Leita í fréttum mbl.is

Fé í fé (27.01.07)

Eitthvað það undarlegasta við íslenskt samfélag er allur sá tími, orka og peningar sem fer í lambakjöt. Sauðirnir ráða þjóðfélagsmálunum á köflum. Umræða um hátt matvælaverð leiðist yfirleitt út í umræðu um réttmæti tollaverndar á lambakjöti. Umræða um byggð í landinu fer oftast nær út í rifrildi um styrki til lambakjötsframleiðslu. Að íslenska lambakjötið sé gott á bragðið er nánast orðið að kennisetningu eins ráðherra í ríkisstjórn, eins konar grundvallarviðhorf sem viðkomandi byggir pólitískan tilverurétt sinn á. Og núna, til að undirstrika endanlega þann stórundarlega sess sem rollurnar virðast hafa í íslensku þjóðfélagi, bárust þær fregnir í vikunni að sauðfjárbændur, framleiðendur lambakjöts, eigi að fá 16 milljarða í greiðslur á komandi árum. Beint úr sjóðum ríkisins.

FÉ er borið í fé eins og ekkert sé. Á meðan eru ekki til peningar til þess að byggja hjúkrunarheimili fyrir aldraða, svo dæmi sé tekið. Skorið er niður til framhaldsskólanna. Spítalar ná ekki endum saman. Hver er skynsemin í þessu? Ekki er að sjá að þessar greiðslur verði til dæmis arðbærar, eins og sambærileg fjárfesting í menntun gæti orðið. Hvað þá að þessar greiðslur varði grunnþjónustu og velferð.

FÖRUM aðeins yfir þetta. Lambakjöt er kjötmeti. Annað kjöt er til dæmis svínakjöt, kjúklingar og nautakjöt. Svo er líka til fiskmeti, eins og þorskur, ýsa, lúða, rækjur, humar, hörpuskel og skötuselur. Ógrynni er til af grænmetistegundum, baunategundum, ávaxtategundum, kartöfluréttum, hrísgrjónaréttum, villibráð, mjólkurréttum og brauðmeti. Íslendingar kaupa ógrynni af alls konar mat, af öllu tagi, allt árið um kring. Er von maður spyrji: Hvað er svona merkilegt við lambakjöt?

ÞAÐ er gott á bragðið. Ég tek undir það. Íslenskur lambavöðvi er eitt það besta sem ég fæ. En lambakjöt er ekki stór hluti innkaupakörfunnar frá degi til dags.  Frá sjónarhóli neytandans er illskiljanlegt, eiginlega bara verulega fáránlegt, að lambakjötsframleiðsla – sunnudagssteikin -- fái þrjá milljarða á ári úr ríkissjóði.

NÓGU dýrt er lambakjötið samt, þótt flestir borgi, enda um lúxusmat að ræða. En auðvitað vita allir að lítill hluti af verðinu fer til bænda og þar liggur fjárhundurinn grafinn. Ríkið er hér að bæta bændum upp, með gígantískum greiðslum, þá meingölluðu stöðu að bændur sjálfir njóta ekki góðs af verðgildi góðri vöru í heilbrigðu markaðskerfi. Peningar kaupandans renna ekki til þeirra. Skattpeningar hans gera það hins vegar.

AÐ fjármálaráðherra skuli gangast við þessu vonlausa fjáraustri er auðvitað lýsandi fyrir dapurlegt viðhorf til ríkisrekstrar. Hvar er ábyrgðin? Aðhaldið? Skynsemin? Það fer ekki hægri mönnum vel að gorta sig af því að hafa vit á ríkisfjármálum, þegar þetta er staðreyndin: Fjármálaráðherra er orðinn sauðfjármálaráðherra. Hann gætir fyrst og fremst hagsmuna ríkis-sauðs.

Birt sem Bakþankar í Fréttablaðinu 27.janúar 2007


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband