Leita í fréttum mbl.is

Hús með flötu þaki (Dómur um Bréf til Maríu)

Það er afskaplega vel þegið verk á Íslandi að vel skrifandi maður skuli setjast niður og setja hugsanir sínar á blað. Sjálfstæðar viðureignir Íslendinga við hugmyndasöguna af því tagi sem Einar Már Jónsson hefur hér skrifað af mikilli andagift eru alltof fátíðar. Kostur þessarar bókar, sem er bréf höfundar til tiltekinnar Maríu, er það hversu vel hún er skrifuð. Höfundur nær oftsinnis slíku flugi í hinum hugmyndafræðilegu skylmingum við samtíma sinn og lungað úr 20.öldinni að við nokkur tilefni er hreinlega ekki hægt annað en að skella upp úr. Fyrir því tæki ég hatt minn ofan, ef ég hefði slíkan.

Bölsýnin

Það er hins vegar væntanlega dæmi um hnignun samtímans að mati höfundar að ungir menn skuli ekki lengur bera hatt. Það verður nefnilega ekki framhjá því horft að bréf Einars er haldið slíkum bölsýniskvillum, að ef ekki væri fyrir hápunkta í stíl myndi bókin fara ansi nálægt því að vera einungis raus og nöldur. Einar agnúast hér af svo miklum þrótti út í nútímann að fátt virðist standa eftir sem er honum á nokkurn hátt að skapi. Ætli jafnvel sjálfur Bólu-Hjálmar yrði ekki bjartsýnismaður í samanburði.
Frönsk heimspeki er hér til dæmis dregin sundur og saman í háði, sem er einstaklega vel heppnaður og fyndinn kafli, en svo er eins og höfundur ráði sér ekki fyrir böli. Einstaka misheppnaðar stjórnvaldsaðgerðir í Frakklandi verða honum tilefni til þess að afgreiða samtímann sem svikamyllu, tölvur eru ofmetnar og til trafala, tilraunir til umbóta (sem er orð sem hann virðist hafa óbeit á) í menntakerfinu eru sallaðar niður – án efa réttilega, en hér ber samt sem áður að varast alhæfingar í kjölfarið –, Evrópusambandið er frjálshyggjusamsæri, stéttin fyrir utan bókasafnið í París er ómöguleg, það er léleg dagskrá í sjónvarpinu, fáir kunna að tala tungumál og allra síst sín eigin, það er verið að eyðileggja borgirnar með byggingum, stjórnmálamenn eru stigamenn, internetið er samhengislaus upplýsingasíbylja, fólk almennt er hugsunarlaust fórnarlamb tískusápukúla á öllum sviðum og síðast en ekki síst: Hús með flötu þaki eru að mati höfundar einhvers konar fáránleg birtingarmynd heimskulegrar nýjungagirni arkitekta um miðbik 20.aldar sem hafi viljað storka íslensku veðurfari af dæmalausum hroka, en virt að vettugi öll klassísk gildi byggingarlistar. Týpíkst, finnst Einari. Svona trunta er nútíminn. Æðir bara áfram og niðurstaðan er einskis nýt smekkleysa. Hvaða, hvaða, segi ég hins vegar. Hægan, góði. Þetta dæmi er mér einstaklega hugleikið, persónulega. Ég ólst upp í húsi með flötu þaki. Það hús mun ætíð skipa sess í mínu vitundarlífi sem einstaklega fallegt, vel byggt og vel skipulagt hús, reist í góðri sátt við fjöruborð og annað umhverfi – vettvangur ótal ánægjustunda.

Alhæfingar

Smekkur Einars liggur þannig alltof mikið til grundvallar dómum hans. Af þeim sökum má segja að bókin sé hriplek, svona dálítið eins og hann heldur að hús með flötu þaki séu. Ósannfærandi, en líflegar, alhæfingar einkenna hana um of. En þunglyndislegar niðurstöður þurfa hreint ekki endilega að vera ljóður á bók, heldur þvert á móti, enda skyldi höfundur hér ekki vera gagnrýndur í sjálfu sér fyrir bölsýnina – hún er oft skemmtileg –  heldur á hverju hún hvílir.
Einar virðist til dæmis góna í svart tómið út af því að einhverjir flækjufótar fræðanna skuli halda því fram að þjóðir séu ekki til. Auðvitað eru þjóðir til. Hinn málfræðilegi samkvæmisleikur kaffihúsanna sem felst í því að lýsa því yfir að eitthvað sé ekki til sem er til, mun þó alltaf halda áfram. Hér hefði Einar Már heldur átt að fjalla um Richard heitinn Rorty og kannski Wittgenstein. Í fræðunum, mun frekar en á kaffihúsunum, verða alltaf matreiddar fjarstæður eins og þær sem fá Einar hér til að býsnast, og það er af einfaldri ástæðu: Of margir fá laun til að segja eitthvað um hluti sem er í raun afskaplega lítið að segja um. Einfaldasta leiðin til að fá laun fyrir fræði, og oft sú sem skapar hvað mestu frægðina til skamms tíma litið, er að halda því fram að eitthvað sé dautt og ekki til, og helst að það hafi aldrei verið til. Til þess að gera svona þarf oft bara að breyta merkingu eins orðs, eins og “þjóð”, og bingó. Þjóð er ekki til. Þannig er þetta bara. Svona æfingum eiga hugsandi menn að mæta, finnst mér, með kampakátu æðruleysi í stað þess að skrifa um þær bréf til konu.

Vélabrögð frjálshyggjunnar

Bölsýni Einars -- sem verður honum mikil andagift svo hann nær einstaklega eftirminnilegu flugi í köflum eins og þegar hann lýsir launaðri viðureign sinni beggja megin borðs við kommuspursmál í texta á vegum Evrópusambandsins, sem er óborganleg lýsing ásamt mörgum öðrum – villir honum því miður sýn. Einar segir til dæmis að trúarbrögð séu dáin og telur það af hinu vonda. Mér finnst einföldun að halda þessu fram, nú þegar blóðugar trúarbragðastyrjaldir eru háðar í Mið-Austurlöndum, forseti hins frjálsa heims er af flestum talinn trúarofstækismaður og allri samtíð mannkyns var steypt í rússibanareið sem ekki sér fyrir endann á í kjölfar grimmilegs hryðjuverks sem framið var á trúarlegum grunni þann 11.september 2001. Hvar var Einar þá?
Sjálfsagt var hann að hrista höfuðið yfir frjálshyggjunni. Bók Einars er nefnilega reist á meinloku. Meinlokan er sú að frjálshyggja, svokölluð, hafi sigrað samfélag nútímans og að hún sé rót alls ills. Hvort tveggja er rangt. Hið síðara er einkum rangt vegna þess að hið fyrra er alrangt.
Velferðarkerfið er að hrynja að mati Einars, tungumál að deyja. Að baki þessu öllu stendur frjálshyggjan á einhvern ísmeygilegan hátt sem oft er erfitt að festa hönd á í hugleiðingum Einars. Var ekki íslenskan miklu meira að deyja við lok 19.aldar? Hefur hún nokkurn tímann verið jafnlifandi og nú? Og tökum velferðarkerfið. Nú um áramótin fara kort upp á 25 þúsund krónur frá Reykjavíkurborg inn á heimili allra foreldra barna og unglinga í borginni til þess að gera þeim öllum jafnkleift að bjóða börnum sínum upp á frístundaiðkun, tómstundir og hreyfingu. Frjálshyggja? Nei, hreint ekki. Sósíalismi.
Og þannig blasa dæmin við á öllum sviðum, bara ef fólk tekur sér tíma til að horfa. Hefur Einar til dæmis hugleitt hvaða pólitíska ákvörðun býr að baki því að veita nánast ókeypis köldu vatni inn á öll heimili á Íslandi? Það er varla að maður telji viðeigandi að nota hið gildishlaðna orð aftur, með svo skömmu millibili, en ætli ég geri það ekki samt: Sósíalismi.
Mér segir svo hugur að Einar sé orðinn ónæmur fyrir helstu sigrum þeirra lífsskoðana sem ég þykist vita að hann aðhyllist, og telji þá sjálfsagða hluti sem ekki eigi erindi inn í myndina.

Samspil hins alþjóðlega og þjóðlega

Einari er hið yfirþjóðlega vald Evrópusambandsins alls ekki að skapi. En hér vakna líka spurningar: Hefur Einar talað um þessi mál t.d. við ASÍ? Nánast allar breytingar til góða á vinnulöggjöf Íslendinga, í átt til meira réttlætis handa launþegum, hafa átt sér stað vegna tilskipana frá Evrópusambandinu sem við höfum skuldbundið okkur að gangast undir. Hér er ekki frjálshyggjunni fyrir að fara.
Auk þess vil ég nefna annað: Stærstu vandamál samtímans eru yfirþjóðleg, nægir þar að nefna umhverfismál, sem Einar tæpir aðeins á, aðallega í þeim tilgangi að renna stoðum undir þá allsherjarkenningu sína að allt sé að fara til fjandans. Það hins vegar, að Einar Már skuli ekki taka þetta ógnarmikla alþjóðlega viðfangsefni inn í reikninginn í mati sínu á réttmætu samspili hins þjóðlega og alþjóðlega/yfirþjóðlega, gerir bókina í raun og veru að tímaskekkju. Eða eins og höfundur myndi kannski sjálfur kalla slíkt fyrirbrigði: Hús með flötu þaki.

Örlítill útúrdúr um hið yfirþjóðlega

Það segir raunar sitt, að þeir sem einkum hafa allt á hornum sér út af yfirþjóðlegu valdi Evrópusambandsins hafa einkum notað það sem rök í andstöðu sinni – þó svo Einar geri það reyndar ekki – að með því að gangast að fullu undir slíkt vald myndu Íslendingar fórna þeim möguleika að geta gert til dæmis fríverslunarsamning við Kína. Þessa málflutnings hefur gætt hjá íslenskum stjórnmálamönnum lengst til vinstri.
Þetta er athyglisvert. Ég myndi frekar telja, satt að segja, að fríverslunarsamningur við einræðisríki sem stundar markviss mannréttindabrot væri dæmi um blindari frjálshyggju og hundrað sinnum óábyrgari kapítalisma heldur en nokkurn tímann það að ganga til samstarfs sjálfstæðra ríkja um pólitísk, efnahagsleg og menningarleg markmið í Evrópu, m.a. til að tryggja frið í álfunni og koma því til leiðar að hinn vestræni heimur geti í auknum mæli komið fram sem ein heild í viðureign við aðkallandi vandamál sem að okkur steðja, eins og í áðurnefndum umhverfismálum svo eitthvað sé nefnt. En Einar sér þetta til dæmis ekki, því miður.

Af meintum sigri frjálshyggjumanna

Einar kennir frjálshyggju um flestar meintar ófarir og boðar jafnvel dauða tungumála út af henni og telur, sem sagt, samfélagið gegnsýrt af vélabrögðum frjálshyggjumanna. Svo ég noti viðeigandi orðalag: Ég kaupi þetta alls ekki.
Lítum á: Við lifum í samfélagi sem er nú búið að vera, í tæpa tvo mánuði, að segja eitt samfellt “hjúkk” yfir því að FL Group hafi ekki eignast ráðandi hlut í Deildartunguhver. Það segir sitt um þjóðfélagið og hinn meinta sigur frjálshyggjunnar að slíkt þykir bara alls ekki, og hreint ekki, koma til greina á Íslandi. Auðlindir eiga að vera í almannaeign. Það er ekki svo lítið á þessum meintu frjálshyggjutímum sem Einar Már heldur að ríki.
Í samfélagi sem skaffar þegnum sínum ekki bara nánast ókeypis kalt vatn, heldur líka niðurgreitt heitt vatn, rekur opinberan íbúðalánasjóð í félagslegum tilgangi, innheimtir skatta fyrir ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, vegakerfi, löggæslu og ríkisreknu útvarpi – og þetta á flest allt við um bæði Frakkland og Ísland – og rekur vínbúðir, er ferlega undarlegt að til séu menn sem telji virklega að frjálshyggja hafi á einhvern hátt unnið sigur í hugmyndafræðilegum bardögum nútímans. Frjálshyggjan hefur þvert á móti skíttapað. Stundum hefðu jafnvel einstakir smásigrar hennar verið vel þegnir, svona til tilbreytingar, eins og til þess að koma í veg fyrir þá meinlegu hugsun ríkisstjórna á Íslandi til langs tíma að þær eigi að grípa til svokallaðra sértækra atvinnuskapandi aðgerða, sem er stefna sem hefur oftsinnis leitt til stórfelldra náttúruspjalla í sovéskum anda hér á landi sem og efnahagsmistaka. Í stríði við þessa meinsemd hafa frjálshyggjumenn algerlega brugðist, líkt og á flestum sviðum þar sem helst hefði mátt vænta að kenningar þeirra gerðu gagn.

Bág staða hinnar miklu ógnar

Þar sem frjálshyggja hefur náð einhverju fram, hefur hún alltof oft skilað sér í hatrammri sérhagsmunagæslu sem komið hefur í veg fyrir félagslegar úrbætur, jöfnuð og aðgengi annarra að gæðum og tækifærum. Sífellt fleiri átta sig á þessu og í kjölfarið hefur staða hinnar miklu ógnar, sem frjálshyggjan er að mati Einars, orðið ákaflega bág. Hér á landi eru menn ennþá, svo dæmi sé tekið, að bölva þeim snillingum í sand og ösku sem seldu grunnnet Símans. Slíkt grunnet er dæmi um samfélagslega innri gerð sem ríkisstjórnir þurfa að hafa á sínu færi til þess að skapa umgjörð réttlátra og sanngjarnra viðskipta og framfara. Nú er svo komið að stjórnmálaöfl eru farin að vinna stórsigra í kosningum um víða veröld –nú síðast í Ástralíu—með því til dæmis að benda á að ljósleiðarakerfi verða að vera í opinberum rekstri, því einkaframtakið sé ófært um slíka uppbyggingu á sanngjarnan hátt. Ríkið verði að skaffa undirstöðurnar. Svo megi einkaframtakið keppa. 

Tvær villur stjórnmálaumræðunnar

Þótt vissulega megi taka undir það sjónarmið að á mörgum sviðum sé allt að fara til fjandans – af mörgum ástæðum – tel ég þó mikilvægt að við skrif svona bókar eða bréfs verði höfundur að opna augun fyrir því að mjög margir eru af fullum krafti að reyna að gera allt til að sporna við þróuninni. Mjög margir eru til dæmis byrjaðir að hjóla.
Enn aftrar þó ótti Einars við frjálshyggjuna honum sýn, svo rétt er að hafa um það leiðarminni í bókinni nokkur lokaorð: Ákaflega fáum markmiðum hefur frjálshyggjan náð svo heitið geti. Þetta tel ég alveg óhætt að fullyrða. Helsti postuli kenningarinnar á Íslandi hefur nánast alltaf verið á launum hjá hinu opinbera.
Margir kunna hins vegar að halda, eins og Einar, að frjálshyggjan hafi unnið, en það er þá væntanlega vegna þess að þeir hinir sömu láta blekkjast af þeirri staðreynd að það nennir varla nokkur maður lengur að deila við frjálshyggjumenn. Eins og Einar rekur mjög vel eru kenningar frjálshyggjumanna í sinni upprunalegu og öfgafyllstu mynd – en margir hófsamari hafa sitthvað til síns máls –  hugmyndafræðilegt aðhlátursefni.
Einar Már virðist hins vegar telja þögnina sem af þessum sökum umlykur kenningar öfgafullra frjálshyggjumanna tákn um sigur þeirra. En það hversu auðveldlega honum sjálfum tekst að hæðast að þeim er hins vegar eitt skýrasta dæmið um ósigur þeirra, sem  honum sjálfum, höfundinum, mistekst því miður að koma auga á. Sem er undarlegt. Úr verður góð bók, meistaralega skrifuð, fyndin, áhugaverð en því miður byggð á villu, eða blindu.
En Einari er kannski vorkunn því tvær villur einkenna pólitík samtímans almennt: Vinstri menn halda að þeir hafi tapað, og skrifa samkvæmt því. Hitt er þó ekki síður fyndnara: Hægri menn halda að þeir hafi unnið, og skrifa samkvæmt því.
Úr þessu sprettur bréf Einars og er um þetta meinfyndna ástand ágætis vitnisburður.

Þessi dómur birtist í vefriti Stofnunar stjórnmála og stjórnsýslufræða við HÍ í desember 2007.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband