Leita í fréttum mbl.is

Bakþankar 13.jan

Góðir kúnnar

Í haust sem leið fóru ættingjar mínir í ferðalag til Tyrklands til þess að spóka sig í sólinni. Ferðin var prýðileg og strendurnar hinar ágætustu, sól á himni og hægt að spóka sig í rólegheitum á kvöldin í þunnum hörbuxum og panta hvítvínsglas á útikaffihúsum án þess að drepast úr kulda og/eða verða gjaldþrota. Allt var semsagt eins og það átti að vera í svona sólarlandaferð.

EITT vakti þó athygli ferðalanganna og var tilefni þónokkurrar umræðu eftir að heim var komið, og það var eftirfarandi: Þetta millistéttarfólk af Íslandi fór smám saman að veita því þónokkra athygli að þegar það vafraði um útimarkaði þarna í Tyrklandi að héðan og þaðan, út úr hornum, heyrðist eins og hvíslað af tyrkneskum kaupmönnum “Góðan daginn” á hinu ástkæra ylhýra. “Komiði inn”.

MITT fólk ákvað að sjálfsögðu að athuga hvað hér væri á seyði og steig inn í einn sölubásinn ekki síst til að athuga hvernig stæði á því að viðkomandi kaupmaður kynni íslensku. Ekki síst þótti forvitnilegt að fá svör við því hvernig þessi kaupmaður hafði borið kennsl á þau sem Íslendinga að fyrra bragði og því ákveðið að ávarpa þau með þessum hætti.

ÞETTA þótti mikil ráðgáta en skýringin kom fljótlega í ljós. Eftir að inn í básinn var komið tók hinn tyrkneski kaupahéðinn auðvitað til við það að selja Íslendingunum leðurjakka í gríð og erg, úr þykkri nautshúð eða þunnri, mittissíða eða síða, með boðungi eða án boðungs. Nú var svissað yfir í ensku, en undir söluræðum náðu þó hinir norrænu viðskiptavinir að skjóta inn spurningu er varðaði hina athyglisverðu íslenskukunnáttu.

ÞÁ ljómaði Tyrkinn og var sko aldeilis með svör á reiðum höndum. Það borgaði sig, sagði hann, að kunna smá íslensku og jafnframt þekkja Íslendinga í sjón og reyna að fiska þá inn í búðina sérstaklega. Íslendingar væru nefnilega svo afskaplega góðir kúnnar. Þeir keyptu svo mikið af leðurjökkum og það sem betra væri – hvíslaði hann – að það væri hægt að selja þeim jakkana á þreföldu verði. Þeir væru langbestu viðskiptavinirnir. Hreint dásamlegir.

MEÐ því að gefa þessar upplýsingar frá sér spillti kaupmaður auðvitað möguleikum á frekari viðskiptum að þessu sinni, því ekki var það sérstaklega á stefnuskrá þessara tilteknu Íslendinga að kaupa jakka á þreföldu verði, a.m.k. ekki vísvitandi.

Á dögunum, eftir að upplýsingar bárust um að verð á matvælum og drykkjum hér á landi væri 62% yfir meðalverði í Evrópu, og annað eftir því, var þessi saga rifjuð upp. Ég held að það sé alveg augljóst að ein stór ástæðan – ein af mörgum – fyrir háu verðlagi á Íslandi – og sú sem þarfnast umræðu eins og allt annað í þessu máli -- er sú að við Íslendingar erum afskaplega góðir kúnnar, eins og Tyrkinn sagði. Við erum í allt of  mörgum tilvikum reiðubúin að borga þrefalt verð.

Þessi grein birtist sem baksíðugrein (bakþankar) í Fréttablaðinu 13.janúar 2007.


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband