Leita í fréttum mbl.is

Svar við spurningu Dúu um stefnu í heilbrigðis- og félagsmálum

Dúa dásamlega spurði mig á heimasíðu sinni: hver er stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og félagsmálum. Svarið er hér, og líka þar

Kæra Dúa.
Spurning þín er nokkuð yfirgripsmikil, þar sem félags- og heilbrigðismál er líklega umsvifamestu þættirnir í ríkisrekstrinum – og líklega þeir mikilvægustu, þannig að svar mitt verður annars vegar mjög langt, og hins vegar ekki tæmandi…

Fyrir það fyrsta er það grunnhugsjón okkar sem jafnaðarfólks að aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu sé tryggt, óháð efnahag. Liður í þessu er að berjast gegn tvöföldu kerfi í heilbrigðismálum, þar sem gæði þjónustunnar fara eftir efnahag viðkomandi.
Við viljum flytja aukin verkefni sviði félags- og heilbrigðismála til sveitarfélaga. Hér eigum við t.d. við öldrunarmál og málefni fatlaðra og geðsjúkra.
Við viljum líka efla heimahjúkrun, heilsugæslu og heimaþjónustu m.a. með betri starfsskilyrðum þessara starfsstétta. Marg oft hefur verið bent á að aðgerð af þessu tagi feli ekki bara í sér betri þjónustu heldur einnig sparnað til langs tíma, enda er óskynsamlegt að þeir sem þurfa á hjúkrun að halda liggi í dýrum sjúkrarúmum á spítölum, sem ætlað er til annars konar þjónustu.
Við viljum eyða biðlistum aldraðra eftir hjúkrunarrými, m.a. með því að nota féð úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem ætlað er til slíkrar uppbyggingar. Þetta viljum við gera að forgangsverkefni. Einnig ætlum við að sjá til þess að allir aldraðir fái einbýli, en þurfi ekki að búa í fjölbýli – á herbergi með öðrum - eins og um eitt þúsund aldraðir þurfa að láta sér lynda nú um stundir.

Við viljum fjölga úrræðum fyrir geðsjúka og auka eftirfylgni og geðrækt. Jafnframt viljum við stuðla að aukinni aðkomu geðsjúkra að ákvarðanatöku, sem við teljum mikilvægt.
Við setjum lækkað lyfjaverð á oddinn, m.a. með lækkun virðisaukaskatts, aukinni samkeppni og endurskoðun á greiðsluþátttöku hins opinbera. Liður í þessu er t.d. að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga, en það eykur fjölbreytni í úrræðum og eflir valkosti sem ekki þurfa endilega að fela í sér lyfjanotkun.
Stefnan er almennt sú að auka valfrelsi, forvarnir og endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu og einnig að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagnið fylgir sjúklingum í mun meiri mæli þannig að stofnanir fái fjármagn í samræmi við þörf sína.
Liður í að koma á betri rekstri er að auka vægi útboða og þjónustusamninga í heilbrigðiskerfinu, en tryggja þó alltaf að þjónustan verði óháð efnahag.

Við leggjum höfuðáherslu á málefni barna og barnafjölskyldna, t.d. með lengingu fæðingarorlofs, ódýrari tannvernd og markvissum aðgerðum til styttingar vinnutíma sem og minni tekjutengingu barnabóta. Við teljum allar vísbendingar og fregnir um stórauknar geðraskanir og áhættuhegðun á meðal barna vera grafalvarlegt mál sem verður að taka á með markvissu átaki allra þeirra sem vinna að málefnum barna og unglinga í þjóðfélaginu. Hér þarf að bregðast hraðar við en gert hefur verið, bjóða upp á nýja valkosti í meðferð, svo sem meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem veitt eru á heimili barns og getur komið í stað stofnanameðferðar. Einnig þarf að tryggja öfluga eftirmeðferð og áframhaldandi úrræði barnaverndar þó einstaklingar hafi náð 18 ára aldri, a.m.k. til tvítugs. BUGL þarf að efla með því ekki síst að skapa deildinni betri skilyrði, starfslega og stjórnunarlega, til þess að ná árangri. Það þarf að beina sjónum að geðheilbrigðisþjónustu barna með samvinnu heilsugæslustöðva og skóla, og þá ráða í auknum mæli sálfræðinga og annað fagfólk, sem er sérhæft í að greina og meðhöndla geð- og atferlisraskanir barna og unglinga, í auknum mæli inn í heilsugæslustöðvarnar. 

Þetta er ekki tæmandi listi. Í okkar röðum eru þingmenn sem hafa einbeitt sér að elju og festu að þessum málaflokki, eins og t.d. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Margrét Frímannsdóttir, svo einhverjir séu nefndir. Verk okkar tala sínu máli. Skýrsla um fátækt barna er gerð að okkar frumkvæði, svo dæmi sé tekið, og flestar gildandi löggjafir á sviði velferðarmála eru frá þeim tíma að jafnaðarmenn voru í ríkisstjórn (1991: lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, 1992: gildandi lög um málefni fatlaðra, 1993 gildandi lög um almannatryggingar, 1993: gildandi lög um félagslega aðstoð).   Þetta er engin tilviljun. Samfylkingin er velferðarflokkur að norrænni fyrirmynd og tilurð almanntryggingakerfisins í Skandinavíu og hér á landi, sem og varðstaðan um þau kerfi, byggir á hugsjónum jafnaðarstefnunnar. 

Almennt séð teljum við að velferðarkerfið, með félagslega stuðningskerfinu og heilbrigðiskerfinu, þarfnist róttæktrar endurreisnar. Líkt og Stefán Ólafsson hefur bent á komast kjör lífeyris- og bótaþega hér á landi ekki hálfkvisti við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Til þess að breyta þessu þurfum við m.a. að endurskoða allar þær forsendur, tekjutengingar og skerðingar, sem liggja til grundvallar slíkum greiðslum.

Einnig verður að horfast í augu við það, að almannatryggingakerfið – sem grundvallast m.a. á því að fólk borgar skatt til samfélagsins – er byggt á ákveðinni réttlætishugsjón, um að fólk – óháð efnahag -- eigi rétt á þjónustu frá hinu opinbera. Þess vegna er í raun ótækt að fólk sem allt í einu þarf úrræði, út af áföllum í lífi sínu eða sjúkdómum, fái ekki úrræðin þegar það þarf. Ég hef líkt þessu við það, að maður borgi iðgjald til tryggingafélagsins, og svo brenni húsið manns, en maður fái það ekki bætt heldur fari á biðlista. Það sjá allir að slík meðferð yrði hrópandi óréttlát.

Einnig tel ég mikilvægt, svona í lokin, að við leggjum áherslu á að í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu sé frjór og skapandi hugsunarháttur ráðandi, leitað sé nýrra leiða þar sem það á við, og sveigjanleiki kerfisins og skilvirkni sé aukin til muna, m.a. með bættum starfsskilyrðum þeirra sem þar starfa og straumlínulagaðri yfirstjórn. Allir vita til dæmis að aukin áhersla á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir á öllum sviðum heilbrigðismála eru eitthvað það skynsamlegasta sem hægt er að gera í heilbrigðismálum, en einhvern veginn virðast tregðulögmál gera það að verkum að í slíkar aðgerðir, og fjölmargar aðrar skynsamlegar, er ekki ráðist.

Mér finnst velferðarkerfið fela í sér einhver brýnustu og raunar mest spennandi úrlausnarefni í íslenskri pólitík nú á dögum. Samfylkingin iðar í skinninu að takast á við þau. Þetta segi ég vegna þess að ekki bara slær hjarta mitt, og okkar í Samfylkingunni, með málefninu heldur er einnig hér um að ræða málaflokk sem felur í sér allar þær grunnhugsjónir sem við sem jafnaðarflokkur aðhyllumst: Samhjálp, réttlæti, almenna velferð og einfaldlega kærleikshugsjónina, sem að sjálfsögðu liggur allri jafnaðarstefnu til grundvallar. Endurreisn velferðarsamfélagsins á Íslandi er ein stærsta og veigamesta röksemdin fyrir því að kjósa Samfylkinguna, jafnaðarflokk Íslands, í vor.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband