24.3.2007 | 19:26
Mun fólk ruglast?
Nú standa kjósendur frammi fyrir því að tveir sköllóttir menn, rauðbirknir, hyggjast tala aðallega um umhverfismál í kosningunum, og þar að auki eru þeir báðir fyrrverandi íþróttafréttamenn. Munu kjósendur ruglast? Í öllu falli sýna kannanir að Steingrímur J. er sá sem helst má vera nervös yfir framboði Ómars. Líkur eru á að Íslandshreyfingin nagi af Vinstri grænu og að gallhart umhverfisverndarfylgi muni tvístrast á þessa tvo flokka.
Annars finnst mér þessi umræða um umhverfismál vera komin að mörgu leyti út og suður og farin að taka á sig súrrealískar myndir.
Lítum bara á Hafnarfjörð:
Í Hafnarfirði er verkalýðsforkólfur VG, innan Hlífar, fylgjandi stækkun í Straumsvík. Fulltrúi VG í Orkuveitu Reykjavíkur greiddi atkvæði með orkusölusamningi til Alcan út af mögulegri stækkun. Hugsanlega er það af þessum sökum að VG hefur ekki blásið til mikilla opinna fundahalda innan sinna raða í Hafnarfirði um þessi mál. Ágreiningurinn gæti komið upp á yfirborðið.
Svipað er upp á teningnum í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn var á móti því að setja málið í atkvæðagreiðslu en snérist svo blessunarlega í þeirri afstöðu sinni. Hann segist opinberlega vera með stækkun, en allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn eru gallharðir á móti. Kannski af þessum sökum hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði ekki heldur haldið marga opna fundi um málið innan sinna raða. Ágreiningurinn gæti komið upp á yfirborðið.
Af Framsóknarmönnum í Hafnarfirði er lítið að segja. Ég hef heyrt að þeir séu tveir og heiti báðir Siggi.
Varðandi Íslandshreyfinguna er athyglisvert að einn af forsprökkunum þar lýsti sig fylgjandi "hóflegri stækkun" í Straumsvík þegar hann var spurður í október, sem var ágætlega rökstutt af honum og allt það, en sú afstaða gæti vissulega komið illa út núna þegar áherslan í hinni nýju hreyfingu er alfarið gegn allri stækkun. Spurningar vakna. Óvíst er hvort Íslandshreyfingin muni halda marga fundi um málið í Hafnarfirði. Ágreiningur gæti komist upp á yfirborðið.
Punkturinn er þessi: Mér sýnist menn vera að keppast við að mála sig græna í framan um þessar mundir, nema sjálfstæðisflokkurinn sem er grár en málar fuglinn sinn grænan.
Það er ágætt.
Staðreyndin er hins vegar sú að innan allra flokka blasir við saga misræmis, mótsagna og skiptra skoðana í málaflokknum. Hvert sem litið er.
Allir vita að innan Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir um stækkun í Straumsvík. Þetta er meðal annars vitað vegna þess að Samfylkingin hefur lagt sig fram um að halda ótal opna fundi um málið. Þar hefur ágreiningurinn komið upp á yfirborðið, eins og við var að búast, og verið ræddur. Samfylkingin setur málið stolt í dóm kjósenda, eins og sex ára samþykktir bæjarins gera ráð fyrir.
Og allir vissu að skiptar skoðanir voru innan Samfylkingarinnar í málefnum umhverfis og stóriðju almennt. Þær voru hins vegar ræddar og enduðu í stefnuplaggi sem allur þingflokkurinn er ánægður með og skrifar undir. Flokkurinn hefur gert betur og sett líka fram stefnu um annars konar atvinnuáherslur, sem fela í sér tillögur að því hvað koma eigi í staðinn, a.m.k. að hluta, eftir að dregið hefur verið úr stóriðju. Nýja atvinnulífið, gjörið svo vel.
Menn geta haft sínar skoðanir á þessum áherslum. Ég trúi á þær. Ég tala fyrir þeim. Sama gera flokksystkini mín. En punkturinn minn er hins vegar þessi: Mér finnst að við eigum að hætta þessari sífelldu umhverfisverndarkeppni, þessum metingi um stærsta geislabauginn. Menn eru stormandi fram á sjónarsviðið eins og the only gay in the village, hver á fætur öðrum, með yfirlýsingar um að þeir og bara þeir séu Umhverfisverndarflokkurinn á Íslandi.
Á meðan vita allir sem hafa eitthvað fylgst með málaflokknum, að umhverfisverndarumræðan er einfaldlega á fleygiferð, með nýjum upplýsingum í hverjum mánuði. Að menn hafi sagt eitthvað áður, sem þeir segja ekki nú, er því mjög skiljanlegt. Að skiptar skoðanir séu í öllum flokkum - enginn undanskilinn - í stórum grundvallarmálum á sviði náttúruverndar er ósköp skiljanlegt líka. Steingrímur J. var með Þjórsárvirkjun í fyrra. Núna er hann á móti. Og það er bara allt í lagi.
Mikilvægi umhverfismála mun vaxa, það er engin spurning. Framsýnt fólk sá það fyrir þegar það barðist fyrir stofnun umhverfisráðuneytisins á sínum tíma, svo dæmi sé tekið -- við megna andstöðu Sjálfstæðisflokksins, aðallega, og ekki endilega við óslitinn fögnuð þeirra sem hæst tala í málaflokknum nú. Það hvort flokkar nái að fanga umhverfismál innan sinnar stefnu - og nái að setja fram sannfærandi tillögur í þeim efnum -- mun skera úr um það hvort flokkar eigi erindi við nútímann eða ekki. Þar eiga vissulega sumir flokkar lengra í land en aðrir, að mínu mati. Samfylkingin finnst mér hafa unnið heimavinnuna sína og ég er ánægður með það.
Við gerum málflokknum hins vegar lítinn greiða með með fullyrðingum um að sumir séu "grænir í gegn" og aðrir ekki, og svo framvegis og svo framvegis. Ég er umhverfisverndarsinni. Mér finnst ég hins vegar ekki þurfa að æpa það á hverjum degi. Stundum finnst mér líka vera tvær hliðar á þessum málum, eins og gerist og gengur. Ég er á móti stækkun í Straumsvík, en fagna kosningunni af hug og hjarta. Birti grein um málið í dag.
En svo myndum við líka, að mínu mati, gera landi og þjóð talsvert gagn ef við færum að tala af jafnmikilli áfergju um önnur mál, svo ég segi það bara hreint út. Í efnahagsmálum, heilbrigðismálum, samgöngumálum, verðlagsmálum, menntamálum og málefnum barna og fjölskyldna í þessu landi blasa við brýn úrlausnarefni sem þurfa athygli stjórnmálaflokka á kosningaári ekki seinna en núna.
Við erum þegar byrjuð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Facebook
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 395345
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 24
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi
Athugasemdir
Sæll hr. Guðmundur
Frábær pistill hjá þér. lof og prís frá mér. Umhverfismála umræðan öll er löngu kominn úr böndunum. Það vitræna í henni fer algerlega ofan garðs og neðan út af öllu bullinu.
góðar stundir
Sigurjón Njarðarson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 19:52
Hvernig væri nú að fólk talaði af viti um þessa svokölluðu kosningu í Hafnarfirði, sem það sem hún er, eða kosning um skipulag bæjarins.Hver er í raun munurinn á álverinu eins og það er og hinsvegar helmingi stærra álveri? Í mínum huga er í raun enginn munur, það sem æti í raun að vera að kjósa um er hvort Hafnarfjörður yrði betri-fallegri án álvers eða ekki. Segjum að stækkun yrði ekki samþykkt hverfur þá það risaálver sem er fyrir ? fyrir því liggur óljós hótun en ekki neitt meira, er þá hafnarfjörður betri bær eða verri? Og ef þeir loka stendur þá þrotabúið um aldur og ævi sem minnismerki um kosningu íbúanna um hvað? Að þeir vildu byggja húsin sín í nágreni álvers, gleymum ekki hver var byggði fyrst.Ef hins vegar verður valið að stækka það sem fyrir er breyttir það þá nokkru fyrir þá sem áhuga hafa á húsbyggingum þarna nærri atvinnustarfseminni, þeir munu byggja húsin sín en þá nær álverinu heldur en gert er í dag?
Magnús Jónsson, 24.3.2007 kl. 20:55
Hvað eiga Hafnfirðingar að gera ef þeir hafa ekki álverið? Ekki geta allir lifað á skyrtuþvotti eða selja golfkylfur. Ef álverið fer hættir Hafnarfjörður að vera Hafnarfjörður og breytist í draugabæ.
Í Samfylkingunni eru góðir álrisar og draugabanar sem geta bjargað okkur frá glötun. X-S
Björn Heiðdal, 24.3.2007 kl. 22:27
Gott inlegg Guðmundur. Það sem ég skil ekki er ákvörðun um 5 ára stopp. Hvað ef hagkerfið verður staðnað eftir 2 og erlenda fjárfestingin farinn annað. Mætti ekki ræða þetta áfram af skynsemi og segja frestun þar til við teljum hagkerfið þola það. Eitt sem fer í taugarnar á mörgum er yfirlætið þegar kemur að hinu nýja atvinnulífi. Þar situr fremstur maður sem framleiðir tölvuleiki, gott framtak en er það eitthvað göfugra en nútíma hátækniálver. Margt er til betra en krakkar hangandi yfir tölvuleikjum drepandi hvorn annan í geimnum. Svo ekki sé minnst á áhrif þeirra á huga- og holdafar. Eitt er þó ljóst að ef fjárfesting erlendra fyrirtækja minnkar þá fellur gengið og CCP maðurinn verður ánægðari. Þeir höfðu LíU hér á árum áður en nú höfum við hið nýja atvinnulíf sem gargar á gengisfellingu. orðin eru bara önnur. Varðandi álverið í Hafnarfirði þá er ljóst að háspennulínur og spenustöðin á Völlunum fara ekki ef álverið verðu kosið út og líklegt að mengandi iðnaður komi á svæðið þar sem álverið á að stækka. Þar er fyrir eitt mengaðasta svæði á höfuðborgarsvæðinu sem geymir ýmislegt sem til hefur fallið sl 10 ár (Geymslusvæðið) SAS
SAS (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 23:55
Nei!
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 25.3.2007 kl. 00:30
Og í framhaldinu af því. Hver er afstaða þín í Evrópumálum?
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 25.3.2007 kl. 00:32
Ágætt hjá þér Guðmundur
Er á annari skoðun en þú í sumum álversmálum og sumum virkjanamálum. Málin eru ekki bara græn eða grá eins og sumir telja rétt að merkja fólk. Kannski væri bara réttast að fólk gengi með græna eða gráa stjörnu á brjóstinu. Einhvern tímann töku einhverjir í Evrópu uppá slíkum merkingum minir mig.
kveðja
Sveinn
Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 01:00
Sæll, Guðmundur og aðrir skrifarar !
Arnþór Sigurðsson ! Talaðu gætilega, til okkar, á landsbyggðinni;; hvað væri Reykjavík og nágrenni, í dag, hefði ekki notið við starfskraftanna utan af landi, hér fyrrmeir, sem og í seinni tíð; til vaxtar og viðgangs ykkar ? Hví óvirðir þú sauðkindina, hver fóðrað hefir landsmenn, allt til þessa dags; kallar hana ''rollu'' í niðrandi tón ? Kannski þú haldir, að afurðir þær, hverra við neytum dags daglega, séu upprunnar í verksmiðjum, þar á meðal fiskmetið. Hvet þig, Arnþór minn, að stilla meiningum þínum; um okkur úti á landi í hóf, geri ráð fyrir; að ungæðisháttur nokkur ráði skrifum þínum. Látum ekki reiðina, til stjórnmálamanna, bitna á landinu, og þjóðinni.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 01:26
Ég ætla ekki að ræða álmálið að þessu sinni.Vil hinsvegar benda á bloggsíðu mína um vændi.Þeð getur orðið stót kosingamál
Kristján Pétursson, 25.3.2007 kl. 01:27
Friðrik Sophusson sagði í viðtali við blaðið fyrir stuttu að umhverfisumræðan væri á villigötum og er gott að Guðmundur er honum sammála.
Viðtalið við Smára Geirsson á Stöð 2 var í meira lagi athyglisvert.
Sameigninleg afstaða VG og Sjálfstæðisflokkssins um evrópumálin er eitthvað sem ég er hvað ánægðastur með eftir þetta þing.
Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 09:32
Fólk sem biður um lausnir í stað Álvera er fast í mjög gamaldags hugsun. Það ætti aðeins að huga að því að Finnland og Írland eru þau lönd sem eru búin að vera með stöðugastan og mestan hagvöxt innan Evrópu -- og ekki eru þau lönd að byggja efnahags sinn upp á álverum! Hvað framleiðir Danmörk t.d? Hvernig stendur á að Danir eru mjög ríkir, en eru samt ekki með neinar sprænur til að virkja?
Sá hluti hagkerfisins sem stækkar hvað hraðast er fjármálastarfsemin, og því er upplagt að huga betur að þeim málaflokki ásamt þekkingariðnaði eins og Samfylkingin hefur lagt til. Sá alvöru hagvöxtur sem myndast af þeirri starfsemi væri vel nýttur að einhverju leiti í metnaðarfulla byggðarstefnu fyrir landbyggðina, í stað þeirrar bjánalegu hentistefnu sem ríkir í þeim málaflokki í dag.
Svo vil ég biðja fólk af utan af landi að sýna stillingu, því dónaskapurinn út í okkur latté-drekkandi kaffihúsa-hangsara í 101 er ótrúlegur í þessari umræðu! Eins og hefur komið fram þá þykir þeim hópi óvenjulega vænt um náttúru Íslands, og það hlýtur að vera vel -- vegna þess hversu mikið sumir eru tilbúnir að ganga á náttúruna fyrir skammtíma gróða.
Þessi staliníska virkun og álver var plástur á hagkerfið og byggðarlag sem þurfti bara engann plástur, og nú sitjum við uppi með of mikla þenslu og klofna þjóð. Útkoman úr þessu öllu er síðan sú að við erum að flytja inn verkamenn frá Austur-Evrópu á meðan íslensku hátæknifyrirtækin eru að flytja starfsemi sína til Austur-Evrópu! og þetta er svo sorglegt að ég skil næstum að fólki detti í hug að kjósa VG -- þrátt fyrir að þeir séu bara gamaldags sósíalistar í umhverfisvænum umbúðum.
X-S
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 25.3.2007 kl. 10:17
Fólk er ekki fast í farinu, á Íslandi rýkir framsýni, valin er framþróun í formi uppbyggingar upplýsinga-og þekkingariðnaðar, t.d. með stofun Hestaháskóla Ríkisins.
Fólk er......?
Tryggvi H., 25.3.2007 kl. 11:44
Flott faersla Gudmundur. Mjog gott svar vid skotum haegri manna um ad Samfylkingin fyrri sig undan abyrgd thessarar gridarlega mikilvaegu akvordunar.
Auk thess fagna eg stefnu Samfylkingarinnar ad koma mali eins og thessu i kosningu. Nu verdur baejarfelagid ekki jafn politiskt klofid og hefdi thad verid ef Samfylkingin hefdi tekid sina akvordun i thessu mali. Thad er svo sannarlega ekki odyr kostur ad leyfa ibuum baejarfelagsins ad kynna ser svona mal i bak og fyrir i stad thess ad ef Baejarstjornin hefdi tekid akvedna afstodu ad tha hefdi folk byggt skodanir sinar i naestu sveitarsjornarkosningum ad storum hluta ad thessu einmitt veigamikla mali.
Hvers vegna er ekki thverpolitisk samstada um thad ad hafa hlutina eins malefnalega og haegt er? Tja, Sjallarnir virdast byggja meirihlutann af fylgi sinu einmitt a theirri forsendu ad their raeda hlutina a bak vid toldin.
Madur spyr sig hvort Sjalfstaedismenn vaeru ekki betur settir ef their hefdu gefid althjod faeri a ad kjosa um hvort vid styddum innrasina i Irak eda ekki?
Eg einmitt held ad a thvi seu ansi skiptar skodanir innan flokksins, tho thaer seu ekki opinberadar almenningi og titladar sem "klofningur innan x-D!".
Jonas Asmundsson, 25.3.2007 kl. 12:40
Alltaf gaman að lesa pistlana þína Guðmundur. Ég er á sömu skoðun og bæði andstæðingur og fylgismaður stækkunar settu fram í Silfri Egils fyrr í dag, spurningin um stækkun Alcan í Straumsvík á ekki að vera deiliskipulagsmál Hafnfirðinga, þetta er landsmál og átti frá upphafi að meðhöndla sem slíkt. Hvernig Hafnfirðingar tækluðu sín deiliskipulagsmál hefði átt að skoða í framhaldi af ákvörðunum í stóriðju- og virkjanamálum teknum á vettvangi landsmála. Mér finnst það koma mér við, þó að ég búi á Norðurlandi, hvort ákvörðun er tekin um stækkun Alcan. En það er búið sem búið er, málið fer í íbúakosningu. Þessi pólitíski línudans sem fulltrúar Samfylkingarinnar í Hf hafa dansað nú í margar vikur hefur að ég held ekki gert Samfylkingunni gott. Ég er nokkuð viss um að margir óráðnir kjósendur sem eru veikir fyrir jafnaðarstefnunni en vilja snúa af braut stóriðju munu færa sig frá Samfylkingunni ef stækkunin verður samþykkt í Hf.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 15:13
Anna segir: "spurningin um stækkun Alcan í Straumsvík á ekki að vera deiliskipulagsmál Hafnfirðinga, þetta er landsmál og átti frá upphafi að meðhöndla sem slíkt"
Það verður bara ekki komist hjá því Anna, að þetta er og verður deiluskipulagsmál Hafnfirðinga og því verður ekki og er ekki hægt að breyta.
Bæjarstjórn Hafnfirðinga getur bara ekki gert meira, lögum samkvæmt, heldur en að stjórna sínum skipulagsmálum.
Það er afar auðvelt að halda þessu fram sem þú heldur fram hér að ofan. En endinlega útskýrðu fyrir okkur hvernig hefði átt að fara að þessu öðruvísi.
Ekki geturu ætlast til þess að allir landsmenn fái að kjósa um deiluskipulag Hafnafjarðar?
Hlynur (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 16:46
Sæll, Guðmundur og aðrir skrifarar !
Arnþór ! Þakka þér einarðleg og drengileg svör, okkar meiningar fara líklega ekki saman, í öllu; en...... virði menn, hverjir gjöra grein fyrir sínum meiningum, öllum.
Jón Tryggvi ! Reyni að sýna þá stillingu, gagnvart þér og þínum, á svæði 101 (gömlu innréttinganna hans Skúla fógeta)eins og frekast er unnt. Má þó til, að benda þér á, hversu gott og heilsusamlegra kaffið er, með gömlu uppá hellingartækninni, hvað ég smakkaði fyrst, hjá henni ömmu minni, á Stokkseyri 1966.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 17:01
Góður pistill hjá þér eins og svo oft áður :)
Ég deili áhyggjum þínum af því að Íslandshreyfingin eigi aðeins eftir að saxa á "vinstri" flokkana og þannig styrkja Sjálfstæðisflokkinn í sessi sem mögulega kjölfestu í næstu ríkisstjórn.
En það er skondið hvað rauðhærðir virðast vera áberandi í þessari umhverfisumræðu. Þar eru auðvitað fremstir í flokki þeir Ómar og Steingrímur en svo höfum við líka Illuga í XD og Þórunni Sveinbjarnardóttur í Samfylkingunni, en hún greiddi einmitt atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma.
Kveðja GB
Guðrún de Fontenay (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 18:08
samfylkingarmenn fyrir austan bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun, ekki gleyma því.
halkatla, 25.3.2007 kl. 18:39
Vel mælt Gummi, nákvæmlega kjarni málsins.
Eggert Hjelm Herbertsson, 26.3.2007 kl. 09:32
Stórgóður pistill hjá þér, Guðmundur. Þessi umhverfisumræða er komin fram úr góðu hófi og svo sannarlega kominn tími til að ræða (einnig) önnur málefni. Það ber sjaldnast vott um góða rökhugsun eða heilbrigða skynsemi þegar fólk lítur svart/hvítum augum á málin, eða græn/gráum augum, eins og sumir gera í umhverfisumræðunni.
Mbk, Auður
Auður Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 10:16
Góður pistill. Spurningin er hvort þessi metingsumræða heldur flugi fram að kosningum líkt og kvótamálin fyrir þær seinustu. Þessi umræða er einhvernvegin hætt að virka og orðin hálfgert sandkassadæmi og umfram allt boring. Manni finnst einhvernvegin svo hræðileg tilhugsun ef þetta yfirgnæfir síðan allt annað fyrir kosningarnar. Hér býr fjöldi fóks við fátækt... geðsjúkir og aðrir ráfa heimilislausir um göturnar... aldraðir fá ekki inni á stofnunum, unglingageðdeildin er sprungin, ekki er hægt að manna deildir sjúkrahúsanna, og þeim lokað í tíma og ótíma, verið að leggja af iðjuþjálfun á landsspítalanum að mig minnir(brennur talsvert á mér þessa dagana, en konan mín fékk sjúkdóminn GBS og lamaðist svo ég veit af raun hversu nauðsynlegur þessi þáttur er) meðferðir fjársveltar, og bara öll þessi mál lítilmagnans sem endalaust eru svikin og/eða ekki sinnt. Síðan tala menn í alvöru um að byggja hátæknisjúkrahús og Héðinsfjarðagöng og öll þessi milljarðaloforð (sem að vísu enginn þarf faktíst að standa við) Ja það er nokk víst að menn sem samþykkja slíka vitleysu gætu seint lifað af lágmarkslaunum og ættu náttúrulega fyrir það fyrsta ekki að ekki að hafa fjárráð. Kannski væri góð byrjun að skella gulum og grænum kapli á þessa skúrka og reyna að jarðtengja þá ofurlítið. En hér bara þurfa stjórnmálamenn aldrei að axla neina ábyrgð. Og ekki segja að í kosningum sé lagður dómur á verk stjórnmálamanna... þvi það er nákvæmlega vandamálið að svo er ekki. Minni landans er slíkt að það á sér alltof sjaldan stað. Því til viðbótar er trúarbragðaþátturinn slíkur að menn kjósa 'sinn flokk' án tillits til hvernig hann svo hefur staðið sig og restin(sem er alltof smá) er síðan hreyfiaflið sem vaggar. Flestir þingmenn svíkja eiðinn í hverri einustu kosningu á þinginu... því það þarf enginn að segja mér að flokkar sem eru með jafnvel tugi þingsæta kjósi alltaf eftir sinni sannfæringu. Það er ekki hægt að raða mannskap í kringum eitt eldhúsborð svo ekki sé ágreiningur um málefni. En síðan kýs stjórnin sem einn maður nánast án undantekninga. Og stjórnarandstaðan kýs síðan gegn því sem lagt er fram. Alveg grábölvað system... En meðan allir viðast vera velta sér uppúr þjóðsöngnum ja þá er kannski óþarfi að áhyggjast yfir þjóðinni
Þorsteinn Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 02:32
Ég var að spá í hvenær þú ætlaðir að fara í skóna hans Ólafs fv. landlæknis og biðja Siv Friðleifsdóttur afsökunar á málflutningi þínum um framkvæmdasjóð aldraðra, eða passar þú ekki í þá?
Gestur Guðjónsson, 27.3.2007 kl. 15:03
Við höfum sagt það einarða afstöðu okkar að Framkvæmdasjóður aldraðra verði notaður til uppbyggingu hjúkrunarrýma, en ekki til annarra verkefna.
Þurfum við að biðja einhvern afsökunar á þeirri afstöðu? Hvaða skór eru það?
Væri ekki nær að biðja eldri borgara afsökunar á því að ekki eitt einasta hjúkrunarrými bættist við á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnu ári, og árangurinn á þessu ári er ein skóflustunga?
Og hvernig væri að biðja þá afsökunar á því að yfir 1000 manns búa í fjölbýli, um 400 eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými og 70 eldri borgarar liggja uppi á LHÍ, og sumir hafa legið þar -- í bið eftir hjúkrunarrými -- í eitt ár.
Að nota fé úr framkvæmdasjóði aldraðra í styrki eins og þessa sem frá hefur verið greint finnst mér siðlaust, í ljósi ástandsins í þessum málaflokki.
Bakka ekkert með það, minn kæri. Varðandi það hvort svona ráðstöfun á fé úr framkvæmdasjóðnum sé lögbrot eða ekki, hef ég enga sérstaka skoðun, enda finnst mér það aukaatriði og aldrei gert þá spurningu að neinu meginatriði í mínum málflutningi.
Guðmundur Steingrímsson, 27.3.2007 kl. 16:06
Það eru þægilegheitin við þá aðferð sem þið notuðuð við að ríða á þessari vinsældabylgju viðbragða við umræðu sem byggðust á misskilningi. Eldri borgarar ásökuðu Siv, og þið fylgið sniðuglega í kjölfarið án þess að segja x-orðið. Ammríkanar hafa örugglega einhverja flotta skilgreiningu á því í anda "let them deny it", og vissulega er það rétt að þið vísið ekki beint í þau. Smart, en svoldið dörtí.
Hvað varðar hjúkrunarrýmin og þetta svar þitt sem er afritað frá Ástu Ragnheiðu, þá veit ég ekki betur en að það sé hellingur sem búið er að taka ákvörðun um að framkvæma í þeim efnum, en það hafi strandað t.d. á Reykjavíkurborg, meðan hún var undir sameiginlegri stjórn okkar í R-listanum að koma því í framkvæmd. Suðurlandsbrautarheimilið er skýrasta dæmið um það...
Gestur Guðjónsson, 27.3.2007 kl. 16:24
Ég veit nú ekki betur en að R-listinn hafi beðið með nokkur hundruð milljónir tilbúnar fyrir rekstur hjúkrunarheimila í mörg ár, en ekkert gerðist. Ríkið kom ekki með peningana í uppbygginguna. Það er bara þannig. Ríkið hefur verið ótrúlega svifaseint í þessum málaflokki. Ástandið talar sínu máli.
Framkvæmdasjóður á að renna til uppbyggingu hjúkrunarrýma. Hann hefur hins ekki gert það nema að hluta. Mér finnst ferlega undarlegt að það skuli vera álitið eitthvað sérstaklega "dörtí" að benda á þessa staðreynd.
Eruþað einhver tíðindi fyrir þér, og telst það óvenjulegt eða á einhvern hátt ómálefnalegt, að til sé afl í íslenskri pólitík sem vill beinlínis forgangsraða þannig að áherslan verði lögð á velferðarmál? Að til sé afl sem tekur hlutverk Framkvæmdasjóðs alvarlega og VILL útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og fjölbýli aldraðra?
Er þetta ekki það sem kosningar eiga að snúast um, að flokkar setji fram áherslur sínar?
Guðmundur Steingrímsson, 27.3.2007 kl. 16:56
Einstaklega góður pistill Guðmundur - mikilvægt að umhverfismálin séu rædd af viti en ekki notuð sem agn af stjórnmálamönnum til að ginna atkvæði kjósenda ofan í kjörkassana.
Tel samt mjög mikilvægt (í ljósi umræð sumra hér í kjölfar pistils Guðmundar) að við gerum ekki lítið úr umræðu um umhverfismál eða talsmönnum hennar. Mér finnst það einmitt gera umræðu um umhverfismál svo skelfing leiðinlega og heimskulega. Umhverfismál eru stór og flókinn málaflokkur með margar hliðar. Þess vegna eru þau ekki leyst með einföldum upphrópunum og þvargi um það sem engu máli skiptir.
En auðvitað er mikilvægt að í aðdraganda kosninga verði fjallað um önnur brýn velferðarmál. Gleymum samt ekki að það er í anda jafnræðis að taka að alvöru á umhverfismálunum, því það er ekki bara okkar hlutverk að tryggja jafnræði innan núlifandi kynslóða, við eigum að geta tryggt komandi kynslóðum sömu möguleika á heilbrigðu umhverfi og ýmsum þeim lífsgæðum sem náttúran hefur upp á að bjóða. Þá eru lífsgæði okkar óhjákvæmilega tengd ástandi umhverfisins. Ef manninum tekst ekki að spyrna við þeim margvíslegu neikvæðu áhrifum sem hann er með athöfnum sínum á vistkerfi heimsins, þá fylgja hagkerfi heimsins eftir líka. Muni það gerast hefur það óhjákvæmilegar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. ( Þetta myndi nú bæjarstjórinn minn úr Kópavogi kalla "neikvætt raus þessara vinstri manna").
Kjósendur sem hafa áhuga á umhverfismálum leggja vonandi á sig að skoða hvað græni frambjóðandinn stendur í raun fyrir - láti ekki bara ginnast með þeim grænasta - sá næstgrænasti gæti gert sama eða meira gagn!
Rut K.
Rut K (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 09:36
Það voru Þorsteinn Pálsson, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingarmennirnir Guðmundur Árni og Sighvatur sem komu því á að farið var að taka rekstrarfé hjúkrunarheimilanna úr sjóðnum, sem er til skammar og til skammar að því skuli ekki hafa verið hætt fyrr en nú. Því ber líka að halda til haga að í tíð framsóknarráðherra hafa nettóframlög til byggingar hjúkrunarheimila verið meira en sem nemur tekjum framkvæmdasjóðs. Fjármögnun byggingar hjúkrunarheimila er nefnilega tómt rugl á fjárlögum. Á fjárlögum 2005 var t.d. veitt 437,5 milljónum til nýframkvæmda, en úr framkvæmdasjóði aldraðra voru teknar 419,5 milljónir í rekstur! - þetta er náttúrulega fáránlegt bókhaldsrugl, en nettó fer meira í byggingar hjúkrunarheimila en sem nemur tekjum framkvæmdasjóðs. Búið er að taka ákvörðun um byggingu 374 rýma, í fyrra var hjúkrunarrýmum fjölgað um 81 og 195 í hitteðfyrra. Talið er að þetta nægi til að fullnægja þörfinni, og í framhaldinu verður farið í að útrýma fjölbýlum.
Svona eru nú staðreyndirnar í þessu...
Gestur Guðjónsson, 29.3.2007 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.