Leita í fréttum mbl.is

Leynibyrgið (20.01.07)

Alltaf er að koma betur og betur í ljós hvers lags skandall felst í málefnum Byrgisins, en það mál er um það bil að stimpla sig inn í sögubækurnar sem eitthvað sóðalegasta mál síðari ára á Íslandi. Ekki bara hefur málið sérstöðu að því leyti að limur forstöðumanns hefur verið sýndur í fréttatíma – sem er sjaldgæft -- heldur er málið einnig allt hið svívirðilegasta þegar kemur að meðferð opinbers fjár og annarra.

NAFNIÐ Byrgið virðist hafa verið sérlega viðeigandi svona eftir á að hyggja. Hér virðist hafa verið um sannkallað neðanjarðarbyrgi að ræða, skuggalegt leynibyrgi, jafnvel dýflisu. Sem slíkt virðist Byrgið meira að segja samkvæmt fréttaflutningi hafa verið búið þónokkrum tækjum og búnaði sem eru í anda slíkra vistarvera, s.s. handjárnum, leðurgöllum og svipum.

ÞAÐ er kannski í stíl við alla þá myrku leynistarfsemi sem þarna á að hafa farið fram á vegum forstöðumanns, að svartri (mjög víðeigandi orðalag) skýrslu um fjármál Byrgisins skyldi hafa verið haldið leyndri í mörg ár. Margir bentu á það við upphaf málsins að í því fælist ekki síðri skandall en meint kynlífsóreiða forstöðumanns, sem er nýtt hugtak smíðað af þessu tilefni. Fjármálaóreiðan mun ekki hafa verið síðri.

HIÐ ljóta við þá óreiðu er það, að svo virðist sem bæði frjáls framlög – veitt af hendi almennings í góðri trú – sem og opinbert fé hafi verið notað í alls kyns bruðl forstöðumannsins. Pólitíski skandallinn er síðan sá að flest bendir til að forstöðumaður hafi komist upp með þetta hátterni sitt þrátt fyrir að frammámenn í stjórnmálum, einkum í öðrum stjórnarflokkanna, hafi vitað af hinni áðurnefndu svörtu skýrslu um fjármálin.

HINN almenni þingmaður, sem barðist margur fyrir því í góðri trú að Byrginu yrði haldið á floti fjárhagslega, hafði enga vitnesku um þessa skýrslu, sem var unnin af varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins á sínum tíma. Sú óreiða sem þar er lýst hefur nú verið staðfest með skýrslu Ríkisendurskoðunar, en í millitíðinni hafa tugir mílljóna af opinberu fé runnið til Byrgisins, til þess eins að verða óreiðunni að bráð.

HÉR eiga mörg kurl eftir að koma til grafar.  Af hverju þögðu þeir þingmenn um Byrgið sem vissu af fjármálaóreiðu þess? Var verið að halda verndarhendi yfir Byrginu? Þessu þarf að svara. Og annað er líka kristaltært. Núna þegar búið er að loka þessa myrka svartholi er mikilvægt að tryggja meðferðarúrræði fyrir þá sem voru vistmenn á staðnum, og þá meina ég fagleg úrræði. Þessi ábyrgð hvílir á ráðherranum nú, og reyndar ekki bara í þessu afmarkaða máli, heldur þarf að skoða meðferðarúrræði í heild sinni.

ÞETTA mál er eitt stórt svipuhögg á kerfið, svo notað sé viðeigandi orðalag. Og varðandi þá þingmenn sem þögðu, er von maður spyrði: Í hvers lags handjárnum voru þeir?

Birt sem Bakþankar í Fréttablaðinu 20.janúar 2007.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband