lengst eru öllum örðum leiknari í að halda sér á þingi og fá aðra til að halda að þeir séu þar ómissandi. Mestur tími þingfara fer í að rægja aðra og rakka niður málefnatilbúning þeirra með mis lélegum skírskotunum í fyrri axarsköft flokkssystkina þeirra og forvera. Þetta er lélegasta leikritið sem boðið hefur verið uppá frá endurreisn alþingis.

Ofurkapp er lagt á lögfræði og að löglærðir skulu hafa úrslita ákvæðið í öllum dómum. Þannig haldast ekki í hendur lög og réttlæti. Og allt er gert svo flókið að menn þora ekki að viðurkenna að þeir vita ekki hvar þeir eiga að byrja. Menn verða ekki læsir á enska tungu við komast á þing. Lagaenska er mun flóknari en svo að meðal vel menntaður þingmaður geti stautað sig fram úr henni. Samt eru á viku hverri tugir ef ekki hundruðir nýmæla frá sambandsríkjunum samþykkt án þess að þau fáist þýdd.

Hvernig eiga þingmenn að viðurkenna að þeir geti ekki sinnt þeim störfum sem á þá eru lögð svo að vel sé? Hvernig getur nokkur horfst í augu við að það sem hann langar til að gera sé honum enfaldlega um megn.

Það er tímabært að fara að hlusta á fólkið í landinu og reyna að læra af reynslu annarra. Löggjafarsamkundan er úrelt í þeirri mynd sem hún er í dag. Hún er þó nauðsynleg og þar er þversögnin. Líkt og í vondu hjónabandi getur þjóðin ekki án þingsins verið og öfugt.

Það eru allir jafn reiðir.

En því miður er hér ekkert nýtt þó svo að ég vildi gjarnan sjá eitthvað nýtt undir sólinni.

Gamall nöldurseggur, 6.2.2007 kl. 11:53

7 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Es. Samfylkingin er ekki málið...

Gamall nöldurseggur, 6.2.2007 kl. 11:55

8 Smámynd: Dóra Sif Tynes

Svipuð mál hafa komið upp bæði í Noregi og Svíþjóð. Í Noregi var hrundið af stað opinberri rannsókn og niðurstaðan var formleg afsökunarbeiðni stjórnvalda til þeirra sem höfðu mátt þola vist á slíkum heimilum auk skaðabóta. Hvað ætli íslensk stjórnvöld geri - ljóst er að ekki er hægt að stinga rannsókn Gísla Guðjónssonar undir stól aftur - eða hvað ?

 Dóra Sif

Dóra Sif Tynes, 6.2.2007 kl. 14:03

9 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ekki halda það Óskar að feministum sé sama um að drengir séu misnotaðir. Við feministar berjumst gegn öllu ofbledi, hvernig sem það er, en ofbeldi beinist að mestum hluta að konum og er kynbundið. Það eru karlar sem eru gerendur og konur þolendur í meirihluta. En auðvitað eru drengir og aðrir karlar líka þolendur og ekki viljum við síður berjast gegn því. Þetta er óhugnaður mikill og þessir menn þurfa í alvörunni á hjálp að halda. 

Ég hef gert smá fræðilega úttekt á svona málum sem ég skilaði í kúrsi sem ég tók í afbrotafræði í fyrravetur. Setti smá kafla úr henni inn á bloggið mitt í dag. Við þurfum úrræði fyrir barnaníðinga og fórnarlömb 

Andrea J. Ólafsdóttir, 6.2.2007 kl. 14:19

10 identicon

Sumarið 1993 vann ég á "Endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítalans í Kópavogi" sem PC-lega séð mátti ekki kalla Kópavogshæli, en hét það nú samt í daglegu tali. Þar var mér tilkynnt um ýmsan hrylling sem var látinn viðgangast í mörg herrans ár, en var blessunarlega (þó tiltölulega nýlega) búið að taka fyrir. Meðal annars var lýst fyrir mér í smáatriðum leikreglum leiksins "fávitakast" sem byggir lauslega á reglum um dvergakast. Vistmenn voru notaðir eins og keilukúlur og fleygt eftir löngum velbónuðum göngum húsanna. Sá sem kastaði lengst vann. Góðum mönnum sé lof að búið var að taka fyrir þennan og annan viðbjóð á þeim árum sem ég vann þarna (eða hvað? það voru þarna enn starfsmenn sem höfðu keppt í íþróttinni, ekki að því hlaupið að endurnýja starfsfólk í láglaunastörf sem þessi). Stofnunin var algerlega tekin í gegn stuttu áður en ég byrjaði að vinna þarna og hluti af tiltektinni var nafnbreytingin sem byggir á skandinavísku social módeli um cognitive reframing (sem enginn vissi um nema starfsfólk). Jú, með því að kalla þetta endurhæfingar- og hæfingardeild en ekki hæli, var verið að undirstrika að þarna væri ekki komið fram við fólk eins og “hælismat”. Gott og vel. En má þá koma illa fram við fólk ef það býr á einhverju sem heitir hæli? enívei.

Fyrrverandi vistmenn/þolendur Kópavogshælis geta ekki komið fram og lýst þessum hörmungum, eiga enda bágt með að tjá sig og geta illa borið hönd fyrir höfuð sér. Hver ætlar að tala þeirra máli? Hver ætlar að rannsaka þeirra mál? Ég lýsi fyrirfram yfir undrun minni ef þetta mun ekki líka komast í umræðuna. Ég veit ekki nógu mikið til að tjá mig meira, enda heyrði ég bara sögurnar frá því í ‘gamla daga’. Hvar annarsstaðar var þetta látið viðgangast þar sem þolendur geta ekki verið til frásagnar? Vissu foreldrar þetta? Tóku þau aldrei eftir marblettum á börnunum sínum? Hvers vegna var starfsfólkinu ekki sagt upp þegar social-reformið tók við? Og -síðast en ekki síst- hvenær ætla stjórnvöld að skilja að störf í nærveru sála eru akkúrat þau störf sem vanda þarf til ráðninga í. Þá á ég bæði við um stjórnendur og almennt starfsfólk. Það veitist mörgum stjórnmálamanninum auðveldara að skilja aðgát í nærveru upphæða. OK flott! Einhver vinsamlega reikni út þann kostnað sem afleiðingar ofbeldis sem þessa hefur á landsmenn, takk.  Tökum inn í myndina fangelsis-, sjúkra- og ráðgjafarkostnað fyrir þolendur og fjölskyldur þeirra. Nú svo getum við vonandi bætt við þeim kostnaði sem stjórnvöld mega gjöra svo vel að punga út í skaðabætur.Ef skaðabætur verða nógu háar, þá kannski  verður það til þess að svona endurtaki sig ekki. Slíkt er eðli sekta.

Ragna Benedikta (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 15:48

11 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Jú, það á að opna umræðu um kynferðisbrot og ofbeldismál upp á gátt. Besti vinur barnaníðinga er þögnin. Það er ekki hægt að kenna umræðunni um það að einhver hafi framið sjálfsmorð. Hvað vitum við hvort að það hefði ekki gerst hvort sem er.

Aðalatriðið er að koma í veg fyrir að svona geti endurtekið sig.

Svala Jónsdóttir, 6.2.2007 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband