Leita í fréttum mbl.is

Brúnn Ingi

Málflutningur Björns Inga Hrafnssonar í Kastljósi í gær var líklega sá óskammfeilnasti og ósvífnasti sem ég hef séð í sjónvarpi um langt árabil.

Umræðuefnið var einfalt: Framsóknarmenn í borginni eru gagnrýndir fyrir það að skipa óhóflega sitt fólk í launuð embætti á vegum borgarinnar.

Svívirðilegasta tilvikið er auðvitað dæmi Óskars Bergssonar. Hann hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Faxaflóahafna, til þess að undirbúa framkvæmdir við Mýrargötu og fær fyrir það 390 þúsund krónur á mánuði.  Verkefnið felst einkum í því að gæta hagsmuna Faxaflóahafna gagnvart framkvæmdaráði og skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Óskar er formaður annars ráðsins og varaformaður hins og fær fyrir það ásamt því að vera varamaður í borgarstjórn 377 þúsund krónur á mánuði.

Óskar hefur semsagt verið ráðinn í vinnu við að gæta hagsmuna Faxaflóahafna gagnvart ráðum sem hann er sjálfur formaður og varaformaður í. Og fær laun á öllum stöðum.

Ég fullyrði að aldrei hafi nokkur maður í sögu íslenskra stjórnmála setið jafn augljóslega beggja megin borðs. Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn.

Siðleysið er yfirgengilegt. Virðingin fyrir lögmálum góðrar stjórnsýslu er engin.  Núll.

Um frekari ráðningar framsóknarmanna á sjálfum sér vísa ég í umfjöllun Kastljóssins. Ég hef reyndar traustar heimildir fyrir því að sá listi sem þar birtist sé ekki tæmandi.

En víkjum þá að málflutningi Björns Inga í rökræðunni við Dag Eggertsson. Birni tókst vitaskuld ekki, enda ekki hægt, að réttlæta ráðningu Óskars.  Þess í stað setti Björn skítadreifarann á fullt og dreifði í allar áttir og varð vitaskuld, eins og svo oft vill verða með þá aðferð, skítugastur sjálfur.

Þarna birtist okkur smám saman réttnefndur Brúnn Ingi. Drullugur upp fyrir haus.

Lítum á.

Hér er ein gullin tilvitnun:  “Ég veit að það er áfall fyrir Samfylkinguna að geta ekki lengur raðað fólki inn í stjórnsýsluna en það verður að viðurkennast að þannig urðu úrslit kosninganna.”

Hvar á maður að byrja gagnvart svona málflutningi?  

Í fyrsta lagi: Í  ljósi þess að fólk er almennt farið að líta á Framsóknarflokkinn í seinni tíð sem atvinnumiðlun en ekki stjórnmálaflokk, að þá kemur svona yfirlýsing auðvitað ekki á óvart.  Tíðindin eru þau, að Björn gengst semsagt við því að það sé hlutverk stjórnmálaflokka, að hans mati, að “raða fólki inn í stjórnsýsluna”.  

Björn Ingi reyndi auðvitað, í samræmi við sinn hugsanagang, að klína svona aðferðum upp á aðra flokka og þá einkum R-listann, sem er einkar drengilegt auðvitað af honum í ljósi þess að hans flokkur var hluti af því bandalagi .

Staðreyndin er sú að eitt af aðalsmerkjum R-listans voru faglegar ráðningar, byggðar á mati. Birni Inga hefði verið hollt að læra af þeim aðferðum.

Verkefnaráðningar komust þó í umræðuna fyrir kosningar 2002. Það er vissulega athyglisvert í ljósi nýjustu tíðinda að aðeins ein ráðning R-listans orkaði þá tvímælis. Þáverandi borgarfulltrúi framsóknar, Sigrún Magnúsdóttir, réði einn tiltekinn mann í úttekt á einsetningu grunnskólanna og síðar í eftirlitsverkefni hjá byggingardeild. Við þetta voru gerðar athugasemdir.

Og hvað hét sá maður?

Óskar Bergsson.

Staðreyndin er sú að nú lítur Björn Ingi greinlega svo á að hann sé kominn að kjötkötlunum og geti iðkað þessar aðferðir, að raða sínu fólki í stjórnsýsluna, eins og hann orðar það, óhindrað.

Björn bætir um betur í síðari hluta áðurnefndrar tilvitnunar: “...þannig urðu úrslit kosninganna,” segir hann.

Afsakið mig. Þannig urðu úrslit kosninganna?  

Björn Ingi Hrafnsson puðaðist inn í borgarstjórn á fullkomnum lágmarksfjölda atkvæða. Hann er sex prósent maðurinn í íslenskri pólitík.  Er hann virkilega svo veruleikafirrtur og virðingarlaus gagnvart lýðræðinu að hann telji þessi úrslit kosninganna veita honum rétt til þess að “raða sínu fólki í stjórnsýsluna”?  

Í þokkabót nefndi hann það í framhjáhlaupi að framsókn ætti hvorki meira né minna en 80 manns í nefndum og ráðum borgarinnar, eins og það væri dæmi um heilbrigt skipulag og þætti flott.

Venjulegt fólk hugsar auðvitað strax í ljósi kannnana hvort Framsóknarmenn í Reykjavík séu yfirleitt mikið fleiri.

Annað var einnig fullkomlega átakanlegt í málflutningi Björns Inga. Ein skítapillan lenti á stjórnanda þáttarins. Helgi Seljan var vissulega ráðinn auglýsingalaust. En um það snýst ekki debattið. Málið snýst um það að Óskar Bergsson var ekki bara ráðinn auglýsingalaust heldur var hann ráðinn til að sitja á launum BEGGJA VEGNA BORÐSINS.

Það er siðleysið.  Helgi, for crying out loud, situr bara sín megin borðsins.  Einnig liggur munurinn vitaskuld í því Helgi var ráðinn vegna hæfileika sinna, mats á þeim, og ekki vegna neins annars.

Þetta var aumkunarverð tilraun Björns Inga til þess að beina sjónum sjónvarpsáhorfenda frá aðalatriðum málsins.  Og fleiri slíkar tilraunir voru gerðar.  Björn Ingi kvaðst hafa ráðið Árna Pál Árnason verðandi þingmann Samfylkingarinnar til þess að gera skýrslu um fjármál stjórnmálaflokka. Þetta átti að vera dæmi um það að borgarfulltrúinn gæti jú ráðið aðra menn en samflokksmenn sína í embætti og störf.

Stórtíðindi auðvitað ef rétt væri. En þetta dæmi fellur auðvitað á orðalaginu “Ég réði”.  Þessi vinna var á vegum forsætisráðherra og skipað í hana af honum. Var Björn Ingi forsætisráðherra?

Hér syndum við hákarlarnir, sagði sandsílið.

Í lokin kom svo skítapilla ársins frá drullugum Brúni Inga upp fyrir haus.  Að halda því fram að Dagur Eggertsson hafi verið ráðinn sem kennari við HR vegna þess að HR fékk lóð í Reykjavík er ásökun sem Björn Ingi mun þurfa að svara fyrir fyrst og fremst gagnvart stjórn og forsvarsmönnum HR, sem og eigin samvisku.

Er borgarfulltrúinn að halda því fram að Háskóli Reykjavíkur múti fólki með kennarastöðum?  Og hefur borgarfulltrúinn eitthvað út á það að setja, að borginni tókst eftir nokkurn slag að halda Háskólanum í Reykjavík innan Reykjavíkur, að tilstuðlan Dags B. Eggertssonar og þáverandi borgarmeirihluta?  

Eftir stendur svo ein tiltekin vangavelta, áhugaverð fyrir stjórnmálaskýrendur. Ég sé á bloggsíðum að sumir eru ánægðir með frammistöðu Björns Inga. Virkilega ánægðir. Þar fer fremstur í flokki Björn Bjarnason.

Það var og. Hér hefur myndast Bjarnabandalag, en það kallast það þegar tveir menn eða fleiri gera hvor öðrum bjarnargreiða.  Ég er nefnilega ekki viss um að það henti Birni Inga vel að eiga bandamann í Birni Bjarnasyni, sérstaklega ekki þegar kemur að málefnum Reykjavíkur og HR.  Eins og frægt er orðið vildi dómsmálaráðherra og fyrrum oddviti sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn helst hafa Háskólann í Reykjavík í Garðabæ og barðist fyrir því af nokkurri hörku.

Hins vegar er þetta bandalag slæmt fyrir Björn Bjarnason vegna þess að ég er nokkuð viss um -- í ljósi nýjustu frétta -- að hann fær ekki mikið klapp á bakið frá samflokkskonu sinni Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrum rektor HR, fyrir að taka undir þennan skammarlega málflutning nafna síns um að sú stofnun sem hún veitti forstöðu hafi staðið í mútumálum.

En þannig eru örlög skítadreifara í pólitík. Það er aldrei hægt að segja hvar skíturinn lendir.

Hver hefði getað séð það fyrir að eftir þessa atrennu sætu þeir saman í djúpum skít birnirnir tveir, Bjarnason og Ingi?

Vert er að minna á það í lokin, að öllum spurningum um Óskar Bergsson er auðvitað ósvarað eftir sem áður.






« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi pistill: Tær snilld. -- Gauti

Gauti Eggertsson (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 18:51

2 Smámynd: halkatla

þetta sem þú segir er snilld

Stephen nokkur Colbert frá Bandaríkjunum hefur margsinnis (amk 20x)  varað við "björnum" í sínum fréttasjónvarpsþætti og þetta vandamál er ekki einskorðað við Bandaríkin, bara alvarlegra hér ef eitthvað er

halkatla, 14.12.2006 kl. 18:57

3 identicon

Málflutningur Björns Inga í gærkvöldi var vægast sagt ógeðslegur. Svarar öllum spurningum um framsóknar-ráðningar með loðnum svörum og til að reyna að réttlæta þær byrjar hann með skítkast á R-listann og Dag B. persónulega sem að er með öllu óréttlátt og á sér engar stoðir.

Það er skömm að því að menn sem að haga sér svona fá að sitja við stjórnvölinn í Reykajvík og betra hefði verið ef að Framsóknarflokkurinn hefði sungið sitt síðasta í kosningunum í vor.

Guðfinnur Sveinsson (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 19:10

4 Smámynd: Bragi Einarsson

Já, svona er pólitíkin, eins og fjóshaugur! Sjallar gríta smjöri í allar áttir og kalla Smjörklípuaðferðir og Framsókn, ja, auðvitað sækja þeir efni í sínar rætur og nota skítadreyfara! Já, svona er tíkinn, man

Fjandi góður pistill hjá þér!

Bragi Einarsson, 14.12.2006 kl. 19:40

5 identicon

Það á að leiða þetta framsóknarhyski fyrir aftökusveit !

kim (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 20:10

6 Smámynd: Magnús Þorlákur Lúðviksson

Ég ætlaði sjálfur að skrifa um þetta en þessi pistill segir allt sem segja þarf...

Magnús Þorlákur Lúðviksson, 14.12.2006 kl. 20:27

7 identicon

Ég er eiginleg orðlaus.

Guðmundur Jónsson (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 20:32

8 Smámynd: Kristján Pétursson

Þú tókst hann á lofti og sneyddir hann niður og tókst síðan Bjössa  dómsmálaráðhr.á lykkju.Frábær afgreiðsla,hafðu þökk fyrir.

Kristján Pétursson 14.12.2006 kl.20.40

Kristján Pétursson, 14.12.2006 kl. 20:46

9 identicon

Ég er sammála Magnúsi, það þarf engu við þennan pistil að bæta. Tæklar málið frábærlega.

Brynjar Guðnason (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 20:49

10 Smámynd: Agnar Freyr Helgason

Frábær pistill hreint út sagt!

Agnar Freyr Helgason, 14.12.2006 kl. 22:36

11 Smámynd: Erlendur Pálsson

Takk fyrir þetta, magnaður og sannur pistill! Það er ótrúlegt hverju örfylgi getur skilað. Þar sem tveir Framsóknarmenn hittast þar er spegill.

Erlendur Pálsson, 14.12.2006 kl. 23:11

12 identicon

Góður pistill. Þótt ég sé ósammála þér í flestu. En það mátu eiga skuldlaust að þú beitir fyrir þér góðri röksemdafærslu. Málið er nú samt það, að í raun er ekki hægt að finna neitt gagnrýnivert við þessar ráðningar þ.e.a.s. sé tekið mið af því hvernig kaupinn ganga á eyrinni. Þótt að BIH hafi faruð langt yfir strikið í Kastljósinu, er það alveg rétt hjá honum að eitt og annað var athugavert við mannaráðningar R-listans.
Nú er ég mjög lítill aðdáðandi framsóknar. En mér blöskrar hvað sumir skrifa hér í athugasemdinar, allt tal um útrýmingu og aftökusveitir á ekki heima í umræðu um póltík. Vonadi nefnir þú það í næsta pistli að fólk hafi stjórn á sér þegar skrifaðar eru athugasemdir.
Með jólakveðju
Sigurjón Njarðarson 151179-4959 

Sigurjón Njarðarson (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 23:36

13 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Klapp á bakið - enn sem fyrr. Gó Gummi, gó Gummi!

Verð einnig að samsinna Einari Erni - það er gott að vera í Samfylkingunni. 

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 14.12.2006 kl. 23:41

14 identicon

Gaman að lesa þetta og þó ég hafi misst af þessum umræðum (skítlegt fés Björns Inga fékk mig til að skipta um rás) þá er ég sammála þér.

Hvað varðar öfgafull komment hér fyrir ofan þá er það nú varla málið að taka af lífi eða meiða líkamlega framsóknarmenn. Hinsvegar mætti draga þá niður á Lækjartorg á meðan skíturinn á þeim er enn blautur, og velta þeim upp úr fiðri... 

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 00:47

15 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ja hver rækallinn, ég verð að fara að skipta um flokk áður en það verður gefið út veiðileyfi á okkur....

Pistillinn er góður en.....

Eiður Ragnarsson, 15.12.2006 kl. 01:03

16 Smámynd: marjorie

marjorie, 15.12.2006 kl. 06:20

17 identicon

Gaman að sjá hvernig þú takmarkar álit fólks á Framsóknarflokknum sem atvinnumiðlun við "seinni tíð". Ég veit ekki betur en að mjög margir hafi upplifað Framsóknarflokkinn með þeim hætti um mjög langt skeið. En ég get svo sem ímyndað mér að þú viljir takmarka gagnrýni þína við tímabilið eftir að Halldór tók við Steingrími nokkrum...

HÞH

Hafsteinn (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 09:33

18 identicon

Amen

Brjánn Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 10:53

19 identicon

Þú setur þetta snilldarlega vel upp G.Steingrímsson!  Ég sé þetta allt í réttu ljósi núna!

Mannfýlan (BIH) er náttúrlega bara gerspilltur og siðlaus, valdasjúkur kjáni sem skeit svo langt upp á bak í yfirgenglegum málfllutningi sínum að annað eins hefur ekki sést á skjám landsmanna í háa herrans tíð.  Hafðu kæra þökk fyrir afbragðsgóðann pistil.  Steingrímsson á Þing!!

Jón Gunnar

Jón Gunnar (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 11:32

20 identicon

Já takk fyrir frábær pistill og nú skulum við bara vona að fólk með vit í kollinum fari að sjá hversu mikið krabbamein Framsókn er í íslenskri pólitík! 

Valgerður S. Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 12:44

21 identicon

Hafðu þökk fyrir snilldar vel skrifaða umsögn

StefánBen

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 15:24

22 identicon

Stórgóð skrif hjá þér. Þetta er að verða einn stór brandari, því miður, ég reyndar get ekki kallað Framsóknarflokkinn, flokk, meira svona hóp, Framsóknarhópurinn, það hljómar einhvernveginn mun betur.
Takk fyrir mig.

Þráinn Árni Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 16:55

23 identicon

Dagur, Day by Day became yesterDay. 

Björn Ingi jarðaði Dag, einfaldlega 

Sigurður (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 20:06

24 identicon

Það sem ég sá í kastljósinu var dónalegur frekjuhundur sem romsaði út úr sér eins mikilli vitleysu og hægt var á sem minnstu tíma - er þetta ný keppni?  Dagur hefði jarðað Binga án þess að mæta, hann sá um það sjálfur. 

Þetta er virkilega skemmtileg grein hjá þér og tel ég það vera nokkuð víst að HR múti mönnum með kennarastöðum þetta er líka farið að vera vandamál veit ég í Verkmenntaskólanum á Akureyri...

farðu nú að koma þér á þing 

Stefán Jónsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 22:32

25 identicon

Kæri Guðmundur.

Þú nefnir í greinni þinni um hann Brúna Inga að engin Stjórnmálamaður hefur setið beggja vegna borðsins, ég hef margt við þetta að athuga, í fyrsta lagi situr Jón L Sveinsson bæði fyrir framsóknarflokkinn í einkavæðangarnefnd og í stjórn Íav, í öðru lagi situr Vilhjámur Þ Vilhjámsson bæði sem borgarstjóri og í stjórn einhvers fyrirtækis sem borgin samdi við, í þriðja lagi situr Halldór Halldórsson bæði sem bæjarstjóri á Ísafirði og sem formaður sambands íslenskra sveitarfélaga þá vill ég minna á að Vilhjámur Þ Vilhjámsson var einu sinni bæði í minnihlutanum í borgarstjórn og formaður sambands íslenskra sveitarfélaga og svo var Gunnar I Birgisson bæði bæjarstjóri Kópavogs og þingmaður ég gæti nefnt fleiri enn man þá ekki í augnablikinu.

Bestu kveðjur

Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 01:29

26 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var afar hneykslaður á ósvífinni framkomu Björns Inga í þessum Kastljósþætti, að því leyti erum við sammála, einnig um ofborguð ofurlaun Óskars Bergssonar. Björn Ingi var á Rás 2 í viðtali í dag, farinn að draga til baka dylgjur sínar um Háskólann í Reykjavík, þó án þess að biðja neinn afsökunar, sízt af öllu Dag fyrir ódrengilega framkomu gagnvart honum, og bætti heldur gráu ofan á svart (en er sókn alltaf bezta vörnin?). -- Ég nennti ekki áðan að lesa þennan pistil þinn til enda, sá þó smá-hnökra og hygg þú hafir skrifað þá snyrtilegri og snjallari, en hér var þó vissulega ástæða til að láta sér ofbjóða. Farðu vel með þig í baráttunni.

Jón Valur Jensson, 16.12.2006 kl. 01:51

27 identicon

Haha... 80 framsóknarmenn? Þeir hljóta að hafa fengið nokkra óháða lánaða...trúi ekki að til séu 80 Reykvíkingar sem skrifa undir þetta bull.

Framsóknarmenn, vinir og ættingar, kannski?

Hildur Ýr Ísberg (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 09:28

28 identicon

Argasta snilld...

Davíð Ragnarsson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 10:23

29 identicon

jeminn, vonbrigði !

Össur M. (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 14:38

30 identicon

Guðmundur, þetta var besta bloggfærsla sem ég hef nokkrun tíman lesið!!!

Valgeir Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 20:34

31 Smámynd: Jón Skjöldur Níelsson

Án efa ein besta bloggfærsla sem ég hef lesið lengi. Hér er án efa talað fyrir munn mjög margra sem eru orðnir þreyttir á grænu mafíunni. Vil jafnframt spyrja hvort einhver af þeim sem eru sárir vegna gagnrýni á Framsóknarflokkinn geti bent mér á hvaða tilgangi flokkurinn þjónar annað en að vera atvinnu- og hagsmunasamtök sífækkandi framsóknarmanna?

Jón Skjöldur Níelsson, 16.12.2006 kl. 23:05

32 identicon

Of margir sveitastjórnarmenn sitja á Alþingi, þarna ætti að vera klárlega skilyrði að takirðu að þér annað starfið segirðu af þér hinu (eða embætti).

 Gunnar I. Birgisson hins vegar hætti á Alþingi daginn sem hann varð bæjarstjóri og fær prik fyrir það. Hins vegar sat hann á Alþingi á meðan hann var formaður bæjarráðs, líkt og aðrir formenn bæjar- og borgarráða, aðrir bæjarstjórar og bæjarfulltrúar.

JBJ (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 23:49

33 identicon

Hafðu þökk fyrir þessa vönduðu og ítarlegu færslu, Guðmundur. Hér kemur margt fram sem ég vissi ekki, svo sem sú staðreynd að Óskar Bergson virðist vera á háum launum fyrir það erfiða hlutskipti að vera í bullandi hagsmunaárekstri. Gott er að sjá að því er sýndur góður skilningur í formi góðra launa. Jei.

 Björn Ingi kom mér annars ekki fyrir sjónir sem vandaður maður í umræddum Kastljóssþætti. Þankagangur hans virðist vera á afskapalega lágu plani; það er eins og hann hafi bara talið Dag vera öfundsjúkan vegna þess að hann fær ekki að 'raða í stöður' lengur, og því ákveðið að núa honum því um nasir. Í framhjáhlaupi fannst honum líka sniðugt að gera bæði Dag og Helga tortryggilega og gefa það í skyn að svona starfshættir væru bara eðlilegir og algengir í íslensku samfélagi. Mér finnst þó að hann hafi vel mátt vísa í Árna nokkurn Johnsen sem hetju sína og fyrirmynd, fyrst honum var svo umhugað um að réttlæta vafasama starfshætti. Hefur sá maður ekki fengið uppreist æru og er nú á leið á þing aftur? Hvað eru menn þá að væla? Það fer enginn eftir einhverjum asnalegum reglum og lögum, og bara asnalegt að koma í sjónvarp til að klaga. Einhvern veginn þannig hefðu rök Björns Inga geta hljóðað ef hann hefði fattað þetta. Hann hefði getað klikkt út með því að benda í myndavélina og spyrja áhorfendur hvort þeir væru nú með hreinan skjöld ... "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum" ... svona Jesúpæling. Það hefði verið argasta snilld bara.

Afsakið á meðan ég kasta aðeins upp ...

 Hvar var ég? Já, ég á eftir að taka undir það, að mjög undarlegt er, að Björn Bjarnason skuli hafa fagnað frammistöðu nafna síns á bloggi sínu. Svo segir hann eftirfarandi í næstu færslu sinni þar á eftir:

"Mér finnst fyndið, að þær Guðfinna Bjarnadóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir hjá Háskólanum í Reykjavík taki að sér að skjalda Dag B. Eggertsson vegna Kastljóss í gærkvöldi og ummæla Björns Inga Hrafnssonar. Spyrja má: Hefur Dagur B. ekki mátt til að verjast sjálfur?"

Meira hefur hann ekki um það að segja. Það má vel vera að þetta hlægi Björn Bjarnason, en persónulega sé ég ekkert fyndið við það að dómsmálaráðherra þessa lands sem ég bý nú á virðist ekki gera sér grein fyrir því að nafni hans bar ekki einungis Dag þarna mjög þungum og lúalegum sökum, heldur líka stjórnendur Háskólans í Reykjavík. Dómsmálaráðherrann virðist þvert á móti vera í svo miklum og innilegum sandkassaleik að hann telur að þarna sé ekkert á ferðinni nema apalegt saurkast á milli tveggja pólitíkusa. Dagur skal sko bara hundskast til að verja sig sjálfur; það er svindl að fá einhverja aðra sem eru ekki einu sinni í pólitíska sandkassaleiknum til að hjálpa sér. Skítt með það þó að ráðist hafi verið á viðkomandi líka - þetta fólk á bara að drullast til að fatta að þetta er bara leikur.

Já, það er engu líkara en að Birnirnir tveir séu búnir að grafa hausa sína svo djúpt í sandkassasandinn að þeir sjá bara ekki neitt, ekki einu sinni hversu bjánalegur þeirra eigin málflutningur er.

Þarfagreinir (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 01:33

34 identicon

Góð grein. Ég varð eins og allir aðrir en Björn Bjarnason og Andrés á Blaðinu, gáttaður á framkomu Binga. Hélt reyndar að hann hefði misst þetta út vegna þess að Helgi og Dagur voru búnir að króa hann út í horn. En heyrði svo á föstudagseftirmiðdag á Rás 2 tilraun blaðamanns við að taka viðtal við Binga. Hann svaraði engri spurningu, hreytti út úr sér hrokafullum útúrsnúning og skæting um allt og alla. Bingi er greinilega siðspilltasti stjórnmálamaðurinn sem við eigum í dag. Hann er samferðamaður  hinna ógeðfelldu stjórnmálamanna sem málefnin skipta engu, eiginhagsmunir eru þeim allt. Menn sem láta hiklaust hlera ef um er að ræða einhvern sem er í vegi þeirra.

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 08:49

35 identicon

Flottur ...

Svo þarf bara að taka á "forræðis frjálshyggju" bláu handarinnar á sömu nótum ...

kv. GHH 

Gísli Hjálmar Hauksson (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 11:49

36 identicon

Frábær grein. Ég vissi ekki að Óskar Bergsson hefði áður verið ráðinn í stöðu á vegum borgarinnar á vafasamann hátt. Ég vissi þó að hann fékk á sínum tíma lóð undir veitingastað í Nauthólsvík. Sem hann seldi aftur og græddi örugglega vel.

Sporin hræða og spurningin er: Hvað gerir maður sem er siðferðilega á þessu plani sem formaður Framkvæmdaráðs og Skipulagsráðs.

Þetta eru feitir kjötkatlar fyrir spillta stjórnmálamenn, Framsóknarmennina Björn Inga og Óskar Bergsson

Aðalheiður (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 14:16

37 identicon

Frábær pistill. Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér ráðherraembætti fyrir mun minni sakir en bingi hefur viðurkennt. Ég er hræddur að kjósendur eigi eftir að dæma frasóknarflokkinn í kosningunum í vor..

Agnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 22:54

38 Smámynd: Dagbjört Hákonardóttir

Ég get ekki setið á mér. Nú er ég búin að lesa færsluna tvisvar og verð sífellt gáttaðri. Þetta er eins og að vera staddur í Yes, Minister þætti þar sem siðblindu leiðinni tekst alltaf að verða að þeirri réttu í augum ráðamanna. Og alltaf komast þeir upp með þetta háttalag. 

Svona þurfum við öll að tala. Hér setur þú prýðilegt fordæmi. 

Dagbjört Hákonardóttir, 18.12.2006 kl. 00:35

39 identicon

Ný Dönsk sagði þetta náttúrulega allt í snildartextanum við lagið Lærðu að ljúga, hér um árið:

"Þeir sem að vinna þeir munu finna
Að svoleiðis eignast maður alls ekki neitt
Hinir sem smjúga, svíkja og ljúga
Leiðtogar lífs okkar heilagir menn"


Þegar kjósendur standa inni í kjörklefunum virðast þeir ekki muna lengra en aftur að síðasta sápuóperuþætti sem þeir horfðu á rétt áður en haldið var á kjörstað. Sé ekki af hverju það ætti að breytast í næstu kosningum. 

Alveg gjörsamlega búinn að missa trúnna á fólk.  Vaknar smá von með Steingrímssyni, ætli maður eigi svo ekki eftir að sjá eftir því þegar maður verður búinn að taka þátt í að koma honum á þing?

Jóhann (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 14:09

40 identicon

Hvering stendur á því að Vilhjálmur borgarstjóri þarf aldrei að svara fyrir klúðrið við stjórn borgarinnar í fjölmiðlum? Getur einhver svarað því?

Bergljót Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband