Leita í fréttum mbl.is

Ekki blóta (17.02.07)

Fyrir ári síðan eða svo sá Umferðarstofa sig tilneydda til þess að ráðast í heila auglýsingaherferð í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og á flettiskiltum til þess að segja fullorðnu fólki að hætta að blóta svona mikið í umferðinni. Ekki síst var lögð áhersla á það að við blótuðum ekki svona mikið frammi fyrir yngstu kynslóðinni, sem gæti pikkað upp taktana. Í nokkra mánuði mátti sjá ungan, reffilegan dreng gefa fólki fingurinn á strætóskýlum. Ekki var það beint uppbyggileg sýn í morgunsárið, en boðskapurinn komst til skila. Menn verða að reyna að slappa af í umferðinni. Sýna hver öðru kurteisi. Vera góðar fyrirmyndir fyrir blessuð börnin.

ÉG hef reynt að taka þetta til mín og um nokkurt skeið hef ég reynt að blóta bara kurteislega þegar dóttir mín er með í bílnum og ég sit fastur í umferðarteppu. “Ja, hérna,” segi ég og ber létt í stýrið. “Það er aldeilis hnúturinn!”

ÞETTA persónulega átak mitt hefur þó verið byggt á því, að ég hef leyft mér að vona að í umferðarmálum höfuðborgarinnar yrðu einhverjar úrbætur gerðar í bráð. Um leið og ég hef bælt niður blótið og hrakyrðin í þágu barnauppeldis – að kröfu Umferðarstofu – hef ég jafnframt um leið farið með róandi orð í huganum: “Svona, svona,” hef ég hugsað. “Þessir umferðarhnútar verða horfnir eftir nokkur ár. Þá getur maður keyrt inn í Garðabæ úr Vesturbænum eins og ekkert sé, til dæmis í gegnum Öskjuhlíðargöng.”

EINS og gefur að skilja var mitt kurteisa, en viðkvæma, sálartetur því ofurspennt þegar ný samgönguáætlun var kynnt á dögunum. Upphæðirnar sem rötuðu í fyrirsagnirnar voru vissulega nógu andskoti (úps, þar blótaði ég, afsakið…) háar. Um 380 milljarðar eiga að rata í vegamál á komandi 12 árum, hvorki meira né minna.

ÞAÐ urðu mér því auðvitað veruleg vonbrigði – ekki síst í ljósi þess hversu vel mér hefur tekist að haga mér kurteislega í umferðinni undanfarið út af voninni sem bjó í brjósti mér um umbætur – að fá þær upplýsingar að í þessari samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir því að umferðarúrbætur á höfuðborgarsvæðinu þarfnist fjármuna eða forgangs. Hér er gert ráð fyrir að íbúum svæðisins verði gert að sitja í sömu umferðarteppunum meira eða minna næstu 12 árin. Stórar framkvæmdir á svæðinu sem þarna eru boðaðar varða aðallega leiðirnar út af svæðinu og -- reyndar, guði sé lof -- inn á það aftur. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að fólk þurfi greiðar leiðir til þess að ferðast innan höfuðborgarsvæðisins óblótandi, og er þá sama hvort litið er til reiðhjóla, strætóa eða bíla.

Í samræmi við þetta geri ég ráð fyrir að ætlun yfirvalda sé að Umferðarstofu verði gert að halda áfram auglýsingaherferðum þar sem við erum vinsamlegast beðin um að hætta að blóta. Ég lofa engu í þeim efnum. Ef þessi samgönguáætlun gengur eftir er útlit fyrir að dóttir mín muni í framtíðinni bölva og ragna í umferðinni hvort sem er.

Birt sem Bakþankar í Fréttablaðinu 17.febrúar 2007


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband