Leita í fréttum mbl.is

Að faðma eða ekki faðma

brezhnev.jpg
Ég er búinn að hlæja talsvert að fréttinni sem ég las í Blaðinu í dag um viðskipti þeirra Jens Stoltenbergs forsætisráðherra Noregs og Trond Giske menningarmálaráðherra. Giske átti afmæli á dögunum og Stoltenberg kom í veisluna. Vesalings Giske ætlaði að faðma Stoltenberg og bjóða hann velkominn. Það gekk ekki betur en svo að Stoltenberg stífnaði allur upp og tók skrefið aftur á bak. Hið neyðarlegasta mál. Neitaði að faðma Giske. Síðan hefur Stoltenberg gefið þá yfirlýsingu að hann faðmi ekki karlmenn. Sannur norskur karlmaður. Ég get ímyndað mér að Giske hafi liðið gjörsamlega eins og hálfvita. Annars hef ég oft pælt í þessu, satt að segja. Hvenær faðmar maður og hvenær ekki? Hvenær smellir maður kossi á kinn kvenna og hvenær ekki? Hversu margir eiga kossarnir að vera? Einn eða tveir? Jafnvel þrír? Ég svitna oft á efri vörinni út af svona spurningum á mannamótum, en ég hef þó skánað með aldrinum. Stoltenberg faðmar ekki, segir hann. Sagt er að Bush geri það ekki heldur. Kannski eiga þeir í vandræðum með það eftir að þeir sáu Brokeback Mountain. Ég veit ekki. Ég á alla vega í engum vandræðum með að faðma karlmenn á gleðistundum, en kossinn kemur hins vegar sjaldnar til álita. Sem er annað en Brezhnev, eins og meðfylgjandi mynd sýnir glöggt. Rússarnir beinlínis smelltu á munninn á hvor öðrum eins og ekkert væri.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit að þessi athugasemd kemur seint og um síðir, en ég bara stóðst ekki mátið. Brésnéf var víst svo mikill kossamaður að hann ku hafa sagt um einhvern héraðshöfðingjann í Sovjet að hann væri ekkert sérstakur stjórnvitringur en kyssi vel!
Sjálfur verð ég að viðurkenna að eftir að hafa búið í þremur löndum er ég allur kominn í flækju með faðmlög og kossa og það hefur jú komið fyrir að varir hafi óvænt og óvart mæst á miðri leið milli kinnakossa! Og eins og þú kannske veist þá kemur það líka alveg fyrir að ég kyssi karlmenn alvörukossum ;) Bestu kveðjur og gangi þér vel í baráttunni framundan!
Reynir bekkjarbróðir úr MR

Reynir (IP-tala skráð) 14.11.2006 kl. 13:19

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Takk fyrir baráttukveðjur! Gaman að heyra frá þér. Gangi okkur öllum vel að finna mörk kossa og faðmlaga, sérstaklega núna í aðdraganda jólaboðanna... Margur skrýtinn dansinn hefur verið stiginn við það að heilsa frænkum við slík tilefni... Ekki eru allir Brezhnev.

Guðmundur Steingrímsson, 14.11.2006 kl. 18:14

3 identicon

Já þetta er snúið mál. Það er skelfilegt að bregðast rangt við, kyssa manneskju sem ekki vill láta kyssa sig eða öfugt, vera of seinn að kyssa þann sem vill kyssa. Ég bjó lengi vel á Spáni, þar kyssir maður konur á kinn og þá yfirleitt báðar kinnar. En þá er það vandinn, kyssir maður eða þykist maður kyssa? Á maður að setja varir á kinn? Það er nú ekki geðslegt þegar maður er að hitta manneskju í fyrsta sinn. Það er vandræðalegt að flytja aftur til Íslands eftir kysserí í suðrænum löndum og reyna ósjálfrátt að kyssa allar konur sem kynntar eru fyrir manni. Sumar vilja kannski bara á aðra kinn en maður reynir að smella á báðar. Ég hef sem betur fer ekki lent í svona Brésnef-týpu og vona að það gerist aldrei, þá fyrst færi þetta út í algjöra vitleysu!

Spurning um að þú leggir þetta fyrir Alþingi og reynir að fá lög samþykkt um það hvenær skal kysst og hvenær ekki? 

Helgi (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 20:11

4 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég mun leggja fram frumvarp til kossalaga við fyrsta tækifæri. Eða betra: frumvarp til faðmlaga. Um þetta mál sýnast mér hafa spunnist innihaldsríkar samræður í bloggi. Simmi Guðmunds veltir vöngum. Svo hitti ég Róbert Marshall áðan. Hann vatt sér að mér fyrirvaralaust og kyssti mig á kinnina, með faðmlagi, samanber yfirlýsingu á marshall.is. Kom mér dáldið í opna skjöldu en svo hló ég eins og rotta. Ákaflega vinalegt. Við Simmi höfum hins vegar haft þann sið til langs tíma að heilsast með fokkmerki. Það er allt annar skóli, en alltaf jafnfyndið. Mæli með því. Engar áhyggjur samt. Ég mun ekki heilsa þannig á þingi.

Guðmundur Steingrímsson, 15.11.2006 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband