Leita í fréttum mbl.is

Árið (29.12.07)

Árið sem er að líða er sveipað dálítið undarlegum blæ í huganum. Það vantaði ekki hefðbundin stórtíðindi. Fornir fjendur í pólitíkinni mynduðu saman ríkisstjórn. Nýr meirihluti tók við stjórninni í Reykjavík eftir að sá gamli sprakk með látum. En þegar fram hjá þessu er litið, enda svo sem ekkert nýtt að stórviðburðir verði í pólitík með einhverju millibili, stendur eftir að árið 2007 var eiginlega réttnefnt ár hinna furðulegu tíðinda. Ár fáránleikans.

HUNDURINN Lúkas – hinn íslenski Lassie –  var talinn af og ungur piltur sakaður um að hafa murkað úr honum líftóruna á svívirðilegan hátt. Allt logaði á netinu. Ein eftirminnilegasta fréttamynd ársins er af hópi fólks með tár í auga og samanherptar varir dreift um frosna jörð í blysför til minningar um hund, sem ekki var dáinn, heldur sprangaði um í Hlíðarfjalli og hnusaði af mosa og spörðum.

YOKO Ono stóð í rokinu út í Viðey og sagði “I love you” í sífellu, frammi fyrir veðurbörðum fulltrúum þjóðar sem í mesta lagi fæst, að öllum jafnaði, til að segja um annað fólk að það sé ágætt, þannig séð. Sjaldan hefur orðið jafnátakanlegur árekstur menningarheima hér á landi eins og við þessa athöfn út í Viðey. Setningu ársins átti Ringo Starr og kunnum við honum miklar þakkir fyrir: “We got the message, baby”. Ringo las stöðuna rétt. Þessi “ég elska þig”-gjörningur var ekki að virka. Það var of mikið rok.

UMRÆÐA ársins var um kartöfluna. Eða var það mús? Sölvi fréttamaður stóð í Bónus og las pistil um matvælaverð. Á bak við hann fór eitthvað brúnt yfir gólfið. Var virkilega mús í Bónus? Bloggheimur logaði. Nei, líklega var þetta kartafla. Ég sjálfur var dálítið móðgaður yfir því, og er enn, að uppástunga mín í þessari umræðu, og málefnalegt innlegg, var léttvægt fundið á sínum tíma og vakti litla athygli. Ég taldi flest benda til þess að þetta hefði verið kiwi.

SVONA var árið 2007. Stórfurðulegt einhvern veginn. Enn einn vitnisburðurinn um sérviskulega þjóð á norðurhjara og ófyrirsjáanleg uppátæki hennar er runninn dag fyrir dag inn á síður sögubókanna. Íslenska þjóðin gengur keik í átt til nýrra tíma, nýrra fjárfestinga, nýrra handboltaleikja, nýrra deilna um ekki neitt, nýrra ekkifrétta, nýrra stórtíðinda. Gleðilegt ár, þjóð! I love you.

Birtist sem bakþankar í Fréttablaðinu, 29.desember 2007


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband