Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Flaksandi hörföt og Le Monde

Ég hef komist að því að blogg er ekki sumariðja.

Á sumrin ætti maður frekar að grípa sér baguette, rauðvínsflösku, setja Le Monde undir hendina og ganga niður í bæ í flaksandi hörjakkafötum.

Vera dálítið continental, þið fattið.

Spila svo boccia með strákunum niðri á Ylströnd.

En ég ætla reyndar ekki að hafa það alveg þannig, þótt ég hafi vissulega gælt nokkuð við þennan stíl þegar sólin skín. Þessa stundina er ég að skrattast við að klára að skrifa bók, svo ætla ég að skreppa í smá ferðalag um Norðausturland, vera slatta uppi í sumarbústað, fara í fjallgöngur, hjólreiðatúra og svo framvegis. 

Auk þess mun freelance-harkið sem færir salt í grautinn taka sinn tíma eins og alltaf. Varaþingmennskan borgar ekki mikið í aðra hönd... En ég kvarta ekki. Harklífernið (skriftir, auglýsingar, tónlist etc) hefur alltaf átt ágætlega við mig. Vissulega dálítið óöryggi, en meira frelsi.

En ég myndi svosem ekki fúlsa við fastri vinnu svona með haustinu, ef samningar nást. 

Þangað til segi ég bara eins og afi minn:

Betra er að vera klakaklár

og krafsa snjó til heiða 

en lifa mýldur öll sín ár

undir hnakk og reiða.

Hafið það gott í sumarblíðunni. Ég ætla að hvíla bloggið um stundarsakir. Mæti svo fílefldur til leiks á þessum vettvangi eða annars staðar. Það verður af nógu að taka í þjóðfélagsmálunum þegar líða tekur að hausti, og reyndar er af nógu að taka nú þegar. (Spítalarnir, byggðirnar, orku- og umhverfismálin etc)  Úrlausnarefnin blasa við á öllum sviðum... 


Kökur á 700 þúsund

Hlæ enn nokkuð með sjálfum mér að uppátæki þeirra félaga Jón Páls Eyjólfssonar og Jóns Atla Jónassonar á 17.júní í gær, en þar kynntu þeir félagar drög að uppsetningu eldflaugavarnarkerfis fyrir Ísland og öfluðu stuðnings við það í hermannagrænu tjaldi með þar til gerðum dreifiritum.

Auðvitað löngutímabært málefni. Ísland er gjörsamlega án eldflaugavarnarkerfis.

Þarna var auðvitað kökubasar. Verð á marensköku var 700.000, en aðrar kökur voru á bilinu 300 til 500 þúsund. Kaffið var hins vegar ókeypis.

Eitthvað fyndið við þetta.

Annars var skemmtilega rólegt yfirbragð yfir 17.júní. Dáldið eins og að vera niðri í bæ kl. 05.00 á laugardagsnótt nema bara allir edrú. Og aðeins meira af börnum.

Það er vel til fundið að hafa handboltaleiki á þjóðhátíðardaginn. Það var eiginlega fyrst þá um kvöldið að einhver vottur af þjóðerniskennd gerði vart við sig.

Annars var fríið mitt fínt.  Í Mílanó varð ég var við að gengið féll. Evran fór í 85 kall.Þegar ég kom heim sá ég ástæðuna: Tillögur Hafrannsóknarstofnunar.  Sem betur fer keypti ég mér ekki Armani jakkaföt þann daginn.

Á 700 þúsund.  


Held suður á bóginn

Að aldagömlum sið hef ég ákveðið ásamt spúsu minni að halda suður á bóginn um skeið til þess að safna kröftum og endurnærast í þægilegra loftslagi. 

Blogga því mest lítið fyrr en tja, ca. 13.júní eða svo.

Nema eitthvað rosalega merkilegt gerist.

Hafið það gott.  


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband