Leita í fréttum mbl.is

Stjórnin flæktist í eigin spuna

Tilraunir stjórnarflokkanna - eða öllu heldur formanna stjórnarflokkanna - til þess að pota illa útfærðu auðlindaákvæði inn í sjálfa stjórnarskrána á síðustu metrum þinghalds eru runnar út í sandinn. Það er lýsandi fyrir útúrsnúningana sem tíðkast í bransanum að núna skuli stjórnarandstöðunni kennt um þetta klúður. Hún er sögð víkjast undan merkjum og hvað eina.

Bíddu við. Var þetta ekki nógu skýrt? Samfylkingin tók því fagnandi þegar auðlindaákvæði barst í tal fyrst. En svo þegar orðalagið og útfærslan kom í ljós var alveg kristaltært að þetta ákvæði var alls ekki hægt að samþykkja. Það var ekki hægt að lesa annað út úr þessu, en að þvert á yfirlýstan tilgang svona ákvæðis skyldi hér séreignarréttur á auðlindum festur í sessi.  Í versta falli með klækjabrögðum. Í besta falli óvart. 

Samfylkingin getur bara því miður ekki samþykkt svoleiðis, mín kæru.

Og ef út í það er farið: Síðan hvenær er það stjórnarandstöðu að kenna að ríkisstjórn skuli flækjast svona fyrir sjálfri sér? Hún rauk af stað fullkomlega af eigin frumkvæði í þessa stjórnarskrárbreytingu á lokaviku þings til þess eins að lenda upp á kant við nánast alla helstu lögspekinga þjóðarinnar. 

Og svo vélræn er klisjan um vinsti glundroðan orðin í munni stjórnarliða að enginn þeirra virtist, þegar hæst lét, fatta á nokkurn hátt kaldhæðnina í því að þeir skyldu virkilega beita þeirri klisju að þessu sinni í varnarviðbrögðum sínum.

Á sama tíma skiptust stjórnarliðar á skotum í fjölmiðlum um annað af tvennu: möguleg stjórnarslit eða afsagnir ráðherra.

Stundum fer ég bara að hlæja.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti ekki verið meira sammála þér. Eins og ég segi í blogginu mínu um þetta held ég að Jón Sig  og Geir megi þakka stjórnarandstöðunni fyrir að hafa, með því að spyrna við fótum, bjargað stjórninni frá algjörum skandal.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 00:32

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Já jón og Geir gera sig að algjörum kjánum, Birgir (sem sagði ekki frá) er eini sem getur viðurkennt að tímaleysi hafi fellt þá.

Tómas Þóroddsson, 16.3.2007 kl. 00:41

3 identicon

Það var gott að ekki fór í stjórnarskrána ákvæði sem hefði getað fest eignarrétt sægreifanna í sessi. En hvað svo? Er Samfylkingin tilbúin með nýtt orðalag á auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Hvernig væri að varpa því fram fyrir kosningar svo að við vitum um hvað er kosið?

Garma (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 09:03

4 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Samfylkingin vill, Garma,  að ákvæðið verði eins og auðlindanefndin komst að niðurstöðu um árið 2000. Sjá hér.  

Guðmundur Steingrímsson, 16.3.2007 kl. 09:08

5 identicon

Eru ekki allir að verða búnir að fá nóg af útúrsnúningum og blaðrinu í Jóni Sig. Hann er klárlega Ragnar Reykás stjórnmálanna í dag. Þvaðrið og undanhlaupin í öllum málum: Írak, lista hinna staðföstu, hótun Sijvar, auðlindamálinu and the list goes on. Hann getur farið inní mál að framan og komið út að aftan. En flokksfélagar hans um land allt búa ekki yfir þessari færni. Þessvegna er svo gaman að ræða við framsóknarmenn í dag. Þeir eru ekki bréfaskólagengnir eins og foringinn.

007 (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 09:27

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Hvernig væri að gefa bara báðum þessum flokkum frí í vor?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.3.2007 kl. 09:52

7 identicon

Já Guðmundur,  það var stjórnarandstaðan sem gerði sig illilega seka um lýðsskrum og tækifærismennsku þegar þeir stigu fram eins og einhverjir snillingar og sögðust ætla að greiða nákvæmlega þessu frumvarpi leið um þingið.   Þarna töldu menn sig hafa séð leik á borði að koma Sjálfstæðisflokknum út í horn.  Síðan þegar menn vöknuðu upp við það að málið væri að komast í gegn með fulltingi allra þá náttúrulega kom froðan og bullið í ljós hjá óábyrgu flokkunum.  Það hentaði ekki núna að greiða þessu leið og þá allt í einu var þetta frumvarp orðið bull.  Þvílík staðfesta... þvílík ábyrg vinnubrögð.   NOT! 

Ekki það að þetta frumvarp sé mér eitthvað hjartans mál.  Þetta hins vegar undirstrikaði enn og aftur ruglið í stjórnarandstöðunni.  Guð forði okkur frá þeim í vor.  Hugsandi fólk sér það held ég á endanum.

Helgi Már (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 09:57

8 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Fólk í flokki sem gerði Halldór Ásgrímsson að forsætisráðherra og gefum framsóknarflokknum 50% ráðherraembætta á Íslandi ætti nú ekkert að vera benda á Samfylkinguna og gera grín að því að hún gæti mögulega gert Steingrím J. að forsætisráðherra.. hann hefur amk fylgi á bakvið sig, en Framsókn ekki.

Utan við það er ekkert ólíklegra að Sjálfstæðisflokkurinn afhjúpi afturhalds-íhalds-andlit sitt og fari í stjórn með VG, til að standa vörð um hinn íslenska krónu bleðil í anstöðu við atvinnulífið, og til að halda erlendum auðmönnum frá því að eiga möguleika á því að bjarga Íslendingum frá okri innlendra auðhringja.

Guð forði okkur frekar frá því að íhalds armur Sjálfstæðisflokksins fái að ráða meiru, því hann er jafn slæmur og afturhaldið í VG. Samfylkingin er í raun eini flokkurinn sem er nógu frjálslyndur og frjó raf hugmyndum til að láta ríkistjórnarsamstarf við annan hvorn flokkinn ganga upp.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.3.2007 kl. 10:51

9 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Eitthvað eru puttarnir og lyklaborðið að stríða mér í morgunsárið, en fólk getur vonandi lesið sig í gegnum síðustu færslu. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.3.2007 kl. 10:52

10 identicon

 Eftirfarandi úr skýringum með frumvarpi þingmannanna Geirs og Jóns gefur nú rúmlega ákveðna vísbendingu um að verið sé að festa núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í sessi en þar segir, orðrétt:,,Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda." Þetta, ásamt ýmsum aðgerðum sem runnið hafa í gegn, leynt og ljóst, undanfarin ár, valda ákveðnum hrolli þeirra sem eru andsnúnir því að ákveðinn hópur "sægreifa" og fjölskyldur þeirra, eignist endanlega fiskinn í sjónum. Það er því ánægjulegt að sjá að Samfylkingin skuli tala tæpitungulaust um þetta mál og leggja vilja sinn á borðið.

Í upptalningu sinni á þeim hörmungum sem dynja yfir okkur við upptöku Evru gleymdi DHARMA að nefna Svarta dauða, fjárkláða, hafís og votviðrasöm sumur sunnanlands. Að öðru leyti var upptalningin og röksemdafærslan fyrir henni eins og við var að búast.

Garma (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 11:44

11 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Það er nú bara ótrúlegt að allir skuli ekki sameinast um að þagga þetta mál niður.

Framsókn heimtar nokkrum dögum fyrir þinglok að hamra breytingu á stjórnarskránni í gegn um þingið. Ekki á það eftir að verða þeim til framdráttar í næstu kosningum.

Stjórnarandstaðan bíður framsókn að standa að þessu með þeim í von um að fá völd í staðinn. Ekki á það eftir að verða þeim til framdráttar í næstu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn verður hræddur og samþykkir málatilbúnað framsóknarmanna. Ekki á það eftir að verða þeim til framdráttar í næstu kosningum.

Stjórnarandstaðan svíkur fyrri loforð (þar sem að ljóst er að völdin fylgja ekki með í kaupunum) og þykjast sjá eitthvað út úr orðalagi í tillögu stjórnarflokkana sem er ekki þar. Ekki verður það þeim til framdráttar í næstu kosningum.

Forystumenn allra flokka hafa gert sig að algjörum fíflum í þessu máli en að mínu viti er búið að stýra málinu í réttan farveg nú og bíður það komandi þings að taka á þessum málum af festu og nákvæmni.

Ágúst Dalkvist, 16.3.2007 kl. 12:23

12 identicon

Er þetta ekki bara enn eitt dæmið um þetta ólánshjónaband stjórnarflokkana........?

Ingólfur Jóhannesson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 12:42

13 Smámynd: Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu

Skemmtilegt að sjá hvernig sumir stuðningsmenn litla leikflokksins á þingi eru enn að lesa upp úr handritinu sínu:

http://heilbrigd-skynsemi.blog.is/blog/heilbrigd-skynsemi/entry/148717/

Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu, 16.3.2007 kl. 13:46

14 Smámynd: Matthias Freyr Matthiasson

Mæli með að þú kíkjir á bloggið mitt Gummi, þar er færsla um þig sem er mjög svo fyndin að mínu mati

Matthias Freyr Matthiasson, 16.3.2007 kl. 14:09

15 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Það eru allir flokkarnir með kúk uppá bak í þessu máli.
Framsókn fyrir upphlaupið,
Sjallar fyrir að láta kúga sig,
Samfó, VG og Frjálslyndir fyrir sucker-punch að hætti Navarro.

Svo standa allir þarna í hring, með kúk uppá bak, og benda á hvort annað. Alveg eins og ómálga börn á leikskóla.

Er það nema von að Alþingi Íslendinga njóti lítillar virðingar, þetta er sandkassaleikur fyrir hálfvita. 

Sigurjón Sveinsson, 16.3.2007 kl. 15:02

16 identicon

Kreppa stjórnarflokkanna, varðhunda kvótakerfisins, í hnotskurn:


Um 70% landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi og því er greinilega kominn tími til að taka upp nýtt og betra kerfi, sem meirihluti þjóðarinnar samþykkir. Ef hér er góð loðnuveiði er heildaraflinn um tvær milljónir tonna á ári og sæi íslenska ríkið í umboði þjóðarinnar um að úthluta veiðiheimildunum til einstakra byggðarlaga til eins árs í senn og tæki fyrir það tíu krónur að meðaltali fyrir kílóið í þorskígildum fengi þjóðin 20 milljarða króna í ríkiskassann. Hægt væri að útdeila þessari fjárhæð aftur til byggðarlaganna með margvíslegum hætti, til dæmis til samgöngubóta eða sem styrk vegna aflabrests. En að sjálfsögðu yrði verðið á aflaheimildunum mjög misjafnt eftir tegundum, til dæmis mun hærra verð fyrir kílóið af þorski en loðnu. Hægt væri að láta hvert byggðarlag fá ákveðnar veiðiheimildir árlega og veiðiheimildir yrðu að sjálfsögðu mismunandi frá ári til árs í samræmi við ástand fiskistofnanna. Veiðiheimildirnar yrðu einungis til eins árs í senn og ekki kvótaeign í nokkrum skilningi. Ríkið úthlutaði eingöngu réttinum til veiðanna og ákvæði hverju sinni hverjir fengju réttinn, til dæmis útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflyjendur. Fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflytjendur gætu greitt útgerðum fyrir að veiða fyrir sig upp í veiðiheimildir sem keyptar hefðu verið. Og þeir sem hefðu áhuga á að hefja veiðar í fyrsta sinn ættu kost á því, þannig að nýir aðilar væru ekki útilokaðir frá veiðunum, eins og nú er mikið kvartað yfir.


Tíu krónur fyrir kílóið í þorskígildum gæti að sjálfsögðu verið lægri eða hærri upphæð eftir atvikum. Sagt er að nú greiði lítil byggðarlög, til dæmis á Vestfjörðum, allt að einum milljarði króna á ári fyrir veiðiheimildir og þessar fjárhæðir muni fyrr en varir leggja allar minni sjávarbyggðir í auðn. Og þrátt fyrir að útgerðarmenn kaupi og selji aflakvóta fyrir gríðarlegar fjárhæðir á ári, jafnvel einn milljarð í litlu sjávarplássi, segjast þeir ekki hafa efni á að greiða hóflegt gjald fyrir veiðiheimildirnar ef núverandi kerfi yrði lagt af. Það er nú ekki mjög trúverðugt. Margir hafa velt fyrir sér hvernig hægt sé að leigja þorskkvóta fyrir 155 krónur kílóið til eins árs og haft eitthvað upp úr því. Og sumir halda því fram að greiða þurfi allt að 75% af aflaverðmætinu í leigu fyrir kvótann. Verð fyrir kílóið af "varanlegum" veiðiheimildum í þorski í aflamarkskerfinu var komið uppfyrir 2.200 krónur í nóvember síðastliðnum en krókahlutdeildin kostaði þá um 1.900 krónur. Og sagt er að nú sé þorskverðið á "varanlegum heimildum" sem útgerðarmenn kalla svo, komið yfir 2.500 krónur fyrir kílóið. Það er engum blöðum um það að fletta að útgerðarmenn telja sig eiga aflakvótana á allan hátt, bæði í orði og á borði, og munu með kjafti og klóm berjast fyrir því að "eiga" þá áfram.


Hugtökin "þjóðareign", "ríkiseign" eða "sameign þjóðarinnar" í stjórnarskrá hefur ekkert að segja í þessu sambandi, ef útgerðarmennirnir eiga í raun aflakvótana, fara með þá sem sína eign, veðsetja þá, þess vegna hjá "íslenskum" bönkum sem eru og verða í raun erlendir, að hluta til eða jafnvel öllu leyti. Eigandi kvótans getur þess vegna verið íslenskur ríkisborgari sem býr á Bahamaeyjum, kemur hingað aldrei og hefur engan áhuga á afkomu íslenskra sjávarplássa. Hann hefur eingöngu áhuga á arðinum, fiskvinnslan og fólkið sem býr í sjávarplássunum er réttlaust hvað varðar sína afkomu. En þessu má engan veginn breyta, þá fer allt landið á hliðina, segja útgerðarmenn og sporgöngumenn hennar á þingi. Þjóðin á að vera eignalaus, getur aldrei eignast neitt og útgerðarmenn eiga að sjá um að eiga hlutina fyrir hana, frekar en ríkið. Það er kommúnismi og getur aldrei gengið upp í lýðræðisríki. Kommúnismi hins eldrauða Mogga. Og margir þeirra sem eru algjörlega andvígir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið verja þetta kvótakerfi okkar út í ystu æsar, enda þótt eigendur kvótans gætu fyrr eða síðar allir verið íslenskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu, þess vegna kvæntir erlendum konum sem fengju þá helming hagnaðarins af veiðum "íslenskra" skipa. 


Aflakvótar eru nú fluttir og seldir á milli landshluta í stórum stíl og einn útgerðarmaður getur lagt heilt byggðarlag í rúst með því að landa aflanum annars staðar eða selja kvóta "sinn" til annarra landssvæða. Vilja menn hafa þetta kerfi áfram? Meirihluti þjóðarinnar segir nei takk og 70% hennar hlýtur að vera fólk í öllum flokkum. Hagsmuna útgerðarmanna var hins vegar gætt á Alþingi að þessu sinni, þó þeir geti þess vegna búið á eyju í Karabíska hafinu. Þjóðin vill hins vegar að nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni verði lagt fram á næsta þingi, frumvarp sem gæti fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Veiðiskip eru nú verðlítil eða verðlaus hér án aflakvóta. En þegar þau yrðu ekki lengur með "varanlegan" veiðikvóta fengju þau eðlilegt og raunverulegt verðmæti og úthlutaðan kvóta í sínu byggðarlagi, og myndu landa afla sínum þar. Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.


Þannig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni, samkvæmt Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ólafi Klemenssyni, fiskihagfræðingi hjá Seðlabanka Íslands:

Markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum var 6,3 milljarðar króna árið 2002, eigið fé  tveir milljarðar, kvótastaðan var 15 þúsund tonn og bókfært verðmæti kvótans 1,7 milljarðar króna. Verð á kvóta á hlutabréfamarkaðnum var 403 krónur fyrir kílóið en þorskígildistonnið var þá selt á 1.070 krónur.

Lögmálið um eitt verð sem sagt ekki í gildi. Hlutabréfamarkaðurinn verðleggur kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja en mikill munur er á verði á kvótamarkaði og óbeint á hlutabréfamarkaði. Mögulegar ástæður ólíkrar verðmælingar geta annars vegar verið mæliskekkja, þannig að þorskígildi séu "ranglega" skilgreind, uppsjávartegundirnar fái of hátt vægi, fleira sé ómetið en upprunalegur kvóti (gjafakvóti), eða stjórnendaauður, viðskiptavild, og hins vegar ólíkar væntingar, þannig að kaupendur og seljendur á kvótamarkaði séu ekki þeir sömu og kaupendur og seljendur á hlutabréfamarkaði.

Verð á hlutabréfamarkaði ræðst af verði á lönduðum afla, sóknarkostnaði, líkindum á tækniframförum og hversu miklar þær gætu orðið hvað sóknina snertir, heimiliðum heildarafla, ávöxtunarkröfu og veiðigjaldshlutfalli.


Magnús Thoroddsen hæstarréttarlögmaður segir meðal annars í tillögu sinni um nýtt ákvæði í stjórnarskránni um þjóðareign á auðlindum:

"Tilgangurinn með því að stjórnarskrárbinda nýtt ákvæði þess efnis, að "náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign" hlýtur að vera sá, og sá einn, að þjóðin öll skuli njóta arðsins af þeim. Því þarf að búa svo um hnútana í eitt skipti fyrir öll, að þessar auðlindir verði aldrei afhentar einhverjum sérréttindahópum á silfurfati. Ég leyfi mér því að leggja til, að þetta stjórnarskrárákvæði verði svohljóðandi:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum, afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 19:51

17 identicon

Þar sem að það er mjög auðvelt að blaðra út úr rassgatinu á sér tek ég því sem svo að QED þýði hjá þér, Dharma, Quite Easily Done... 

Helgi Bárðarson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 22:50

18 Smámynd: Aron Njáll Þorfinnsson

Takk Steini Briem, þetta var allgóð samantekt hjá þér.

Dharma, það er lágmark að þínar athugasemdir séu amk eitthvað fyndnar.

bkv

Aron Njáll Þorfinnsson, 16.3.2007 kl. 23:12

19 identicon

Aron, hversvegna eiga athugasemdir Dharma að vera fyndnar ? þó svo að sf sé hlægilegur stjórnmálaflokkur þá eru stjórnmál alvarlegt mál.
Steingrímur, það er ekki svo að þú eigir að kyngja öllu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, hversvegna skrifa menn á móti betri vitneskju ?
Ný skoðanakönnun staðfestir vonleysi sf og þá staðreynd að flokkurinn er í frjálsu falli og mælist nú 20% meðan Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 40% fylgi.
Flestir vilja Geir Hilmar Haarde áfram sem forsætisráðherra.
Sf- bíður mikið uppbyggingarstaf eftir kosningar, flokkurinn er klofinn og fólk á erfitt með að átta sig á fyrir hvað hann stendur.
Evrópumálin hafa verið tekið af dagskrá, þökk sé vg og sjálfstæðisflokknum.

Óðinn (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 10:07

20 identicon

ekki get ég skynjað það öðruvísi heldur en svo Óðinn að sjálfstæðisflokkurinn sé ekki neitt minna klofin

Skoðanakannir hafa allar sýnt hann í frjálsu falli, (nema þessi eina).

Stór hluti Sjálfstæðisflokksins vill aðildarviðræður við ESB, þeir eru eflaust ekki mikið fagnandi núna.

Og síðan er sjálfstæðisflokkurinn mun hlægilegri þessa dagana. 

Hlynur (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 10:57

21 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað jafn klofinn ef ekki klofnari en samfylkinginn, það eina sem hélt honum saman var sterk forysta Dao leiðtoga. Eða það hélt maður a.m.k., nú er Davíð farinn til seðlabankans til að verða grár í rólegheitum, og flokkurinn helst saman einhvernveginn áfram. Því miður virðist frjálslyndi armurinn ekki neitt meir ráðandi en áður. Ó hvað stjórnmálalandslagið hefði verið öðruvísi ef Þorsteinn Pálsson hefði sigrað í leiðtogakjörinu hér um árið *dæs*

Ég held að það sé aðeins hægt að komast að einni niðurstöðu eftir allt stjórnmálaþrefið undanfarið. Kjósendur vilja testósterón. Af árásargjörnu þvaðri eins og Dharma heldur uppi endalaust, þá má glöggt sjá að testósterónið er í hávegum hjá kjósendum frændsemisfl..sjálfstæðisflokksins meina ég, og við vitum nú öll að reiðin og heiftin í toppmönnum VG er hrein afurð tésins okkar elskaða.

Það er kominn tími til að reiður jafnaðarmaður taki völdin í þessu helvítis hræi sem samfylkingin virðist stundum vera, og sýni það í orði og á borði að nú sé bein í nefinu á flokknum.

Ekki misskilja mig, Ingibjörg Sólrún hefur sko fullt af testósteróni, það er bara sorglegt að hún virðist hafa meira en flestir karlarnir í flokknum.

Steinn E. Sigurðarson, 20.3.2007 kl. 03:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband