Leita í fréttum mbl.is

"Fréttaskýringar" Moggans

Svokallaðar “fréttaskýringar” Moggans á forsíðu, skrifaðar af háttsettum blaðamönnum, eru eitt aðal aðhlátursefnið í mínum vinahópi þessa dagana. Stórskemmtilegt krydd í tilveruna. Þessar “fréttaskýringar” (je sjur ræt) eru einhver augljósasta tilraun og barnalegasta sem ég hef séð í íslenskum fjölmiðlum fyrr og síðar, held ég bara, til þess að lauma pólitískum áróðri inn á morgunverðarborð landsmanna undir fölsku flaggi.

Af hverju kallar Mogginn þetta ekki bara pistla og málið er dautt?  

Núna í morgun telur Agnes Bragadóttir sig hafa komist á snoðir um það með mikilli gagnaöflun væntanlega að sundurlyndi ríki innan Samfylkingarinnar – nema hvað. Það er ákveðið leiðarstef í þessum skýringum.  Hún hefur fyrir víst að Össur hafi spilað sóló í auðlindamálinu á Alþingi og svo klikkir hún út með því að leiða að því líkum að það hafi jú víst verið sjórnarandstöðunni að kenna að stjórnarskrárákvæðið rann út í sandinn í þingsölum. Og hvað dregur hún fram til vitnis um að sú athyglisverða kenning sé rétt?

Jú. Orð Geirs og Jóns.

Þannig lýkur fréttaskýringunni. Glæsileg sigurför hinnar hlutlausu og upplýsandi blaðamennsku.

Á fimmtudaginn birti Ólafur Stephensen svipaða “fréttaskýringu” á forsíðu um eldhúsdagsumræður. Hinn vandaði og ósérhlífni greinandi fór þar í saumana á málflutningi flokkanna. Niðurstöður hans um Samfylkinguna voru tvær.

Í fyrsta lagi: Það að Samfylkingin skyldi ekkert tala um umhverfismál lýsir þeim “mismunandi skoðunum sem ríkja á málaflokknum  þar á bæ”. Hér ætlaði blaðamaður væntanlega að nota orðið “sundurlyndi” en hefur gleymt því.  

Hvað getur maður sagt?

Fyrir það fyrsta er þetta rangt. Víst var talað um umhverfismál.  En vissulega var þunginn ekki lagður á umhverfismál, heldur velferðarmál, en ég spyr: hvað með það? Er það ekki allt í lagi? Á Mogginn í vandræðum með það? “Mismunandi skoðanir”, segir hann. Hefur Mogginn ekki orðið var við það að þingflokkur Samfylkingarinnar er búinn að kynna sína umhverfisverndarstefnu undir nafninu Fagra Ísland – sem hann stendur einhuga að – á blaðamannafundi fyrir löngu, sem og leggja fram frumvarp á þingi á grundvelli þess? Auk þess eru umhverfismál eitt meginþemað í stofnsamþykkt Samfylkingarinnar frá því árið 2000. Fyrir áhugasama: lesið hér.  

Ég finn lykt af Moggaspinni. Þau eru alltaf fyndin, vegna þess að þau eru alltaf svo skemmtilega augljós. Fyrirsögnin á þessari tilteknu “fréttaskýringu” var Grænt eldhús á þingi. Þessi fyrirsögn var væntanlega skrifuð fyrirfram því Mogginn vissi að Geir Haarde ætlaði að tala um umhverfismál núna, vegna þess að það eru að koma kosningar, og Mogginn hefur jú lýst þeirri skoðun sinni - í einmitt "fréttaskýringu" - að það gæti verið “gott fyrir flokkinn” (ekki landið, n.b.) að sýna smá grænan lit. Af því tilefni var fálkinn gerður grænn.

Þannig að nú á að spinna flokkinn grænan. Mér er hins vegar heiður og ánægja að segja Mogga frá því að nánast allt sem Geir sagði um umhverfismál í ræðu sinni á eldhúsdegi var annað hvort orðrétt eða nokkurn veginn samhljóða grein Ingibjarg Sólrúnar frá því á laugardeginum á undan um umhverfismál á 21.öld. Lesið hér.

Hin fullyrðingin um málflutning Samfylkingarinnar í hinni ákaflega vönduðu “fréttaskýringu” á fimmtudag -- sem var álíka meistarastykki og "fréttaskýringin" í morgun -- var svo þessi, og skulum við nú vitna í sjálf lokaorðin í þessu minnismerki faglegra vinnubragða: “Samfylkingin var dugleg að lofa nýjum ríkisútgjöldum, en greindi ekki frá því hver skattastefnan yrði.”

Hér sé ég fyrir mér sposkan svip hins skarpskyggna blaðahauks.

Skoðum þetta. Hefur Samfylkingin lofað yfir 400 milljörðum í kosningavíxlum eins og ríkisstjórnin undanfarið? Hvað á fréttaskýrandi við?

Ingibjörg talaði um að eyða biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og það strax. Er það það sem blaðamaður á við?  Er krafan um að fjárfestingarsjóður aldraðra sé notaður í það sem hann á að vera notaður í, semsagt í uppbyggingu hjúkrúnarrýma, bara eins og hver önnur upphrópun um ríkisútgjöld að mati blaðamanns?   Er þetta ekki brýnt réttlætismál? Og hefur ekki í ofanálag verið margsýnt fram á það að uppbyggingin hjúkrúnarrýma er í raun sparnaðaraðgerð til lengri tíma litið? 

Eða átti blaðamaður við orð Ingibjargar um nauðsyn þess að mæta kröfum um meðferðarúrræði barna og unglinga með geðraskanir, sem fjölgar ár frá ári? 

Eða er mögulegt að Ólafur hafi þarna farið fram úr sjálfum sér og látið pólitískar skoðanir sínar og blaðsins ráða lokaorðum “fréttaskýringarinnar”?

Guð sé oss næstur!  Það getur ekki verið!  Ó, bróðir!

Ég bara trúi því ekki, í svona vönduðu blaði eins og Mogganum, að blaðamaður geti mögulega hafa misstigið svona hrottalega í jafnmikilvægum efnisdálki og fréttaskýringu og látið pólitík ráða skrifum sínum!

Og það á forsíðu.

Er Mogginn að missa það?

Nei. Ég held ekki.

Hann hefur alltaf verið svona.  Breytist aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Búin að vera áskrifandi að Mogganum í áratugi. Maður lærir smám saman hvaða „gleraugu“ þarf að setja upp svona ca tveimur mánuðum fyrir kosningar. Svo þarf maður að passa sig að pússa gleraugun mjög vel áður en maður byrjar að lesa. Það er svo assk.. mikið af efni sem þarf að lesa milli línanna. Það er eiginlega hörkudjobb að komast yfir það allt saman svona yfir morgunkaffinu. Það dylst held ég engum sem eitthvað hefur rýnt að ráði í Moggann að á þeim bæ eru nokkuð margir sérfræðingar í þessari áróðurskúnst. Ég leyfi mér samt alltaf að trúa að þeir nái ekki að plata mig og læt þetta ekki pirra mig meira en svo að ég held áfram að lesa blaðið. Það sem hefur helst pirrað mig er hvað blaðsíðunum hefur fækkað þrátt fyrir að ég borgi alltaf það sama fyrir það í hverjum mánuði. Kannski eru þeir að rukka fyrir allt þetta sem stendur á milli línanna

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 13:13

2 identicon

Ég hef stungið upp því á mínu heimili og víðar, að Mogganum verði hreinlega sagt upp. Gera eins og svo oft er ráðlagt og láta veskið tala. Segir ekki hagfræðin að það sé mikilvægt verkfæri og lýsi ástandinu? Nóg er nú framboðið af fréttum, eftir tilkomu netsins og allt það. En við þessari hugmynd minni fæ ég alltaf þvert nei. Það er sko svo mikið annað efni í Mogganum sem er ágætt. Á meðan svo er og Mogganum er ekki sagt upp, eiga áskrifendur þetta bara skilið. Ef þið viljið Moggalýgina, í bland við góðgætið, skuluð þið halda áfram að vera áskrifendur. Ef ekki þá er mjög auðvelt að segja blaðinu upp. Það finnst mér reyndar að sem flestir ættu að gera.

Halldór (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 13:47

3 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

ég sagði upp mogganum fyrir tíu árum og sakna hans ekkert

Halli

Hallgrímur Óli Helgason, 17.3.2007 kl. 14:12

4 Smámynd: Ibba Sig.

Ég er farin að líta Moggann hornauga hverja helgi. Nenni ekki að byrja fríið mitt á endalausum kjánahrolli. Skil bara ekki hvernig öflugum blaðamönnum, eins og Agnesi, dettur í hug að taka þátt í þessu.

Bara skil það ekki. 

Ibba Sig., 17.3.2007 kl. 14:18

5 identicon

Þegar Guðjón Arnar og félagar andæfðu og jafnvel neituðu að  hlýða fyrirskipunum  "stofnanda og eiganda" flokksins og sagði með lögmætum fyrirvara upp samningum sem Sverrir hafði gert við dóttur sína kom Mbl af stað farsa sem rennur mér seint úr minni. Í ótal Reykjavíkurbréfum, ritsjórnargreinum þ.m.t. Staksteinum var dregin upp mynd af  vanmetinni og ofsóttri ungri  og einhverri hæfileikaríkustu stjórnmálakonnu síðari tíma, sem myndi innan skamms taka völdin í flokknum.  Þá var að sjálfsögðu kölluð til Agnes Bragadóttir með sínar alkunnu fréttaskýringar á forsíðu, sem tóku í sama streng og gott betur.  Daginn fyrir landsþing var komið örlítið hik. "Ef svo ólíklega færi að Margrét félli í varaformannskjöri myndi flokkurinn klofna"  Þetta sjónarspil var illa gert gagnvart Margréti en Mogginn var víst ekki að hugsa um það.  

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 14:29

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Mogginn er að verða jafn dapur og síðasta sería af South Park þáttunum.  Algjörlega misheppnaður áróður sem er kallaður eitthvað allt annað eins og "fréttir"

Þessi áróður Moggans ætti að heita Mogga klám.  

Björn Heiðdal, 17.3.2007 kl. 14:34

7 identicon

Málið er "minn ekki svo mikið kæri" Dharma, að þessi gagnrýni sem sett er fram sí ofan í æ er á alltaf á jafn ómálefnalegum nótum. Það er ekki sett út á málefnið, það er sett út á það að innan sam. þrífast mismunandi skoðanir, sem hjá sjálf. kallst heilbrigð skoðanaskipti en hjá samf. sundurlyndi.

Það er sagt að Samfó. sé ekki með stefnu sem mark sé á að taka í umhverfismálum og að þar sé sundurlyndi sem lýsi sér í því að fólk innan samfó hafi mism. skoðanir á virkjunar og stóriðju málum, en allir þó sammála um fagra ísland, sem á sinn snilldarlega hátt sameinar mismunandi skoðanir á mjög sannfærandi hátt. Þarf ég að minna þig á að 30% sjálfstæðismanna (sem hugsast kjósa hann þ.e.a.s) er á móti virkjunum og stóriðju, en það er bara heilbrigð skoðanskipti en ekki sundurlyndi.

Svona gæti ég haldið áfram lengi. Málið er einfalt, þegar málefnaleg gagnrýni er sett fram er henni svarað á málefnalegan hátt og get ég ekki betur séð og heyrt en að Guðmundur hafi staðið sig afar vel í þeim málum, sem og allt samfylkingarfólk. En síðan þegar ómálefnaleg, sorpblaðamennsku gagnrýni er sett fram þá er hún yfirleitt ekki svaraverð nema í sömu mynt.

Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 15:53

8 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Já var að blogga um þetta.

En þetta fer að vera spurning um fjöldauppsagnir. Ég er til. 

Tómas Þóroddsson, 17.3.2007 kl. 19:12

9 identicon

Þessar skoðanir fólks á Mogganum eru ekkert nýjar og frekar aulalegt að láta eins og þú hafir verið að finna upp hjólið Guðmundur. Það sem er ennþá aulalegra er að þú skulir enn vera í slíkri afneitun þegar það er flestum ljóst að Samfylkingin er að liðast í sundur.

Náinn fjölskyldumeðlimur minn er Samfylkingarmaður og hefur verið frá upphafi. Hann hefur m.a.s. gegnt mikilvægum störfum fyrir Samfylkinguna og er þér vel málkunnugur. Hann hefur sagt mér ýmislegt um stöðuna í Samfylkingunni og tjáð mér að hann sé löngu búinn að sjá fram á endalok flokksins. Honum finnst bara að hann verði að sýna sóma sinn í því að fylgja skipinu niður á botn og vill ekki svíkja fólkið í kringum sig eða draga úr því kjark, enda þykir honum vænt um flokkinn og fólkið.

Ég get að sjálfsögðu ekki látið uppi hver þetta er enda sýndi hann mér mikinn trúnað með því að ræða þessi mál við mig. Ég get hinsvegar ekki ímyndað mér að hann sé sá eini sem hugsi svo í Samfylkingunni. Svo það er spurning um að þið sem standið í fremstu víglínu farið að huga að bjálkanum í ykkar eigin augum.

Inga (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 21:26

10 Smámynd: Óskar

Agalega eigiði bágt greyjin mín hnignandi flokkur akkuru? Á meðan XD bætir við sig, sama hvað þið úffið og púffið þá sér fólk í gegnum ykkur og ætlar að styðja flokk sem það getur treyst ekki tvískynnung og flokk sem getur ekki sagt og staðið við.

Óskar , 17.3.2007 kl. 21:47

11 Smámynd: Unnar Rafn Ingvarsson

Ég hafði vissar áhyggjur af því að morgunkaffið myndi standa í mér, án Moggans, þegar ég flutti til útlanda. En vitið þið hvað, ég sakna hans ekkert. Helst minningargreinar sem ég lít yfir þegar ég rekst á þennan fornvin minn á förnum vegi. Fréttaskýringar Moggans eru hlægilegar og eiga oft á tíðum ekkert skylt við alvöru blaðamennsku.

Unnar Rafn Ingvarsson, 17.3.2007 kl. 23:19

12 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er orðið andsk. aumt þegar fólk er í stórum stíl farið að halda í áskriftina vegna dánartilkynninga og minningargreina....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.3.2007 kl. 00:43

13 Smámynd: Heiða  Þórðar

Mikið ofsalega fer þú Dharma vitleysingur þarna í taugarnar á mér. Ítreka enn og aftur; þú ert kynlaus hugleysingi!

Þú ert gagngert með "negatívar" athugasemdir, nafnlausi penni. og já hugleysingi! Lifðu heill. Blessuð sé minnig þín, ef einhver!

Spurning um að taka áskorun og koma undir nafni og mynd...

es. en í sambandi við Moggan, má til gamans geta að ég var í hæfnisprófi vegna umsóknar um blaðamannastarfs þar sl. fimmtudag. Þvílíkt og annað eins!  Hugurinn reikaði örlítið aftur í tímann í framhaldi, þegar ég var að bera saman fjölmiðla okkar íslendinga  (prófverkefni í fjölmiðlamiðlafræði). 

Í minningunni fann ég gamla lykt, ryk og chesterfield sófasett. Þarf ég að segja meira? Eða er einhver með á nótunum...

Heiða Þórðar, 18.3.2007 kl. 11:04

14 identicon

Fyrir minn smekk er morgunblaðið full vinstrisinnað, staksteinar eru frábærir og ekki kemur til greyna að segja upp áskriftinni.

Heiða, árás þín á Dharma er sorgleg og þú virkar eins og tapari enda bendir allt til þess að þinn flokkur verði sá 3.stærsti eftir næstu kosningar.

Óðinn (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 14:13

15 Smámynd: Bárður Ingi Helgason

Þú ert ágæt/ágætur Dharma

Bárður Ingi Helgason, 18.3.2007 kl. 17:58

16 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Heiða þorir þó að koma undir nafni og mynd.

eru ekki Óðinn og Dhorma sami maðurinn? 

Tómas Þóroddsson, 18.3.2007 kl. 19:52

17 identicon

Vissulega má gagnrýna fréttaskýringar Agnesar en það verður líka að horfa í það að þær eru í Mogganum, málgagni Sjálfstæðisflokksins, og það verður bara að horfa á þær slíkum augum. Auk þess kemur skýrt fram hver skrifaði skýringuna.  Það er ekkert sem segir að allar fréttaskýringar eigi að vera hlutlausar, enda er engin fréttaskýring hlutlaus. Aðalatriði er að fá að vita hver skrifaði.

Að sama skapi er nauðsynlegt að opna bókhald flokkanna til að almenningur viti hvaða aðilar standa þar að baki. Það kemur í veg fyrir spillingu. Um leið verður auðvitað að afnema þau lög að ríkið eigi fjárhagslega bera uppi innra starf stjórnmálaflokka. Þessi lög eru siðlaus. Rekstur stjórnmálaflokka kemur ríkinu ekki við.

Þakka annars góða og skemmtilega pistla.

Kristján

Kristján (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 20:16

18 Smámynd: Heiða  Þórðar

Get ekki á mér setið....

Dharma: Þér er sko hreint ekki sléttsama (karlinn minn -eða kerling) Góðar stundir til handa þér, sérstaklega frá mér.

Bárður Ingi: Árás? kallar þú þetta árás??? Þú segir fréttir, tilheyri ég nú einhverjum flokki, gott að vita, ekki jafn einmannalegt í ævintýralandinu mínu.

Tómas: Veit ekk betur en ég komi undir nafni og mynd.

Heiða Þórðar, 18.3.2007 kl. 20:51

19 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

bölvarður gustur er þetta í mönnum, en svona á þetta reyndar að vera í aðdraganda kosninga, gaman af hinum ýmsu skoðunum manna, en mér finnst alveg drephlægilegt að tala um óheiðarleika hægri manna og heiðarleika vinstri manna, þetta sveiflast nú oft sitt á hvað finnst mér og ekki laust við að stundum finnist manni sama rassgatið undir þeim öllum

Ásdís Sigurðardóttir, 18.3.2007 kl. 21:51

20 Smámynd: Heiða  Þórðar

Sorry Tommi, smá miskilningur á ferðinni.....

Heiða Þórðar, 18.3.2007 kl. 23:02

21 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Ekkert mál Heiða

Tómas Þóroddsson, 18.3.2007 kl. 23:10

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef nú mjög gaman af að fylgjast með athugasemdum Dharma hér og er oft alveg sammála honum. Þó pennastungur hans séu háðskar þá er hann þó málefnalegur. En svo sé ég reglulega athugasemdir við skrif hans það sem augljóst er að fólk nær ekki upp í nefið á sér af reiði og klikkir svo gjarnan út með hlægilegum orðum eins og vitleysingur eða kynlaus hugleysingi

Ég vona innilega Dharma að þú sviptir ekki hulunni af þér, a.m.k. ekki nærri strax. Það er svo gaman að sjá svona viðbrögð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2007 kl. 23:38

23 identicon

Gunnar; er Dharma málefnalegur.

Ég er farin að halda að sjálfstæðismenn viti ekki hvað málefni eru.

Hlynur (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 09:59

24 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Hvenær ætlar fólk að vakna upp og sjá að samfylkingin er ekki vinstriflokkur. Heldur bara alvöru, yfirlýstur miðjuflokkur. Meira að segja með frjálsyndari tóna en miðjuflokkar almennt. Það sem má mest gagnrýna samfylkinguna fyrir, og sérstaklega vegna yfirlýsinga þeirra fyrir síðustu kosningar um skattalækkanir og fleira, er að skorta bein í nefinu.

Á þeim tíma var ég yfirlýstur samfó maður, og sagði stoltur í bragði "Hah! Sjáiði alla flokkana sem örvæntingarfullir reyna að fiska atkvæði með loforðum eins og skattalækkunum, sem eru óraunhæf. Mínir menn leggjast nú ekki svo lágt, enda raunsær flokkur á ferð!" -- ARG hvað gerist svo? Spólum áfram 4 ár, og nafnlausir leiðindagarmar eins og Dharma tönnlast á því að stefnuskrá samfylkingarinnar sé aðeins hægt að finna með því að skoða nýjasta sett gallup kannana! Come on!

Ég finn samt veika von í hjarta mínu um að jafnaðarmenn muni fá tækifæri til að sanna sig aftur á Íslandi, fyrst þurfa þeir bara að vinna traust kjósenda, og því miður gæti verið að samfylkingin sé sökkvandi skip sem aldrei mun eignast traust þeirra. Sama hvað gerist, þá átt þú Guðmundur örugglega framtíð fyrir þér sem málsvari jafnaðarmanna, því þótt mér hafi þótt þú slappur í sjónvarpinu, ertu skarpur og traustvekjandi penni -- veitir manni von um að það séu aðrir frjálslyndir jafnaðarmenn þarna úti.

Steinn E. Sigurðarson, 20.3.2007 kl. 03:12

25 Smámynd: Bárður Ingi Helgason

Ég talaði ekkert um neina árás. Það var hann Óðinn, sessunautur minn á kommentakerfinu hérna.

Bárður Ingi Helgason, 22.3.2007 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband