Leita í fréttum mbl.is

Bakþankar 2.des

Ráðherra opnar sig

Forsætisráðherra opinberaði aldeilis hug sinn til þjóðarinnar í ræðustóli á Alþingi á fimmtudaginn. Rætt var um stuðning Íslands við Íraksstríðið. Röksemdir ráðherrans fyrir því að það hafi verið allt í lagi að Íslendingar tækju sæti á lista hinna staðföstu þjóða og styddu Bandaríkin í þessu fáránlega og óhuggulega styrjaldarbrölti voru efnislega þessar: Íslendingar skipta engu máli. Bandaríkin hefðu ráðist á Írak hvort sem er.

EINMITT það já. Það var fínt að fá þetta viðhorf fram í dagsljósið. Við skiptum engu máli. Ég verð að viðurkenna að mér hefur lengi fundist utanríkisstefna Íslendinga, einkum og sér í lagi í tilviki Íraksstríðsins, furðuleg og nú er sem sagt hin undirliggjandi skýring komin á hreint. Þunglyndislegt tilgangsleysi hefur ráðið för. Allt er einskis vert. Við getum stutt hvað sem er.

ÉG sé ekki alveg hvernig þetta rímar við það stefnumál að Ísland fái sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hvers vegna eigum við að vera þar ef við skiptum engu máli? Hvernig ætlar utanríkisráðherra að útskýra það á ensku?

RÖK Geirs eru á mörkum hins súrrealíska. Sú staðreynd ein og sér að við hefðum ekki getað komið í veg fyrir styrjöldina er auðvitað ekki röksemd fyrir því að við eigum að styðja hana. Ég er hræddur um að Íslendingar komist í all svakalegar ógöngur á alþjóðavettvangi ef það á almennt að verða stefnan að við styðjum hluti sem við getum ekki komið í veg fyrir.

VITASKULD snérist stuðningur Íslands við Íraksstríðið ekki um það hvort að innrásin yrði gerð eða ekki. Það er fáránlegt að halda því fram að einhver standi í þeirri meiningu að það sé kjarni málsins. Það viðhorf, hins vegar, að við skiptum engu máli er ákaflega metnaðarlaust af hálfu forsætisráðherra þjóðarinnar, markað af trúleysi á getu hennar og stöðu. Hvað veldur þessu viðhorfi veit ég ekki, en ráðherranum væri hollt að rifja upp að listi hinna staðföstu þjóða, sem við erum á ásamt Tonga (skiptir Tonga máli?) og fleiri ríkjum hafði verulegt áróðursgildi í augum Bandaríkjanna á upphafsdögum innrásinnar. Við erum þar sem skandinavískt lýðræðisríki. Bara sem slíkt skiptum við auðvitað verulegu máli og höfum mikið vægi. Við berum ábyrgð samkvæmt því.
 
Í ummælum sínum á Alþingi – í þessum þunglyndislega boðskap – birtist ráðherrann mér eins og persóna í Shakespeare-leikriti. Þarna stóð hinn þunglyndi konungur sem er búinn að missa trúna á þjóð sína og hlutverk sitt. Þetta er karakterinn sem ráfar sveittur og langþreyttur með skakka kórónu um ganga hallar sinnar og tuldrar fyrir munni sér að allar hugsjónir heimsins séu hjóm eitt og fánýtt hjal. “Ó, bróðir! Hví er ég hér?”


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband