Leita í fréttum mbl.is

Jóla jóla

Ég hitti mann í fyrradag sem var að brotna saman út af jólunum. Hann þoldi ekki jólalögin sem dundu á honum með sínum maníska bjöllutakti, barnakórum og klukknaspili. Hann þoldi ekki stressið. 

Hann hafði farið í Kringluna á sunnudaginn með börnin og tók síðan þá óskynsamlegu ákvörðun að grípa kjúklingabita á American Style á leiðinni heim. Þar inni lá við stríðsástandi. Fullt af útjöskuðu fjölskyldufólki með úrvinda krakka hafði fengið sömu hugmynd. Að grípa kjúkling í hvelli.  

Á sama tíma var fólk að hella sér yfir lögregluna upp við Þingvallaafleggjara. Líklega var eitthvað í loftinu. Kannski er jólastressið farið að gera okkur geðveik.

Beta rokk sá ég að skrifaði grein í Fréttablaðið í gær um að Íslendingar væru orðnir ruddar upp til hópa. Öll hjálpsemi gleymd og náungakærleikur. Hún eyddi þremur tímum í að fá einhvern til þess að hjálpa sér að skipta um dekk í miðjum Vesturbænum á dögunum. Fólk lyfti ekki litla fingri. Strunsaði bara framhjá. 

Kannski var það jólastressið líka. 

Ég sjálfur er í góðu jafnvægi. Til þess að komast í heilbrigt og rólegt jólaskap mæli ég með þremur diskum: Majónes Jól með Bogomil Font er upplagður í bílinn, til þess að koma manni í hið nauðsynlega jólaswing sem þarf inni í Miðbæ, Kringlu, Skeifu eða Smáralind.

Heima á kvöldin er svo upplagt að hlusta á Jólin eru að koma með KK og Ellen. Ég ætla samt ekki að setja hann á fyrr en í næstu viku. Svo verður hann meira eða minna á fóninum yfir hátíðirnar. Góður til að skreyta jólatréð við. 

Svo eru það Sálmar með Ellen. Hana set ég á þegar jólin bresta á, á aðfangadag, svo maður skrattist nú í hátíðarskap í tæka tíð.  

Fjórða diskinn stóla ég á, en á eftir að hlusta. Ég er viss um að hann er fundamental. Jól og blíða með Baggalúti. Eina lagið sem ég hef heyrt er lagið um Jesú Kr. Jósefsson.

Ég er ennþá að hlæja.

Held að fólk hefði átt að hafa einhvern af þessum diskum í bílnum þegar það beið við Þingvallaafleggjarann. Þá hefði enginn hellt sér yfir lögguna.

Annars er uppáhaldsjólalagið -- og ég er ekki einn um það -- Fairytale of New York með The Pouges og Kirsty MacColl. Það er komið í spilarann hér til hliðar. Njótið vel. 

Kannski maður seti svo fleiri góð og uppbyggjandi jólalög inn næstu daga. Hugsanlega gætu þau veitt einhverjum pirruðum sálarró og stressuðum líkn, þó ekki væri nema um stund. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er með Baggalúts jóladiskinn í bílnum og hann er algjört æði! Textarnir eru yndislegir :) ég mæli með að þú fáir þér hann hið snarasta og kíkir á textana með ;)  ég er voða hissa á þessari framkomu hjá fólkinu í bílalestinni að hella sér yfir lögregluna! þarna varð banaslys og fólk á að sýna svona virðingu! ég er hneygsluð! og með hana Betu þá var ég hissa á að enginn skyldi hjálpa henni. Ég geng ekki framhjá fólki í neyð!! með bestu jólakveðju Hrefna

Hrefna (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 10:24

2 identicon

Mér hefur gefist vel að kveikja bara ekkert á útvarpi, fara bara ekkert í bæinn nema vita nákvæmlega hvert og til hvers og yfirhöfuð að halda áfram að gera það sem mér sýnist, eins og mér sýnist og þegar mér sýnist. Finn ekki minnsta vott af jólastressi enda engin ástæða til að æsa sig yfir því að fá að slappa af í nokkra daga. 

Sápuópera (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 11:40

3 identicon

Tek undir allt að ofan með tónlistina og stressið, en verð þó að spyrja af minni einkennandi smámunasemi: Hver kaupir kjúkling í hvelli á American Style? Þar væri nær að fá sér "bráðaborgara"
kv.
E. ( http://ellipe.wordpress.com )

Elías Þór (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 12:53

4 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það er fátt eins aftaugaspennandi en að skella sér í Kringluna í mestu ösinni. Ég meina þetta. Það þarf bara smá lagni. Maður fer inn hjá Hagkaup(um?) og gengur upp stigann upp á (tómu) efstu hæðina. Þar er yfirleitt ekki kjaftur. Svo stendur maður þar í mestu rólegheitum og horfir á geðveikina fyrir neðan. Það er eitthvað ótrúlega róandi við það að horfa á aðra hendast um í æði og bræði. Svona svipuð tilfinning og að horfa á aðra vinna - án þess að taka þátt í því sjálfur.

Það má líkja þessu við þegar maður var lítill og var innandyra þegar úti var ömurlegt veður. Þá gat maður starað út um gluggann - tímunum saman - og þakkað fyrir að vera ekki "þarna úti". Þá leið manni vel. Svona svipað vel og í Kringlunni þegar maður horfir yfir mannhafið og þakkar Guði fyrir að vera ekki "þarna úti".

Jónas Björgvin Antonsson, 13.12.2006 kl. 13:47

5 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég er sammála því að jólalætin eru að gera útaf við okkur.  Það er meira að segja talað um það í fullri alvöru að jólinn séu oft erfið fyrir sambýlisfólk og fjölskyldur.  Hvað er að???????  Á þetta ekki að fera skemmtileg samverustund fjölskyldunar???

En annað í þessum pistli vakti einnig athygli mína, og það voru vandræði Betu rokk, en þau eru bara grátbrosleg, sjá hér:http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/90083/

Eiður Ragnarsson, 13.12.2006 kl. 17:31

6 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þetta er víst ekki að virka hjá mér.  En þið finnið útúr því

Eiður Ragnarsson, 13.12.2006 kl. 17:32

7 identicon

Þetta með umferðina á íslandi, er nú bara alveg sér kapítuli út af fyrir sig.  Það þarf ekki jól til, en þá eru bara ennþá fleiri þarna úti sem vilja komast leiðar sinnar fyrir korteri síðan og æða framúr bæði vinstra og hægra megin. . bara ef það er smuga að troða sér þar.

Og Kringlan, Smáralind og aðrir ámóta staðir eru fyrir löngu orðin aðal samkomuhúsin. Þangað fara allir. . . held ég stundum bara til að fara þangað. Þar hanga börnin og unglingarnir meira og minna til að sýna sig og sjá aðra, ekki sýst þegar sem flestir eru þar. . .t. d fyrir jól.  Kaupæðið hjá landanum er líka fyrir nokkru síðan farið úr böndunum og er auðvitað í sinni bestu birtingarmynd fyrir svona hátíð. . . .   Við erum því miður orðin svo yfirborðskennd að við mælum manngildi í umgjörð og stöðu.   En samt verð ég að segja það að svona yfirleitt þegar maður kemst í augnkontakt og návígi við fólk. . og getur átt við það orð. .  þá eru nú flestir náungagóðir, kurteisir og hjálpsamir.  Það virðast bara svo margir týndir í tilbúnu tímahraki. . . Einmitt vegna alls sem það telur sig þurfa að gera og vera. . .  vonandi getum við snúið þessari þróun við !

Jólarós (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 18:04

8 identicon

Það væri kannski ágætt að ég sleppti skítkasti hér inni einu sinni.    Ég er annars með fullkomna lausn á jólastressinu, hún virkaði allavega á mig.  Hún er þannig að allir ættu að vera skyldaðir til að lesa The Pilgrimage eftir Paulo Coelho, þá væru menn uppfullir af innri frið og sönnum jólaanda langt fram á Góu.

Góðar stundir.

Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband