Leita í fréttum mbl.is

Gengið (22.03.08)

Einhvern veginn fannst mér það alveg dæmigert að ég þyrfti endilega að vera staddur í Evrópu í skemmtiferð yfir páskana þegar íslenska krónan tók upp á því að taka eitt séríslenskt æðiskast og hreinlega stökkva fyrir björg gjaldeyrismarkaðanna, hvar hún húkir nú á syllu.

EVRAN fór úr 100 kalli í 126 kall, rétt eftir að ég var kominn til meginlandsins. Bjórinn fór eins og hendi væri veifað úr 350 kalli upp í 441 kall. Sökum tímasetningar var ekki laust við að hin lúterska sektarkennd hvíslaði að mér að hugsanlega væri þetta mér sjálfum að kenna. Ég tók jú bílalán.

VIÐ Íslendingar erum öll áhættufjárfestar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það gerir krónan. Bara það að lifa lífinu sem Íslendingur og ferðast pínulítið til útlanda breytir hverjum okkar í áhættufjárfesti. Að bóka hótel fyrirfram er mikil spákaupmennska. Eitt krónuflökt getur þýtt tugiþúsunda í kostnaðarauka.

AÐ meðaltali höfum við það kannski ágætt, eins og einhver sagði. Nú græða einhverjir sem ekki græddu áður og allt það. Og vissulega var ágætt að ferðast þegar krónan var há. Hitt er aftur á móti verra, hvað þetta endalausa ástand, þar sem íslenska þjóðin er undirseld bæði áhættu og taugaveiklun, hefur vond áhrif á alla áætlanagerð.

EKKI er kannski furða að hugtakið “stöðugleiki” hefur verið hvað mest notaða hugtakið í stjórnmálunum á Íslandi síðan krónan litla var látin fljóta frjálst. Ef nógu mikið er talað um stöðugleika á tímum óstöðugleika er kannski hægt að skapa þá trú að fólki finnist veröldin stöðug. Sé fyrir mér fundinn á almannatengslastofunni þar sem þetta var ákveðið.

NÚ þarf að halda vel á spöðunum. Tímarnir geta orðið ansi svartir fyrir áhættuþjóðfélagið Ísland. Eitt rótgróið fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum fór á hausinn í vikunni. Önnur eru á milli vonar og ótta. Það má sjá fyrir sér atburðarás á Fróni þar sem fjármálafyrirtæki með fyrsta veð í húsnæði Íslendinga, verslunarfyrirtæki, skipafélög og flugfélög lentu í erfiðleikum og yrðu keypt af útlendum spékulöntum. Það yrði óneitanlega bakslag hvað sjálfstæðishugsjónina varðar.

SVONA pælingar leiddu einnig til þess að upp í hugann poppaði mynd, sem ég hló smá að í kaldhæðniskasti. Ég kem aftur heim. Á Leifsstöð verður búið að hengja upp skilti í gnauðandi vindi. Hundgá í fjarska. Enginn á ferli. Evran í 1000 krónum. Á skiltinu stendur: “Við erum farin. Bless. Nennum þessu ekki lengur.”

GLEÐILEGA páska.

Birtist sem bakþankar í Fréttablaðinu 22.mars 2008.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband