Leita í fréttum mbl.is

Kynjaboð og bönn

Hér hefur mikið verið skrafað á síðunni um netlöggu VG. Hugmyndin fær vægast sagt ekki góðar undirtektir...

Ekkert í svörum VG-liða finnst mér eyða á sannfærandi hátt þeim áhyggjum af öfgakenndri forræðishyggju sem tillagan skapar. Mér finnst Gunnar nokkur Theódór koma með ágætis hugmynd hér í athugasemdakerfinu að frekari tillögum handa VG á þessu sviði. Hann leggur til að í tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli verði sérstaklega þefað uppi klám á ferðamönnum við komuna til landsins og að til þess verði notaður sérstakur klámhundur.  

Hef hlegið dálítið að þessari hugmynd. 

Það er fleira frá þingi VG um helgina sem ég furða mig á, satt að segja, enda samrýmist sú forræðishyggja á mörgum sviðum sem þar kom fram alls ekki mínum grunnhugsjónum í pólitík. Enda er ég ekki í VG, þannig að það á ekki að koma neinum á óvart. Það er líka fínt að skil komi kristaltær í ljós á milli fólks og flokka, eins og mér sýnist vera að gerast hér. Slík ætti að auðvelda kjósendum að gera upp hug sinn á kjördag.

Ég er til að mynda frjálslyndur. Það er grunnþráður í minni nálgun á pólitík. Netlöggan hugnast mér þar af leiðandi alls ekki sem og önnur slík forræðishyggja þar sem réttindum borgaranna er mögulega fórnað.

Og nú verð ég að játa líka að ég skil ekki almennilega hvernig VG sér það fyrir sér að það sé hægt að setja það inn í stjórnarskrá að kynjahlutfall skuli vera jafnt á Alþingi. Þetta var ein meginhugmyndin á þingi flokksins.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hversu öfgakennd þessi hugmynd um stjórnarskrárbundið kynjajafnrétti er. Ætla menn virkilega að hlutast til um niðurstöður lýðræðislegra kosninga eftir að þær hafa farið fram? 

Eftir hvaða reglum eiga flokkarnir að skipta út konum eða körlum í sínum röðum til þess að jafna kynjahlutföllin? Segjum að fimm flokkar bjóði fram. Þrjátíu og þrír karlar ná kjöri og þrjátíu konur. Til þess að jafna hlutföllin (sem er reyndar ekki hægt miðað við að talan sé 63) er eðlilegt að spurt sé: Hvaða flokkur á að láta karl víkja? Hver verður reglan? 

Kosningar eiga að vera gagnsæjar. Hér er VG að boða flókið reglugerðarvirki með flóknum formúlum um það hverjir nái í raun inn á þing eftir að þjóðin hefur kosið. Þetta er eins og segja að niðurstaða Landsbankadeildarinnar í fótbolta skuli vera háð flóknum skilyrðum og ekki verði hægt að krýna sigurvegara fyrr en flóknar formúlur hafi verið reiknaðar, til þess að mæta alls kyns sjónarmiðum um góða knattspyrnu.  

Annað í þessu særir nefnilega mína viðkvæmu lýðræðissál: Hið lýðræðislega kosningaferli til Alþingiskosninga felur í raun í sér fullkomið jafnrétti kynjanna, hvað sem menn segja. Allir fá jú eitt atkvæði, algerlega burtséð frá kyni.  Af þessu leiðir, að niðurstaða kosninga sprettur ekki af óréttlæti hvað kynjahlutföll varðar. 

Þetta er mjög mikilvægt.  

Þetta er nefnilega ekki eins og í fyrirtækjaheiminum. Þar liggja karlar undir ámæli um að ráða öllu og að nota völd sín til að skipa einungis kynbræður sína. Í Alþingiskosningum er það hins vegar alveg kristaltært að konur kjósa til jafns við karla.

Það að niðurstaðan, úrslit kosninganna, endurspegli ekki þetta -- og þar af leiðandi blasir sú staðreynd við að konur kjósa ekki endilega konur -- er auðvitað dálítið athyglisvert.

En ráðið við því (ef fólk vill ráð við því á annað borð) er ekki það sem VG stingur upp á. Tillaga VG er atlaga að gagnsæju og sanngjörnu lýðræðisferli. Niðurstaða Alþingiskosninga verður að fá að standa. Það er að mínu mati algjört grundvallaratriði. Ef fólk sættir sig ekki við niðurstöðuna, út frá kynjasjónarmiðum eða öðru, verður það einfaldlega að safna liði og gera betur næst. 

VG vill líka setja í lög að kynjahlutfall verði jafnt í stjórnum fyrirtækja. Það er ekki atlaga að lýðræðinu, eins og hin tillagan, en hún er álíka flókin. Eftir hvaða reglum eiga þeir aðilar sem eiga sæti í stjórn að skipta kynjunum?

Mér hugnast ekki svona leiðir. Mér hugnast betur leiðin sem Reykjavíkurlistinn fór. Þar sátu konur á endanum í helmingi af stjórnunarstöðum innan borgarinnar, en höfðu áður verið tvær í slíkum stöðum.

Þetta náðist með einörðum ásetningi, hvatningu, stefnu og sanngirni.  Ekki boðum og bönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þessi regludýrkun er útí hött, það á ekki að þurfa að vera lög um allt ... við eigum að ala meiri skynsemi í þjóðfélaginu til að svona hlutir verði bara sjálfsagðir

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 01:30

2 identicon

Ég hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér með jafnt hlutfall kynjanna í stjórn fyrirtækja.

Við fyrstu sýn er þetta kannski voðalega falleg hugmynd, en þegar nánar er gáð koma alls kyns praktísk vandamál í ljós.

Hvað ef um er að ræða kannski tvo góða vini af sama kyni með svipuð áhugamál og svipaða hæfileika sem fá hugmynd um að stofna saman fyrirtæki sem snýst um að þeir geti haft viðurværi sitt af að samnýta krafta sína í því sem þeir eiga sameiginlegt?

Nú, miðað við hugmyndir VG er alls ekki víst að þeir gætu það nema leita til einstaklinga af hinu kyninu. Alls ekki er hægt að gefa sér að þeir finni nokkra manneskju í þeim hópi sem hefur áhuga á að stofna með þeim fyrirtæki og þá verða þeir bara að leggja hugmyndir sínar til hliðar.

Hvers konar rugl er það eiginlega? Eiga þeir ekki að mega samnýta sameiginleiga hæfileika sína nema með því að finna einstaklinga af hinu gagnstæða kyni sem hefur þessa sömu hæfileika?

Og til hvers leiðir það? Jú, til dæmis að tveir karlkyns bifvélavirkjar af sama kyni geta ekki stofnað saman bílaverkstæði nema þeir finni tvær konur sem vilja taka þátt í stofnun fyrirtækisins með þeim. Og einnig að tvær konur sem eru hreint út sagt frábærar í að búa til fallega dúka geta ekki stofnað saman dúkasaumastofu nema að finna tvo karlmenn sem eru tilbúnir til að vera í stjórn félags um saumastofuna.

Af þessu má sjá að VG er hér á hreinum villigötum. Það virðist sem flokkurinn haldi að öll atvinnufyrirtæki séu einhver risafyrirtæki sem stjórnað er af jakkafataklæddum stórgróðakapítalistum með bindi. Þannig er það alls ekki. Flest þeirra eru fremur lítil og eiga tilurð sína í því að nokkrir einstaklingar með svipaða lífsýn, áhugamál eða hæfileika hafa komið saman og ákveðið að sameina krafta sína.

Verði hugmyndir VG um jafnt kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja verður mörgum gjörsamlega útilokað að stofna saman fyrirtæki á slíkum grunni.

Það væri vægast sagt gróf aðför að atvinnufrelsinu.

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 01:47

3 identicon

Ég er sammála því að þessi ummæli Steingríms voru ömurleg hugmynd og að málið er verra fyrir VG því þetta var formaðurinn að tala. En þó finnst mér alvarlegt að það virðist alveg þaggað niður að fyrr í þættinum þá veltir Egill því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að sett verði einhvers konar sía á netið til þess að sía burt klámið. Því svarar Steinunn Valdís: „Veistu? Ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið þarna.“ Sem betur fer hef ég heyrt ýmsa bæði í Samfylkingunni og VG hneykslast á þessum hugmyndum en þangað til forysta flokkana slær þær út af borðinu þá minnkar það heilmikið líkurnar á að ég geti kosið annan hvorn þeirra.

Ásgeir H

 

www.kommunan.is/asgeir

Ásgeir H (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 02:08

4 Smámynd: Haukur Kristinsson

veit að ef konur beittu sér soldið meira fengu þær meiri völd, en sambandi við þetta klámvesen þá er ég soldið vonsvikinn, hef gaman að kíkja soldið bak við tjöldin og kíkja á smá klám á netinu en ef á að fylgjast með mér á netinu þá hætti ég að browsa og slekk á netinu. sjáum til í vor,

Haukur Kristinsson, 28.2.2007 kl. 04:07

5 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Guðmundur.

Það er með hreinum ólíkindum hvernig þú snýrð út út því sem við Vinstri græn vorum að ræða á landsfundi okkar um helgina.  Sjaldan hef ég séð jafn óvönduð vinnubrögð (tilvonandi) stjórnmálamanns.  Engum dettur í hug að fara að ráðskast með almennri netnotkun fólks og bendi ég þér á að lesa ágæta grein Steingríms J. Sigfússonar í Morgunblaðinu í dag á bls. 32.  Hvað varðar kvenfrelsis- og jafnréttismálin þá voru þar lagðar fram hugmyndir sem var vísað til frekari vinnu í stjórn flokksins, þær voru ekki afgreiddar sem stefna VG.  En það eru vissulega róttækar hugmyndir sem við viljum fá umræðu um í samfélaginu.  Hundakúnstir þínar um þingmennina 33 og 30 eru út í hött, við erum fyrst og fremst að tala um jafnræði á framboðslistunum sjálfum, útkoman úr kosningum verður alltaf mál kjósenda.  Hvað fyrirtækin varðar má benda á að í Noregi, þar sem systurflokkur Samfylkingarinnar er í forystu ríkisstjórnar, hafa verið sett lög um kynjajafnrétti í stjórnum skráðra fyrirtækja.  Fyrst var svoldið kveinað en að loknum aðlögunartíma gengur þetta vitaskuld vel.  Nema hvað? Útúrsnúningar þínir og hótfyndni eru þér fyrst og fremst til minnkunar, Guðmundur.

Árni Þór Sigurðsson, 28.2.2007 kl. 08:08

6 identicon

Vinstri-Grænir: öfugmæli aldarinnar

Er hægt að hugsa sér meiri öfugmæli en, að hræra saman kommúnisma og umhverfis-ást ? Allir vita hvernig kommúnistar fóru með Austur-Evrópu. Þessi vífeðmu landsvæði voru gerð að einum alsherjar ruslahaug. Það mun taka mörg hundruð ár, að hreinsa upp ósómann eftir Stalín og félaga.

Maður hefði haldið, að kommúnistar myndu aldreigi í mannkynssögunni dirfast að kenna sig við umhverfis-vernd, eftir slíkan viðskilnað. En Steingrímur og Ögmundur eru einstakir í víðri veröld. Þeir kunna að ljúga nógu stórt. Út á það eru þeir komnir með álíka kjörfylgi og gamla Alþýðubandalagið og minna má á, að það byggði á annari stórri lygi. Því var haldið fram að hagsmunir alþýðunnar hefðu forgang. Eins og hjá Vinstri-Grænum, snerist baráttan ekki um kjör alþýðunnar, heldur um að auðga hlut forustunnar (Nomenklatura).

Múg-æsingin hefur verið svo fáránleg gegn Kárahnjúkavirkjun, að VG nýtur tímabundinnar hylli kjósenda, en það verður ekki til lengdar og dalar vonandi fyrir kosningar. Það myndi mörgum sakleysinganum bregða, ef VG kæmist í valdaaðstöðu. Margir þeir sem eru í forustu í VG, eða stjórna bak við tjöldin, eru kommar úr Alþýðubandalaginu. Dettur nokkrum í hug að maður eins og Hjörleifur Guttormsson muni nokkur tíma bregðast lærifeðrum sínum í Austur-Þýðskalandi, þar á meðal hinum alræmda Erich Honecher?

VG er auðvitað enginn umhverfisverndar-flokkur. Þeir hefðu annars mótmælt Héðinsfjarðar-göngum kröftuglega og eitthvað gert í umhverfismálum í Reykjavík, á meðan þeir höfðu tækifæri til. Þessi 12 ár sem R-listinn hafði meirihluta í borginni stunduðu þeir kerfisbundin skemmdarverk á samgöngukerfinu. Ef þeir hefðu eitthvað gert til úrbóta svifriks-menguninni, hefði verið hægt að fyrirgefa þeim sóðaskapinn í Laugardalnum, en auðvitað var aldreigi við því að búast að þeir gerðu neitt gagnlegt.

Að VG skuli hugleiða hugsana-lögreglu, kemur alls ekki á óvart. Þeir væru til með að planta tölvu-flögum inn í hausinn á fólki, til að fylgjast með andfélagslegum hugsunum þess. Kommissar Árni Þór Sigurðsson er sagður hafa legið yfir Ameriskum kvikmyndum þar sem þessari eftirlitstækni er beitt. Ég er viss um að hann hefur fengið ýmsar hugmyndir um úrbætur. Árni er sagður hafa sérstakt dálæti á eftirfarandi kvikmyndum: The Manchurian Candidate, Paycheck og Eternal Sunshine of the Spotless Mind.

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 09:47

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Það er sérstaklega sterkur leikur hjá þér Guðmundur að beina sjónum þínum að einhverju sem skiptir litlu máli og jafnframt að taka það algerlega út úr samhengi og skrafa svo um það af sorglegri fáfræði. Væri ekki betra að kanna málin aðeins betur, hugsa og skrifa svo.

Hvernig væri nú að í stað þess að vera að nöldra út í VG að á yfirvegaðan máta beina kastljósinu að XD og þeirra myrkraverkum. Athyglisverð könnun í FB í dag þar sem kemur fram að meirihluti sjálfstæðismanna vill stækkun á álverksmiðju í Straumsvík og kannski, bara kannski er það spegilmynd af stóriðjudraumum bláa fuglsins sem var úðaður með grænum vatnslit svona til málamynda, rétt á meðan það þykir passa til atkvæðaveiða.

Birgitta Jónsdóttir, 28.2.2007 kl. 10:06

8 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Hvaða bull er þetta í þér Guðmundur að konur kjósi til jafns við okkur, eru þær ekki fleiri en við . Ef það er rétt hjá mér eru það frekar konur sem kjósa alla þessa karla á þing .

Þegar ég kom fyrst hérna á Moggabloggið þá var ISG búin að leika af sér hvað eftir annað í fjölmiðlum. Mikið var gert af því hér á blogginu að gera grín að konu greyinu og hennar samflokksmönnum sem grétu sáran yfir meðförunum og bentu á með tárin í augunum að gáfulegra væri að ráðast á stjórnarflokkana.

Fór svolítið í taugarnar á mér þessi grátur en nú hafa samfylkingarmenn tekið sig á. Hættir að mestu að gráta hér á blogginu og farnir að ræða aðeins málefnalegra um hlutina en þá byrja Vinstri græn á þessu í staðinn. Formaður þeirra er með svakalegar og gjörsamlega óhugsaðar yfirlýsingar á landsfundi og í stað þess að viðurkenna að það voru hræðileg misstök af honum þá fara vinstri græn bara að gráta yfir því að einhver skuli gagnrýna þennan frábæra flokk þeirra og yndislega formann eins og Árni Þór og Birgitta hér að ofan.

Mig langar til að spurja þau fyrst að það er ekki stefna VG það sem fromaðurinn boðar, hver er þá stefnan?

Ágúst Dalkvist, 28.2.2007 kl. 10:46

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

VG er á harðahlaupum frá orðum formanns síns. Þeir sem verja Steingrím hér segja gjarnan að orð hans séu tekin úr samhengi, þeir segja að þetta sé nú ekki það sem skipti máli  í komandi kosningum og að orð hans hafi verið rangtúlkuð.

Ég get alveg trúað því að Steingrími sjálfum hafi finnist nú að hann hafi hlaupið á sig, svona í PR. tilliti. En allir vita að Steingrímur meinar það sem hann segir og segir það sem hann meinar. Þetta er einfaldlega hin pólitíska innrétting kommúnista af hans kyslóð. "Ég veit hvað ykkur er fyrir bestu og með illu skal illt út reka".

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 10:53

10 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Hef alltaf sagt; Bestu manneskjuna í starfið. Að ráða manneskju bara út af kyni er algert helvítis rugl.

Held að eftir nokkur ár eiga fleiri og fleiri innflytjendur með ríkisborgararétt að fara í mál við fyrirtæki vegna þess að þau fengu ekki starf út af uppruna sínum.   

Ómar Örn Hauksson, 28.2.2007 kl. 11:48

11 Smámynd: Hlynur Hallsson

Ég mæli með því að fólk lesi grein Stengríms J. Sigfússonar í Morgunblaðinu í dag. Þú getur svo snúið útúr og rangtúlkað að vild Gummi en það gerir þig og Samfó ekki trúverðugri fyrir vikið. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.2.2007 kl. 11:55

12 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Frábær pistill Guðmundur - er alveg hjartanlega sammála þér.

Eggert Hjelm Herbertsson, 28.2.2007 kl. 12:23

13 identicon

Nú geta menn haft ólíkar skoðanir á því hvort rétt sé að setja inn í kosningalögin kynjajöfnunarreglur - en það er út í hött hjá Guðmundi að stilla dæminu þannig fram að í því fælist atlaga að lýðræðinu eða einstök viðleitni til að breyta úrslitum kosninga.

Staðreyndin er sú að við búum nú þegar við svona kerfi. Úthlutun þingsæta er önnur en sjálf kosningaúrslitin gefa tilefni til vegna reglna sem ætlað er að ná fram jafnræði. Þar er hins vegar ekki um að ræða jafnræði milli kynja, heldur að tryggja að tilteknir landshlutar eigi nægilega marga þingmenn.

Það þýðir að kjósandi Samfylkingarinnar í Garðabæ, sem velur flokkinn af því að hann vill sjá Guðmund Steingrímsson á þingi - á það á hættu að atkvæði hans fari í að koma Karli V. Matthíassyni inn á þing sem uppbótarmanni. Hann hefur enga möguleika á að verjast þessu, enda gerist þetta allt eftir reiknireglum sem ekki er beitt fyrr en við talningu atkvæðanna.

Alþýðuflokkurinn gamli hafði það baráttumál að gera landið að einu kjördæmi, en það var fellt út úr stefnuskrá Samfylkingarinnar.

Guðmundur er því frambjóðandi fyrir flokk sem stendur - ásamt öðrum flokkum á þingi - vörð um kerfi sem einmitt "hlutast til um niðurstöður lýðræðislegra kosninga eftir að þær fara fram".

Stefán (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 12:59

14 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Frábært þetta með "klámhundinn". Sé alveg fyrir mér tollverðina á Keflavíkurflugvelli með Kristján "heiti ég" Ólafsson í bandi

Spaugstofan þyrfti að sjá þessa hugmyndi hjá Gunnari

Ágúst Dalkvist, 28.2.2007 kl. 13:20

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mig dauðlangar til að leiðrétta þetta EKKI með klámhundinn,   að hugmyndin sé mín en heiðarleiki hefur alltaf verið minn Akkilesarhæll 

Mig minnir að Egill Helga hafi laumað þessu út úr sér í síðasta Silfri en það heyrðist ógreinlega vegna þess að hann flissaði svo mikið yfir því sjálfur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 13:30

16 Smámynd: Þarfagreinir

Ég vil bara benda á að hugmyndin um klámhundin er, eftir því sem ég veit best, upphaflega komin frá honum Enteri á Baggalúti:

http://www.baggalutur.is/index.php?id=3749

Þarfagreinir, 28.2.2007 kl. 15:05

17 identicon

Afhverju eiga aðrir að geta sagt mér hvað ég kjósa?  Er mér ekki treystandi til að kjósa rétt?  Ef tvær hæfar konur bjóða sig fram í prófkjöri fyrir flokk, af hverju mega þær ekki vera í tveimur efstu sætunum ef kjósendur vilja það?

Spurning hvort VG vilji hreinlega ekki stilla því frekar upp að hver kjósandi hafi tvo atkvæði.  Annað atkvæðið verður að fara til karlmanns og hitt verður að fara til konu?

Síðan seinna meir er hægt að hafa það þannig að hver kjósandi fá 10 atkvæði sem verða að skiptast svona niður:

3 fyrir karlmenn.  3 fyrir kvennmenn.  2 fyrir eldri borgara, 1 fyrir öryrkja og eitt fyrir fulltrúa úr dýraríkinu (t.d. einhverja hálfblinda tvíkynja eðlu frá dýragarðinum í London - svo fyllsta jafnréttis sé gætt).

Kalli (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 16:07

18 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ferleg vitleysa er þetta endalaust í þér Gummi minn. Þetta fer alveg að fara fram úr öllu hófi hjá þér. Þú ert alveg hreint ótrúlegur í þínum málflutningi og virðist ekki ætla þér annað en að reyna að slá ryki í augu fólks. Það sem þú segir með netlögregluna er bara útúrsnúningur og bull í þér. Já, beinlínis er um bull að ræða því þar er EKKI verið að tala um ritskoðun, heldur einungis um heimildir til að upplýsa glæpi sem fara fram á netinu. Vertu pínulítið upplýstari áður en þú gagnrýnir hugmyndir fólks. Þú virðist ekki fróður um að íslensk lög banna dreifingu á klámi og því eðlilegt að ætla að sporna við því, bæði á netinu og í verslunum. Það er enginn að tala um ritskoðun í því sambandi eða að fylgjast með netnotkun fólks. Þvílíka bullið í þér kæri drengur.

Hvað varðar Stalíníska gagnrýni hér að ofan, er varla gerlegt að gefa því gaum, því þar er um sama bullið að ræða. Hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að umhverfisstefna Vg eigi eitthvað skylt við Stalín? Eigum við hér í Vinstri hreyfingunni grænu framboði á Íslandi að þurfa að svara fyrir eyðileggingu Stalíns í Rússlandi??? Hvers konar rugl er það? Eða aðra vinstri menn sem hafa ógnað umhverfinu? Það hefur algerlega snúist við á síðustu áratugum og nú eru það hægri menn sem bera mesta ábyrgð á eyðileggingu náttúrunnar og mengun.

Hvað varðar hlutföll kynjanna og kosningar - þá væri jú vert að líta á staðreyndir málsins. Það eru alveg jafn margar hæfar konur eins og karlar til að gegna embættum, stjórnunarstöðum og til að verða þingmenn/konur. Jafnvel eru þær fleiri, því þær hafa á undanförnum árum farið langt fram úr körlum hvað varðar menntun. Málið er að kynjakerfið heldur þeim niðri, kemur í veg fyrir að einmitt þær frábæru konur sem eru jafn hæfar og karlar komist hreinlega að í þessi störf. Þegar um er að ræða að skipta til helminga er ekki um hnífjafna skiptingu að ræða, svoleiðis getur það ekki orðið, en nálgast má það með 40/60 eða 45/55 reglu. Það er eins og þú sért að heyra talað um slíkt í fyrsta skipti, og einnig um lög stjórna, en dæmi um þetta þekkjast reyndar erlendis frá og hafa virkað og gengið eftir með ágætis árangri.

Það væri þess virði fyrir þig held ég Gummi minn að skoða það hvaða aðferðir hafa virkað í jafnréttisbaráttunni til þessa og setjast niður með kollegum þínum í XS og ræða þau mál. Þar eru nefnilega feministar sem jafnt og við myndu vilja sjá eitthvað slíkt ná fram að ganga. Til þess að fræða þig frekar um hvað hefur virkað í jafnréttisbaráttu kynjanna má benda þér á að ekkert hefur virkað nema lagasetningar! Lagasetningar hafa gert það að verkum að réttindi kvenna hafa verið tryggð, til dæmis hvaða varðar kosningarétt og rétt til náms og atvinnuþátttöku. Aldeilis hefur það nú þótt skrítið fyrir suma karlremduna á sínum tíma ;) Enn erum við hins vegar ekki að ná nógu góðum árangri. Með því að binda þetta með lögum og að flokkar setji sér reglur um kynjajafnrétti við uppröðun á lista mætti jafna þessi svokölluðu "jöfnu tækifæri". Tækifærin eru nefnilega ekki jöfn, þannig er staðreynd málsins. Þarna er átt við að 50% samfélagsins eiga tilkall til 50% (cirka) af stjórnunar- og áhrifastöðum í samfélaginu. Með því mætti líka ná fram auknara jafnrétti, því eftir því sem jafnari skipting verður þarna á, því meiri líkur eru á að við tökum á þessum hlutum SAMAN!

Það sem ég vil benda Þórði á að hann er algerlega á villigötum í túlkun. Í tillögum okkar er ekkert um svona lítil fyrirtæki, og að sjálfsögðu geta þau orðið til hvort sem um er að ræða tvær konur, systur eða tvo karla sem stofna til fyrirtækis. Við beinum sjónum okkar einungis að risastórum fyrirtækjum á markaði sem fara með gífurleg völd sem stýra því hvernig jafnréttislög eru hvað eftir annað brotin. Með þeim hætti að jafna þarna hlutföll kynjanna myndum við öll ná mun betri stjórnun og ná mun betri árangri í því að ná hér fram jafnrétti sem myndi birtast í auknum áherslum í þessum málum og í stefnumótun fyrirtækjanna. Ég bendi fólki aftur á það að skoða hvernig þessir hlutir eiga sér fordæmi erlendis með príðisgóðum árangri ;) Það er oft skrítið að heyra hlutina í fyrsta skipti og erfitt að koma fram með nýjar hugmyndir  - EN við skulum athuga það að eftir smá tíma gætu þær hugmyndir meikað meiri sens en nokkuð annað - rétt eins og kosningaréttur og atvinnuþátttaka kvenna þykir nú sjálfsagður hlutur en var það ekki á sínum tíma þegar svo róttækar hugmyndir um mannréttindi komu upp á yfirborðið.

Andrea J. Ólafsdóttir, 28.2.2007 kl. 16:35

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Við beinum sjónum okkar einungis að risastórum fyrirtækjum á markaði sem fara með gífurleg völd sem stýra því hvernig jafnréttislög eru hvað eftir annað brotin."

Andre skoðaðu þetta sem þú segir.

Ok...og roðnarðu ekki?...ekki smá?

Ef ég er hluthafi í stórfyrirtæki þar sem velta er í tugmiljörðum talin, og stjórn fyrirtækisins er skikkuð til að að velja næst bestu stjórnendurnar, þá sel ég hlutabréf mín í því fyrirtæki í snarhasti.

Hluthafar gera þá kröfu til stjórnenda fyrirtækisins að aðeins það besta sé nógu gott. Stjórnendurnir mega allir vera konur, skiptir engu máli.

Þetta kalla ég jafnréttistal á villugötum og fólki sem dettur svona vitleysa í hug er ekki trúverðugt. Það er alveg sama þó Norðmenn séu með tilburði í þessa átt, það er jafn vitlaust. Konum er heldur ekki gerður greiði með þessu, þær eiga að venja sig á að komast áfram á eigin verðleikum. Ekki af því þær pissa sitjandi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 17:10

20 identicon

Sæl

Æ, æ, Árni Þór Sigurðs segir "Sjaldan hef ég séð jafn óvönduð vinnubrögð (tilvonandi) Stjórnmálamanns."  Þetta er stóra vandamálið við VG - ef fólk mótmælir þeirra hugmyndum þá er það sagt vera óvandað.  Varðandi Steingrím Joð og netlögreglu þá reynir hann að bæta fyrir að hafa verið of æstur í Kastljósinu á Sunnudag í Mogganum.  Halló, ég sá Sifrið, ég þekki frjálslynda menn þegar ég heyri í þeim, Guðmunduur Steingríms er greinilega einn af þeim. Steingrímur Joð er ekki einn af þeim, svo mikið er víst! 

Andrea segir " Þú virðist ekki fróður um að íslensk lög banna dreifingu á klámi og því eðlilegt að ætla að sporna við því, bæði á netinu og í verslunum. Það er enginn að tala um ritskoðun í því sambandi eða að fylgjast með netnotkun fólks. Þvílíka bullið í þér kæri drengur."   - er þetta ekki málið þeir sem eru ósammála stefnu VG eru bara að  "bulla". 

Ég, og við hin sem kjósum ekki VG, c.a. 80-90% af þjóðinni ætlum áfram að leyfum okkur að hafa skoðanir sem samræmast ekki línunni úr herbúðum VG - a.m.k. þangað til við vitum úrslit kosninganna!

kveðja

Sveinn V. Ólafsson

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:37

21 identicon

Forræðishyggja = vg - ef menn ákveða að kjósa vg er það að menn hafa áhuga að aðrir ákveði fyrir sig hvað þeir mega og mega ekki gera og boð og bönn er eitthvað sem er vg.

Góður pistill Guðmundur

Óðinn (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:38

22 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Það er náttúrulega fáránlegt að fólk sé flokkað eftir kyni inná þing eða í stjórnir fyrirtækja, á báða staði á vitanlega að kjósa fólk eftir hæfni til að sinna starfinu og skiptir þá engu hvernig skipting á milli kynja er.

Eins og Árni þór bendir á er kynjakvóti hér í noregi, þannig að karlar og konur eiga að vera til helminga, en öfugt við það sem hann segir, er sko enginn sátt um það og sum fyrirtæki hafa hreinlega verið í vandræðum með að fá konur í stjórn. 

Anton Þór Harðarson, 28.2.2007 kl. 18:59

23 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Þykir merkilegt að lesa athugasemd Andreu hérna að ofan.

Ótrúlegt að ung kona skuli ekki hafa meiri metnað en það að vilja bara koma sér áfram í lífinu á kynferðinu einu saman.

Fyrir nokkrum árum komu konur afskaplega illa út í prófkjöri í Reykjavík hjá sjálfstæðisflokknum. Þótti konum það skiljanlega mjög miður og fundu mikið að því. Davíð Oddsson benti þeim á að þeir ungu menn sem unnu þá kosningasigur hefðu eitt öllu kjörtímabilinu þar á undan í að kynna sig en konurnar hefðu birst rétt fyrir prófkjör og bara ætlast til að vera kosnar vegna kynferðis.

Hanna Birna Kristjánsdóttir tók hann á orðinu og fór að vera mjög áberandi í íslensku þjóðlífi og ávann sér virðingu. Ekki fyrir að vera kona heldur sem einstaklingur og fékk flest atkvæði í prófkjöri D lista fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar.

Mér finnst það til háborinnar skammar hvernig VG og stundum fleiri flokkar tala niður til kvenna með því að gefa það í skyn að þær verði ekki kosnar nema fyrir kynferðið. Þær eiga betra skilið af ykkur.

Ágúst Dalkvist, 28.2.2007 kl. 20:13

24 identicon

Guðmundur. Eigum við þá ekki að afnema bara stjórnarskránna og lögin og láta nægja að hvetja fólk til að vera gott hvert við annað? -Hefurðu íhugað að inngöngu í Frjálshyggjufélagið?

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:16

25 identicon

Eða mega lögin ná yfir alvörmálin - eins og dóp og skjalafals og fjármálamisferli - en leyfa fólki að vaða uppi með mannréttindabrot, ofbeldi og ömurleik þegar kemur að jafnrétti kynjanna?

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:17

26 identicon

 Sóley, halló, Sóley!

Guðmundur Steingrímsson var ekki að leggja til að afnema öll lög - úfff....  , þetta þýðir ekkert. Nú er ég hneykslaður á sjálfum mér   - rökræða við fulltrúa VG.

Hvaða gusa kemur núna?

Ég sé 25 ára af klámkynslóðinni, púfff, eða karlremba  eða .....

jæja alltaf í boltanum ....................................

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:28

27 identicon

Þessi málflutningur óskabarna VG hér er vægast sagt hlægilegur.  Þið eruð gjörsamlega komin í nauðvörn..."Eigum við bara ekki að afnema lög og hvetja fólk til að vera gott við hvort annað?...Nú eru það Hægrimenn sem bera mesta ábyrgð á eyðileggingu náttúrunnar!...Þið hafið bara ekkert vit á lögum og hvernig jafnréttisbaráttan hefur virkað í útlöndum!...Risafyrirtæki sem ráða því hvernig jafnréttislög eru brotin!"

Þessi "rök" ykkar hérna sýna bara svo um munar málefnaþurrð VG.  Þið hafið nákvæmlega EKKERT til málanna að leggja nema einhver endalaus boð og bönn og ríkisvæðingar.  Ein af ástæðum þess að kommúnismi lagðist af í hinu siðmenntaða heimi er einmitt þetta.  Misgáfaðir pólitíkusar þykjast vita betur en allir aðrir og banna allt ...nema það sem þeim finnst hverju sinni sé í lagi að leyfa.  Og þá, eins og nú, svífist þið einskis. Sem dæmi vilijð þið setja á laggirnar ríkisstofnun sem hefur það að að markmiði að njósna um borgaranna.  En sagan hefur margsýnt að ef svona flokkur fær að grassera með ríkisvöldin, þá hafa undantekingalaust skelfilegir hlutir gerst (skiljið það eins og hver vill, ég er ekki að gefa neitt frekar en annað í skyn hugsið bara um sögu kommunismans).

Ég er af þeirri kynslóð sem er að taka við landinu og ég hugsa að ég tali fyrir alla í minni kynslóð þegar ég segi...mér er nákvæmlega sama um hvort að það sé kona eða kall sem ég ræð í vinnu, svo lengi að starfið skili tilætluðum árangri í fyrirtækinu.  Stundum hentar annað kynið betur en hitt, þannig er það bara, engin landslög eða stjórnarskrárbreytingar breyta því, sorrý.

Sem dæmi fyrir nokkrum árum vara Ingibjörg Sólrún kosin sem formaður Samfó.  Ákvað flokkurinn að skipta um mann í brúnni á hátindi fylgissögu flokkssins.  Nú kom ég á engan hátt nálægt því en í minningunni virðast ástæðurnar fyrir skiptingunni fyrst og fremst tvær:  Ingibjörg hafði víst sýnt einhverja leiðtogahæfileika í borginni, sumir kusu hana af því að hún var hæfust í starfið.  Aðrir kusu hana af því að, og hafa ekki hætt að tala um það síðan, hún er kona.  Núna nokkrum árum seinna sjáum við árangurinn.  Ber helmingsfylgistap flokksins merki um að hún hafi verið hæfust í starfið?

Kv. SkúliS

SkúliS (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 22:10

28 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sóley Tómasdóttir spyr þig Guðmundur hvort þú sért á leiðinni í Frjálshyggjufélagið. Þetta lýsir VG rosalega vel. Ef einhver hefur liberal skoðanir, þá er hann orðinn frjálshyggjumaður. Ekki að það sé svo slæmt en fyri má nú vera. Sá sem burðast með slíka tendensa í VG hlýtur að læðast með veggjum þar innanbúðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 22:37

29 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Ég hélt nú að þú værir nú þegar stjórnmálamaður Guðmundur en ekki tilvonandi eins og Árni Þór Sig. titlar þig.

Ragnar Bjarnason, 28.2.2007 kl. 22:56

30 identicon

Ég hefi einmitt velt þessu dálítið fyrir mér og finnst stórmerkilegt að meðan að konur eru meirihluti kjósenda (fleirri almennt eða lifa þær lengur) þá eru oftast ekki konur i efstu sætunum. Það jafnvel þrátt fyrir að stundum séu færri konur en karlar í framboði (og því ættu atkvæðin að dreifast minna). Hver er lærdómur þess, jú að konur almennt kjósa ekki eftir kyni. Ef að við gefum okkur að fólk kjósi yfirleitt þann sem að því finnst hæfastur, getum við leitt af þessu að konur telji ekki alltaf konur besta kostinn útaf því að hún sé kona, heldur meti eitthvað annað í fari frambjóðenda. Og það er jú jafnrétti af bestu gerð ;) Nema að við viljum gefa konum að þær starfi ekki af skynsemi með eigin hag að leiðarljósi, sem mér finnst ólíklegt í dag eða sjaldgæft, þó að amma hafi nú kannski kosið menn af því að þeir voru landsföðurslegir, blessuð sé minning hennar.

Annars, er margt misréttið í þessum málum, í fyrsta lagi kostnaður við kosningabaráttu og kosningabandalög í prófkjörum.  Hvert er annars hlutverk kvennahreyfingar samfylkingarinnar, annað en að berjast fyrir réttindum kvenna, sem maður myndi ætla að væri á dagskrá allra í flokknum hvortsemer, kosningabandalag innan stjórnmálaflokks? Er ekki eitthvað skrítið við þennan draug kvennalistans, blessuð sé minning hans. Rauðsokkur leyfðu karlmenn, en það er nú hálf erfitt að vera karl í kvennahreyfingu. Ég er nú reyndar áhugamaður um réttindi lágvaxinna (hver eru stærðarhlutföll í stjórnum?)  og hef tekið eftir því að margir framamenn í Samfylkingunni virðast vera í þeim eðla hópi. Samsæriskenning: Það er leynihreyfing lágvaxinna sem stjórnar öllu í Samfylkingunni

Svo má fabúlera meira, konur berjast oft fyrir því sem kallað eru kvenlæg gildi sem eru þá gagnstæð karlægum gildum. Þessi kvenlægu gildi eru oft það sem kallað er vinstri pólítík (samhyggð) en karllægu hægri (grimmd). Því mætti slá því fram að konur sem selja sig fulltrúa kvenlægra gilda ættu erfiðar uppdráttar í hægri sinnuðum flokkum og sú er jú raunin. Fæstar konur í hægri flokkum, gera neitt sérstaklega út á það að vera konur eða femínistar meðan karlar í VG segjast vera femínistar og eru það líklega.  Þó er vissulega færi fyrir Illuga að vera hægri fem. Það er því í raun sjálfstæðisflokkurinn sem þyrfti að hafa fléttulista en ekki VG

Annars, held ég að kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja endurspegli fyrst og fremst þau kynjahlutföll er eru í eldri og reyndari fólki í hverjum og einum bransa. Því endurspegla kynjahlutföll í stjórnum m.a. og kannski fyrst og fremst, þau kynjahlutföll sem voru í bransanum fyrir 10 til 20 árum og ættu því að breytast hægt og rólega eftir því sem að fleirri konur feta framabrautina.  Það er ekki skynsamlegt af fyrirtæki að hafna hæfum starfsmanni vegna kyns.  Það er eðlilegt takmark að reyna að auðvelda innkomu kvenna á framabrautina t.d. með því að jafna hlut þeirra m.t.t. fæðingarorlofs i.e. neyða karlmenn til að taka jafnlöng fæðingarorlof og konur (sorry Dagur....) og eflaust með öðrum skynsamlegum ráðum t.d. í gegnum menntakerfið. En ekki vildi ég vera sú kona í stjórn fyrirtækis sem vissi að hún væri bara þar útaf kynferði sínu, minnugur þess er jafnréttisfulltrúi HÍ vildi bjóða kvennemendum í verkfræði annaðhvort upp á hjálp í stærðfræðinmámi eða léttara námsefni. Þær voru nú ekki á því og huxa ég að hið sama sé upp á teningnum í viðskiptalífinu.

Pétur Henry Petersen (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 23:22

31 Smámynd: Hjálmfríður Sveinsdóttir

Hér er saga fyrir þig Guðmundur:

http://hjalmfr.blog.is/blog/hjalmfr/entry/137164/

Kveðja - Hjálmfríður 

Hjálmfríður Sveinsdóttir, 3.3.2007 kl. 16:42

32 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Skemmtilegar umræður, en fáar Samfylkingarkonur sýna sig hér?

Hið raunverulega vandamál er ekki að konur kjósi karla, þær kjósa bæði konur og karla!   Heldur hitt að KARLAR KJÓSA EKKI KONUR!!! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.3.2007 kl. 14:08

33 identicon

Kæri Guðmundur. Draumaríkisstjórn í hugum margra frjálslyndra mann nú um stundir er Samfylking - Sjálfstæðisflokkur. Sjálfur ættirðu að vinna þeirri hugmynd brautargengi og hætta að gæla við vinstri stjórn. Ágæt skrif þín um ofstæki Vinstri grænna eru meðal þess sem rökstyður það. Þetta gæti orðið fantagóð ríkisstjórn og hæfileg umskipti frá því sem við höfum haft.

Kærar kveður

Ágúst Borgþór

Ágúst Borgþór Sverrisson (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband