Leita í fréttum mbl.is

Urgur í Sjálfstæðismönnum - Fréttaskýring

Heimildarmenn mínir innan Sjálfstæðisflokksins, sem eru þónokkrir, hafa ítrekað bent mér á þá þversögn sem í því felst fyrir flokkinn að hann skuli vera á móti aðild að Evrópusambandinu, á meðan margir helstu forkólfar í viðskiptum og atvinnulífi eru fylgjandi. Sjálfstæðisflokkurinn eigi á hættu að missa tengsl sín við atvinnulífið ef hann standi fast við einstrengingslega afstöðu sína til ESB-aðildar.  

Forsíðufrétt Blaðsins í dag er athyglisverð í þessu ljósi. Þar er það rifjað upp, að í kringum 1990 hafi Davíð Oddsson verið fylgjandi aðildarumsókn. Í nýrri bók Eiríks Bergmanns er reynt að festa hendur á orsökum fyrir því að Davíð snérist síðar hugur. Leitt er að því líkum að afstöðubreytingin eigi rætur að rekja til persónulegrar óvildar milli Davíðs og Jóns Baldvins. 

Í öllu falli er ljóst að margir Sjálfstæðismenn kunna formanni sínum, Geir Haarde, litlar þakkir fyrir að standa fast við umdeilda línu fyrrum formanns, sem beitti sér -- þrátt fyrir sína upphaflegu afstöðu -- af þunga gegn því að málið yrði svo mikið sem rætt. Áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins eru farnir að tala opinskátt um aðildarumsókn, eins og sannaðist t.d. á ræðu Þorsteins Pálssonar á Iðnþingi á dögunum. 

Heimildarmenn mínir halda því fram að uppgjör um Evrópumál sé óumflýjanlegt innan Sjálfstæðisflokksins á komandi árum. 

Raunar hefur því verið haldið fram í mín eyru, af innanbúðarmönnum, að uppgjörið muni ekki einungis varða Evrópumálin. Margir spá því hreinlega að næsta stórviðri í íslenskri pólitík verði allsherjar uppgjör í Sjálfstæðisflokknum, varðandi efnahagsstjórn, and-frjálshyggjuáherslur, sjávarútvegsmál, atvinnumál, afskipti af viðskiptalífinu, byggðamál, stóriðjustefnu, umhverfismál og margt fleira, auk Evrópumála. Þeir hinir sömu benda á, að saga hatrammra innanflokkserja sé löng í Sjálfstæðisflokknum. Á níunda áratugnum hafi hann logað stafnanna á milli í erjum sem voru svo miklar og langvarandi að allt tal um mögulegt sundurlyndi annarra flokka nú á dögum sé hjal eitt í samanburði. 

Þessi eldur logi enn undir niðri. Gjárnar hafi ekki verið brúaðar. "Davíð," sagði einn viðmælandi minn við mig, "hélt flokknum saman með því að skipa fólki að halda sér saman. Geir er að reyna þetta líka núna, en það mun ekki takast lengi. Hann er einfaldlega ekki jafnsterkur karakter." 

Ekki þarf að tala lengi við sjálfstæðismenn, á öllum vígstöðvum, til þess að finna óánægjuna. Einn áhrifamaður, í framlínunni, tjáði mér til dæmis á dögunum að hann hefði ekki hugmynd um hvað flokkurinn ætlaði að tala um í komandi kosningabaráttu. Hann kvaðst mjög óánægður með skipulag komandi baráttu og sagðist vera "í lausu lofti" varðandi áherslur flokksins í helstu málaflokkum.

Annar var bálvondur út í flokkinn í Hafnarfirði, enda á móti stækkun, eins og svo fjölmargir flokksbræður hans og systur. "Af hverju heldur flokkurinn ekki opinn fund um málið svo maður geti alla vega sagt skoðun sína?" sagði þessi tiltekni heimildarmaður. 

Sá þriðji sagðist ganga úr flokknum ef forystan færi -- eins og hinir íhaldssömu Sjálfstæðismenn vilja -- í samstarf við Vinstri græna eftir kosningar. Sá fjórði vildi hins vegar fátt frekar en að ganga til liðs við VG, í því augnamiði að "koma böndum á frelsið" eins og hann orðaði það. Dreki gengi laus. Koma yrði böndum á viðskiptalífið. 

Sá fimmti, frammámaður í atvinnulífi, hristi einfaldlega hausinn og dæsti yfir stefnu flokksins í Evrópumálum og endalausum skærum hans við viðskiptalífið. Svipurinn sagði meira en þúsund orð.

Sá sjötti var æfur yfir afstöðu borgarstjóra til klámráðstefnunnar á Hótel Sögu. "Erum við ekki talsmenn frelsis?" tuldraði sá og gekk fýldur út í suddann. Og sá sjöundi var ekkert að skafa ofan af því: "Sjálfstæðisflokkurinn er ófær um að stýra efnahagsmálunum. Hann hefur ekki lengur þá festu sem til þarf." Hann kvað gegndarlaust fjáraustur flokksins í allar áttir: Hátæknisjúkrahús (með Alfreð), sauðfjársamning og mjólkuriðnað -- svo nokkur dæmi séu tekin -- vera dæmi um djúpstætt ístöðuleysi í ríkisfjármálum. Hann sagði það skandal, að á þenslutímum eins og nú skyldi ríkið -- undir forystu hægriflokks -- aldrei hafa verið stærra. "Hvað varð um gamla slagorðið, báknið burt?" spurði þessi.  

Sá áttundi kvaðst staðráðinn í því að strika út Árna Johnsen. Hann sagði fjölmarga ætla að gera slíkt hið sama. Óánægjan væri djúpstæð í því máli. 

Niðurstaða?  

Geir situr á sjóðandi pottloki. 

 

Glöggir lesendur hafa e.t.v. séð að færslan er skrifuð þónokkuð í stíl og anda umtalaðra fréttaskýringa Morgunblaðsins, sem birst hafa á forsíðu blaðsins undanfarnar vikur og vakið eftirtekt. Ég vil þakka blaðinu fyrir að veita mér með þeim hætti nauðsynlegan og mikilvægan innblástur að þessari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Auðvitað kraumar undir niðri hjá þeim, hvað annað? bara spurning um hvenær upp úr sjóði? þá verður gaman að fylgjast með, ekki satt?

Páll Jóhannesson, 27.3.2007 kl. 16:04

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Eins og bent hefur verið á þá er möguleg sú leið að taka upp Evruna án inngögnu í Evrópusambandið og myndi væntanlega koma sér mun betur fyrir okkur heldur en full aðiild að "framtíðarríkinu" sem Evróusambandið stefnir að fullum fetum.

En varðandi færsluna þína þá lyktar hún að sjálfsögðu sterklega af gremjunni sem þú hefur alið með þér vegna stöðugra ofsókna "hinna" vegna óeiningar innan Samfylkingarinnar.

Óeining er ekki það sem gerir Samfylkinguna ótrúverðugan kost fyrir mig. Það er það að þið virðist ekki geta tekist á við málin innanhúss sem angrar mig. Ég er ekki fylgismaður Sjálfstæðisflokksins til að hafa það á hreinu.

Mér finnst bara að lið eigi að vinna út á við sem heild og leysa "þjálfaravandann" innanhúss eins og almennt er reynt í íþróttaheiminum t.d.

Baldvin Jónsson, 27.3.2007 kl. 16:11

3 identicon

Já það er einmitt þetta sem að margir halda fram eins og Baldvin.

Það er alls ekki málefnalegur ágreiningur, heldur er það "óeiningin" og það að flokkurinn skuli ræða málin fyrir opnum dyrum sem forðar fólki frá að kjósa samfylkinguna.

Merkilegt, merkilegt.

Hlynur (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:14

4 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Tja, hvað er líkt með Sjálfstæðisflokknum og Rússavodka?

Jú, báðir gefa sig út fyrir að vera 40% en eru í raun 15% og stórhættulegir í þokkabót.

Guðmundur Steingrímsson, 27.3.2007 kl. 17:47

5 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Hef svarað því hér, Skúli. Neðst niðri á linknum.

Ég get ekki skilið að nokkur þurfi biðjast afsökunar á því að vilja að framkvæmdasjóður aldraðra renni til uppbyggingar hjúkrunarrýma.

Dæmigert fyrir vælukjóaháttinn í ykkur SJálfstæðismönnum -- svo ég noti ykkar tungutak hér á síðunni -- að um leið og maður bendir á það hvað þessi ríkisstjórn er með allt niðrum sig -- ekki síst í málefnum aldraðra -- að þá er rokið í einhvern orðhengilshátt um tittlingaskít og farið fram á afsökun.

Ég hef aldrei gert það að neinu aðalatriði að það væri mögulegt lögbrot að nota fé úr Framkvæmdasjóði til að styrkja kóra. Mér finnst það hins vegar siðlaust, í ljósi ástandsins í þessum málaflokki.

Guðmundur Steingrímsson, 27.3.2007 kl. 18:03

6 identicon

Ég held að þú þurfir ekkert að efast um það Skúli að við erum þónokkrir frjálshyggjumennirnir sem erum verulega ósáttir við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hneyksli að í prófkjöri hafi Árni Johnsen verið tekinn fram yfir Lögfræðinginn, það er ekki síður hneyksli að flokkurinn standi fyrir þessari stalínísku stóriðjustefnu og það er endalaust hneyksli hvernig flokkurinn veitist gegn ákveðnum starfsgreinum og aðilum atvinnulífsins. Nei það er víst alveg öruggt að þeir eru þónokkrir sem geta staðið fyrir skrifum Guðmundar. Að mínu mati er það bara Samfylkingin sem getur staðið undir nafni sem frjálshyggju flokkur í dag. Þetta er eini flokkurinn sem talar um að verðmeta auðlindir án öfga eða hlutdrægni. Þetta er eini flokkurinn sem er nú þegar með áætlun um hvernig er best að standa við bakið á þeim fjölda einstaklinga sem hyggjast stofna og reka eigin fyrirtæki. Þetta er eini flokkurinn sem ég get treyst til að leysa landbúnaðarmálin án þess að í því séu fólgnar atkvæðaveiðar.

Nei og aftur nei, Skúli þú þarft ekkert að efast um það að það er logandi sundrung innan Sjálfstæðisflokksins sem hefur misst allan trúverðugleika sem hægri flokkur og mér finnst við hæfi að minna á að þetta er ekki fótboltalið sem maður getur haldið með þótt illa gangi í leikfléttum. Þetta er stjórnmálaflokkur sem að safnar að sér fylgi líkt þenkjandi manna og kvenna. Nú um stundir virðist þetta vera flokkur sem sankar að sér fylgi LÍTT þenkjandi manna og kvenna. 

Frjálshyggjukveðja

Kormakur 

Kormákur Hermannsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 18:32

7 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Afskaplega málefnalegt blogg og enn málefnalegar athugasemdir

Auðvitað eru misjafnar skoðanir innan sjálfstæðisflokksins og þó ég hafi ekki verið gamall þá rámar mig í það þegar allt logaði innan flokksins í deilum á níunda áratugnum en nú eru aðrir tímar. Samfylkingin virðist vera í þeim sporum sem sjálfstæðisflokkurinn var í fyrir tveimur áratugum. Kannski hún verði þá valkostur á móti sjálfstæðisflokknum eftir tuttugu ár.

Eitt hól á samfó get ég þó skrifað undir hér og það er að landbúnaðarstefna þeirra er greinilega ekki ætluð til að afla fylgis enda ekki hægt að hæla henni fyrir landbúnaðarstefnuna.

Ástæða fyrir því hvað sjálfstæðisflokkurinn hefur verið farsæll núna síðustu ár og ríkisstjórnin hefur m.a. verið að deilumál hafa að mestu verið afgreidd innan flokksins og innan ríkisstjórnarinnar og síðan hefur fólk komið sameinað fram opinberlega. Það er meira en hægt er að segja um Samfylkinguna því miður.

Vona ég þó að ykkur beri gæfa til að laga þá hluti og það komi að því að Samfylkingin verði traustsins verð og verði hæf til að taka ákvarðanir á vegum eigin skoðanna.

Ágúst Dalkvist, 27.3.2007 kl. 19:19

8 identicon

 Dharma.. þú ert alveg efni í uppistandara... EKKI !!!  

hló að rússavodka brandaranum. 

Katrín Perla (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 19:43

9 Smámynd: Þarfagreinir

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir löngu misst tengsl við atvinnulífið ... 'rangir' menn ráða nú þar, og Flokkurinn háir hatramma baráttu gegn þeim. Gömlu kolkrabbafyrirtækin og heildsalarnir eru farnir, og eftir stendur fólk sem beitti raunverulegum kapítalískum aðferðum til að ná árangri, með dyggri stoð laga sem EES 'þröngvaði' upp á íslenskt þjóðfélag. Sjálfstæðisflokkurinn hafði minnst með það allt saman að gera. Ég veit ekki alveg hvaða flokk sannir íslenskir frjálshyggjumenn ættu að styðja, en það er alls ekki Sjálfstæðisflokkurinn.

Þannig sé ég þetta alla vega.

Þarfagreinir, 27.3.2007 kl. 19:54

10 identicon

Halló
Mér finnst vera með ESB eins og "náttúruvernd". Það hafa allir skoðun á málunum en hugtökin eru illa útskýrð.
Mér finnst það sameina "náttúruverndarsinna" að vera á móti ESB en samt sýnist mér öll íslenska umhverfislöggjöfin hafa verið þvinguð inn á okkur í gegnum EES.
Árni Finnsson gat ekki kært spjöllin í Heiðmörk en mér sýnist að hann hefði getað gert það ef við værum í ESB. http://www.unece.org/env/pp/ctreaty.htm
Ef þú vilt segja frá því jákvæða starfi sem fer fram innan ESB þá skal ég hjálpa til en Samfylkingin fær ekki atkvæðið mitt :) (og reyndar enginn annar heldur fyrr en málefnin batna)

Kveðja
Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:15

11 Smámynd: Heiða  Þórðar

Nei nei rekst ég ekki á Dharma hér enn og aftur.

Frábært blogg einsog fyrridaginn. Þér er ekki búið að takast að sannfæra mig þó, vantar samt aðeins uppá! Snilldarpenni og málefnalegur sem alltaf.

Heiða Þórðar, 27.3.2007 kl. 22:11

12 Smámynd: Heiða  Þórðar

vantar aðeins uppá átti það að vera..

Heiða Þórðar, 27.3.2007 kl. 22:14

13 Smámynd: TómasHa

Hvort ertu að tala um Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna í Hafnarfirði?   Hver er annars afstaða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði? Var Kristján Möller bara upp á punt á fréttamannafundinum sem Fagra Ísland var kynnt?

Á hvaða bar varst þú? 

TómasHa, 28.3.2007 kl. 02:02

14 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Athyglisvert.

Það er talsverð óánægja með framboðslista X-D hér fyrir sunnan eins og Ari bendir á en það mun líklega ekki stoppa sjálfstæðismenn á Suðurnesjum við að setja X við D í vor. Ég ætla mér að gera það þó svo ég sé ekki fullkomnlega sáttur við listann.

Það sem hræðir mig mest er að hér verði mynduð Vinstri stjórn undir forustu VG.  Það yrði skelfilegt og sorgleg tíðindi fyrir landsmenn!  Samfylkingin heillar mig ekki en gæti þó frekar hugsað mér að Sjálfstæðismenn gætu unnið með henni frekar en VG. (sé reyndar ekki fyrir mér að nokkur flokkur gæti unnið með VG án þess að það samstarf myndi springa í loft upp snemma á kjörtímabilinu )

Þetta verða spennandi kosningar en ég tel að Sjálfstæðismenn séu traustasti kosturinn í vor fyrir kjósendur.  

Örvar Þór Kristjánsson, 28.3.2007 kl. 09:46

15 identicon

Ég veit ekki hvort er skemmtilegra, greinar steingríms eða heimskra manna ráð.

Geir (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 10:50

16 identicon

Það hefur sýnt sig geg um árin að þið Samfylkingarmenn og konur eruð yfirburðafólk þegar kemur að aulabröndurum.  Hafið á að skipa lang hæfasta liðinu á þeim vettvangi og þar fara fremstir meðal jafningja þú og Hallgrímur Helgason.  Aðra skal þó ekki lasta.  En nú ber svo við að þið sýnið einnig mikla breidd á þessu hæfileikasviði ykkar og eruð ekki bara liðtæk í aulafyndni heldur almennum aulagangi sbr. ykkur Ástu Ragnheiði.  Í dag kom fram á sjónarsviðið ný vonarstjarna sem á eftir að velgja ykkur undir uggum; Robert Marshall enda hefur hann oft sýnt eftirtektarverð tilþrif á sviðinu og það löngu áður en hann valdi í Samfylkinguna sem starfsvettvang sinn, - vel valið hjá honum annars, þar finnur hann ugglaust hæfileikum sínum farsælan farveg.  Það er því ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur að keppa við ykkur en síðasti gullmoli þinn, þessi með Rússavodkann og Sjálfstæðismennina varð mér nú eiginlega áskorun svo ég læt einn flakka hér og vona að þú fyrirgefir mér hæfileikakeysið en takir viljann fyrir verkið:

Hvað er líkt með Samfylkingunni og lélegu rauðvíni:  Gerjunin spýtti tappanum úr og nú er bara helmingurinn eftir.

Kveðja

Sigurjón Pálsson 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 11:57

17 Smámynd: Bragi Einarsson

ja, hérna! Eru ekki allir í stuði?

Bragi Einarsson, 28.3.2007 kl. 13:16

18 Smámynd: Þarfagreinir

Eitt varðandi þessa blessuðu nafnleynd ... hvað felst nákvæmlega í því að 'þurfa að svara fyrir skrif sín'? Ég skil ekki fyllilega að hvaða leyti þér sem skrifa undir öðru nafni en því sem þeir ganga undir dags daglega eru ólíkir þeim sem nota sitt eigið 'raunheimanafn' að þessu leyti.

Ég kalla mig til dæmis Þarfagreini á alnetinu, sem er nafn sem ég hef gengist undir í allmörg ár. Velflestum sem þekkja mig persónulega er fullkunnugt um að ég notast oft við þetta nafn. Að baki þessu nafni er alveg jafn mikill 'karakter' og er að baki því nafni sem ég er skráður undir í þjóðskránni. Með því að 'googla' þetta nafn má finna alls konar skrif á ýmsum vettvangi sem ég hef skrifað undir þessu nafni. Þessum skrifum má alltaf svara og gagnrýna, og þá finn ég mig auðvitað oftast knúinn til að andmæla því.

Að hvaða leyti þyrfti ég frekar að 'svara fyrir' skrif mín rf ég notaðist við þjóðskrárnafnið á alnetinu? Mér finnst Dharma heldur ekkert verri þó hann kvitti ekki undir skrif sín með þjóðskrárnafni sínu. Dharma er heilsteyptur karakter með ákveðnar skoðanir. Allir geta svarað skrifum hans og gagnrýnt það sem þar kemur fram. Fyrir mér er karakterinn Dharma alveg jafn lifandi og hver annar, þó ég viti ekki einu sinni hvernig hann lítur út. Mér er nefnilega bara alveg sama. Svo lengi sem menn eru tiltölulega málefnalegir og rökfastir, þá gildir það mig einu hvaða nafni þeir klína á sinn karakter.

Mér þætti mjög gaman að sjá nánari útlistun á því hvað það er sem gerir skrif undir dulnefni svona hræðileg. 

Þarfagreinir, 28.3.2007 kl. 15:31

19 Smámynd: Þarfagreinir

Ég ætla alla vega ekki að skipta um nafn, enda hef ég notast við þetta hér á alnetinu í fjöldamörg ár, eins og ég segi. Auðvitað er það þó annarra að meta hvort þeir taka á mér. Og mér er alveg sama þó einhverjum tækist að grafa upp 'alvöru' nafn mitt og birta það - það gildir mig engu til eða frá. Annars tek ég hæglega undir þau sjónarmið að það er til vansa þegar fólk er með órökstuddar svívirðingar, og það er einnig til vansa þegar fólk skiptir um nöfn eins og nærbuxur, svo ekki er hægt að tengja ein skrif þeirra við önnur. Minn punktur var einfaldlega að svo lengi sem fólk heldur sig við eitt nafn og kemur fram af virðingu skiptir litlu máli hvaða nafn það er nákvæmlega.

En auðvitað er þetta bara mitt sjónarhorn ... og nú held ég að ég hafi sagt alveg nóg um þetta málefni hér í þessari löngu keðju sem athugasemdirnar við bloggfærsluna hér lengst fyrir ofan er orðin.

Þarfagreinir, 29.3.2007 kl. 19:08

20 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Eitt orð Guðmundur: Óskhyggja. Hverjir eru annars þessir óþekktu sjálfstæðismenn? Engar líkur aðvitað á að frambjóðandi Samfylkingarinnar fari að skálda svona upp ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.3.2007 kl. 11:29

21 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Helga Vala:
Það er vissulega tæknilega hægt að taka upp evru einhliða án Evrópusambandsaðildar en það mælir hins vegar enginn með því enda gríðarleg áhætta fólgin í því fyrir þróuð efnahagskerfi. Ekki einu sinni Evrópusambandið sjálft mælir með því fyrir Ísland.

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.3.2007 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband