Leita í fréttum mbl.is

Hátíð í stormi (09.02.08)

Það er eitthvað afskaplega íslenskt við það að sjá þessa dagana í Reykjavíkurborg hátíðarborða blakta á fánastöngum þar sem auglýst er með pompi og prakt að nú fari fram Vetrarhátíð. Þetta líkar mér. Í slyddu og él, stormi og hríð, svelli og sköflum halda gallharðir borgarbúar hátíð og fara meira að segja í skrúðgöngu niður Skólavörðustíg og láta stormviðvaranir Veðurstofunnar sem vind um eyru þjóta.

AÐ vísu held ég að mætingin í gönguna hafi ekki verið ofboðslega mikil, en það er sama. Þetta er rétti andinn. Ísland er veðravíti. Hér er eilífur stormbeljandi. Að vera Íslendingur er að göslast áfram í láréttri rigningu og muldra ókvæðisorð út um veðurbarið andlit. Hvers vegna ekki að slá því upp í skrúðgöngu?

SAMBÚÐ landans við hið vonda – eða öllu heldur fjölbreytta – veðurfar hefur sett varanlegt mark sitt á þjóðarsálina. Við getum talað um veðrið heilu og hálfu dagana og þess gætir jafnvel að Íslendingar sakni veðursins þegar þeir halda til fjarlægra landa. Þau sjónarmið hafa heyrst, að fátt ylji Íslendingum meira um hjartarætur en að stíga út úr Leifsstöð og fá rigningarskvettuna beint í vitin. Þá færist oft lúmskt bros yfir sólbrunnin andlit.

ÞETTA er vissulega sjónarmið. Ég vil meina að Íslendingar, til þess að vera enn sáttari við að búa á þessu vindslípaða bergi þar sem varla vaxa tré, ættu að gera meira úr kostum veðursins. Tökum Lækjartorg. Miðborg Reykjavíkur. Allir vita, að það sem kemur í veg fyrir að þar geti verið iðandi líf allan ársins hring, alveg sama hvað reynt er að skipuleggja, er hið endalausa rok.

SVONA löguðu eiga Íslendingar að snúa sér í vil. Er Lækjartorg ekki þá bara torg roksins? Hvers vegna ekki að setja rokskúlptúr á torgið og draga þannig dár að Veðurguðunum sem í árhundruð hafa spilað með okkur? “Ég elska þig stormur,” ætti sá skúlptúr að heita. Risastór vindhani eða ógnarstór blaðra. Kannski hægt að láta sig fjúka þar spölkorn í bandi. 

OG við getum gert fleira til þess að fagna veðravítinu. Til dæmis má skíra götur eftir veðurhugtökum: Slyddugata, Skafrenningshólar, Norðanbálsstræti, Strekkingstorg, Brunagaddsgata, Asahlákuflöt, Suddastígur, Slabbsalir. Það er í öllu falli ekkert annað að gera en að hafa gaman af þessu, segi ég. Annars verður maður bara niðurdreginn.

Birtist sem bakþankar í Fréttablaðinu 9.febrúar 2008.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband