Leita í fréttum mbl.is

Þjóð á biðlista (28.04.07)

Á dögunum fór ég ásamt skoðanasystur í heimsókn í fangelsi til þess að spjalla við fangana um pólitík á þessu kosningavori. Úr þessari heimsókn varð hið skemmtilegasta spjall í upp undir klukkutíma og var ekki að heyra annað á föngunum en að innan múranna væri mikil pólitísk vakning. Við ræddum m.a. um velferðarmál. Biðlistarnir eftir þjónustu, alls staðar í velferðarkerfinu, bárust þá í tal eins og gefur að skilja. Þá tjáðu fangarnir mér eitt, sem ég vissi ekki –hafði bara ekki dottið það í hug— að meira að segja í fangelsin hér á landi eru biðlistar. Dæmdir menn þurfa að gjöra svo vel að bíða í þónokkurn tíma, jafnvel nokkur ár, áður en þeim er hleypt inn í fangelsin til þess að afplána.

SJÁLFSAGT hafa einhverjir stjórnmálamenn fengið að fara fram fyrir röðina eins og gerist og gengur. Það breytir hins vegar ekki því að vanalega, í öllum heilbrigðum samfélögum, er þessu þveröfugt farið: Menn bíða eftir því að fá að komast út úr fangelsum, en ekki inn.  Menn reyna jafnvel að brjótast út, en eru minna áhugasamir um að fá að komast inn.

ÞETTA ástand er auðvitað með ólíkindum.  Biðlistar eru út um allt í þjóðfélaginu. Hér áður fyrr ríkti skömmtunarkerfi á Íslandi. Matvælum var skammtað. Gjaldeyri var skammtað. Nú ríkir biðlistakerfi á Íslandi. Þjónustunni er skammtað. Um 400 eldri borgarar bíða eftir hjúkrunarrými, á þriðja þúsund manns eru á alls konar biðlistum í heilbrigðiskerfinu, á annað hundrað börn eru á biðlista hjá Barna og unglingageðdeild og annað eins af börnum á biðlista hjá Greiningarstöð ríkisins.

SVONA meingallað er ástandið alveg sama þótt allar vísbendingar bendi til þess að í því felist sparnaður að eyða öllum þessum biðlistum. Sjúkur eldri borgari liggur núna í dýru sjúkrarúmi á spítala. Rými á hjúkrunarheimili, þar sem mun betur færi um hann, kostar miklu minni pening fyrir ríkið.

ÞETTA vita allir. En tregðulögmálið hefur hreiðrað um sig. Ekkert er gert.  Slagorðin dynja hins vegar á fólkinu: “Ekkert stopp” er eitt þeirra. Því er ætlað að svara stefnu þeirra afla sem vilja staldra við í virkjana- og stóriðjuvæðingu lands og þjóðar, og setja fyrirvara við það að hér megi sökkva náttúruperlum, blása upp þenslu og eyða orkuforðanum eins og það sé enginn morgundagur.

ÞESS má geta að í hátæknigeiranum, sem skilar 6% af gjaldeyristekjum, hefur einmitt orðið stopp. Lítill sem enginn vöxtur. Hátæknistopp. En hvað um það. Hitt er ekki síður háðulegt: Gagnvart þjóð á biðlistum hljóta orðin “ekkert stopp” að hljóma einkennilega.  Ég er nefnilega alveg viss um að foreldrum sem bíða eftir greiningu á námsörðulegum barnsins síns, og eru búnir að bíða eftir henni í nokkur ár, finnst þeim einmitt vera dálítið stopp. Þannig hafa þeir sem harðast mæla gegn stóriðjuhléi í raun og veru staðið fyrir velferðarhléi. Ísland er á biðskyldu.

Birt sem Bakþankar í Fréttablaðinu 28.apríl 2007.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband